Síða 2127

Björg fær nýjan bát

Nýr harðbotna slöngubátur Björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri er kominn í hendur björgunarsveitarmanna, en Samskip styðja sveitina með flutningi bátsins þangað frá Bretlandi. Björgunarbáturinn kom með áætlunarskipi Samskipa til Ísafjarðar um miðja þessa viku.

„Já, hann kom með Skaftafellinu núna á miðvikudag,“ segir Valur S. Valgeirsson formaður Björgunarsveitarinnar Bjargar. Bátinn, sem er harðbotna slöngubátur af gerðinni Atlantic 75, kaupir sveitin í gegn um Slysavarnafélagið Landsbjörgu frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu, RNLI, í Bretlandi.

Valur segir vissulega nokkuð fyrirtæki fyrir litla björgunarsveit að ráðast í þessa fjárfestingu, en kostnaður við bátinn sé um sjö milljónir þegar búið sé að búa hann tækjum. „Samskip gerðu vel við okkur í að flytja bátinn til landsins og hafa staðið sig mjög vel,“ segir hann. Sveitin reiði sig við kaupin á stuðning bæði fyrirtækja og einstaklinga. „En þetta náum við að kljúfa með dyggri aðstoð bæði heimamanna og fyrirtækja í kring um okkur.“

Bátur sem sveitin átti fyrir varð fyrir tjóni í sumar og þá segir Valur að ákveðið hafi verið að ráðast í endurnýjun. „Og núna er hann kominn og næstu skref að græja hann upp.“ Tækjum er þá bætt í bátinn og hann búinn undir skipaskoðun.

Valur segir reiknað með því að vígja nýja bátinn 4. nóvember næstkomandi og gefa honum þá nafn. „Við verðum með smá húllúmhæ í kring um þetta, en þá er líka afmælishelgi hjá björgunarsveitinni sem verður 87 ára, var stofnuð 1930.“ Tvö síðustu ár hafa þessa helgi verið haldin „Kótelettukvöld“ en nú verði vígslu nýja bátsins blandað í afmælisfögnuðinn.

smari@bb.is

Gunnar Bragi flyst milli kjördæma

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunn­ar Bragi Sveins­son skip­ar efsta sæti lista Miðflokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi. Gunnar Bragi var oddviti Framsóknarflokksin í Norðvesturkjördæmi frá 2009 en sagði sig úr flokknum fyrir skemmstu í kjölfar klofnings í flokknum. Lengi vel var talið að Gunnar Bragi myndi leiða lista Miðflokksins í Norðvesturkjödæmi en það hlutverk kom í hlut í Bergþórs Ólasonar. Framsóknarflokkurinn svipti hulunni af fleiri oddvitum í dag, en Þorsteinn Sæmundsson skipar efsta sætið í Reykjavíkur S og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir í Reykjavík N. Þorsteinn var þingmaður Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili og Guðfinna borgarfulltrúi flokksins til skamms tíma.

smari@bb.is

Verulega ósátt við Pál Óskar

Vagna Sólveig Vagnsdóttir

Vagna Sólveig Vagnsdóttir, trélistakona á Þingeyri, er ekki allskostar sátt við tónlistarmanninn Pál Óskar Hjálmtýsson. Málið snýst um að fyrr í sumar tilkynnti Páll Óskar að hann ætlaði að dreifa nýjustu breiðskífu sinni persónulega og í byrjun júlí sagði hann aðdáendum sínum að ef þeir pöntuðu plötuna fyrir 14. júlí þá kæmi hann með hana upp að dyrum sjálfur og skipti búseta kaupenda engu máli. Rætt er við Vögnu Sólveigu á Vísi í dag og greinir hún frá svohljóðandi tölvupósti frá Páli Óskari:

„Ég ætlaði að vera svo kúl og dreifa plötunni sjálfur til allra þeirra sem forpöntuðu hana og hlakkaði mikið til að hitta alla.  En sú vinna krefst meiri andlegrar og líkamlegrar orku en mig óraði fyrir og ég verð einfaldlega að játa mig sigraðan. Ég get ekki dreift fleiri plötum. Ég vona að þú getir fyrirgefið mér.”

Vagna Sólveig er verulega sár út í goðið, sem hún hefur haft í hávegum um árabil. „Hann er að plata fólk til að kaupa plötu sem hann er að gefa út. Sagðist ætla að koma og afhenda hana og margir keyptu plötuna bara vegna þess. Nú sendir hann tölvupóst og segist ætla að senda hana í pósti. Hvað kallast svona sölumennska?“ spyr hún.

Hún var búin að undirbúa komu Páls Óskar og ætlaði að færa honum að gjöf útskorna rjúpu, en ekkert verður úr því. „Hann fær rjúpuna ekki úr þessu. Ég gef ekki fólki sem svíkur mig,“ segir Vagna Sólvegi í samtali við blaðamann Vísis.

smari@bb.is

Af hverju þurfum við ný Hvalfjarðargöng?

Ég skrifaði þessa grein í Skessuhornið fyrir nokkrum mánuðum.  En held að hún eigi erindi við fleiri í kjördæminu, því útgjöld til vegamála eru takmörkuð, og því getur stórframkvæmd í vegamálum á einum stað haft áhrif á framkvæmdir annarsstaðar.

Hér fyrir neðan er það sem er sagt, og það sem er rétt í þessu máli.  Ég bendi áhugasömum á að lesa evrópureglurnar.  Það er linkur á þær neðst.

 Umferðarþunginn.

Það sem er sagt:

„Umferðin er orðin svo mikil að göngin anna henni ekki.  Þau standast ekki evrópureglur, og það er oft biðröð þar.“

Það sem er rétt:

Núna fara 8000 bílar um göngin á hverjum degi þegar mest er.   Samkvæmt evrópustöðlum geta svokallaðir 2+1 vegir annað 20000 bílum á hverjum degi.  2+1 vegur er stundum 2 akreinar og stundum ein.  Þannig vegur er á Hellisheiði.  Fegurðin við slíkan veg er að dýrustu kaflarnir geta verið 1 akrein í hvora átt.  Þá venjulega með stálvír á milli akreina.    Slíkur vegur er miklu ódýrari en 2+2 vegur (tvær akreinar í hvora átt).  Ef gerður væri slíkur vegur á kafanum milli Akraness og Reykjavíkur, væri augljóst að göngin yrðu einbreið áfram, en aðrir kaflar á leiðinni yrðu tvíbreiðir.   En nú virðist eiga að byrja á dýrasta kaflanum og tvöfalda hann!

Biðraðirnar í göngunum hverfa þegar gjaldskyldan fellur niður á næsta ári.

Öryggiskröfur.

Það sem er sagt:

„Öryggiskröfur Evrópusambandsins kalla á að göngin verði tvöfölduð.“

Það sem er rétt:

Reglur Evrópusambandsins kveða á um að þegar 2000 bílar fara í hvora átt (4000 á dag), þurfi flóttaleið úr göngunum vegna hættu á eldsvoða.  Flóttaleiðina má gera með manngengum göngum til hliðar við núverandi göng, eða undir veglínunni.  Breidd gangnanna gæti verið 10 sinnum minni en ný bílagöng, og þar af leiðandi allt að 10 sinnum ódýrari.  Það eru séríslenskar reglur (mögulega er Noregur með í því) að það þurfi ekki flóttaleið fyrr en þegar 8000 bíla markinu er náð.  Svo ef þessi göng væru á meginlandi Evrópu, væru þau búin að vera ólögleg í mörg ár.  Ef menn vilja flýta sér að bæta úr öryggismálunum, gera þeir þjónustugöng.  Það er miklu fljótlegra að koma þeim upp en nýjum bílagöngum.

Staðan núna:

Þetta mál virðist vera ótrúlega langt komið í kerfinu.  Vegagerðarmaður sem ég talaði við, sá ekkert nema ný bílagöng.  Kom samt ekki með nein rök gegn þjónustugöngum.  Vegamálastjóri talar um ný bílagöng.  Og þetta er í tillögum vinnuhóps um samgönguáætlun vesturlands 2017 – 2029.  Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna og stjórnarmaður í Speli, er formaður vinnuhópsins.

Niðurlag.

Það er mikilvægt að fjármunir hins opinbera séu notaðir af skynsemi:  Fyrir heildina, en ekki fyrir sérhagsmunahópa.  Því hvet ég þá sem lesa þessa grein, að spyrja sitt þingmannsefni hvaða skoðun hann/hún hafi á þessu máli.

Kveðja, Reynir Eyvindsson, Akranesi

Reglur Evrópusambandsins má finna á þessari slóð:

http://www.reynire.internet.is/blogg/

Vinnutap og húsnæðiskostnaður

Birkir Snær með stóru systur sinni Sigrúnu Þóreyju

Ferðakostnaður foreldra með mikið veik börn var talsvert til umræðu í gær í kjölfar færslu Þóris Guðmundssonar á facebook en það er gríðarlegur kostnaður sem mætir foreldrum sem fylgja börnum sínum í læknismeðferðir til Reykjavíkur. En fyrir utan ferðakostnað þarf að leysa húsnæðismál í Reykjavík meðan dvalið er þar og það er stundum snúið.  Hægt er að sækja um íbúðir hjá Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra barna en alls ekki gefið að til laus íbúð þegar á þarf að halda. Sjúkratryggingar greiða 80% af húsnæðiskostnaði þeirra daga sem barnið er inniliggjandi en ekki meðan beðið er eftir aðgerð eða þegar dvelja þarf nálægt Landspítalanum eftir aðgerðir en það geta verið margir dagar.

Þegar svo háttar til að fleiri börn eru á heimilinu þarf að „setja upp meiriháttar aðgerðarplan“ eins og fjögurra barna móðir orðaði það í færslu á facebook um þau verkefni sem blasa við hennar fjölskyldu vegna læknisferða veika barnsins á heimilinu. Aðeins annað foreldrið fær niðurgreiddan ferðakostnað, aðeins annað foreldrið má vera hjá barninu á spítalanum í einu og því þarf að útvega húsnæði í Reykjavík.

bryndis@bb.is

Fresturinn að renna út

Framboðsfrestur rennur út klukkan tólf á hádegi og þurfa flokkarni að skila framboðslistum til yfirkjörstjórna í hverju kjördæmi. Þjóðskrá hefur sett upp sérstakt kerfi fyrir flokkana svo þeir geti sjálfir farið yfir listana. Auk framboðslista þurfa þeir flokkar sem hyggjast bjóða fram að leggja fram skriflega yfirlýsingu frá kjósendum í hverju kjördæmi, og er fjöldi meðmælenda sem skylt er að afla misjafn eftir kjördæmum. Á kosningaveg dómsmálaráðuneytisins kemur fram að fæsta meðmælendur þarf í Norðvesturkjördæmi eða 240, enda er eru fæstir á kjörskrá í kjördæminu. Flestir kjósendur eru í Suðvesturkjördæmi og þar þarf að minnsta kosti 390 meðmælendur. Enginn kjósandi getur mælt með fleiri en einum framboðslista. Þar kemur fram að skrifi kjósandi sig á fleiri en einn lista verði hann strikaður út á þeim öllum.

smari@bb.is

Þín velferð er mín vegferð

Rannveig Ernudóttir

Ég er að bjóða mig fram til Alþingis, með Pírötum. Viðurkenni ég fúslega að ég er örlítið óttaslegin, enda er ég vel upp alin stúlka sem í skólakerfinu sat stillt og prúð meðan strákarnir fengu athyglina. Stúlka sem ólst upp við það að strákarnir væru klárari og sterkari. Svo hér er ég í dag, að segja skilið við þá ranghugmynd að ég sé ekki nógu klár, að stíga inn í nýjar og ókunnugar aðstæður, af því að ég hef fengið nóg af stöðugleikanum sem stanslaust er haldið fram að sé til staðar.

Það er ekki stöðugleiki að vera kjósa aftur í fjórða sinn á níu árum. Þrjár ríkisstjórnir hafa sprungið áður en að kjörtímabili þeirra hefur verið lokið. Samnefnarinn er bara einn og orsökin er sú sama – spilling.

En þessi pistill á ekki að hamra á því. Þetta er nú þegar skýrt og á allra vörum.

Mig langar til að segja þér frá Pírötum.

Það er kannski ekki margt sem þú veist um Pírata. Kannski vegna þess að Píratar hafa ekki komið sínum málefnum og hugsjónum nógu vel á framfæri. Þú þekkir mögulega ekkert starfið okkar, hvernig við vinnum, málefnahópana eða stefnurnar okkar.

Það sem mig langar til að þú vitir, er að Pírötum er annt um þína velferð. Þú átt rödd hjá Pírötum og þú getur náð í okkur og haft áhrif á hvað við gerum.

Píratar vilja sýna þér kæri kjósandi, hvað stöðugleiki er. Við viljum sýna þér að það er vel hægt að gera vel við alla í þessu landi, að enginn þurfi að líða skort. Píratar líta sem svo á að þingmaður eigi að vera í þjónandi hlutverki gagnvart yfirmönnum sínum, sem ert þú og þjóðin. Þingmaður á að hlusta eftir þínum kröfum sem og þjóðarinnar.

Okkur finnst það sárt að þér sé sagt að hér sé allt í lagi, meðallaun séu góð, enda eru þau 667 þúsund krónur á mánuði, fyrir fullt starf. Því þú veist alveg að þessi tala segir þér bara að hér sé hluti þjóðarinnar á ofurlaunum, sem dregur meðaltalið allt of hátt upp.

Píratar kalla því eftir stuðningi þínum: Við þurfum á þínu atkvæði að halda og óskum eftir gagnkvæmu trausti. Einungis með því eigum við möguleika á að koma á stöðugleika og kalla fram raunverulegar breytingar.

Mikilvægast er fyrir þig að vita að Píratar eru þverskurður af samfélaginu, Píratar eru alls konar:

Píratar eiga afa á ellilífeyri, eiga systir á örorku, eiga atvinnulausa vinkonu, eru nördar, eru ellilífeyrisþegar, eru heilbrigðisstarfsmenn, eru á landsbyggðinni, eru kennarar, eiga unglinga, eru á örorku, eru námsmenn, eru fjölskyldufólk, eiga langveik börn, hafa misst ástvini, eiga börn, eru þunglyndir, elska dýr, eru hraustir, eru sjúklingar, eru í borginni, eru framtakssamir, eru alls staðar.

Píratar eru hér fyrir þig!

Píratar hafa framtíðarsýn og þú ert hluti af henni. Við viljum að þú búir í landi þar sem ríkir sanngirni og réttlæti, að þú búir við velsæld og að lífsgæði þín séu varin.

Það er nefnilega framtíðin okkar.

Rannveig Ernudóttir

Skipar 3. Sæti Pírata í Norðvesturkjördæmi

Vinstri græn stærst í Norðvesturkjördæmi

.

Vinstri græn mælast stærst í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun Stöðvar 2 sem var birt í umræðuþætti í gær með fulltrúum framboða í kjördæminu. Fylgi VG mælist 30,2 prósent en flokkurinn fékk 18,1 prósent í kosningunum fyrir ári. Sjálfstæðisflokkurinn mælist næst stærstur með 26,1 prósent sem er 3,4 prósenta lækkun frá síðustu kosningum. VG og Sjálfstæðisflokkur eru turnarnir í kjördæminu og aðrir flokkar mælast með mun minna fylgi. Samfylkingin mælist með 11 prósent og fer upp um 4,7 prósent milli kosninga, Miðflokkurinn mælist með 10,3 prósent í sinni fyrstu atrennu. Fylgið mun hrynja af Framsóknarflokknum verði niðurstaða kosninganna í takt við skoðanakönnunina. Flokkurinn fékk 20,8 prósent í kosningunum fyrir ári en mælist nú með 6,2% fylgi. Píratar ríða ekki feitum hesti frá könnuninni, mælast með 5,5 prósent samanborið við 10,9 prósent í kosningunum í fyrra. Flokkur fólksins mælist með 3,4 prósent, Viðreisn með 1,4 prósent og Björt framtíð með 1,1 prósent.

smari@bb.is

Miklar rigningar um land allt

Á veðurstofunni er varað við áframhaldandi vatnavöxtum á annesjum á Norðurlandi og aukinni hættu á skriðuföllum. Í athugasemdum veðurfræðings á vedur.is segir  að skil séu að fara yfir landið í dag og að stytta muni upp syðra. Talsverð úrkoma á Ströndum og NV-lands í kvöld. Útlit fyrir talsverða eða mikla úrkomu á annesjum N-til fram laugardagsmorgun.

Norðan og norðvestan 10-18, og rigning norðanlands, talsverð á Ströndum og Mið-Norðurlandi, en styttir upp sunnanlands. Norðvestan 10-20 í kvöld, hvassast við NV-ströndina. Talsverð eða mikil rigning eða slydda um tíma á norðanverðum Tröllaskaga í nótt, en lægir og styttir upp á morgun. SV og V 5-13 annað kvöld, skúrir V-til, en annars þurrt. Hiti víða 3 til 8 stig að deginum, mildast syðst.

Í dag
Laugardagur
Sunnudagur

Á sunnudag verður komin vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað með köflum og dálitlir skúrir eða jafnvel slydduél, en léttskýjað austanlands. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn, en líkur á næturfrosti, einkum inn til landsins.

bryndis@bb.is

Um Þormóðsslysið

Sr. Jakob Á. Hjálmarsson mun á morgun kynna nýútkomna bóka sína um Þormóðsslysið en um bókina var fjallað á bb.is, kynningin er í Bíldudalskirkju og hefst kynningin kl. 14:00. Á sunnudaginn eftir messu mun Sr. Jakob svo vera með upplestur ú bókinni í Ísafjarðarkirkju.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir