Síða 2127

Að einangra höfuðborg

Jón Þór Þorvaldsson

Flugið er lífæð okkar í viðskiptum við umheiminn og flugið er afar mikilvægur þáttur í samgöngum og byggðastefnu. Flugið er öruggasti og hagkvæmasti ferðamáti sem þekkist enn sem komið er. Hann er einnig sá fljótlegasti ef ferðast þarf um lengri veg. Það er ekki að ástæðulausu að allar borgir sem koma því við, eru að byggja upp flugvelli eða styrkja þá flugvelli í sessi sem þjóna viðkomandi borgum. Nýleg dæmi utan úr heimi sýna að margar borgir telja svo brýnt að haldið sé uppi flugsamgöngum að borgirnar styrkja flugfélög sem tilbúin eru til að þjónusta þá sem þurfa að komast til og frá borgunum.

Nú hefur meirihlutinn í borginni þ.e. Samfylking, VG, Píratar og Björt framtíð róið að því öllum árum að leggja Reykjavíkurflugvöll af. Þrengt að vellinum og stöðvað allar framkvæmdir til viðhalds á mannvirkjum tengdum vellinum. Skilningur þessara flokka á innviðum samfélags kristallast í þessum vinnubrögðum.

Þeim rökum flugvallarandstæðinga hefur verið haldið á lofti að flugvöllurinn þurfi að víkja svo að borgarsamfélagið fái þrifist. Þau rök falla dauð niður um leið og málið er krufið. Til að borgarsamfélag geti dafnað, rétt eins og sjálfstæðar þjóðir, þá eru greiðar samgöngur og aðflutningsleiðir fyrir fólk vörur og þjónustu grundvallaratriði. Enda er það það fyrsta sem gert er í hernaði og stríði, að tryggja samgöngu og flutningsnet eigin herja en eyðileggja samgöngumannvirki og flutningsæðar andstæðinganna. Slíka eyðileggingu er einsdæmi að farið sé í gegn sjálfum sér á friðartímum en er lýsandi fyrir vinnubrögð þeirra sem hafa beitt sér fyrir lokun Reykjavíkurflugvallar.  Þessi vinnubrögð eru aðför að höfuðborginni, landsbyggðinni og að mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarbúsins sem enn eru að vaxa, flugi og ferðaþjónustu.

Miðflokkurinn mun standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og flugvöllurinn fer ekki neitt ef ríkið gefur ekki heimild til þess. Hafi borgin hugsað sér að kæfa völlinn með því að þrengja að honum þannig að ekki sé hægt að starfrækja flug og tengda starfsemi, þá kallar það á lagasetningu af hálfu ríkisins um skipulagsmál höfuðborgarinnar.  Flugvöllurinn er nefnilega ekki einkamál einhvers sveitarfélags sem heitir Reykjavík, hann varðar alla landsmenn þar sem Reykjavík er höfuðborg landsins, Hún ber ábyrgð þar að lútandi. Allir landsmenn eiga rétt á greiðum aðgangi að hátæknisjúkrahúsum, æðstu menntastofnunum og stjórnsýslu landsins á hagkvæmasta og öruggasta hátt sem völ er á.

Flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir millilandaflug og þjónar gríðarlega viðamiklu hlutverki í öryggismálum flugsins. Við megum ekki gleyma að við Íslendingar eru með 7-unda stærsta loftstjórnarrými í heiminum. við hirðum af því arð en berum jafnframt skyldur í þeim efnum er varða leit björgun og neyðarþjónustu. Hlutverk flugvallarins í almannavörnum ætti að vera hverju mannsbarni ljóst sem býr á eldfjallaeyju í norðurhöfum. Það vill gleymast líka að hann er mennta og þekkingarstofnun. Á Reykjavíkurflugvelli eru menntaðir flugmenn, flugvirkjar og flugumferðastjórar. Allt góð og vel launuð störf sem skila sér beint í þjóðarbúið. Flugiðnaðurinn er einn burðarás þjóðarinnar í gjaldeyrisöflun í dag. Ekki mundi nokkrum hugsandi manni detta í hug að loka Háskóla Íslands til að þétta mætti byggð.

Flugvöllurinn og tengd starfsemi veltir milljörðum á ári hverju, skapar mörg hundruð störf og styður við vöxt og nýsköpun bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Miðflokkurinn ætlar að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

X-M

Jón þór Þorvaldsson

3ja sæti Miðflokksins í NV kjördæmi

 

 

 

Stefna á meistaraflokk kvenna

Mynd: Vestri.is

Stjórn Kkd. Vestra og barna- og unglingaráð vinna nú markvisst að því að félagið tefli fram meistaraflokki á ný. Allt bendir til þess að innan örfárra ára verði kominn góður grundvöllur fyrir endurvakningu meistaraflokks kvenna félagsins, en hann var síðast starfræktur vetur 2014-2015. Í gærkvöldi stóð félagið fyrir spjallfundi í Menntaskólanum á Ísafirði og var það liður í undirbúningi verkefnisins.

Stór hópur stúlkna er að ganga upp yngri flokka félagsins og mun hluti þeirra keppa í Stúlknaflokki á næstu leiktíð. Félagið teflir fram liðum í fimm aldursflokkum Íslandsmóts í vetur, alls um fjörutíu stelpur, og hafa liðin sjaldan eða aldrei verið fleiri.

Í gærkvöldi stóð deildin fyrir Stelpuspjalli þar sem kveniðkendur Vestra í 6.-10. bekk komu saman ásamt foreldrum sínum og hlýddu á fyrirlestra um framtíðarsýn félagsins, liðsheild og hvernig maður byggir upp karakter í liði.

Sérstaka athygli vakti fyrirlestur sem Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, liðsmaður í 10. flokki, flutti en hún sagði frá þátttöku sinni á ráðstefnunni „Sýnum karakter“ sem haldin var af ÍSÍ og UMFÍ í september síðastliðnum. Þar var Dagbjört Ósk fulltrúi KKÍ en flestir ráðstefnugestir voru á aldrinum 13-25 ára. Á vefslóð Sýnum karakter er að finna heilmikið efni sem nýtist bæði þjálfurum og iðkendum til uppbyggingar í íþróttum og lífinu almennt.

bryndis@bb.is

Meiri líkur á vinstri stjórn

Meiri líkur eru á vinstri stjórn en hægri stjórn að loknum kosningum sem fara fram eftir 10 daga. Samkvæmt kosningaspá Kjarnans eru 34% líkur á stjórn Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Hægri stjórn, sem væri skipuð Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Miðflokki og Flokki fólksins eru gefnar 22% líkur.

Í kosningaspánni frá því í gær eru Vinstri græn með mest fylgi, eða 25,6%. Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærstur með 22,5%. Útkoma Samfylkingarinnar er 12,4% og fylgi Pírata 9,4%. Miðflokkurinn er sem fyrr stærri en Framsóknarflokkurinn, en fyrrnefndi flokkurinn fær 9,2% á meðan Framsókn fær 6,6%. Flokkur fólksins mælist með 5,8% fylgi og bæði Viðreisn og Björt framtíð detta út af þingi.

Í kosningaspá Kjarnans eru skoðanakannanir samkeyrðar og tekið tillit til margra þátta, eins og sögulegra áreiðanleika þeirra.

smari@bb.is

Heilbrigðismál í forgangi

Gallup gerir árlega könnun um forgangsröðun landsmanna á fjárlögum fyrir þingflokk Pírata. Könnunin í ár náði yfir fimm vikur þegar fjármálaáætlun var rædd á Alþingi í vor.

Í könnununum hafa landsmenn verið beðnir að forgangsraða skattfé til málaflokka á fjárlögum. Í ár var bætt við könnunina valmöguleikunum að lækka skatta og ríkisskuldir. Af könnuninni er því í ár hægt að lesa hvort aukin útgjöld ríkisins til ákveðinna málaflokka eða lægri skattar og niðurgreiðsla ríkisskulda sé í forgangi hjá kjósendum mismunandi flokka og kjördæma.

Málaflokkar.

Könnunin sýnir að heilbrigðismálin eru áfram í afgerandi forgangi með forgangseinkunnina 79 á meðan að lækkun allra skatta og ríkisskulda hefur samtals einkunnina 47 yfir landið í heild. Mennta- og fræðslumál eru í öðru sæti með einkunnina 38, Samgöngumál og Löggæslu- og öryggismál eru jöfn með 30, og í fjórða sæti eru almannatryggingar og velferðarmál með 29.

Kjördæmi.

Heilbrigðismálin eru einnig í mesta forgangi í öllum kjördæmum. Höfuðborgarsvæðið setur meir forgang á menntun en landsbyggðin. Suðurkjördæmi sker sig úr með mesta áherslu á löggæslu.

Húsnæðismál vega þyngra hjá kjósendum byggðarkjarna landsins og snýst dæmið við í samgöngumálum sem vega þyngra á kjósendum kjördæma með dreifðari byggð.

Stjórnmálaflokkar.

Heilbrigðismálin eru jafnframt forgangsmál kjósenda allra flokka. Lægsta forgangseinkun fá þau hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins með forgangseinkun 65 á meðan að kjósendur Bjartrar Framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri Grænna gefa einkunn á milli 85 og 89. Kjósendur Samfylkingar og Vinstri Grænna setja leggja meiri áherslu á menntamálin en kjósendur annarra flokka og kjósendur Framsóknar setja mestan fókus á samgöngumál með einkunnina 41 á móti 30 á landsvísu. Málaflokkurinn almannatryggingar og velferðarmál fá forgangseinkun 40 frá kjósendum Samfylkingar, 37 frá kjósendum Pírata og 30 frá kjósendum Vinstri Grænna.

Hér má nálgast könnuna í heild sinni.

Bryndis@bb.is

Get ég orðið að liði?

Ákvörðun mín að sækjast eftir oddvitasæti í Norðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum hefur komið ýmsum á óvart, enda kannski ekki algengt að bæjarfulltrúi á suðvesturhorninu óski eftir umboði til að vinna öðru kjördæmi gagn á þingi. Ég hef hins vegar sjaldnast fetað troðnar slóðir og tel mikilvægt að fólk hugsi og stígi út fyrir kassann, út fyrir þægindahringinn, alls staðar þar sem kostur gefst. Glöggt er gests augað.

Framtíðin ber með sér nýtt atvinnulíf og breyttar aðferðir. Til viðbótar við styrkingu hefðbundinna greina þarf að tryggja að ný þekking, ný störf og ný tækifæri standi fólki í Norðvesturkjördæmi til boða líkt og annars staðar á landinu. Forsendur fyrir því eru traustar samgöngur, fjölbreytt húsnæðisval og öflug nærþjónusta. Þetta þrennt þarf sérstaklega að höfða til ungs fólks, bæði þess sem hefur fæðst og alist upp á svæðinu og hinna sem geta hugsað sér búferlaflutninga til lengri eða skemmri tíma.

Ég hef ýmislegt til brunns að bera sem gæti nýst íbúum Norðvesturlands sem liðsauki á þingi. Þar má nefna víðtæka reynslu af vinnumarkaðsmálum, frá því ég fór fyrir launþegasamtökum í samningagerð og fleiri hagsmunastörfum sem formaður BHM. Jafnframt beina innsýn í störf á sviði starfsendurhæfingar, atvinnuleysismála, almannatrygginga og lífeyrismála, eftir stjórnarsetu í Virk, Atvinnuleysistryggingasjóði, Tryggingastofnun og LSR. Sú reynsla hefur mótað afstöðu mína í málefnum ungs fólks á vinnumarkaði, sem og eldri kynslóða hvað varðar réttindi á efri árum.

Ég hef einnig fjölbreytta reynslu sem heilbrigðisstarfsmaður, bæði á Landspítala, innan Háskólans og í rekstri eigin stofu sem sjúkraþjálfari og hef unnið ýmiskonar frumkvöðlastarf á því sviði. Þverfaglegt samstarf heilbrigðisstétta er mér einkar hugleikið, með áherslu á öfluga nærþjónustu og forvarnir.

Ég óska eftir stuðningi kjósenda í Norðvesturkjördæmi og tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að auka hlutdeild þessa mikilvæga svæðis í þeirri hröðu þróun framtíðartækifæra sem nú á sér stað. Ég vil verða að liði.

Guðlaug Kristjánsdóttir

Hækkun virðisaukaskatts kemur harðast niður á landsbyggðinni

Stefna stjórnvalda hefur verið að dreifa ferðamönnum betur um landið en samkvæmt úttekt KPMG mun skattahækkun vinna gegn þeim áformum.

Ef gististaðir á landsbyggðinni þyrftu að taka á sig alla hækkun virðisaukaskatts úr 11 prósentum í 22,5 prósent, eins og ríkisstjórnin lagði til í fjármálaáætlun sinni til næstu fimm ára, myndi það leiða til mikils taprekstrar. Afkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu myndi auk þess verða nálægt núlli. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í úttekt ráðgjafarfyrirtækisins KPMG um áhrif boðaðra hækkana á virðisaukaskatti á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem kynnt verður á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. Greint er frá úttektinni á Vísi í dag.

Þar kemur fram að ef hækkun virðisaukaskatts úr 11% í 22,5% hefði komið til í byrjun síðasta árs hefði tekjur hótela lækkað um 1.858 milljónir kr. og þá gefa höfundar sér að hótelin hefðu tekið hækkunina á sig að öllu leyti. Það hefði þurrkað út arðsemi hótelanna og reksturinn nálægt núlli.

Að mati KPMG hefði hækkun virðisaukaskatt komið harðast niður á gististöðum á landsbyggðinni og leitti til þess að þeir hefði verið reknir með tapi. „Það er því varla valkostur fyrir félögin að taka á sig alla hækkun virðisaukaskatts, samhliða því sem þau takast á við kjarasamningsbundnar launahækkanir, þar sem verðlagning þjónustunnar er þegar komin að sársaukamörkum í alþjóðlegum samanburði,“ segir í úttektinni.

smari@bb.is

Spáir meiri verðbólgu

Hag­fræðideild Lands­bank­ans spá­ir því í Hag­sjá sinni að vísi­tala neyslu­verðs, sem birt verður af Hag­stofu Íslands þann 27. októ­ber, muni hækka um 0,20% á milli mánaða en ef sú spá geng­ur eft­ir mun ár­sverðbólg­an hækka úr 1,4% í 1,6%.

Í Hag­sjánni kem­ur fram að vísi­tala neyslu­verðs hafi hækkkað um 0,14% á milli mánaða í sept­em­ber en það var minni hækk­un en bú­ist var við þegar Hag­sjá­in spáiði 0,28% hækk­un. Sagt er að mun­ur­inn skýrist fyrst og fremst að því að mat­ur og drykkja­vara lækkaði tölu­vert mikið eða um 1,3% á milli mánaað en sú lækk­un var óvænt í ljósi þeirr­ar geng­is­veik­ing­ar sem orðið hafði síðustu mánuði á und­an en gera má ráð fyr­ir að til­koma Costco hafi þar haft tölu­verð áhrif.

Töluverð óvissa ríkir um verðbólguþróunina um þessar mundir að því er segir í Hagsjánni og þar kemur fram að innkoma Costco inn á íslenskan neytendamarkað hefur nú þegar haft töluvert mikil áhrif á verðlag ýmissa vara en óljóst er að hversu miklu leyti þau eru komin fram og hversu mikil þau verði litið fram á veginn. Í þessu sambandi er bent á að innkoma Costco hefur leitt til þess að margir aðrir smásalar hafa náð betri samningum við sína birgja. Þessu til viðbótar eru vísbendingar um að gengisbreytingar krónunnar séu ekki að skila sér með sama hætti inn í verðlag eins og verið hefur raunin á síðustu árum. Þannig virðast kaupmenn tregari til að hækka verð hjá sér í kjölfar gengisveikingar. Þar kann að skipta máli að verðbólguvæntingar eru nú um stundir lægri en þær hafa áður verið hér á landi.

smari@bb.is

Milt veður næstu daga

Samspil smálægða sunnan og vestan við landið og hæðarhryggs fyrir austan veldur því að hvass vindstrengur liggur með suður- og vesturströndinni. Dálítil væta fylgir lægðaganginum, einkum sunnan- og vestanlands, en annars verðu lengst af þurrt og jafn vel bjart veður. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings um veðrið í dag og næstu daga.

Í spá Veðurstofunnar segir að heldur dragi úr vindi í kvöld og nótt, en á morgun leggst í allhvassa eða hvassa austanátt og rignir talsvert suðaustanlands. Á Vestfjörðum verður hægari vindur og að mestu þurrt.  Áfram milt veður fram að helgi, en þá lægir síðan og léttir víða til, en kólnar jafn framt.

smari@bb.is

Hægt að athuga hvort að nafn sé á meðmælendalista

.

Nú getur fólk kannað hvort nafn þess hafi verið skráð á meðmælendalista einhvers framboðanna sem hyggjast eða hugðust bjóða fram í næstu alþingiskosningum. Þetta getur fólk gert með því að fara í pósthólf sín á mínum síðum á Ísland.is. Frá því hefur verið greint síðustu daga að brögð hafa verið á því að nöfn hafa verið á meðmælendalistum án þess að viðkomandi kannist við að hafa skrifað undir og undirskriftirnar falsaðar. Íslenska þjóðfylkingin dró framboð sitt til baka af þeim sökum og hefur málið verið kært til lögreglu.

Á vef Þjóðskrár kemur fram að alls voru 25.669 kennitölur skráðar inn í rafrænt meðmælendakerfi á Ísland.is en þar af voru 1536 skráningar ógildar eða 5,98% vegna þess að viðkomandi var skráður á fleiri en einn meðmælendalista. Þjóðskrá beinir því til þeirra sem finna nafn sitt á meðmælendalista án þess að hafa skrifað undir, að hafa samband við yfirkjörstjórn í sínu kjördæmi.

smari@bb.is

Ísafjarðarbær vill taka yfir málaflokk fatlaðs fólks

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Í tæp sjö ár hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum rekið Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks (BsVest) sem veitir þjónustu til fólks með fötlun. Ísafjarðarbær hefur lagt til við hin sveitarfélögin að bærinn taki yfir málaflokkinn. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að Ísafjarðarbær sjái tækifæri fyrir þjónustu ef öll þjónustusvæðin sem dreifast um Vestfirði verði gert kleift að starfa sem eitt teymi. Hann tekur fram að Ísafjarðarbæ sjái í dag um 80% af þjónustunni sem er veitt innan samlagsins.

„Megin markmiðið er að stjórnunarlega ábyrgðin liggi hjá Ísafjarðarbæ og allir starfmennirnir verði hluti af einu teymi og við teljum að þjónustan verði betri og markvissari. Sá sparnaður sem við sjáum fyrir okkur er á bilinu 30-50 prósent af stöðugildi í stjórnun. Önnur fjárhagsleg hagræðing næst ekki nema með betri samvirkni þjónustunnar og það tekur lengri tíma,“ segir Gísli Halldór.

Aðspurður um viðbrögð annarra sveitarfélaga við tillögu Ísafjarðarbæjar segir Gísli Halldór að umræðan sé fyrst að komast á skrið núna. „Í byrjun nóvember verður haldið málþing um tillöguna og það er verið að ræða þetta innan sveitarstjórna núna. Það er búið boða til aukafundar aðildarsveitarfélaganna í BsVest þann 17. nóvember þar sem tillagan verður tekin fyrir formlega.“

Í tillögunni er gert ráð fyrir að allir starfsmenn sem vinna í málaflokknum á Vestfjörðum verði starfsmenn Ísafjarðarbæjar og sveitarfélögin geri þjónustusamning við Ísafjarðarbæ um að veita þjónustuna.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir