Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2124

Vika í rjúpuna – veiðimenn undirbúi sig

Nú þegar styttist í fyrstu rjúpnaveiðihelgina, en fyrsti veiðidagur er föstudagurinn 27. október næstkomandi, minnir Umhverfisstofnun veiðimenn á að skila inn veiðiskýrslu og sækja um endurnýjun veiðikorts.

Miðað við veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar þá mega vestfirskir rjúpnaveiðimenn ekki búast við gjöfulli vertið. Meginniðurstöður Náttúrufræðistofnunar eru að rjúpnastofninn er í uppsveiflu víðast hvar um land, en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi þar sem stofninn er í lágmarki og á Austurlandi er kyrrstaða eða fækkun. Viðkoma rjúpunnar var ágæt á liðnu sumri og rjúpnafjöldinn í aðdraganda veiðitíma er í meðallagi miðað við síðustu áratugi annars staðar en Vestfjörðum og Suðausturlandi þar sem mjög lítið er af rjúpu.

smari@bb.is

Ferðaþjónusta utan hánnatíma

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er mjög árstíðaskipt atvinnugrein og keppikefli allra sem í ferðaþjónustu starfa að lokka ferðamenn til fjórðungsins utan háannatímans. Til að velta þeim málum upp hefur Markaðsstofa Vestfjarða ásamt Ferðamálasamtökum Vestfjarða boða til ráðstefnu um þróun vörupakka fyrir Vestfirska ferðaþjónustu utan háannar. Ráðstefnan verður á morgun í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Á ráðstefnunni verður meðal annars farið yfir nýútkomna markhópagreiningu Íslandsstofu. Jafnframt verður vinnustofur um áframhaldandi þróun vestfirskra vörupakka.

smari@bb.is

Opið hús á Hlíf

Afmælið verður haldið í Naustinu á Hlíf 2 og allir eru velkomnir.

Eins og mörg undanfarin ár verður Kvenfélagið Hvöt Hnífsdal með opið hús á Hlíf á morgun kl. 20:00

Þar verður boðið uppá kaffiveitingar og skemmtiatriði og að sjálfsögðu eru allir eldri borgarar í bænum velkomnir.

Hér að neðan eru allnokkrar myndir úr safni bb.is sem teknar eru við hin ýmsu tækifæri á Hlíf en af þeim má sjá að oft er gaman á þessum bæ.

 

 

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu

23. tölublað 34. árgangur

23. tölublað Bæjarins besta mun smeygja sér inn um lúgur í dag og á morgun og að þessu sinni er það helgað Birki Snæ, fjölskyldu hans og öllum öðrum veikum einstaklingum landsbyggðarinnar. Birkir Snær er tæplega tveggja ára og berst við alvarlegan sjúkdóm sem er honum og fjölskyldu hans þungbært.

Daglega berast fréttir af gríðarlegum kostnaði sem mætir einstaklingum sem greinast með alvarlega sjúkdóma en það sem mætir veikum einstaklingum af landsbyggðinni er margföld byrði. Foreldrar Birkis Snæs fylgja sínu barni í meðferðir til Reykjavíkur þar sem þjóðarsjúkrahúsið er, ferðunum fylgir bæði vinnutap og ferða- og uppihaldskostnaður sem aðeins að litlu leyti er bætt. Þetta hlýtur að vera alvarlega brot á jafnræði og með ólíkindum að ástand sem þetta hafi verið liðið svo lengi. Það myndi væntanlega heyrast hljóð úr horni ef til dæmis öllum hjartasjúklingum væri gert að ferðast nánast á eigin kostnað á Kópasker eða Flateyri til að leita sér læknismeðferðar en við þetta mega veikir einstaklingar landsbyggðarinnar búa.

Öll framboð í Norðvesturkjördæmi voru beðin um að gera grein fyrir stefnu sinna flokka í þessum málaflokki og þá var ekki verið að spyrja um skoðun þeirra persónulega, það liggur ljóst fyrir að frambjóðendur í þessu kjördæmi gera sér grein fyrir alvarleika málsins, vandinn liggur í að koma málinu í farveg innan sinna flokka, þingmenn eins kjördæmis gera lítið einir.

Í blaðinu má lesa svör Gylfa Ólafssonar í Viðreisn, Evu Pandóru Baldursdóttir Pírata, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í Framsóknarflokknum og Haraldar Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum. Hér er hlekkur á rafræna útgáfu blaðsins. Til viðbótar ritaði Arna Lára Jónsdóttir grein sem birt var á bb.is þann 16. október.

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verður að hafa í för með sér að sjúklingar af landsbyggðinni geti sótt sér læknisþjónustu á Þjóðarsjúkrahúsið, án kostnaðar, rétt eins og aðrir íbúar þessa lands.

Bryndís Sigurðardóttir

Spennandi viðureign í uppsiglingu

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Á morgun taka Vestramenn á móti FSu í 1.deild karla í körfubolta. Leikurinn hefur alla burði til að vera spennandi viðureign enda hafa þessi lið verið fremur jöfn undanfarin ár og leikir þeirra ávallt spennandi. Þótt FSu menn séu enn án sigurs í deildinni, en Vestri enn ósigraður á heimavelli. Vestramenn eru staðráðnir í að halda áfram sigurgöngu sinni á Jakanum á meðan FSu menn eru hungraðir í sinn fyrsta sigur.

Þess má geta að innan raða FSu eru fjórir fyrrum liðsmenn KFÍ, þeir Florijan Jovanov, Haukur og Hlynur Hreinssynir sem og frændi þeirra Ari Gylfason. Svo má einnig nefna að Adam Smári Ólafsson leikmaður Vestra lék um skeið með FSu.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og að vanda verða steiktir hamborgarar og fínerí fyrir leik og því tilvalið að mæta í fyrra fallinu.

smari@bb.is

Bæjarins besta 23. tbl. 34. árgangur

23. tölublað 34. árgangur

BB_23

Árlegt fyrirtækjamót Ívars

Mikið er lagt upp úr búningum á fyrirtækjamóti Ívars.

Á sunnudaginn verður árlegt fyrirtækjamót Ívars í Boccia. Mótið er opið öllum og einu skilyrðin fyrir þátttöku er að vera með lið skipað tveimur einstaklingum. Það geta verið vinnufélag, fjölskyldumeðlimir og ef á þarf að halda geta liðsmenn Ívars fyllt upp í lið. Veittur er farandbikar fyrir fyrsta sæti og að auki verða ýmis aukaverðlaun svo sem fyrir bestu liðsheild, besta búnin og fleira.

Sú nýbreytni verður í ár er að fyrirækjum verður gefinn kostur á að skora á önnur fyriræki og verður séð til þess að þau verði í sama riðli. Mótið verður á sunnudaginn í íþróttahúsinu á Torfnesi og hefst kl. 13.30. Tekið er við skráningum í síma 863 1618 og 893 4393 eða á ivarithrottafelag@gmail.com fram til kl 13 á föstudaginn.

smari@bb.is

Hafró þarf að leigja skip í rækjurannsóknir

Bjarni Sæmundsson RE.

Rækjurannsóknir í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði hafa frestast vegna bilunar í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni RE. Leggja átti af stað í leiðangurinn fyrir rúmri viku þegar bilunin kom upp og er verður skipið úr leik í nokkrar vikur. Bjarni Sæmundsson er kominn vel til ára sinna, var smíðaður í Þýskalandi árið 1970 og afhentur Hafrannsóknastofnun sama ár. Stofnunin hefur bent á það lengi að þörf er á nýju skipi til að leysa Bjarna af til frambúðar. Eins og áður segir getur Hafró bjargað mælingum í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi með leiguskipi en Sigurður Guðjónsson, forstjóri stofnunarinnar, segir í samtali við RÚV að staðið hafi til að mæla rækjur víðar en því verði sleppt núna. „En við höfum meiri áhyggjur af framhaldinu ef bilanir halda áfram að tefja og trufla leiðangra. Skipið er úti í um 200 daga á ári þannig að það verður erfitt að brúa það bil ef það verður mikið úr leik,“ segir Sigurður.

smari@bb.is

Sex laxar úr Mjólká með eldiseinkenni

Sjókvíar í Fossfirði, einum innfjarða Arnarfjarðar.

Hafrannsóknastofnun hefur síðustu vikur fengið tólf laxa úr Mjólká í Arnarfirði og Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi til rannsóknar. Við fyrstu greiningu er talið að sjö laxanna hafi eldiseinkenni, en allir verða þeir sendir í DNA-greiningu. Rætt er við Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra ferskvatnslífríkis á Hafrannsóknastofnun, í Morgunblaðinu í dag.  „Við höfum skoðað ugga og önnur útlitseinkenni fiskanna, einnig hreistursmynstur og í þriðja lagi fá eldisfiskar sem hafa verið bólusettir samgróninga eða örvefi í innyfli. Sjö af löxunum sem við höfum skoðað eru með einkenni eldislaxa. Þá niðurstöðu er eftir að staðfesta með erfðagreiningu,“ segir Guðni. Sex þeirra fiska semhöfðu eldiseinkenni voru úr Mjólká og eins og áður hefur verið greint frá var einn lax úr Laugardalsá.

smari@bb.is

Áhrif sýrustillandi lyfja á krabbamein í kastljósi Vísindaportsins

Óskar Örn Hálfdánarson

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun kynnir ísfirski líffræðingurinn Óskar Örn Hálfdánarson doktorsverkefni sitt þar sem hann er að rannsaka möguleg áhrif sýrustillandi lyfja á krabbameinsfrumur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir krabbameinsæxli er lágt sýrustig sem umlykur krabbameinsfrumur. Ýmislegt bendir til þess að súrt æxlisumhverfi sé mikilvægur þáttur í framþróun krabbameina og í viðnámi frumna gegn krabbameinslyfjameðferðum. Prótónupumpuhemlar (PPI lyf) eru sýrustillandi lyf sem eru mikið notuð á Íslandi. Fyrri rannsóknir gefa vísbendingar um að hægt sé að nýta sýrustillandi virkni þeirra til að hafa áhrif á sýrustigið umhverfis krabbameinsfrumur og hemja æxlisvöxt. Markmiðið með þessu verkefni er að gera faraldsfræðilega rannsókn til þess að kanna möguleg tengsl á milli PPI lyfjanotkunar og krabbameinsáhættu. Doktorsverkefnið er unnið við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Lífvísindasetur Háskóla Íslands.

Óskar Örn er fæddur og uppalinn að mestu leyti á Ísafirði. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Ísafirði, B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og M.S. prófi í líf- og læknavísindum frá sama skóla. Óskar Örn vann meistaraverkefni sitt á frumulíffræðideild rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði sem fól í sér rannsókn á ættlægu brjóstakrabbameini og leit að stökkbreytingum í genum sem gætu útskýrt hækkaða áhættu sumra kvenna á því að greinast með meinið. Undanfarin ár hefur hann starfað fyrir mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík. Vinnan við doktorsverkefnið hófst haustið 2015.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir