Síða 2128

Eflum byggðir landsins

Björn Leví Gunnarsson og Eva Pandora Baldursdóttir

Eitt aðalmarkmið Pírata er valddreifing og sjálfsákvörðunarréttur. Að hver og einn geti haft aðkomu að málum sem hann varðar. Af því leiðir sú stefna okkar Pírata að gera eigi sveitarfélög fjárhagslega sjálfstæð til þess að þau geti staðið undir þeirri þjónustu sem þau eiga að veita. Stóra spurningin er, hvernig förum við að því?

Í dag fá sveitarfélög aðallega tekjur frá útsvari einstaklinga og í gegnum fasteignargjöld. Þessum tekjum er ætlað að standa undir þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita. Undanfarið hefur ríkið fært ýmis verkefni yfir til sveitarfélaganna án þess að viðeigandi fjármagn fylgi.

Lausnin við þessu er að gera hluta tekjuskatts fyrirtækja og virðisaukaskatt að útsvari til sveitarfélags. Þannig myndi hluti af hagnaði fyrirtækis sem og sala af vöru eða þjónustu fyrirtækis renna til nærsamfélagsins. Hér er nauðsynlegt að taka fram að ef þú kaupir olíu á bensínstöð í Varmahlíð þá myndi hluti virðisaukaskattsins af olíugjaldinu renna til Skagafjarðar en ekki til sveitarfélagsins þar sem bensínstöðin er með höfuðstöðvar. Þeir sem þekkja til í kerfinu telja þetta vera erfitt í framkvæmd, kerfið virkar ekki svona, en við látum slíkt ekki stöðva okkur. Kerfið er mannanna verk og það er hægt að bæta.

Það besta við þessa breytingu er ekki bara að tekjustofnar sveitarfélaganna verða sterkari heldur verður einnig til hvati til þess að laða að annars konar atvinnustarfsemi en þá sem skilar miklum fasteignargjöldum. Ferðamenn sem flakka um landið og kaupa alls kyns þjónustu myndu skila hagnaði beint í sjóði sveitarfélagsins. Veffyrirtækið út í bílskúr færi allt í einu að standa undir rekstri leikskólans.

Þessi breyting er á kostnað ríkissjóðs en afurðin eru öflugri og sjálfstæðari sveitarfélög. Það gagnast okkur öllum, líka ríkissjóði.

Eva Pandora Baldursdóttir og Björn Leví Gunnarsson

Höfundar eru þingmenn og frambjóðendur Pírata í Norðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmi suður

 

Bleiki dagurinn er í dag

Föstudaginn 13. október er Bleiki dagurinn! Þennan dag hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn til að sýna samstöðu með þeim konum sem greinst hafa með krabbamein. Stuðningur okkar allra skiptir máli. Félagið hvetur fyrirtæki til að skipuleggja bleikt kaffi í vinnunni og bjóða samstarfsfélögum og auðvitað að klæðast bleikum fötum í tilefni dagsins.

Krabbameinsfélagið hvetur alla til að senda skemmtilegar, bleikar myndir af sér, fjölskyldunni, vinahópnum, og vinnufélögunum á netfangið bleikaslaufan@krabb.is og munum við birta þær hjá okkur á Facebook síðu Bleiku slaufunnar. Merkið myndirnar #bleikaslaufan

bryndis@bb.is

Kosið um uppbyggingu á Vestfjörðum

Hafdís Gunnarsdóttir og Teitur Björn Einarsson

Uppbygging fiskeldis, afhendingaröryggi raforku og vegur um Teigsskóg. Þetta eru baráttumálin þrjú sem Vestfirðingar hafa sett á oddinn eftir kröftugar umræður í fjölmiðlum í sumar og fjölmennan borgarafund á Ísafirði fyrir stuttu. Vestfirðingar vita að með afgreiðslu þessara mála er loksins komið tækifæri til að hefja viðsnúning sem hefði í för með sér aukin atvinnutækifæri, bætt búsetuskilyrði, jákvæðan hagvöxt og fjölgun íbúa á svæðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að öll þessi mál nái fram að ganga og ætla frambjóðendur flokksins að taka pólitíska forystu í þeim efnum. Það höfum við sýnt í riti og aðgerðum. Þetta ætlum við að gera:

  1. Rjúfa þá kyrrstöðu sem veglagning um Teigsskóg er í. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram frumvarp í haust um nákvæmlega það ásamt öllum öðrum þingmönnum kjördæmisins að undanskildum þingmanni VG. Málið verður aftur lagt fram á þingi strax eftir kosningar fáum við til þess umboð frá kjósendum.
  2. Halda áfram með uppbyggingu á fiskeldi, þar með talið í Ísafjarðardjúpi. Allar forsendur er fyrir hendi til þess að byggja upp öfluga atvinnugrein sem byggir á vísindalegri þekkingu og reynslu annarra þjóða. Sjálfstæðisflokkurinn mun hafa forystu um að eldi hefjist án tafa í Ísafjarðardjúpi þar sem mögulegt er að nota raunhæfar mótvægisaðgerðir. Þetta verður gert með ábyrgum hætti þar sem hinn samfélagslegi ávinningur er metinn, eins og umhverfisþátturinn, með réttum og sanngjörnum hætti.
  3. Tryggja að áform um bætt afhendingaröryggi raforku nái fram að ganga. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar og er virkjunin nauðsynlegur hlekkur til að byggja skynsamlega upp burðugt flutningskerfi raforku á Vestfjörðum. Ekki kemur að okkar mati til greina að hnikað verði frá þeim áformum og það þarf pólitíska staðfestu til að halda stjórnkerfinu við efnið.

Vestfirðingar hafa vissulega þétt raðirnar sem aldrei fyrr, þvert á pólitískar línur og eru þeir með skýra sýn á hvað þurfi að gera svo Vestfirðir eigi öfluga framtíð. En hér er ekkert sjálfgefið þrátt fyrir vilja og baráttuhug Vestfirðinga til að koma þessum þremur málum í gegn. Pólitíkin þarf að spila með. Vestfirðingar þurfa því að kjósa stjórnmálaflokk sem ætlar að taka slaginn fyrir Vestfirði, taka forystu í baráttumálum svæðisins og sér hvers svæðið er megnugt. Aldrei hefur það verið jafn mikilvægt og núna að kjósendur kynni sér vel hver afstaða stjórnmálaflokkanna er varðandi málefni Vestfjarða því afturhaldssinna má finna víða. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins erum klár í þennan slag og ætlum að tryggja öfluga framtíð Vestfjarða fáum við umboð til þess. Við kjósum Vestfirði.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður og skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Hafdís Gunnarsdóttir, varaþingmaður og skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Okkar fólk á skjánum í kvöld

Fréttastofa Stöðvar 2 ræðir við oddvita stjórnmálaflokkana í Norðvesturkjördæmi og þar munu sitja fyrir svörum Arna Lára Jónsdóttir fyrir hönd Samfylkingar, Gylfi Ólafsson fyrir hönd Viðreisnar og Lilja Rafney Magnúsdóttir fyrir hönd VG, það má því leiða að því líkum að íbúar á norðanverðum Vestfjörðum muni fylgjast grannt með sjónvarpinu í kvöld.

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins mætir Haraldur Benediktsson, Ásmundur Einar Daðason fyrir Framsóknarflokkinn, Guðlaug Kristjánsdóttir fyrir Bjarta Framtíð, Magnús Þór Hafsteinsson fyrir Flokk fólksins og Bergþór Ólason fyrir Miðflokkinn.

En það verður væntanlega á Evu Pandóru Baldursdóttir sem flest augu munu hvíla því hún mætir í ekta Píratagerfi. Hún lenti í óhappi með annað augað og þarf að hafa lepp.

Þeir frambjóðendur sem ekki eru í oddvitasætum hafa færri tækifæri að koma sér á framfæri og þurfa að vera hugmyndarík. Rúnar Gíslason hefur birt á facebook síðu sinni hvernig það getur verið að berjast við bráttusætið.

 

Og Jónína Björg Magnúsdóttir fiskverkakona tjaldar ekki kökuskreytingarhæfileikum munninn hefur hún fyrir neðan nefið.

 

 

bryndis@bb.is

Bæjarstjóri og sveitarstjóri hjá Viðreisn

Gylfi Ólafsson.

Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur og aðstoðarmaður fjármála-og efnahagsráðherra, leiðir lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í lok október. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er í 7. sæti og Indriði Indriðason sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps í 13. sæti.

Framboðslisti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi er eftirfarandi:

  1. Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur
  2. Lee Ann Maginnis, lögfræðingur
  3. Haraldur Sæmundsson, matreiðslumeistari
  4. Sigrún Helga Lund, dósent í tölfræði
  5. Jón Ottesen Hauksson, framkvæmdastjóri
  6. Ása Katrín Bjarnadóttir, nemi
  7. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
  8. Ragnheiður Jónasdóttir, verkefnastjóri
  9. Sturla Rafn Guðmundsson, svæðisstjóri RARIK
  10. Arnheiður Steinþórsdóttir, sagnfræðinemi
  11. Ragnar Már Ragnarsson, byggingarfræðingur
  12. Unnur Björk Arnfjörð, skólastjóri
  13. Indriði Indriðason, sveitastjóri
  14. Berglind Long, matreiðslumaður
  15. Pálmi Pálmason, fv. framkvæmdastjóri
  16. Jóhanna Guðrún Jónasdóttir, leikskólakennari

bryndis@bb.is

Styrkir til meistaranema

Byggðastofnun auglýsir styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar. Kostur er ef verkefnin hafa skírskotun til byggðaáætlunar. Til úthlutunar er allt að 1.000.000 kr. og stefnt að því að veita fjóra styrki.

Umsækjendur þurfa að stunda meistaranám við viðurkenndan háskóla. Í umsókn skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig það styður við byggðaþróun.  Við mat á umsóknum verður fyrst og fremst litið til tengsla við byggðaþróun, nýnæmi verkefnis og hvort til staðar séu möguleikar á hagnýtingu þess.

Þetta er í fjórða skipti sem Byggðastofnun veitir styrki til meistaranema og hafa tvö verkefni hér að vestan hlotið styrk.

Annars vegar verkefnið „Hagkvæmni nýtingar sjávarhita á norðurslóðum: raundæmi Önundarfjörður“. Styrkþegi var Majid Eskafi nemandi hjá Háskólasetri Vestfjarða. Og hins vegar verkefnið „Eldri íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum: Athafnir, þátttaka og viðhorf til þjónustu. Styrkþegi var Margrét Brynjólfsdóttir nemandi  Háskólans á Akureyri.

Hér má nálgast upplýsingar um styrkina.

bryndis@bb.is

Gnúpverjar mæta á Torfnes

Meistaraflokkur Vestra á síðustu leiktíð.

Á morgun kl. 18:00 tekur Vestri á móti Gnúpverjum í sínum þriðja leik í 1. deild karla í körfubolta.

Vestri hóf veturinn með glæstum sigri á Snæfelli en laut svo í gras fyrir Breiðablik, Gnúpverjar hafa leikið einn leik í deildinni það sem af er, það var tapleikur við Breiðablik.

Þann 20. október sækir lið FSu Vestra heim og þann 27. október er það Fjölnir sem leggur land undir fót og etur kappi við okkar menn.

Þess má geta að strax að leik loknum mætast B-lið Vestra og KR í 32 liða úrslitum Maltbikarsins, áætlað er að sá leikur hefjist um kl. 20:00

bryndis@bb.is

90% verðmunur á umfelgun

Miðvikudaginn 11. október kannaði FÍB verð á umfelgun hjá 40 dekkjaverkstæðum vítt og breitt um landið. Hjá flestum fyrirtækjunum eða 24 er verið að bjóða sama verð fyrir þjónustuna núna og í vorkönnun FÍB 2017, Átta fyrirtæki lækka verðið frá því vor og átta hækka.

Spurt var: Hvað kostar umfelgun og jafnvægisstilling á fjórum 16 tommu álfelgum. Miðið var við dekkjaskipti á Toyota Corolla með hjólastærð 205/55 R16, sem er ein algengasta hjóla- og dekkjastærð fólksbíla á íslenska markaðnum.

Lægst reyndist verðið hjá Títancar í Kópavogi eða 5.000 kr. en hæsta verðið hjá N1 eða 9.493 kr. Hjá Bifreiðaverkstæði SB á Ísafirði kostar umfelgun 6.524 kr og hjá Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar 6.690 kr.

bryndis@bb.is

Veikt barn, fjarri þjóðarsjúkrahúsinu

Birkir Snær er bráðum tveggja ára og hefur á sinni stuttu ævi þurft að ströggla með hættulegan sjúkdóm sem heitir LCH (Langerhans cell histiocytosis). LCH er afar sjaldgæfur frumusjúkdómur sem er oftast skilgreindur sem krabbamein. Birkir Snær er með sjúkdóminn í lungum og á húð og hefur þurft að fara ófáar ferðirnar suður í lyfjameðferðir, núna er hann í sinni þriðju lyfjameðferð. Þegar á þeim stendur þarf að fara á 3ja vikna fresti og stundum þarf fjölskyldan að dvelja í Reykjavík í fimm daga meðan á lyfjagjöf stendur.

Foreldrar Birkis Snæs, þau Þórir Guðmundsson og Guðrún Kristín Bjarnadóttir hafa eðlilega fylgt barninu í allar rannsóknir, aðgerðir og meðferðir en þau gera athugasemdir við að ekki séu niðurgreiddar flugferðir fyrir tvo fylgdarmenn með svona mikið veiku barni. Þórir skrifaði færslu á facebook síðu sína í gær sem hefur vakið mikla athygli og gaf bb.is leyfi til að birta hana í heild sinni.

 

Ég hef oft verið að velta fyrir mér kostum þess að búa á landsbyggðinni. Þeir eru miklir. Til dæmis er magnað hvað samfélagið passar upp á sitt fólk, líkt og við fengum að kynnast á eigin skinni í desember s.l. Við munum aldrei gleyma því, og held að enginn muni gera það. En þetta er aðeins einn kostur og ætla ég ekki að fara að telja þá alla hér upp. En hinsvegar er einn stór ókostur, sem þarf ekki að vera til staðar. Eins og flestir vita er Birkir Snær okkar búinn að vera veikur frá fæðingu. Hann greindist í apríl 2016 með LCH sem er skilgreint sem krabbamein. Vissulega ekki versta krabbamein til að fá, en engu að síðu helvíti leiðinlegur sjúkdómur fyrir lítið barn að þurfa að ganga í gegnum, og allt hans fólk. Það sem fylgir þessu er mikið af ferðum til Reykjavíkur til meðferðar á Barnaspítala Hringsins. En þar fær hann alla sína lyfjagjöf og rannsóknir. Frá apríl 2016 höfum við verið að minnsta kosti einu sinni í mánuði í Reykjavík. Held þó að það hafi einungis gerst fjórum sinnum að við höfum einungis þurft að fara einu sinni í mánuði til Reykjavíkur. Við leggjum út fyrir öllum ferðakostnaði og þarf ég svo að safna saman helling af gögnum til að fá HLUTA af kostnaðinum endurgreiddan. 

Það er nefnilega þannig að við búum á landsbyggðinni, með krabbameinsveikt barn sem er 100% í umönnunarflokki eitt í umönnunarkerfinu og þurfum að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur. En samt er það metið þannig að hann þarf einungis einn fylgdarmann með sér til Reykjavíkur.

Í fyrsta lagi er mjög erfitt að þurfa að standa í þessari baráttu með barnið sitt, hvað þá ef við, foreldrar hans, gætum ekki gert það saman. Það er erfitt að vera með hann gangandi um gólf á næturnar vegna vanlíðan, eða rúnta á nóttunni svo hann sofi og þurfa svo að vera klár í að taka daginn á fullu afli líka. Dag eftir dag. Það sjá flestir að þetta gengur ekki upp, og hvað þá til lengdar.  Mér finnst það því mjög undarlegt að í svona veikindum sé ekki hægt að sækja um endurgreiðslu á ferðakostnaði fyrir tvo fylgdarmenn. Reyndar hef ég hugmynd um hvernig væri hægt að útfæra þetta til að foreldrar mikið veikra barna af landsbyggðinni þurfi ekki að standa í þessari baráttu líka. Mjög einfalt. Einhver á vegum Landspítalans pantar flug fyrir barn og fylgdarmenn rétt áður en barnið skal mæta til meðferðar og svo er pantað flug fyrir barnið og fylgdarmenn heim þegar meðferð og/eða rannsóknum er lokið. Er þetta ekki einfalt? Er þetta ekki lágmarkskrafa í þessu velferðarsamfélagi sem við búum í, að við, foreldrarnir, þurfum ekki að standa í þessu líka? Þessi sérhæfða heilbrigðisþjónusta er ekki í boði í okkar heimabæ, en við borgum jafnmikla skatta til heilbrigðiskerfisins eins og þeir sem búa í Reykjavík og þurfa, sem betur fer, ekki að standa í þessu veseni aukalega. Það segir mér enginn að það séu mörg börn svona mikið veik á landsbyggðinni, því ætti þetta alls ekki að vera flókið í framkvæmd. Mér finnst a.m.k ekki. En okkur dettur ekki í hug að flytja héðan, við viljum bara að það sé sanngjarnt að búa hérna á alla vegu. 

Við kjósum að aka stundum á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar vegna þess að það er minni kostnaður í hvert sinn, en er það ömurlegt að þurfa að gera það. Sem dæmi erum við að fara suður í lok mánaðarins til lyfjagjafar og rannsókna. Flug fyrir okkur kostar um 52.000 kr. Þar af munum við fá um 26.000 kr. af því endurgreitt. Frá apríl 2016 höfum við greitt um 1.500.000 kr. í ferðakostnað. Við höfum fengið rúmlega 900.000 kr. endurgreitt af því.

Þórir Guðmundsson

It‘s the Iceland call

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur tryggst sér þátttöku í HM og verða þar fulltrúar langfámennustu þjóðarinnar sem komist hefur í þann fína selskap. Má leiða að því líkum að talsvert margir munu fylgjast með okkar mönnum í Rússlandi næsta sumar.

Frammistaða landsliðsins hefur að vonum vakið mikla athygli og í Þýskalandi hefur partíbandið Radspitz hent í slagara um okkar menn og húið góða.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir