Bílafloti landsmanna rafvæðist hraðar en nokkurn óraði fyrir þó að rafmagnsbílar séu enn í miklum minnihluta. Rafmagnsbílarnir verða langdrægari með hverju árinu og hægt en bítandi byggist upp net hleðslustöðva á landinu. Fyrr á árinu fékk Vesturbyggð hleðslustöð að gjöf frá Orkusölunni og er stöðin staðsett fyrir utan íþróttamiðstöðina Bröttuhlíð á Patreksfirði. Í vikunni kom Jónas Guðmundsson sýslumaður færandi hendi með skilti til að merkja stöðina, en skiltið er gjöf frá Samgöngufélaginu sem Jónas er í forsvari fyrir.
Hamarsmenn koma í heimsókn
Vestri mætir Hamri í 1. deild karla á heimavelli á morgun föstudaginn. Hamarsmenn eru með öflugt lið og voru nálægt því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild á síðasta tímabili. Vestramenn eru enn taplausir á heimavelli og eru staðráðnir í verja þann árangur með kjafti og klóm gegn Hamri. Þetta verður síðasti heimaleikurinn í bili og næsti leikur verður ekki fyrr en 1. desember og upplagt fyrir stuðningsmenn Vestra að fjölmenna og styðja við bakið á strákunum sem eiga það svo sannarlega skilið eftir góða byrjun í deildinni.
Leikurinn hefst kl. 19.15 og að vanda verður fírað upp í grillinu fyrir leik og boðið upp á hina annáluðu hamborgara.
Gul viðvörun á Ströndum
Gul viðvörun er í gildi á Ströndum og Norðvesturlandi fram undir kvöld, en þar er hvöss sunnanátt með vindhviðum yfir 30 m/s við fjöll. Líkt og greint var frá í gær hefur Veðurstofan tekið upp litakort með veðurviðvörunum og eru viðvaranirnar í gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika veðurs. Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða.
Annars staða á Vestfjörðum verður hægari suðvestanátt í dag, 8-15 m/s með skúrum og hægir í kvöld. Hiti 1 til 8 stig.
Neyðarkall björgunarsveitanna
Í dag hefst árlegt fjáröflunarátak Landsbjargar og stendur fram á laugardag. Björgunarsveitarmenn um allt land munu að vanda selja neyðarkallinn sem í ár er vélsleðakall. Hagnaður af sölunni rennur til björgunarsveita, slysavarnadeilda og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er hann notaður til að efla og styrkja starfið.
Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu.
Veruleg skerðing á óbyggðum víðernum
Athugasemdir bárust frá sextán aðilum og umsagnir frá ellefu stofnunum og sveitarfélögum vegna breytinga á skipulagi Árneshrepps. Skipulagsbreytingarnar snúa fyrst og fremst að gerð vinnuvega um hið fyrirhugaða virkjunarsvæði á Hvalárvirkjunar á Óeigsfjarðarheiði, efnisnámum og uppsetningu vinnubúða. Vegirnir eru hugsaðir til frekari rannsókna á svæðinu.
Landvernd er meðal þeirra sem gerir athugasemdir við aðalskipulagsbreytingar í Árneshreppi og segir að þær uppfylli ekki skilyrði náttúruverndarlaga þar sem engir almannahagsmunir krefjast röskurnar á náttúruverðmætum.
Fyrirhugað virkjunarsvæði er 265,5 ferkílómetrar, auk helgunarsvæðis raflínu og Ófeigsfjarðarvegar. Vinnuvegirnir yrðu samtals 25 kílómetrar að lengd. Þeir yrðu lagðir frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra Hvalárvatni og þaðan að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og ánni Rjúkanda hins vegar. Þá er gert ráð fyrir nýjum efnistökusvæðum í tengslum við vegina. Tvö yrðu á láglendi við Hvalárósa og eitt vestan megin við Neðra-Hvalárvatn, þ.e. uppi á Ófeigsfjarðarheiðinni. Samkvæmt skipulagstillögunum nú er einnig gert ráð fyrir tímabundnum starfsmannabúðum fyrir þrjátíu manns.
Í umsögn Umhverfisstofnunar er einnig vísað í náttúrverndarlög og stofnunin bendir á að óbyggð víðerni innan Árneshrepps á Ströndum myndu skerðast verulega eða um allt að 180 ferkílómetra við gerð vinnuvega og efnisnáma um fyrirhugað virkjanasvæði Hvalárvirkjunar. Skerðing víðerna myndi aukast um 40-60 km² kæmi til uppbyggingar virkjunarinnar. Samkvæmt náttúrverndarlögum á að standa vörð um óbyggð víðerni en þeim fer fækkandi og Umhverfisstofnun segir að þar með ætti verðmæti þeirra svæða sem eftir eru að aukast í samræmi við það og ríkari áhersla að vera á lögð á vernd þeirra.
Lestrarfélagið fyrr og nú
Í Vísindaporti föstudagsins í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um lestrarfélög í Sléttuhreppi fyrr og nú. Andrea Harðardóttir sagnfræðingur og Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, flytja erindið saman en þær eru báðar ættaðar frá Horni í Sléttuhreppi og hafa dvalist þar mikið í gegnum tíðina.
Undir lok 19. aldar var lestrarfélag stofnað í Sléttuhreppi. Starfsemin virðist hafa lognast út af fljótlega en upp úr aldamótunum 1900 var það endureist og starfaði á meðan að hreppurinn var í byggð. Sumarið 2016 var sett upp bókasafn í Gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík. Tilgangurinn með því var m.a. sá að endurvekja starfssemi gamla lestrarfélagsins að einhverju leyti. Í erindinu verður sagt frá því því hvernig sú hugmynd kom upp að endurreisa lestrarfélagið og hvert markmiðið með því sé.
Jóna Benediktsdóttir er aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði en starfar í vetur sem skólastjóri. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi en eiginmaður hennar, Henrý Bæringsson frá Sæbóli í Aðalvík. Á sumrin dvelja þau iðulega á Sæbóli eða á Horni í sumarhúsum fjölskyldna sinna.
Andrea S. Harðardóttir er sagnfræðingur og sögukennari við Menntaskólann á Ísafirði. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi og dvelur þar reglulega á sumrin í sumarhúsi fjölskyldunnar.
Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir.
Oftast strikað yfir nafn Ásmundar Einars
Ásmundur Einar Daðason, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, var oftast strikaður út í þingkosningunum á laugardaginn miðað við þrjá efstu frambjóðendur eða samtals 105 sinnum. Þetta kemur fram í upplýsingum frá yfirkjörstjórn kjördæmisins. Næstur kemur Guðjón S. Brjánsson, oddviti Samfylkingarinnar, með 48 útstrikanir.
Bjarni Jónsson, annar maður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, kemur þar næst með 40 útstrikanir og síðan Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti VG, með 39 útstrikanir. Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðislflokksins, var strikaður út 35 sinnum.
Stefán Vagn Stefánsson, þriðji maður á lista Framsóknarflokksins var strikaður 19 sinnum út, Rúnar Gíslason, þriðji maður á lista VG, 17 sinnum og sama á við um Teit Björn Einarsson, þriðja mann á lista Sjálfstæðisflokksins.
Fimmtán strikuðu yfir nafn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, sem var önnur á lista Framsóknarflokksins, og sama á við um Bergþór Ólason, oddvita Miðflokksins. Nafn Þórdísar Kolbrúnar Reykjfjörð Gylfadóttur, sem var önnur á lista Sjálfstæðisflokksins, var strikað út 14 sinnum.
Fjórir strikuðu út nafn Sigurðar Páls Jónssonar, annars manns á lista Miðflokksins, og jafnmargir nafn Örnu Láru Jónsdóttur, sem var önnur á lista Samfylkingarinnar. Þá strikuðu þrír út nafn Jónínu Bjargar Magnúsdóttur, sem var þriðja á lista sama flokks.
Andri Rúnar í sænska boltann
Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er að öllum líkindum á leið til sænska B-deildarliðsins Helsingborgar frá Grindavík. Andri Rúnar átti hreint stórkostlegt tímabil í sumar og markakóngur Pepsí-deildarinnar og var valinn besti maður deildarinnar. Hann segir í samtali við Vísi að viðræður séu á lokastigi en samningur hans við Grindvíkinga er að renna út. „Það er mjög líklegt. Viðræður við þá eru á lokastigi. Hvað varðar fótboltafræðin finnst mér þetta mest spennandi kosturinn sem er í boði,“ segir Andri Rúnar við Vísi.
Helsinborg er í sjötta sæti sænsku B-deildarinnar þegar að ein umferð er eftir.
Súgfirðingar drjúgir á Airwaves
Það er orðið árlegur viðburður að Súðfirðingar troði upp á Iceland Airwaves og þá jafnvel fleiri en einn og fleiri en tveir. Í vikunni sögðum við frá Between Mountains sem sigraði Músíktilraunir í byrjun árs og spilar á Airwaves þessa dagana. Hljómsveitin Rythmatik er sömuleiðis með tónleika á hátíðinni og er það sennilega í þriðja sinn sem þeir eru þar á dagskrá. Rythmatik sigraði Músíktilraunir árið 2015. Hljómsveitirnar eru tengdar nánum böndum eins og flestir vita. Rythmatikliðarnir Hrafnkell Hugi og Valgeir Skorri Vernaharðssynir eru bræður Kötlu Vigdísar sem er annar helmingur Between Mountains tvíeykisins.
Dagskrá Rythmatik á Iceland Airwaves
Miðvikudagur 1. nóvember
15:30 Viking Brewery Reykjavík (Ægisgarður)
Fimmtudagur 2. Nóvember
17:30 American Bar
19:15 Dillon
Fösturdagur 3. nóvember
17:15 Hitt Húsið
19:00 Drukkstofa Óðins
Laugardagur 4. nóvember
20:30 Hard Rock Café (ON VENUE)
Vestfirðingum fjölgar
Í lok september var íbúafjöldi á Vestfjörðum 6.990 og hafði fjölgað um 80 manns frá sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Mesta fjölgunin var í Ísafjarðarbæ eða um 70 manns og í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 3.690 manns í sveitarfélaginu. Mest fækkaði í Strandabyggð þar sem íbúatalan fór úr 480 í 450 á einu ári.
Frá þriðja ársfjórðungi 2016 til loka sama ársfjórðungs 2017 fjölgaði íbúum í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og Reykhólahreppi en fækkaði í Strandabyggð og Árneshreppi. Íbúafjöldinn stóð í stað í Vesturbyggð, Kaldrananeshreppi og Tálknafjarðarhreppi.
Alls bjuggu 346.750 manns á Íslandi, 176.590 karlar og 170.160 konur, í lok september Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 221.480 manns en 125.270 utan þess. Í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 36.690 erlendir ríkisborgarar á Íslandi. Flestir þeirra eru Pólverjar.