Síða 2129

Spáir meiri verðbólgu

Hag­fræðideild Lands­bank­ans spá­ir því í Hag­sjá sinni að vísi­tala neyslu­verðs, sem birt verður af Hag­stofu Íslands þann 27. októ­ber, muni hækka um 0,20% á milli mánaða en ef sú spá geng­ur eft­ir mun ár­sverðbólg­an hækka úr 1,4% í 1,6%.

Í Hag­sjánni kem­ur fram að vísi­tala neyslu­verðs hafi hækkkað um 0,14% á milli mánaða í sept­em­ber en það var minni hækk­un en bú­ist var við þegar Hag­sjá­in spáiði 0,28% hækk­un. Sagt er að mun­ur­inn skýrist fyrst og fremst að því að mat­ur og drykkja­vara lækkaði tölu­vert mikið eða um 1,3% á milli mánaað en sú lækk­un var óvænt í ljósi þeirr­ar geng­is­veik­ing­ar sem orðið hafði síðustu mánuði á und­an en gera má ráð fyr­ir að til­koma Costco hafi þar haft tölu­verð áhrif.

Töluverð óvissa ríkir um verðbólguþróunina um þessar mundir að því er segir í Hagsjánni og þar kemur fram að innkoma Costco inn á íslenskan neytendamarkað hefur nú þegar haft töluvert mikil áhrif á verðlag ýmissa vara en óljóst er að hversu miklu leyti þau eru komin fram og hversu mikil þau verði litið fram á veginn. Í þessu sambandi er bent á að innkoma Costco hefur leitt til þess að margir aðrir smásalar hafa náð betri samningum við sína birgja. Þessu til viðbótar eru vísbendingar um að gengisbreytingar krónunnar séu ekki að skila sér með sama hætti inn í verðlag eins og verið hefur raunin á síðustu árum. Þannig virðast kaupmenn tregari til að hækka verð hjá sér í kjölfar gengisveikingar. Þar kann að skipta máli að verðbólguvæntingar eru nú um stundir lægri en þær hafa áður verið hér á landi.

smari@bb.is

Milt veður næstu daga

Samspil smálægða sunnan og vestan við landið og hæðarhryggs fyrir austan veldur því að hvass vindstrengur liggur með suður- og vesturströndinni. Dálítil væta fylgir lægðaganginum, einkum sunnan- og vestanlands, en annars verðu lengst af þurrt og jafn vel bjart veður. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings um veðrið í dag og næstu daga.

Í spá Veðurstofunnar segir að heldur dragi úr vindi í kvöld og nótt, en á morgun leggst í allhvassa eða hvassa austanátt og rignir talsvert suðaustanlands. Á Vestfjörðum verður hægari vindur og að mestu þurrt.  Áfram milt veður fram að helgi, en þá lægir síðan og léttir víða til, en kólnar jafn framt.

smari@bb.is

Hægt að athuga hvort að nafn sé á meðmælendalista

.

Nú getur fólk kannað hvort nafn þess hafi verið skráð á meðmælendalista einhvers framboðanna sem hyggjast eða hugðust bjóða fram í næstu alþingiskosningum. Þetta getur fólk gert með því að fara í pósthólf sín á mínum síðum á Ísland.is. Frá því hefur verið greint síðustu daga að brögð hafa verið á því að nöfn hafa verið á meðmælendalistum án þess að viðkomandi kannist við að hafa skrifað undir og undirskriftirnar falsaðar. Íslenska þjóðfylkingin dró framboð sitt til baka af þeim sökum og hefur málið verið kært til lögreglu.

Á vef Þjóðskrár kemur fram að alls voru 25.669 kennitölur skráðar inn í rafrænt meðmælendakerfi á Ísland.is en þar af voru 1536 skráningar ógildar eða 5,98% vegna þess að viðkomandi var skráður á fleiri en einn meðmælendalista. Þjóðskrá beinir því til þeirra sem finna nafn sitt á meðmælendalista án þess að hafa skrifað undir, að hafa samband við yfirkjörstjórn í sínu kjördæmi.

smari@bb.is

Ísafjarðarbær vill taka yfir málaflokk fatlaðs fólks

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Í tæp sjö ár hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum rekið Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks (BsVest) sem veitir þjónustu til fólks með fötlun. Ísafjarðarbær hefur lagt til við hin sveitarfélögin að bærinn taki yfir málaflokkinn. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að Ísafjarðarbær sjái tækifæri fyrir þjónustu ef öll þjónustusvæðin sem dreifast um Vestfirði verði gert kleift að starfa sem eitt teymi. Hann tekur fram að Ísafjarðarbæ sjái í dag um 80% af þjónustunni sem er veitt innan samlagsins.

„Megin markmiðið er að stjórnunarlega ábyrgðin liggi hjá Ísafjarðarbæ og allir starfmennirnir verði hluti af einu teymi og við teljum að þjónustan verði betri og markvissari. Sá sparnaður sem við sjáum fyrir okkur er á bilinu 30-50 prósent af stöðugildi í stjórnun. Önnur fjárhagsleg hagræðing næst ekki nema með betri samvirkni þjónustunnar og það tekur lengri tíma,“ segir Gísli Halldór.

Aðspurður um viðbrögð annarra sveitarfélaga við tillögu Ísafjarðarbæjar segir Gísli Halldór að umræðan sé fyrst að komast á skrið núna. „Í byrjun nóvember verður haldið málþing um tillöguna og það er verið að ræða þetta innan sveitarstjórna núna. Það er búið boða til aukafundar aðildarsveitarfélaganna í BsVest þann 17. nóvember þar sem tillagan verður tekin fyrir formlega.“

Í tillögunni er gert ráð fyrir að allir starfsmenn sem vinna í málaflokknum á Vestfjörðum verði starfsmenn Ísafjarðarbæjar og sveitarfélögin geri þjónustusamning við Ísafjarðarbæ um að veita þjónustuna.

smari@bb.is

Hreinni Hornstrandir

Hreinni Hornstrandir eru félagasamtök sem halda utan um árlega ruslahreinsun á Hornströndum auk þess að félaginu er ætlað að vekja umræðu um rusl í hafinu og þá sérstaklega plasti. Félagið er drifið áfram af sjálfboðaliðum og ekki rekið í hagnaðarskyni. Félagið hefur staðið fyrir hreinsunum á Hornströndum síðan árið 2014.

Hornstrandir eru þekkt rekasvæði þar sem áður fyrr skolaði upp miklu magni af rekavið sem reyndist mikil búbót á meðan þar var búseta. Undanfarna áratugi hefur hinsvegar magn plasts í hafinu aukist mjög og auk þess að vera mikið lýti á fallegum fjörum friðlandsins, líka ógn við lífríkið í hafinu.

Þrátt fyrir að staðbundin áhrif séu töluverð af þessum hreinsunum eru þau nánast hverfandi á stærri skala. Það er samt von forsprakka verkefnisins að með þessum hreinsunum séu þeir öðrum hvatning til þess að láta sig umhverfið varða og líta í eigin barm varðandi sína neyslu og sömuleiðis að hvetja fólk til þess skipuleggja sína eigin hreinsun eða leggja sitt af mörkum með öðrum hætti.

Samtökin hafa nú opnað facebooksíðu þar sem hægt verður að fylgjast með starfinu.

bryndis@bb.is

Sigur hjá stelpunum

Auður Líf og stöllur hennar í U17 landsliði kvenna í blaki lögðu þær grænlensku í dag 3 – 0 eftir leiðindatap á móti Svíum í gær með einni sigurhrinu á móti þremur hjá þeim sænsku. Í kvöld keppa þær við Finna og þá kemur í ljós hvar þær lenda í riðlinum.

Hafsteinn Már var hins að tapa fyrir Englendingum og á næsta leik í fyrramálið við liðið sem lendir í öðru sæti í C riðli.

bryndis@bb.is

Vestri dróst á móti KR

Dregið var í 16-liða úrslitum í bikarkeppni í körfubolta í dag. Í hlut Vestra kom verðugur andstæðingur, bikar- og Íslandsmeistar KR og verður leikið í Reykjavík. Leikirnir í 16-liða úrslitunum verða dagana 4.-6. nóvember. Vestri komst í 16-liða úrslitin með 68 : 106 sigri á Sindra um síðustu helgi.

16 liða úrslit karla

Njarðvík – Grindavík

ÍR – Snæfell

Þór Ak – Höttur

KR – Vestri

Njarðvík b/Skallagrímur – Haukar

Keflavík – Fjölnir

Valur – Tindastóll

KR b – Breiðablik

smari@bb.is

Fæstir í Norðvesturkjördæmi

.

Á kjörskrárstofni sem Þjóðskrá Íslands hefur unnið vegna alþingiskosninganna 28. október eru kjósendur 248.502 talsins. Konur eru 124.669 en karlar 123.833. Kjósendur með lögheimili erlendis eru samkvæmt kjörskrárstofni 13.461 eða 5,4% af heild.

Fæstir kjósendur eru í Norðvesturkjördæmi en þeir eru 21.516 talsins. Í Suðvesturkjördæmi eru flestir kjósendur, eða 69.498. Átta þingmenn eru í Norðvesturkjördæmi og því 2689 atkvæði að baki hverjum þingmanni. Í Suðvesturkjördæmi eru 13 þingmenn og hver þingmaður í kjördæminu með 5.346 atkvæði að baki sér.

Mynd: Þjóðskrá Íslands.

Munur er á kynjaskiptingu kjördæmanna. Á höfuðborgarsvæðinu – í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í Suðvesturkjördæmi – eru konur í meirihluta kjósenda. Á landsbyggðinni –  í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi – eru karlar í meirihluta.

smari@bb.is

Varmadælur til að lækka orkukostnað

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að kanna kostnað við að láta gera úttekt á arðsemi og kostnaði við að setja upp varmadælur við helstu stofnanir sveitarfélagsins í þeim tilgangi að draga úr orkunotkun og kostnaði sveitarfélagsins.

Varmadælur eru mjög víða um heim notaðar til upphitunar og fara vinsældir þeirra vaxandi. Loftvarmadælur eru þar lang útbreiddastar og eru þá notaðar til upphitunar með heitu lofti á vetrum og kælingar með svölu lofti á sumrin. Loftvarmadælur nýta lofthita sem varmagjafa og eru slíkar varmadælur mjög algengar í Skandinavíu og þá sérstaklega í Svíþjóð og Noregi. Eru þær bæði notaðar í sumarhúsum og íbúðarhúsum. Á Íslandi hafa loftvarmadælur einna helst verið notaðar í sumarhúsum og í dreifbýli á köldum svæðum.

Í sem stystu máli virkar varmadæla þannig að varmaorka er flutt frá lághita yfir í háhita. Þetta kann að virðast öfugsnúið enda í andstöðu við náttúrulögmálin. Það sem gerir þetta kleift er utanaðkomandi afl í ferlinu sem notað er til að „knýja varmadæluna sjálfa”. Í sjálfu sér virkar varmadæla ekki ósvipað ísskápi eða loftkælingu, nema hvað heiti hluti kerfisins er það sem „skiptir máli” í stað þess kalda eins og ef um ísskáp væri að ræða.

smari@bb.is

Sýnir verk Kristins Péturssonar

Verkið „Á þjóðveginum“ frá árinu 1949.

Í dag opnar sýning á verkum Kristins Péturssonar í sal Listasafns Ísafjarðar. Sýningin er samvinnuverkefni Listasafnsins og Listasafns ASÍ. Á opnuninni mun Jón Sigurpálsson fjalla um Kristinn og verk hans.

Kristinn fæddist 17. nóvember 1896 á Bakka í Hjarðardal í Dýrafirði. Hann var snemma ákveðinn í því að leita sér mennta og hneigðist að myndlist þrátt fyrir erfið ytri skilyrði svo sem veikindi og takmarkaðan myndlistaraðgang. Að loknu kennaraprófi frá Kennaraskólanum sótti Kristinn tíma í teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni og einnig Guðmundi Thorsteinssyni (Mugg) áður en hann hélt til Noregs 1923. Þar nam hann fyrst eitt ár við listiðnaðarskólann í Voss en komst þá inn í Listaakademíuna í Osló og lauk þaðan námi 1927. Í Noregi lagði Kristinn fyrst stund á höggmyndalist en snéri sér síðan að málverkinu og valdi þá framsækna deild Axel Revold. Kristinn kynnti sér líka grafík og vann eirstungur, fyrstur Íslendinga. Hann sótti nám til Parísar og Kaupmannahafnar, fór reglulega utan til þess að sjá helstu samtímalistviðburði auk þess að ferðast til að kynna sér listasöguna af eigin raun í Evrópu, Egyptalandi og Austurlöndum nær.

Kristinn settist að í Hveragerði árið 1940 líkt og fleiri listamenn á þeim tíma.  Þar hélt hann sína síðustu sýningu árið 1945 en eftir það hélt hann sig til hlés og vann að verkum sínum í kyrrþey. Allnokkurt safn málverka og teikninga liggur eftir Kristin, en síðustu skúlptúrar hans – ef til vill þau verk sem helst myndu vekja forvitni í dag – eru með öllu horfnir. Stærsta safn verka hans er í eigu Listasafns ASÍ.  Kristinn lést árið 1981.

Kristinn byggði sér hús í Hveragerði sem hann kallaði Seyðtún, sjálfur kallaði hann húsið „innhverfa höggmynd“ þar sem allt innanstokks var orðið hluti af listinni. Meðfylgjandi myndir eru úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Sýningaropnunin er kl. 16.30 og verður sýningin aðgengileg á opnunartíma Safnahússins fram til 18. nóvember.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir