Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2127

Mikilvægt að huga að ryk- og hljóðmengun

Langeyri í Álftafirði.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps leggur ríka áherslu á að staðsetning kalkþörungaverksmiðju í Súðavík verði utan hljóðmengunarmarka og starfsemi verksmiðjunnar verði ávallt undir eftirliti hvað varðar ryk- og hljóðvistarmengun. Þetta kemur fram í umsögn sveitarstjórnar um umhverfismat Íslenska kalkþörungfélagsins ehf. vegna kalkþörunganáms í Ísafjarðardjúpi og vinnslu kalkþörunga í Súðavík.

Gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði á Langeyri og samkvæmt hljóðmengunarkorti í frummatsskýrslunni er hávaðamengun innan marka.

Sveitarstjórn leggur áherslu á efnistaka auðlindarinnar verði ávallt með sjálfbærum hætti og fyllstu varúðar gætt í allri framkvæmd og umgengni og að mótvægisaðgerðir vegna efnistöku auðlindarinnar verði settar fram og sannreyndar.

Í umsögninni kemur einnig fram að Súðavíkurhreppur leggur áherslu á haft verði samband við alla helstu hagsmunaaðila, hvort sem um ræðir efnistökusvæði í Ísafjarðadjúpi eða á Langeyri þar sem verksmiðjan á að rísa.

smari@bb.is

11 prósent meiri afli

Fiskafli íslenskra skipa í september var 125.857 tonn sem er 11% meiri afli en í september 2016. Botnfiskafli nam tæpum 33 þúsund tonnum sem er samdráttur um 8%. Þorskafli dróst saman um 4%, ýsuafli um 5% og afli í ufsa dróst saman um 18% miðað við september í fyrra. Uppsjávarafli nam tæpum 90 þúsund tonnum í september sem er aukning um 21% miðað við september 2016, þar af jókst makrílafli um 32%. Flatfiskaflinn var 1.926 tonn sem er 12% minna en í september 2016. Skel og krabbadýraafli nam 1.198 tonnum  samanborið við 1.096 tonn í september 2016.

Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá október 2016 til september 2017 var 1.133 þúsund tonn sem er 6% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.

Verðmæti afla í september metið á föstu verðlagi var 9,7% minna en í september 2016.

smari@bb.is

Minnir á Kárahnjúkavirkjun

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Umræðan um Hvalár­virkj­un minni um margt á þá sem varð í kring­um Kára­hnjúka. Byggðapóli­tík­inni sé enn beitt af afli til að rétt­læta óaft­ur­kræf­ar fram­kvæmd­ir. Kára­hnjúka­virkj­un naut stuðnings stjórn­mála­manna sem vildu snúa byggðaþróun við með mik­illi inn­spýt­ingu í at­vinnu­lífið á Aust­ur­landi. Þetta er mat Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar, og kemur fram í viðtali í Morgunblaðinu. Síðustu daga hefur Morgunblaððið birt ítarlega umfjöllun um Hvalárvirkjun. Guðmundur Ingi telur að horft til lengri tíma fái hvorki Árnes­hrepp­ur né Vest­f­irðir neina inn­spýt­ingu með Hvalárvirkjun.

„Eins og mál­in líta út núna þá mun Hvalár­virkj­un og teng­ing­ar henn­ar við flutn­ingsnetið engu máli skipta hvað varðar raf­orku­ör­yggi á Vest­fjörðum nema ráðist verði í hring­teng­ingu raf­magns á Vest­fjörðum sem kæm­ist senni­lega aldrei á fyrr en að 15-20 árum liðnum ef vel gengi,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi.

Á aðal­fundi sín­um í vor setti Land­vernd fram hug­mynd um þjóðgarð á svæðinu. Hún var svo kynnt fyr­ir heima­mönn­um á íbúa­fundi í júní. Miðað við reynslu af öðrum þjóðgörðum á Íslandi myndu skap­ast 1-2 heils­árs­störf í upp­hafi auk þess sem ráða þyrfti tölu­verðan fjölda til land­vörslu og fleiri starfa yfir sum­ar­tím­ann. „Það væri því mjög öfl­ug byggðaaðgerð,“ seg­ir Guðmund­ur um mögu­leika til upp­bygg­ing­ar í Árnes­hreppi. „Það er hægt að beita friðlýs­ing­um til að bæði vernda nátt­úr­una og búa til fjöl­breytt at­vinnu­tæki­færi. Svo hún get­ur vissu­lega verið arðbær.“

smari@bb.is

Líkamsræktaraðstaða brýnt heilsumál

Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hvetur bæjaryfirvöld til að vinna áfram að því að tryggja aðgang almennings á Ísafirði að líkamsræktaraðstöðu. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar HSV. Stúdíó Dan á Ísafirði hættir rekstri innan skamms og í ályktun stjórnar HSV kemur fram að mikilvægt sé að tryggja aðgengi íbúanna að líkamsrækt til skemmri tíma og ekki síður að finna framtíðarlausn á málaflokknum. „Gott aðgengi að líkamsræktaraðstöðu allt árið um kring er afar brýnt fyrir heilsu og lífsgæði íbúanna,“ segir í ályktuninni.

Bæjaryfirvöld á Ísafirði hafa verið með til skoðunar með hvaða hætti bærinn geti komið að eða aðstoðað við rekstur á líkamsræktarstöð.

smari@bb.is

Töpuðu fyrsta leiknum

Hafsteinn Már Sigurðsson og Auður Líf Benediktsdóttir

Íslenska U17 landslið kvenna lék sinn fyrsta leik á NEVZA mótinu í Ikast í dag. Þær töpuðu 4. hrinu 23-25 sem minnsti mögulegi munur. Úrslit leiksins voru því 1-3 fyrir sænska landsliðinu en vinna þarf þrjár hrinur til að vinna leikinn. Auður Líf var í byrjunarliðinu og stóð sig afar vel.

Strákarnir í U17 eru byrjaðir að spila við Finna og hafa þegar þetta er skrifað tapað fyrstu hrinu. Hægt er að fylgjast með leikjum mótsins hér.

bryndis@bb.is

Ofanflóðanefnd veitir stuðning vegna Hádegissteins

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða steininn.

Ofanflóðanefnd hefur samþykkt beiðni Ísafjarðarbæjar um fjárstuðning og sérfræðiaðstoð vegna Hádegissteinsins í Hnífsdal. Sérfræðingar Veðurstofunnar töldu í lok sumars að hætta stafaði af steininum sem er þekkt kennileiti ofan byggðarinnar í Hnífsdal. Við eftirlitsferð fundust vísbendingar um að steinninn, sem vegur marga tugi tugi tonna, hefði færst úr stað.

Ofanflóðanefnd mun óska eftir því við Framkvæmdasýslu ríkisins að hún annist það að fá nauðsynlega ráðgjöf til að eyða hættunni sem af steininum stafar og haldi utan um framkvæmdina í samvinnu við Ísafjarðarbæ og starfsmann Ofanflóðasjóðs.

smari@bb.is

Göngin orðin 250 metrar

Mynd: Vegagerðin/framkvæmdaeftirlit

Það er blússandi gangur í Dýrafjarðargöngum og starfsmenn Suðurverks og Metrostav eru komnir 250 m inn í fjallgarðinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Í síðustu viku voru grafnir 73,1 metrar og hraðinn eykst með hverri viku eins og sést á meðfylgjandi mynd hér að neðan. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er berg allgott og nokkuð af vatni hefur verið að koma úr berginu undanfarið, en magnið hefur ekki verið mælt.

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin úr hlíðinni fyrir ofan Mjólkárvirkjun og er af vinnusvæðinu, verkstæði á miðri mynd og skrifstofa efst.  Ofarlega til vinstri sést haugsvæði, þar er nú sett betra  efnið sem kemur úr göngunum til síðari nota en verra efnið fer beint út í fyllingu. Mikilvægt er að flokka efnið á þennan hátt til að nýta það sem best.

smari@bb.is

Heilbrigðiskerfið þarf að virka fyrir fólk

Arna Lára Jónsdóttir

Í lok síðustu viku vakti ungt fólk athygli á þeim mikla aðstöðumun sem felst í því að eiga langveikt barn á landsbyggðinni. Þórir og Guðrún Kristín eru búsett á Ísafirði og eiga soninn Birkir Snær sem er tæplega tveggja ára gamall.  Birkir Snær hefur verið veikur frá fæðingu, og var greindur með krabbamein í apríl í fyrra. Það fylgir því mikið álag og vinna að eiga langveikt barn. Birkir Snær þarf að sækja sína sérhæfðu læknisþjónustu á Landsspítalann, þar er hann í lyfjameðferð og rannsóknum að minnsta kosti einu sinni í mánuði, stundum oftar. Þetta þýðir mikinn ferðakostnað og vinnutap foreldrana, og til að bæta gráu ofan á svart er aðeins greitt fyrir einn fylgdarmann með barninu. Í svona aðstæðum þarf barn á báðum foreldrum sínum að halda og foreldrarnir þurfa hvort á öðru að halda. Þegar fólk þarf að ferðast svona oft til að sækja læknisþjónustu með tilheyrandi vinnutapi og kostnaði fer þetta að taka verulega í budduna hjá öllu venjulegu fólki.  Á síðasta ári fengu þau Þórir og Guðrún Kristín 60% endurgreitt af ferðakostnaði, sem þau voru búin að leggja út fyrir.  Þessu þarf að breyta.

Sjúkratryggingakerfið þarf að virka fyrir fólk og á að jafna aðstöðumun, og gera fólki kleyft að sækja þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni.  Í 1. grein laga um sjúkratryggingar segir að markmiðið með lögunum sé að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Til að uppfylla þetta lagaákvæði þarf augljóslega að hækka endurgreiðslur vegna ferðakostnaðar.

Það er ekki í lagi að fárveik börn geti ekki haft báða foreldra sína hjá sér án þess að þurfa bera megnið af kostnaðinum sjálf.

Ég vil að foreldrar langveikra barna fái að beina kröftum sínum í ummönnun barnanna sinna og hugsa um hvort annað í erfiðu aðstæðum. Þess vegna verðum við að breyta kerfinu og láta það virka fyrir fólk.

Við í Samfylkingunni viljum öfluga, opinbera heilbrigðisþjónustu og vera í fremstu röð þjóða á því sviði. Þjónustan sé öllum aðgengileg óháð efnahag og búsetu og að kröfur um gæði, hagkvæmni og öryggi séu skýrar.

Arna Lára Jónsdóttir

Skipar 2.sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

 

Ný staða með Hvalá og hringtengingu

Fossinn Drynjandi í Hvalá.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við breytingartillögur við aðalskipulag Árneshrepps og tillögu að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun. Bæjarstjórn tekur undir umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar þar sem fram kemur að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. „Með virkjuninni skapast forsenda fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Ótiltæki á Vestfjörðum er í dag með því hæsta sem gerist á landinu og er landshlutanum samfélagslega dýrt, en það er metið á nokkur hundruð milljónir árlega,“ segir í umsögninni

Þá er einnig sagt að með virkjun Hvalár og hringtengingu rafmagns verði komin upp ný staða í raforkumálum á Vestfjörðum „með áður óþekktu raforkuöryggi og reiðuafli sem gefur færi á fjölbreyttum iðnaði sem krefst orku í litlu og meðalstóru magni.“

smari@bb.is

Vegagerðin fái framkvæmdaleyfi strax

Kristinn Bergsveinsson

Tilefni þess að ég fer einu sinni enn að skipta mér af hlutum sem koma mér ekki við að mati margra hér í sveit eru ummæli sveitarstjóra Reykhólahrepps á fundi á Ísafirði um „ótta hennar um málaferli“. Einnig útgáfa Reykhjólahrepps á riti sem nefnist Aðalskipulagsbreyting Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness. Í riti þessu leggur hreppsnefndin fram tvo valkosti. D-1 veglínu með jarðgöngum undir Hjallaháls og hinn kosturinn er Þ-H veglína í gegnum hinn heilaga Teigsskóg. Tveir af fimm nefndarmönnum hafa þegar sagt að þeir eru andvígir Þ-H veglínu í gegnum Teigsskóg og hér vita það allir sem vilja að nefndin er margklofin og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Því gerist ég fífldjarfur og sendi henni eftirfarandi línur í þeirri von að nefndin fari að ná áttum og hafi fólk í fyrirrúmi.

Til sveitarstjórnar Reykhólahrepps:

Breyting á aðalskipulagi Reykjólahrepps felist í því að veglína B færist og verði veglína Þ-H eins og Vegagerðin leggur til í niðurstöðu umhverfismats í nóvember 2016. „Leið Þ-H er besti kosturinn varðandi umferðaröryggi og umhverfisáhrif“, segir í rökum Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leið eftir að fimm leiðir hafa farið í umhverfismat.

Afleggjarar að bæjunum Djúpadal, Gufudal og Fremri-Gufudal verði lagðir bundnu slitlagi og hannaðir fyrir 90 km hraða.

Hugmyndir um B-2 leið og jarðgöng eru og hafa alltaf verið rökleysa. Peningaloforð nú eru einskis verð kosningaloforð. Kostnaður yrði líklega 5-6 milljörðum meiri en Þ-H leið. Öll jarðgöng á Íslandi fara 20-30 prósent fram úr áætluðum kostnaði.

Ég skora á hreppsnefndina að sýna nú kjark og gefa Vegagerðinni strax framkvæmdaleyfi eftir veglínu Þ-H svo útboð geti hafist. Annað er kjarkleysi fyrir stofnanaofbeldi.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal

Nýjustu fréttir