Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2129

Vinnutap og húsnæðiskostnaður

Birkir Snær með stóru systur sinni Sigrúnu Þóreyju

Ferðakostnaður foreldra með mikið veik börn var talsvert til umræðu í gær í kjölfar færslu Þóris Guðmundssonar á facebook en það er gríðarlegur kostnaður sem mætir foreldrum sem fylgja börnum sínum í læknismeðferðir til Reykjavíkur. En fyrir utan ferðakostnað þarf að leysa húsnæðismál í Reykjavík meðan dvalið er þar og það er stundum snúið.  Hægt er að sækja um íbúðir hjá Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra barna en alls ekki gefið að til laus íbúð þegar á þarf að halda. Sjúkratryggingar greiða 80% af húsnæðiskostnaði þeirra daga sem barnið er inniliggjandi en ekki meðan beðið er eftir aðgerð eða þegar dvelja þarf nálægt Landspítalanum eftir aðgerðir en það geta verið margir dagar.

Þegar svo háttar til að fleiri börn eru á heimilinu þarf að „setja upp meiriháttar aðgerðarplan“ eins og fjögurra barna móðir orðaði það í færslu á facebook um þau verkefni sem blasa við hennar fjölskyldu vegna læknisferða veika barnsins á heimilinu. Aðeins annað foreldrið fær niðurgreiddan ferðakostnað, aðeins annað foreldrið má vera hjá barninu á spítalanum í einu og því þarf að útvega húsnæði í Reykjavík.

bryndis@bb.is

Fresturinn að renna út

Framboðsfrestur rennur út klukkan tólf á hádegi og þurfa flokkarni að skila framboðslistum til yfirkjörstjórna í hverju kjördæmi. Þjóðskrá hefur sett upp sérstakt kerfi fyrir flokkana svo þeir geti sjálfir farið yfir listana. Auk framboðslista þurfa þeir flokkar sem hyggjast bjóða fram að leggja fram skriflega yfirlýsingu frá kjósendum í hverju kjördæmi, og er fjöldi meðmælenda sem skylt er að afla misjafn eftir kjördæmum. Á kosningaveg dómsmálaráðuneytisins kemur fram að fæsta meðmælendur þarf í Norðvesturkjördæmi eða 240, enda er eru fæstir á kjörskrá í kjördæminu. Flestir kjósendur eru í Suðvesturkjördæmi og þar þarf að minnsta kosti 390 meðmælendur. Enginn kjósandi getur mælt með fleiri en einum framboðslista. Þar kemur fram að skrifi kjósandi sig á fleiri en einn lista verði hann strikaður út á þeim öllum.

smari@bb.is

Þín velferð er mín vegferð

Rannveig Ernudóttir

Ég er að bjóða mig fram til Alþingis, með Pírötum. Viðurkenni ég fúslega að ég er örlítið óttaslegin, enda er ég vel upp alin stúlka sem í skólakerfinu sat stillt og prúð meðan strákarnir fengu athyglina. Stúlka sem ólst upp við það að strákarnir væru klárari og sterkari. Svo hér er ég í dag, að segja skilið við þá ranghugmynd að ég sé ekki nógu klár, að stíga inn í nýjar og ókunnugar aðstæður, af því að ég hef fengið nóg af stöðugleikanum sem stanslaust er haldið fram að sé til staðar.

Það er ekki stöðugleiki að vera kjósa aftur í fjórða sinn á níu árum. Þrjár ríkisstjórnir hafa sprungið áður en að kjörtímabili þeirra hefur verið lokið. Samnefnarinn er bara einn og orsökin er sú sama – spilling.

En þessi pistill á ekki að hamra á því. Þetta er nú þegar skýrt og á allra vörum.

Mig langar til að segja þér frá Pírötum.

Það er kannski ekki margt sem þú veist um Pírata. Kannski vegna þess að Píratar hafa ekki komið sínum málefnum og hugsjónum nógu vel á framfæri. Þú þekkir mögulega ekkert starfið okkar, hvernig við vinnum, málefnahópana eða stefnurnar okkar.

Það sem mig langar til að þú vitir, er að Pírötum er annt um þína velferð. Þú átt rödd hjá Pírötum og þú getur náð í okkur og haft áhrif á hvað við gerum.

Píratar vilja sýna þér kæri kjósandi, hvað stöðugleiki er. Við viljum sýna þér að það er vel hægt að gera vel við alla í þessu landi, að enginn þurfi að líða skort. Píratar líta sem svo á að þingmaður eigi að vera í þjónandi hlutverki gagnvart yfirmönnum sínum, sem ert þú og þjóðin. Þingmaður á að hlusta eftir þínum kröfum sem og þjóðarinnar.

Okkur finnst það sárt að þér sé sagt að hér sé allt í lagi, meðallaun séu góð, enda eru þau 667 þúsund krónur á mánuði, fyrir fullt starf. Því þú veist alveg að þessi tala segir þér bara að hér sé hluti þjóðarinnar á ofurlaunum, sem dregur meðaltalið allt of hátt upp.

Píratar kalla því eftir stuðningi þínum: Við þurfum á þínu atkvæði að halda og óskum eftir gagnkvæmu trausti. Einungis með því eigum við möguleika á að koma á stöðugleika og kalla fram raunverulegar breytingar.

Mikilvægast er fyrir þig að vita að Píratar eru þverskurður af samfélaginu, Píratar eru alls konar:

Píratar eiga afa á ellilífeyri, eiga systir á örorku, eiga atvinnulausa vinkonu, eru nördar, eru ellilífeyrisþegar, eru heilbrigðisstarfsmenn, eru á landsbyggðinni, eru kennarar, eiga unglinga, eru á örorku, eru námsmenn, eru fjölskyldufólk, eiga langveik börn, hafa misst ástvini, eiga börn, eru þunglyndir, elska dýr, eru hraustir, eru sjúklingar, eru í borginni, eru framtakssamir, eru alls staðar.

Píratar eru hér fyrir þig!

Píratar hafa framtíðarsýn og þú ert hluti af henni. Við viljum að þú búir í landi þar sem ríkir sanngirni og réttlæti, að þú búir við velsæld og að lífsgæði þín séu varin.

Það er nefnilega framtíðin okkar.

Rannveig Ernudóttir

Skipar 3. Sæti Pírata í Norðvesturkjördæmi

Vinstri græn stærst í Norðvesturkjördæmi

.

Vinstri græn mælast stærst í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun Stöðvar 2 sem var birt í umræðuþætti í gær með fulltrúum framboða í kjördæminu. Fylgi VG mælist 30,2 prósent en flokkurinn fékk 18,1 prósent í kosningunum fyrir ári. Sjálfstæðisflokkurinn mælist næst stærstur með 26,1 prósent sem er 3,4 prósenta lækkun frá síðustu kosningum. VG og Sjálfstæðisflokkur eru turnarnir í kjördæminu og aðrir flokkar mælast með mun minna fylgi. Samfylkingin mælist með 11 prósent og fer upp um 4,7 prósent milli kosninga, Miðflokkurinn mælist með 10,3 prósent í sinni fyrstu atrennu. Fylgið mun hrynja af Framsóknarflokknum verði niðurstaða kosninganna í takt við skoðanakönnunina. Flokkurinn fékk 20,8 prósent í kosningunum fyrir ári en mælist nú með 6,2% fylgi. Píratar ríða ekki feitum hesti frá könnuninni, mælast með 5,5 prósent samanborið við 10,9 prósent í kosningunum í fyrra. Flokkur fólksins mælist með 3,4 prósent, Viðreisn með 1,4 prósent og Björt framtíð með 1,1 prósent.

smari@bb.is

Miklar rigningar um land allt

Á veðurstofunni er varað við áframhaldandi vatnavöxtum á annesjum á Norðurlandi og aukinni hættu á skriðuföllum. Í athugasemdum veðurfræðings á vedur.is segir  að skil séu að fara yfir landið í dag og að stytta muni upp syðra. Talsverð úrkoma á Ströndum og NV-lands í kvöld. Útlit fyrir talsverða eða mikla úrkomu á annesjum N-til fram laugardagsmorgun.

Norðan og norðvestan 10-18, og rigning norðanlands, talsverð á Ströndum og Mið-Norðurlandi, en styttir upp sunnanlands. Norðvestan 10-20 í kvöld, hvassast við NV-ströndina. Talsverð eða mikil rigning eða slydda um tíma á norðanverðum Tröllaskaga í nótt, en lægir og styttir upp á morgun. SV og V 5-13 annað kvöld, skúrir V-til, en annars þurrt. Hiti víða 3 til 8 stig að deginum, mildast syðst.

Í dag
Laugardagur
Sunnudagur

Á sunnudag verður komin vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað með köflum og dálitlir skúrir eða jafnvel slydduél, en léttskýjað austanlands. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn, en líkur á næturfrosti, einkum inn til landsins.

bryndis@bb.is

Um Þormóðsslysið

Sr. Jakob Á. Hjálmarsson mun á morgun kynna nýútkomna bóka sína um Þormóðsslysið en um bókina var fjallað á bb.is, kynningin er í Bíldudalskirkju og hefst kynningin kl. 14:00. Á sunnudaginn eftir messu mun Sr. Jakob svo vera með upplestur ú bókinni í Ísafjarðarkirkju.

bryndis@bb.is

Könnun á viðhorfum til innflytjenda

Nýleg könnun á viðhorfum almennings til innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins var kynnt á samráðsfundi sem innflytjendaráð efndi til um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda í liðinni viku.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru landsmenn almennt fremur jákvæðir í garð innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins. Þeir sem eiga í persónulegum tengslum við innflytjendur eru jákvæðari en aðrir og jákvæðastir eru þeir sem tengjast innflytjendum innan fjölskyldu sinnar, t.d. í gegnum hjúskap eða ef þeir eiga innflytjendur að vinum.

Yngsta kynslóðin er áberandi jákvæð fyrir aukningu á innflytjendum og íbúar höfuðborgarsvæðisins voru jákvæðari gagnvart aukningu en landsbyggðin. Greinilegur munur er á afstöðu fráskilinni og einhleypra þar sem einhleypir eru jákvæðari. Jákvæðni eykst nokkuð með aukinni menntun.

Spurt var um afstöðu til fjölda innflytjenda, hvort það ætti að auka eða draga úr fjölda þeirra sem koma til landsins eða halda fjöldanum óbreyttum. Um 36% svarenda vildu auka fjöldann nokkuð eða mikið, um 30% halda honum óbreyttum en 34% vildu draga nokkuð eða mikið úr fjöldanum.

Spurt var um áhrif innflytjenda á íslenskan efnahag. Tæp 60% svarenda töldu innflytjendur hafa góð áhrif á efnahaginn, um 22% hvorki né en 18% töldu áhrif innflytjenda neikvæð.

Könnun Félagsvísindastofnunar var netkönnun og náði til 1.733 einstaklinga í netpanel stofnunarinnar sem byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Við samsetningu hans hefur þess verið gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal landsmanna 18 ára og eldri.

Niðurstöður könnunarinnar eru greindar eftir kyni, búsetu, menntun, tekjum, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og stöðu á vinnumarkaði og líklegrar afstöðu í kosningum til Alþingis á þeim tíma sem könnunin var lögð fram.

bryndis@bb.is

Bróðir gangbrautarinnar á Ísafirði

Starfsfólk Casa Ceramica í Manchester hannaði og lagði þetta villugjarna gólf á ganginn hjá sér til að koma í veg fyrir hlaup á ganginum. Hvers vegna fólk var hlaupandi um ganga hjá þessu tiltekna flísafyrirtæki er ekki ljóst, hugsanlega er gangurinn bara vel heppnað sýningarherbergi fyrirtækisins.

bryndis@bb.is

Eflum byggðir landsins

Björn Leví Gunnarsson og Eva Pandora Baldursdóttir

Eitt aðalmarkmið Pírata er valddreifing og sjálfsákvörðunarréttur. Að hver og einn geti haft aðkomu að málum sem hann varðar. Af því leiðir sú stefna okkar Pírata að gera eigi sveitarfélög fjárhagslega sjálfstæð til þess að þau geti staðið undir þeirri þjónustu sem þau eiga að veita. Stóra spurningin er, hvernig förum við að því?

Í dag fá sveitarfélög aðallega tekjur frá útsvari einstaklinga og í gegnum fasteignargjöld. Þessum tekjum er ætlað að standa undir þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita. Undanfarið hefur ríkið fært ýmis verkefni yfir til sveitarfélaganna án þess að viðeigandi fjármagn fylgi.

Lausnin við þessu er að gera hluta tekjuskatts fyrirtækja og virðisaukaskatt að útsvari til sveitarfélags. Þannig myndi hluti af hagnaði fyrirtækis sem og sala af vöru eða þjónustu fyrirtækis renna til nærsamfélagsins. Hér er nauðsynlegt að taka fram að ef þú kaupir olíu á bensínstöð í Varmahlíð þá myndi hluti virðisaukaskattsins af olíugjaldinu renna til Skagafjarðar en ekki til sveitarfélagsins þar sem bensínstöðin er með höfuðstöðvar. Þeir sem þekkja til í kerfinu telja þetta vera erfitt í framkvæmd, kerfið virkar ekki svona, en við látum slíkt ekki stöðva okkur. Kerfið er mannanna verk og það er hægt að bæta.

Það besta við þessa breytingu er ekki bara að tekjustofnar sveitarfélaganna verða sterkari heldur verður einnig til hvati til þess að laða að annars konar atvinnustarfsemi en þá sem skilar miklum fasteignargjöldum. Ferðamenn sem flakka um landið og kaupa alls kyns þjónustu myndu skila hagnaði beint í sjóði sveitarfélagsins. Veffyrirtækið út í bílskúr færi allt í einu að standa undir rekstri leikskólans.

Þessi breyting er á kostnað ríkissjóðs en afurðin eru öflugri og sjálfstæðari sveitarfélög. Það gagnast okkur öllum, líka ríkissjóði.

Eva Pandora Baldursdóttir og Björn Leví Gunnarsson

Höfundar eru þingmenn og frambjóðendur Pírata í Norðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmi suður

 

Bleiki dagurinn er í dag

Föstudaginn 13. október er Bleiki dagurinn! Þennan dag hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn til að sýna samstöðu með þeim konum sem greinst hafa með krabbamein. Stuðningur okkar allra skiptir máli. Félagið hvetur fyrirtæki til að skipuleggja bleikt kaffi í vinnunni og bjóða samstarfsfélögum og auðvitað að klæðast bleikum fötum í tilefni dagsins.

Krabbameinsfélagið hvetur alla til að senda skemmtilegar, bleikar myndir af sér, fjölskyldunni, vinahópnum, og vinnufélögunum á netfangið bleikaslaufan@krabb.is og munum við birta þær hjá okkur á Facebook síðu Bleiku slaufunnar. Merkið myndirnar #bleikaslaufan

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir