Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2129

Færri en 30% styðja ríkisstjórnina

Stuðning­ur við rík­is­stjórn­ina mæld­ist 27,2% í nýrri könn­un MMR á fylgi stjórn­mála­flokk­anna. Í júlí var rík­is­stjórn­in með 34,1% fylgi. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mæld­ist með mest fylgi ís­lenskra flokka eða 24,5% og dalar um 5% frá því í júlí. Vinstri græn eru næst stærsti flokkurinn með 20% fylgi og standa í stað milli kannana. Könn­un­in var gerð dag­ana 15. til 18. ág­úst 2017 og alls svörðu 955 ein­stak­ling­ar, 18 ára og eldri, könn­un­inni.

Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mæld­ist nú 10,6% og mæld­ist 10,6% í síðustu könn­un.
Fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins mæld­ist nú 10,1% og mæld­ist 9,6% í síðustu könn­un.
Fylgi Flokk fólks­ins mæld­ist nú 6,7% og mæld­ist 6,1% í síðustu könn­un.
Fylgi Viðreisn­ar mæld­ist nú 6,0% og mæld­ist 4,7% í síðustu könn­un.
Fylgi Bjartr­ar framtíðar mæld­ist nú 3,6% og mæld­ist 2,4% í síðustu könn­un.
Fylgi annarra flokka mæld­ist 4,6% sam­an­lagt.

„Vestfirðir gagntóku mig“

Hluti nemenda, kennara og starfsfólks íslenskunámskeiðanna samankominn í portinu á Vestrahúsinu þar sem Háskólasetrið er til húsa.

Ellefu ár eru síðan íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða hófu göngu sína og eru þau löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi Háskólasetursins og mannlífi Vestfjarða, einkum á síðsumrum. Á þessum áratug hafa hátt í þúsund nemendur sótt námskeiðin og nú í ágúst sátu tæplega sjötíu nemendur yfir íslenskubókunum, bæði á Ísafirði og á Núpi í Dýrafirði.

Á vef Háskólasetursins er ítarlegt viðtal við þau Inga Björn Guðnason, verkefnastjóra íslenskunámskeiðanna, Gísla Hvanndal, íslenskukennara, og Stéphanie Klebetsanis frá Sviss, nema á námskeiðinu. Hún var að koma vestur annað árið í röð, er þýðandi sem lifir og hrærist í tungumálum. móðurmálið er franska en hún talar einnig reiprennandi þýsku og ensku, smá í ítölsku og lærir nú íslensku af kappi.

Hún kolféll fyrir Íslandi eftir óvissuferð til Reykjavíkur 2015 og þegar heim var komið fór hún á stúfana og leitaði að íslenskunámskeiði og úr varð að hún fór á byrjendanámskeið Háskólasetursins í fyrra og í sumar sótti hún framhaldsnámskeið. „Vestfirðir gagntóku mig. Námskeiðið var vel skipulagt, það var krefjandi en einnig skemmtilegt. Og ég hitti ótrúlegt fólk sem ég hef haldið góðu sambandi við. Það gat því miður ekki komið aftur í ár en ég veit að viljinn var fyrir hendi. Íbúarnir hér eru almennt mjög vingjarnlegir og opnir og greinilega vanir erlendum nemendum og útlendingum. Þrátt fyrir smæð sína býður Ísafjörður upp á ótrúlegt úrval af menningarviðburðum. Maður þarf eiginlega að leggja hart að sér til að láta sér leiðast,“ segir Stéphanie í viðtalinu.

Fjölgun veiðidaga skilaði ekki auknum afla

Grásleppuvertíðinni lauk 14. ágúst þegar bátar í innanverðum Breiðafirði drógu upp.  Vertíðin var óvenjulöng að þessu sinni alls 46 samfelldir dagar sem hver bátur mátti vera að, en undanfarin fjögur ár hafa dagar verið 32. Fjölgun veiðidaga leiddi þó ekki til aukningar afla milli ára.  Alls veiddust  4.542 tonn af heilli grásleppu, sem jafngildir milli 8.600 og 8.700 tunnum af hrognum.  Veiðin á árinu 2016 skilaði 5.425 tonnum þannig að samdrátturinn varð um 16%.

Eftir að veiði á hvern dag hafði aukist 5 ár í röð, brá nú svo við að hún minnkaði um rúman þriðjung. Á vef Landssambands smábátaeigenda segir að fara þurfi allt aftur til vertíðarinnar 2012 til að finna lakari veiði á hvern úthaldsdag heldur en á síðustu vertíð.

Þátttaka í veiðunum var framar vonum, þar sem í upphafi vertíðar leit út fyrir að fáir ætluðu til veiða.  Helsta ástæða þess var óánægja með verð sem kaupendur buðu. Eftir samstillt átak veiðimanna tóku kaupendur við sér og verð hækkuðu.

Alls stunduðu 250 bátar grásleppuveiðar á síðustu vertíð sem eru 5 fleiri en á árinu 2016. Munar þar mestu um mikla fjölgun í innanverðum Breiðafirði, en á B-svæðinu öllu fjölgaði um 22 báta milli ára.

Veiði á vertíðinni var víðast hvar lakari en í fyrra. Mestu sveiflurnar voru á veiðisvæði D, sem eru Strandir og Húnaflói, þar náði veiðin ekki helming þess sem hún var í fyrra.  Í Breiðafirði jókst veiðin hins vegar um 82%.

Þungar áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda á Vestfjörðum

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir þungum áhyggjum vegna verðlækkunar á afurðarverði til sauðfjárbænda. Í bókun bæjarráðs segir að sauðfjárbúskapur sé mikilvæg atvinnugrein í sveitarfélaginu svo og á Vestfjörðum öllum og að vestfirsk samfélög þoli ekki hinn umfangsmikla niðurskurð afurðarverðs án þess að þau skaðist efnahags- og félagslega.

Bæjarráð Vesturbyggð tekur heils hugar undir yfirlýsingu landssamtaka sauðfjárbænda frá 11. ágúst og treystir því að stjórnvöld muni grípa til allra mögulegra aðgerða til aðstoðar sauðfjárbændum og sveitarfélögum til að komast yfir þá erfiðleika sem nú blasa við.

Í yfirlýsingu Landssamtaka sauðfjárbænda segir að bændur horfa fram á þriðjungs lækkun á afurðaverði í haust, í kjölfar nærri 10% lækkunar á síðasta ári. Þessar lækkanir munu koma harkalega niður á sveitum landsins og landssamtökin benda á að þær bitna sérstaklega á yngri bændum. „Bændur hafa þegar lagt út í nánast allan kostnað við lambakjötsframleiðslu haustsins og lækkun á afurðaverði er því hrein og klár launalækkun. Þessi launalækkun er 1.800 milljónir króna fyrir stéttina í heild ef hún gengur eftir sem horfir og bætist þá við 600 milljónir sem bændur tóku á sig í fyrra,“ segir í yfirlýsingunni.

smari@bb.is

Njótið veðursins

Veður­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands mæl­ir með því að fólk sunn­an- og vest­an­til á land­inu reyni að njóta veðurs­ins sem í boði er þar sem á föstu­dag og yfir helg­ina breyt­ist veðrið tals­vert mikið með suðaust­lægri átt og rign­ingu – fyrst og fremst sunnan- og vestanlands, en væta ætti einnig að ná til Vestfjarða um helgina.

„Á meðan verður yf­ir­leitt þurrt á Norðaust­ur­landi og ágætt veður þar. Síðan er út­lit fyr­ir að það snú­ist til norðlægr­ar átt­ar og fari að rigna fyr­ir norðan og þá kóln­ar nokkuð hratt,“ seg­ir í hug­leiðing­um veður­fræðings á vef Veður­stofu Íslands.

Veður­horf­ur næstu daga

Breyti­leg átt 3-8, en aust­an 5-10 m/​s allra syðst. Yf­ir­leitt létt­skýjað eða bjartviðri, en víða þoku­loft við strönd­ina norðan- og aust­an­lands fram eft­ir degi. Hiti 8 til 19 stig að deg­in­um, hlýj­ast í upp­sveit­um SV-til.

Á fimmtu­dag:
Aust­an 5-10 m/​s með suður­strönd­inni, ann­ars hæg breyti­leg átt. Sums staðar skýjað við sjáv­ar­síðuna, en ann­ars létt­skýjað. Hiti 8 til 18 stig, hlýj­ast á V-landi, en sval­ast á Aust­fjörðum.

Á föstu­dag:
Hæg breyti­leg átt og bjart með köfl­um A-til, en suðaust­an 5-10 og dá­lít­il væta V-lands. Hiti víða 10 til 16 stig.

Á laug­ar­dag:
Suðaust­an kaldi og rign­ing en yf­ir­leitt þurrt NA-lands. Held­ur sval­ara sunn­an- og vest­an­lands.

Á sunnu­dag:
Aust­læg átt, held­ur kóln­andi veður og víða rign­ing með köfl­um.

Á mánu­dag og þriðju­dag:
Útlit fyr­ir norðlæga átt með rign­ingu og svölu veðri fyr­ir norðan, en lengst af þurrt og milt syðra.

smari@bb.is

Óbreyttir stýrivextir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum verða því 4,5% áfram.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem birtist rétt í þessu:

„Útlit er fyrir að hagvöxtur í ár verði hraður eins og á síðasta ári en nokkru hægari en spáð var í maíhefti Peningamála. Hagvöxturinn er einkum drifinn af vexti ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit er fyrir slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Verðbólga var lítillega minni á öðrum fjórðungi ársins en spáð var í maí. Hún mældist 1,8% í júlí og hafði aukist úr 1,5% í júní. Undirliggjandi verðbólga virðist hins vegar hafa haldið áfram að minnka. Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar en það er þó enn tæplega 8% hærra en á sama tíma í fyrra.

Gagnstæðir kraftar hafa sem fyrr áhrif á verðbólguhorfur, þar sem hækkun gengis krónunnar undanfarið ár og lítil alþjóðleg verðbólga vega á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Hefur bilið á milli verðþróunar innlendra þátta, einkum húsnæðiskostnaðar, og erlendra þátta haldið áfram að aukast síðustu mánuði, sem eykur óvissu um verðbólguhorfur til næsta árs.

Frá síðasta fundi peningastefnunefndar hafa skammtíma verðbólguvæntingar hækkað lítillega sem líklega endurspeglar að hluta áhrif lækkunar á gengi krónunnar að undanförnu. Verðbólguvæntingar til langs tíma hafa hins vegar lítið breyst sé miðað við nýlega könnun Seðlabankans á verðbólguvæntingum markaðsaðila. Lengri tíma verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur þó hækkað undanfarna daga en það sem af er þessum ársfjórðungi er það í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans.

Spenna í þjóðarbúskapnum kallar á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Hræringar hafa verið á gjaldeyrismarkaði og vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði. Of snemmt er að fullyrða um umfang og afleiðingar þeirra.

Raunvextir bankans hafa lækkað lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar en virðast við núverandi aðstæður samrýmast því sem þarf til að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“

smari@bb.is

Margréti og Sigurlaugi er þakkað

Sigurlaugur Baldursson og Margrét Rakel Hauksdóttir

Björgunarfélag Ísafjarðar afhenti á dögunum þeim hjónum Margréti Rakel Hauksdóttur og Sigurlaugi Baldurssyni þakkarskjöld og risaneyðarkall fyrir stuðning og aðstoð sem þau hafa veitt Björgunarfélaginu. Margrét og Sigurlaug reka kranaþjónustuna Laugi ehf og Bílaverkstæði SB ehf og hafa verið ósínk á tæki, tól og tíma þegar Björgunarfélagið þarf á að halda og segir Teitur Magnússon björgunarfélagsmaður að félagið reyni eftir fremsta megni að þakka fyrir það sem þeim er gefið, hvort sem um er að ræða vinnuframlag eða peningagjafir.

„Þau hafa í fjölda ára, lagt okkur til kranabíla og körfubíla hvort sem við þurfum á því að halda í fjáröflunum eða útköllum. Svo reka þau Bílaverkstæði sem við þurfum oft á að halda og þau eru boðin og búin að lána okkur aðstöðu til viðgerðar.Við létum útbúa þennan skjöld í tengslum við byggingu æfingaturnsins en án þeirra aðstoðar værum við sennilega enn á byrjunarreit byggingarinnar.“ bætir Teitur við.

bryndis@bb.is

 

Íslenskt lambakjöt

Matvælastofnun hefur borist umsókn frá markaðsráði kindakjöts í Reykjavík þar sem sótt er um vernd fyrir afurðarheitið „íslenskt lambakjöt“ (e. „Icelandic Lamb“). Um er að ræða umsókn um vernd afurðarheitis skv. lögum nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

Sótt er um vernd sem vísar til uppruna sbr. 4.gr. laga nr. 130/2014. Skv. 2. mgr. 15.gr. sömu laga er heimilt að andmæla þessu afurðarheiti og afurðarlýsingu áður en endanleg ákvörðun er tekin um skráningu.

Andmælum skal skilað skriflega til Matvælastofnunar á netfangið mast@mast.is.

bryndis@bb.is

Plastlaus september

Plast safnast saman í náttúrunni þar sem það brotnar hægt niður .

Plastlaus september er árvekniátak, sem hefst þann 1. september 2017. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka plastnotkun. Gríðarlegt magn af einnota plasti endar í landfyllingum og í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til, það brotnar niður í smærri einingar en eyðist ekki.

Plast er eingöngu hægt að endurvinna í annað plast af lélegri gæðum. Allt plast sem við notum og fer ekki til endurvinnslu, safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur þar skaða um ókomna tíð.  Plast endar allt of oft í náttúrunni, og þá sérstaklega í ám, vötnum og sjó. Plast dregur til sín ýmis mengunarefni og þegar það endar í vef lífvera geta efnin þar með endað í fæðu okkar. Mjúkplast inniheldur stundum hormónaraskandi efni (t.d. þalöt) sem eru skaðleg mannfólki.

Plastlaus september hvetur til minni kaupa á einnota plasti í september, hægt er að skrá þátttöku sína á vef átaksins og velja hvort taka skuli þátt í einn dag, eina viku, heilan mánuð eða til frambúðar.

Á vef átaksins er verkefnalisti með leiðbeiningum.

Það eru sjö konur sem standa að verkefninu, þær eru með ólíkan bakgrunn, menntun og reynslu en fyrirmynd átaksins kemur frá Ástralíu en þar var plastlaus júlí.

bryndis@bb.is

Glæsileg fjallahjólabraut

Áhugasamir og ofurhugaðir fjallareiðhjólakappar hafa í síðan í fyrrasumar unnið að gerð fjallahjólabrautar á hálsinum milli Dagverðardals og Tungudals. Að sögn Ólivers Hilmarssonar fjallahjólakappa voru fyrir pallar sem settir voru upp fyrir nokkrum árum en nú hefur fleirum verið bætt við og stígurinn stikaður. „Þetta er skemmtilegur 7 km stígur sem við erum smátt og smátt að endurbæta, þarna er hægt að setja upp fjallahjólakeppni og við stefnum á að gera það.“  Segir Óliver.

Á facebook síðu brautarinnar má sjá nokkur myndbönd sem virka ansi áhættusöm.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir