Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 2127

Ofanflóðanefnd veitir stuðning vegna Hádegissteins

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða steininn.

Ofanflóðanefnd hefur samþykkt beiðni Ísafjarðarbæjar um fjárstuðning og sérfræðiaðstoð vegna Hádegissteinsins í Hnífsdal. Sérfræðingar Veðurstofunnar töldu í lok sumars að hætta stafaði af steininum sem er þekkt kennileiti ofan byggðarinnar í Hnífsdal. Við eftirlitsferð fundust vísbendingar um að steinninn, sem vegur marga tugi tugi tonna, hefði færst úr stað.

Ofanflóðanefnd mun óska eftir því við Framkvæmdasýslu ríkisins að hún annist það að fá nauðsynlega ráðgjöf til að eyða hættunni sem af steininum stafar og haldi utan um framkvæmdina í samvinnu við Ísafjarðarbæ og starfsmann Ofanflóðasjóðs.

smari@bb.is

Göngin orðin 250 metrar

Mynd: Vegagerðin/framkvæmdaeftirlit

Það er blússandi gangur í Dýrafjarðargöngum og starfsmenn Suðurverks og Metrostav eru komnir 250 m inn í fjallgarðinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Í síðustu viku voru grafnir 73,1 metrar og hraðinn eykst með hverri viku eins og sést á meðfylgjandi mynd hér að neðan. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er berg allgott og nokkuð af vatni hefur verið að koma úr berginu undanfarið, en magnið hefur ekki verið mælt.

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin úr hlíðinni fyrir ofan Mjólkárvirkjun og er af vinnusvæðinu, verkstæði á miðri mynd og skrifstofa efst.  Ofarlega til vinstri sést haugsvæði, þar er nú sett betra  efnið sem kemur úr göngunum til síðari nota en verra efnið fer beint út í fyllingu. Mikilvægt er að flokka efnið á þennan hátt til að nýta það sem best.

smari@bb.is

Heilbrigðiskerfið þarf að virka fyrir fólk

Arna Lára Jónsdóttir

Í lok síðustu viku vakti ungt fólk athygli á þeim mikla aðstöðumun sem felst í því að eiga langveikt barn á landsbyggðinni. Þórir og Guðrún Kristín eru búsett á Ísafirði og eiga soninn Birkir Snær sem er tæplega tveggja ára gamall.  Birkir Snær hefur verið veikur frá fæðingu, og var greindur með krabbamein í apríl í fyrra. Það fylgir því mikið álag og vinna að eiga langveikt barn. Birkir Snær þarf að sækja sína sérhæfðu læknisþjónustu á Landsspítalann, þar er hann í lyfjameðferð og rannsóknum að minnsta kosti einu sinni í mánuði, stundum oftar. Þetta þýðir mikinn ferðakostnað og vinnutap foreldrana, og til að bæta gráu ofan á svart er aðeins greitt fyrir einn fylgdarmann með barninu. Í svona aðstæðum þarf barn á báðum foreldrum sínum að halda og foreldrarnir þurfa hvort á öðru að halda. Þegar fólk þarf að ferðast svona oft til að sækja læknisþjónustu með tilheyrandi vinnutapi og kostnaði fer þetta að taka verulega í budduna hjá öllu venjulegu fólki.  Á síðasta ári fengu þau Þórir og Guðrún Kristín 60% endurgreitt af ferðakostnaði, sem þau voru búin að leggja út fyrir.  Þessu þarf að breyta.

Sjúkratryggingakerfið þarf að virka fyrir fólk og á að jafna aðstöðumun, og gera fólki kleyft að sækja þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni.  Í 1. grein laga um sjúkratryggingar segir að markmiðið með lögunum sé að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Til að uppfylla þetta lagaákvæði þarf augljóslega að hækka endurgreiðslur vegna ferðakostnaðar.

Það er ekki í lagi að fárveik börn geti ekki haft báða foreldra sína hjá sér án þess að þurfa bera megnið af kostnaðinum sjálf.

Ég vil að foreldrar langveikra barna fái að beina kröftum sínum í ummönnun barnanna sinna og hugsa um hvort annað í erfiðu aðstæðum. Þess vegna verðum við að breyta kerfinu og láta það virka fyrir fólk.

Við í Samfylkingunni viljum öfluga, opinbera heilbrigðisþjónustu og vera í fremstu röð þjóða á því sviði. Þjónustan sé öllum aðgengileg óháð efnahag og búsetu og að kröfur um gæði, hagkvæmni og öryggi séu skýrar.

Arna Lára Jónsdóttir

Skipar 2.sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

 

Ný staða með Hvalá og hringtengingu

Fossinn Drynjandi í Hvalá.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við breytingartillögur við aðalskipulag Árneshrepps og tillögu að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun. Bæjarstjórn tekur undir umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar þar sem fram kemur að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. „Með virkjuninni skapast forsenda fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Ótiltæki á Vestfjörðum er í dag með því hæsta sem gerist á landinu og er landshlutanum samfélagslega dýrt, en það er metið á nokkur hundruð milljónir árlega,“ segir í umsögninni

Þá er einnig sagt að með virkjun Hvalár og hringtengingu rafmagns verði komin upp ný staða í raforkumálum á Vestfjörðum „með áður óþekktu raforkuöryggi og reiðuafli sem gefur færi á fjölbreyttum iðnaði sem krefst orku í litlu og meðalstóru magni.“

smari@bb.is

Vegagerðin fái framkvæmdaleyfi strax

Kristinn Bergsveinsson

Tilefni þess að ég fer einu sinni enn að skipta mér af hlutum sem koma mér ekki við að mati margra hér í sveit eru ummæli sveitarstjóra Reykhólahrepps á fundi á Ísafirði um „ótta hennar um málaferli“. Einnig útgáfa Reykhjólahrepps á riti sem nefnist Aðalskipulagsbreyting Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness. Í riti þessu leggur hreppsnefndin fram tvo valkosti. D-1 veglínu með jarðgöngum undir Hjallaháls og hinn kosturinn er Þ-H veglína í gegnum hinn heilaga Teigsskóg. Tveir af fimm nefndarmönnum hafa þegar sagt að þeir eru andvígir Þ-H veglínu í gegnum Teigsskóg og hér vita það allir sem vilja að nefndin er margklofin og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Því gerist ég fífldjarfur og sendi henni eftirfarandi línur í þeirri von að nefndin fari að ná áttum og hafi fólk í fyrirrúmi.

Til sveitarstjórnar Reykhólahrepps:

Breyting á aðalskipulagi Reykjólahrepps felist í því að veglína B færist og verði veglína Þ-H eins og Vegagerðin leggur til í niðurstöðu umhverfismats í nóvember 2016. „Leið Þ-H er besti kosturinn varðandi umferðaröryggi og umhverfisáhrif“, segir í rökum Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leið eftir að fimm leiðir hafa farið í umhverfismat.

Afleggjarar að bæjunum Djúpadal, Gufudal og Fremri-Gufudal verði lagðir bundnu slitlagi og hannaðir fyrir 90 km hraða.

Hugmyndir um B-2 leið og jarðgöng eru og hafa alltaf verið rökleysa. Peningaloforð nú eru einskis verð kosningaloforð. Kostnaður yrði líklega 5-6 milljörðum meiri en Þ-H leið. Öll jarðgöng á Íslandi fara 20-30 prósent fram úr áætluðum kostnaði.

Ég skora á hreppsnefndina að sýna nú kjark og gefa Vegagerðinni strax framkvæmdaleyfi eftir veglínu Þ-H svo útboð geti hafist. Annað er kjarkleysi fyrir stofnanaofbeldi.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal

Körfuboltabúðir Vestra heiðraðar á þingi UMFÍ

Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, tók hvatningarverðlaununum úr hendi Hauks Valtýssonar, formanns UMFÍ.

Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlaut hvatningarverðlaun UMFÍ 2017 á 50. sambandsþingi UMFÍ sem fram fór á Hótel Hallormsstað um helgina. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði áður en hann afhenti verðlaunin á þinginu að þau væru afhent HSV fyrir öflugar og metnaðarfullar körfuknattleiksbúðir Íþróttafélagsins Vestra á Ísafirði. Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, tók við verðlaununum í lok þings í gær fyrir hönd HSV.

Körfuboltabúðir Vestra hlutu einnig hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar í fyrra og er þetta því í annað sinn sem búðirnar hljóta viðurkenningu af þessum toga. Í frétt á heimasíðu UMFÍ segir: „Búðirnar, sem hófu göngu sína árið 2009, hafa stækkað og eflst ár frá ári og þykja nú einstakar á landsvísu.“

Þess má geta að búðirnar fagna tíu ára afmæli á næsta ári en þær fara fram dagana 5.-10. júní 2018.

smari@bb.is

Níu listar bjóða fram

Frestur til að skila inn framboðslistum fyrir alþingiskosningarnar eftir tæpar tvær vikur rann út á föstudaginn. Níu flokkar verða í framboði í Norðvesturkjördæmi. Þeir eru A-listi Bjartrar Framtíðar, B-listi Framsóknarflokks, C-listi Viðreisnar, D-listi Sjálfstæðisflokks, F-listi Flokks fólksins, M-listi Miðflokks, P-listi Pírata, S-listi Samfylkingar og V-listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Þetta er einu framboði færra en í kosningunum í fyrra. Íslenska þjóðfylkingin og Dögun buðu fram í kosningunum 2016 en bjóða ekki fram í ár. Eitt nýtt framboð býður fram, en það er Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

smari@bb.is

Tveir sigrar um helgina

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Vestri tók á móti nýliðum Gnúpverja í þriðju umferð 1. deildar karla í körfubolta á föstudag. Leikurinn var fjörugur og mikið skorað. Heimamenn rufu hundrað stiga múrinn og gestirnir voru ekki fjarri því en leiknum lauk með sigri Vestra 105 : 92.

Nemanja Knezevic og Nebojsa Knezevic voru atkvæðamestir leikmanna Vestra. Sá fyrrnefndi afrekaði svokallað tröllatvennuna, 21 stig og 22 fráköst auk 6 stoðsendinga og sá síðarnefndi með skoraði 35 stig og náði 8 fráköstum.

Vestri er í þriðja sæti í 1. deild Íslandsmótsins að loknum þremur umferðum, hefur sigrað tvo leiki og tapað einum.

Það er leikið hratt og örugglega í körfunni þessa dagana og í gær var komið að bikarleik gegn Sindra frá Höfn í Hornafirði og var leikið á heimavelli Sindra. Vestri vann öruggan sigur, 68 : 108.

smari@bb.is

Hvalfjarðargöng lokuð í þrjár nætur

Vegna viðhalds og hreingerninga eru Hvalfjarðargöng lokuð aðfaranætur þriðjudags, miðvikudags og fimmtudags í þessari viku, frá miðnætti til kl. 6:00 að morgni. Þetta mun vera árlegur viðburður að vori og hausti og lokunin því hefðbundin.

bryndis@bb.is

Háskólamenntuðum fjölgar

Há­skóla­menntuðum lands­mönn­um á aldr­in­um 25–64 ára held­ur áfram að fjölga en þeir voru rúm 40% í fyrra, alls 68.300. Þeim hef­ur fjölgað stöðugt frá ár­inu 2010 eða um 7,8 pró­sentu­stig. Þeir sem ein­göngu hafa grunn­mennt­un voru 37.200 í fyrra eða 22% í þess­um sama ald­urs­hópi. Þeim fækkaði um 3,4 pró­sentu­stig frá ár­inu á und­an. Þetta kem­ur fram í frétt Hag­stofu Íslands.

Færri íbúar utan höfuðborgarsvæðis með háskólamenntun

Alls hafa 28,5% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 25–64 ára lokið háskólamenntun. Þetta er töluvert lægra hlutfall en hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins á sama aldursbili (47,3%). Flestir sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins hafa lokið starfs- og framhaldsmenntun, eða 38,8% (24.100), en 32,7% hafa einungis lokið grunnmenntun (20.200).

Fleiri konur en karlar á aldrinum 25–64 ára hafa háskólamenntun hvort heldur sem er innan eða utan höfuðborgarsvæðisins. Munurinn er þó meiri utan höfuðborgarsvæðisins en þar hafa 38,5% kvenna lokið háskólamenntun en 18,8% karla.

Talsvert fleiri karlar en konur 25–64 ára hafa eingöngu starfs- og framhaldsmenntun (45% á móti 30%) og fjölgaði nokkuð jafnt milli ára. Nokkuð fleiri konur en karlar hafa hins vegar háskólamenntun í þessum sama aldurshópi (48% á móti 33%). Lítill munur er á kynjunum í þeim hópi landsmanna sem eingöngu hefur grunnmenntun, um 22% í hvorum hópi.

Atvinnuleysi er mest meðal þeirra sem lokið hafa starfs- og framhaldsmenntun

Atvinnulausum á aldrinum 25–64 ára fækkaði í fyrra óháð menntunarstöðu. Flestir þeirra höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun (2,8%) en minnst atvinnuleysi var hjá háskólamenntuðum (1,6%). Atvinnuleysi var 2,3% meðal þeirra sem lokið höfðu grunnmenntun.

Atvinnuþátttaka karla og kvenna á aldrinum 25–64 ára var mest meðal þeirra sem lokið höfðu háskólamenntun. Þannig voru liðlega 95% háskólamenntaðra á vinnumarkaði í fyrra, 91% þeirra sem voru með starfs- og framhaldsmenntun og 81% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir