Síða 2125

Styrkja samgöngur við sunnanverða Vestfirði

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur beint þeim tilmælum til Vegagerðarinnar að ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs verði fjölgað í vetur í samræmi við óskir heimamanna á sunnanverðum Vestfjörðum. Jafnframt verður bætt við ferðum í flugáætlun milli Bíldudals og Reykjavíkur frá 1. febrúar á næsta ári. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að þetta sé gert til þess að bregðast við miklum vexti í atvinnulífinu á svæðinu og aukinnar þarfar fyrir almenningssamgöngur.

Í fréttinni kemur einnig fram að frá því í lok júlí hafi ráðherra haft til skoðunar að fjölga ferðum yfir Breiðafjörð. Fulltrúar bæjaryfirvalda Vesturbyggðar og atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum áttu síðan fund í september með fulltrúum Vegagerðarinnar og ráðuneytisins þar sem fram komu óskir heimamanna um að styrkja samgöngur við sunnanverða Vestfirði. Var þess óskað að ferðum Baldurs yrði fjölgað. Bætt yrði við morgunferð á föstudögum til að koma fiskafurðum á erlendan markað og bætt við ferð á þriðjudögum. Vegagerðinni hefur verið falið að ganga frá þessum breytingum.

Þá hefur verið óskað eftir að fjölgað verði ferðum í áætlunarflugi milli Bíldudals og Reykjavíkur þannig að morgun- og kvöldferðir verði fimm daga vikunnar í stað einnar ferðar á dag eins og nú er. Er flugfélagið Ernir reiðubúið að bæta við ferðum og hefja þær 1. febrúar næstkomandi. Myndi kostnaður verða kringum 8 milljónir króna fyrir sex mánaða tímabil. Er fjármögnun tryggð með fé sóknaráætlunar Vestfjarða með viðaukasamningi sem gerður er í samræmi við tillögur í Vestfjarðaskýrslu.

smari@bb.is

Veiðigjöldin þrefaldast í Bolungarvík

Veiðigjöld útgerða í Bolungarvík þrefaldast milli ára og verða rúmlega 300 milljónir á yfirstandandi fiskveiðiári. Bolungarvíkurkaupstaður lét gera úttekt út­tekt á áhrif­um veiðigjalda á bæj­ar­fé­lagið en á síðustu fimm fisk­veiðiár­um hafa bol­vísk­ar út­gerðir borgað sam­tals 469 millj­ón­ir króna til rík­is­ins í formi veiðigjalda.

Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar, skrifar í pistli á Facebook að við blasi að veiðigjöld bolvískar útgerða verði 300 milljónir fiskveiðiárinu sem hófst í september og jafngilda um þriðjungi af árstekjum bæjarins. „Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir sem eru að hverfa úr hagkerfinu í Bolungarvík og þessir peningar fara bara beint suður og nýtast ekki til uppbyggingar hér á svæðinu,“ skrifar Baldur Smári.

Í sumar var unnin stefnumörkun um framtíð fiskeldis og þar var lagt til að helmingur auðlindagjalda þeirrar starfsemi fari til uppbyggingar innviða þar sem eldið er stundað. Baldur Smári skrifar um þetta: „Er ekki kominn tími á að helmingur auðlindagjalda sjávarútvegsins renni til þeirra samfélags sem byggja afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu?“

smari@bb.is

Stormur í kvöld

Það verður hvasst víða á landinu í dag og spáð er stormi á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðausturlandi með kvöldinu. Vindur gæti náð fjörutíu metrum á sekúndu við fjöll. Veðurstofa hvetur ferðamenn til að hafa varann á næsta sólarhring. Veðurstofan spáir vaxandi suðvestanátt á Vestfjörðum í dag , 15-23 m/s og súld í kvöld. Hvassast verður á norðanverðum Vestfjörðum. Talsverð rigning um tíma í nótt, en dregur úr vindi og úrkomu í fyrramálið. Suðvestan 5-10 og úrkomulítið upp úr hádegi á morgun. Hiti 3 til 8 stig.

smari@bb.is

Hagnaðurinn hálfur milljarður á 10 árum

Ísfirska fyrirtækið Dress Up Games ehf. hefur hagnast um ríflega hálfan milljarða króna síðastliðinn áratug. Dress Up Games rekur samnefnda leikjavefsíðu þar sem notendur geta klætt dúkkulísur upp í búninga auk fylgihluta. Samanlagðar arðgreiðslur fyrirtækis frá árinu 2009 nema um 350 milljónum króna. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu. Síðustu ár hefur hagnarður fyrirtækisins dregist saman frá því þegar best lét og hagnaðurinn í fyrra var 5,3 milljónir kr.

Stofnandi og eigandi Dress Up Games er Inga María Guðmundsdóttir.

Á vef­síð­unni eru tölvu­leikir þar sem dúkkulísur eru klæddar í föt safnað sam­an. Mark­hóp­ur­inn eru stúlkur í ensku­mæl­andi lönd­um, ekki síst Banda­ríkj­un­um, Bret­landi og Ástr­al­íu. Dress Up Games er síðan með aug­lýs­inga­samn­ing við Google sem tryggir því tekj­ur. Vef­síðan fær millj­ónir inn­lita, og er með tug­millj­ónir flett­inga, í hverjum mán­uði og því hafa tekj­urnar verið mikl­ar.

smari@bb.is

Bæjarins besta 24. tbl. 34. árgangur

24. tbl. 34. árgangur
24. tbl. 34. árgangur

24. tölublað á leið í lúgur

24. tbl. 34. árgangur

Síðasta blað fyrir kosningar er á leið í bréfalúgurnar hér á norðanverðum Vestfjörðum og ber svo sannarlega þess merki að enn og aftur göngum við til kosninga. Blaðið hefur reynt eftir fremsta megni að vera farvegur frambjóðenda til kjósenda og þeir sem ekki hafa komist fyrir í blaðinu fara beint á vefinn. Að mörgu leyti er um endurtekið efni að ræða og var til dæmis leiðarinn að hluta til endurnýttur milli ára.

„Þitt atkvæði skiptir máli er frasi sem þarf að endurtaka í sífellu því með kosningum tökum sameiginlega ákvörðun um hvað það er sem skiptir máli í okkar samfélagi. Þó margir haldi því fram að þeir séu ekki „pólitískir“ hafa allir skoðanir á samfélaginu okkar, með einum eða öðrum hætt svo öðrum frasa sé slegið á loft. Hverjum er slétt sama um aðgang að heilbrigðisþjónustu eða menntun, hver hefur enga skoðun á samgöngum, mokstri og hvað það er dýrt að fljúga suður, hvort við séum með eða móti fiskeldi og hvort ferðaþjónustan sé málið. Að finna svo skoðunum sínum farveg í þeim valkostum sem bjóðast er annað mál og hvort valkostirnir standa svo við stóru orðin er líka annar handleggur. Það er hins vegar ekkert vit í öðru en að reyna, finna framboð sem fellur best að lífsýninni, er trúverðugt og býður til starfans gott og heiðarlegt fólk.“

Næsta blað kemur út þann 9. nóvember.

bryndis@bb.is

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur – VG gefur eftir

Sjálfstæðisflokkurinn yrði stærsti flokkurinn ef kosið væri nú. Hann fengi rúm 24 prósent atkvæða. Vinstri græn yrðu næststærsti flokkurinn með rúm 19 prósent atkvæða. Þetta kemur fram í í nýrri könnun Fréttablaðsins í dag. Samfylkingin fengi 14,3 prósent. Miðflokkurinn er með tæp 10 prósent og Píratar með rúm 9 prósent. Þá er Viðreisn með tæp 8 prósent og Framsóknarflokkurinn með rúm 6 prósent. Flokkur fólksins mælist svo með rúmlega 4 prósenta fylgi og Björt framtíð með tæplega 2 prósent.

Ef það á að gera tilraun til að útnefna „sigurvegara kosninganna“ verði útkoman á þennan veg er augljósast að benda á Samfylkingu og Miðflokkinn. Samfylkingin tæplega þrefaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson afgreiðir sínar fyrstu kosningar með miklum krafti. Og ef það þarf að benda á „tapara kosninganna“ blasir Björt framtíð við en flokkurinn þurrkast út og Framsóknarflokkurinn tapar 5,5 prósentustigum frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur en fylgi hans er sögulega lágt og flokkurinn tapar rúmum fjórum prósentustigum milli kosninga. Þrátt fyrir þriggja prósenta fylgisaukningu VG frá síðustu kosningum vonaðist fólk þar á bær eftir meira fylgi í ljósi skoðanakannana síðustu vikur. Viðreisn tapar um þremur prósentustigum en kemur mun betur út en skoðanakannanir hafa gefið til kynna til þessa.

smari@bb.is

Veiðimenn sýni hófsemi

Rjúpnaveiðar hefjast á morgun og ljóst að margir veiðimenn hafa fengið sig lausa úr vinnu til að halda á fjöll. Í ár er heimilt að veiða 12 daga líkt og í fyrra. Það eru umtalsvert færri dagar en rjúpnaveiðimenn áttu að venjast hér áður fyrr þegar veiðitímabilið stóð í 69 daga. Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til sýna hófsemi og veiða ekki fleiri rjúpur en þörf er á og minnir stofnunin á að sölubann er í gildi á rjúpum og rjúpnaafurðum.

Náttúrufræðistofnun Íslands metur að stofninn þoli veiðar á 57.000 rjúpum og er það aukning frá fyrra ári. Hófsemissjónarmið auka líkurnar á að hægt verði að stunda sjálfbærar rjúpnaveiðar um ókomna tíð. Það skiptir því máli að umgangast þessa náttúruauðlind af virðingu og standa um leið vörð um þau forréttindi sem felast í að geta stundað skotveiðar í íslenskri náttúru. Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengni um landið.

smari@bb.is

Mótmælir niðurskurði til Náttúrustofunnar

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða og telur eðlilegt að framlög hækki til eflingar starfseminni frekar en hitt. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar. Í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram áður en ríkisstjórnin féll er lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna.

Í bókun sveitarstjórnar segir að niðurskurður til þessa málaflokks kemur beint niður á menntatörfum á svæðinu og er þar af leiðandi bein atlaga að menntastörfum á landsbyggðinni. Þar segir enn fremur: „Náttúrustofa Vestfjarða er mikilvægur þáttur í uppbyggingu þess iðnaðar og starfa sem unnið er að á sunnanverðum Vestfjörðum og er þar af leiðandi algerlega ólíðandi að vegið sé að stofnuninni með þessum hætti.“

smari@bb.is

Framsóknargenin

Gauti Geirsson

Það er sagt að ég hafi fæðst sem Framsóknarmaður. Það sé í genunum. Þetta hefur að vísu ekki verið rannsakað mikið og þeir erfðafræðingar sem ég þekki til hafa ekki viljað staðfesta þetta. Annað vafamál í erfðafræðinni er möguleg erfðablöndun laxastofna við Djúp en það sem er ekki hægt að véfengja er að umhverfið mótar manninn.

Langamma sem fæddist á Sæbóli í Aðalvík og ólst þar upp var framsóknarkona. Það má líklega rekja Framsóknarmennskuna til hennar. Hún giftist reyndar bóndasyni frá stórbýlinu Hafrafelli sem var af miklum sjálfstæðisættum en hún var nú ekki eins og strá í vindi, tók ekki upp skoðanir bónda síns heldur sat við sinn keip. Útkoman varð svo sú að flestir hennar synir mótuðust uppí að verða miklir Framsóknar- og samvinnumenn.

Ég ólst upp undir sterkum áhrifum frá einum þeirra bræðra. Það var hugsjónin um samfélagið og samtakamáttinn sem heillaði mig mest í hans lífsviðhorfum. Honum fannst aldrei tiltakamál að fá neitt lánað eða lána til annarra. Naut þess ennfremur ef hann gat hjálpað öðrum. Hann stóð í atvinnurekstri, bæði sjálfstætt og í slagtogi með öðrum. Arðsemiskrafan var ekki há, ef hann og mennirnir höfðu í sig og á var markmiðinu náð. Þetta fannst mér og finnst mér enn einkar eftirsóknarverð lífssýn, sérstaklega á tímum stjarnfræðilegra bónusa fyrir lítið sem ekki neitt.

Samfélögin á Vestfjörðum hafa átt undir högg að sækja allt mitt lífsskeið. Ég upplifði aldrei hina miklu uppgangstíma þegar það voru skuttogarar í hverju þorpi og uppgangur, nýtt orgel í hverri kirkju. Ég ætla ekki að rekja orsakir og afleiðingar hér enda það verið reynt þúsund sinnum með álíka mörgum niðurstöðum. Staðan í dag sem við verðum að horfast í augu við er að Vestfirðir eru kalt svæði efnahagslega, við höfum misst mikið af okkar fyrra þreki og það hefur gerst yfir lengri tíma.

Í erfiðleikum getur verið freistandi að grípa til patent lausna svosem stóriðju en Vestfirðingar hafa staðist slík próf og hafnað slíkum hugmyndum.  Í heimi þar sem okkar stærsta ógn er loftslagsbreytingar, mengun og súrnun sjávar og neysluhyggja, eru gífurleg tækifæri fólgin í því að verða sjálfbært samfélag og um leið fyrirmyndir annarra. Það er hægt.
Tækifærin eru meira að segja beint fyrir framan okkur, sem dæmi um það er umhverfisvæn og samfélagslega sinnuð matvælaframleiðsla í fjörðunumm (Ísafjarðardjúpi þar á meðal), raforkuframleiðsla á völdum fallvötnum með því fororði að hringtengja Vestfirði og ekki síður í sjálfbærri ferðaþjónustu, sauðfjárrækt, nýsköpun og sjávarútvegi.

Til þess að hrinda þessari sýn um sjálfbæra, blómlega og jafnvel kolefnishlutlausa Vestfirði í framkvæmd þarf brennandi áhuga, festu og skýra sýn. Það er ekki nóg að vita af þessum möguleikum og nefna þá í greinarskrifum eða í ræðum á borgarafundum rétt fyrir kosningar. Það þarf að berjast hvern einasta dag innan kerfisins fyrir þeim því þeir komast ekki sjálfkrafa í verk.

Frambjóðendur og forysta Framsóknarflokksins hafa ennfremur talað öll í eina átt hvað varðar þessi stærstu hagsmunamál Vestfirðinga sem talin eru upp hér að framan, eitthvað sem flestir aðrir flokkar geta ekki státað sig af. Ennfremur er það beinlínis í grunnstefnu Framsóknar að tryggja jafnrétti á öllum sviðum, líka jafnrétti til búsetu, atriði sem aðrir jafnaðarflokkar hafa stundum misst augun af.

Umhverfið sem mótaði mig,  hugsjónin og fólkið sem hrífst að henni, eru ástæðurnar fyrir því að ég er Framsóknarmaður. Ég hvet þig kæri kjósandi til þess að leggja okkur lið í komandi baráttu, baráttu fyrir Vestfirði og tryggja Höllu Signý, kjarnakonu úr Bolungarvík inná þing. Árangur áfram gakk!

Gauti Geirsson, 12 sæti Framsóknar í NV kjördæmi og Framsóknarmaður í fjórða ættlið.

Nýjustu fréttir