Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 2124

Sex laxar úr Mjólká með eldiseinkenni

Sjókvíar í Fossfirði, einum innfjarða Arnarfjarðar.

Hafrannsóknastofnun hefur síðustu vikur fengið tólf laxa úr Mjólká í Arnarfirði og Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi til rannsóknar. Við fyrstu greiningu er talið að sjö laxanna hafi eldiseinkenni, en allir verða þeir sendir í DNA-greiningu. Rætt er við Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra ferskvatnslífríkis á Hafrannsóknastofnun, í Morgunblaðinu í dag.  „Við höfum skoðað ugga og önnur útlitseinkenni fiskanna, einnig hreistursmynstur og í þriðja lagi fá eldisfiskar sem hafa verið bólusettir samgróninga eða örvefi í innyfli. Sjö af löxunum sem við höfum skoðað eru með einkenni eldislaxa. Þá niðurstöðu er eftir að staðfesta með erfðagreiningu,“ segir Guðni. Sex þeirra fiska semhöfðu eldiseinkenni voru úr Mjólká og eins og áður hefur verið greint frá var einn lax úr Laugardalsá.

smari@bb.is

Áhrif sýrustillandi lyfja á krabbamein í kastljósi Vísindaportsins

Óskar Örn Hálfdánarson

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun kynnir ísfirski líffræðingurinn Óskar Örn Hálfdánarson doktorsverkefni sitt þar sem hann er að rannsaka möguleg áhrif sýrustillandi lyfja á krabbameinsfrumur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir krabbameinsæxli er lágt sýrustig sem umlykur krabbameinsfrumur. Ýmislegt bendir til þess að súrt æxlisumhverfi sé mikilvægur þáttur í framþróun krabbameina og í viðnámi frumna gegn krabbameinslyfjameðferðum. Prótónupumpuhemlar (PPI lyf) eru sýrustillandi lyf sem eru mikið notuð á Íslandi. Fyrri rannsóknir gefa vísbendingar um að hægt sé að nýta sýrustillandi virkni þeirra til að hafa áhrif á sýrustigið umhverfis krabbameinsfrumur og hemja æxlisvöxt. Markmiðið með þessu verkefni er að gera faraldsfræðilega rannsókn til þess að kanna möguleg tengsl á milli PPI lyfjanotkunar og krabbameinsáhættu. Doktorsverkefnið er unnið við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Lífvísindasetur Háskóla Íslands.

Óskar Örn er fæddur og uppalinn að mestu leyti á Ísafirði. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Ísafirði, B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og M.S. prófi í líf- og læknavísindum frá sama skóla. Óskar Örn vann meistaraverkefni sitt á frumulíffræðideild rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði sem fól í sér rannsókn á ættlægu brjóstakrabbameini og leit að stökkbreytingum í genum sem gætu útskýrt hækkaða áhættu sumra kvenna á því að greinast með meinið. Undanfarin ár hefur hann starfað fyrir mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík. Vinnan við doktorsverkefnið hófst haustið 2015.

smari@bb.is

Sjálfstæðisflokkur og VG lækka í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi, eða 19,9 prósent, samkvæmt nýrri könnnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórnina. Vinstri græn mælast með 19,1 prósent og þá mælist stuðningur við Samfylkinguna 15,8 prósent. . Könnunin var birt í gær.  Píratar mælast með 11,9 prósent fylgi og Miðflokkurinn með slétt 11 prósent. Þá mælist Framsóknarflokkurinn með 8 prósent og Viðreisn með 6,7 prósent og myndi ná inn á þing fari kosningarnar eftir rúma viku á þessa leið.

Flokkur fólksins sem mælist með 5,3 prósenta fylgi og fylgi Bjartrar framtíðar mælist 1,6 prósent.

Það sem helst vekur athygli við könnunina er að fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna heldur áfram að minnka. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,1% fylgi og Vinstri græn með 21,8% fylgi í síðustu mælingu MMR þann 11. október.

Á sama tíma jókst fylgi Samfylkingarinnar og mælist nú 15,8 prósent, en flokkurinn mældist með 13,0 prósent í síðustu mælingu og 10,4 prósent undir lok september. Stuðningur við Samfylkinguna hefur því aukist um 5,4 prósentustig á innan við mánuði.

Viðreisn má vel við una, en flokkurinn mældist með 3,6 prósent fylgi í könnun MMR fyrir rúmri viku.

smari@bb.is

Húsnæðisvandinn mismunandi eftir landssvæðum

Skortur er á íbúðarhúsnæði um allt land en vandinn er mismunandi eftir landsvæðum. Á meðan ör fólksfjölgun og hæg uppbygging hefur valdið skorti á höfuðborgarsvæðinu, er vandinn á landsbyggðinni víða sá að markaðsverð húsnæðis er undir byggingarkostnaði. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga eru tæki til að koma í veg fyrir að ástand á borð við það sem nú er á húsnæðismarkaði skapist aftur. Þetta er á meðal þess sem fram kom í erindi Sigrúnar Ástu Magnúsdóttur, verkefnastjóra húsnæðisáætlana hjá Íbúðalánasjóði, á Húsnæðisþingi sem haldið var á mánudag.

Þúsundir ungs fólks fastar í foreldrahúsum

Ísland hefur gengið í gegnum sveiflur á húsnæðismarkaði. Tiltölulega stórir árgangar ungs fólks hafa komið inn á fasteignamarkað á undanförnum árum á sama tíma og nýbyggingar hafa ekki verið færri síðan á 6. áratugnum. Um þessar mundir eru búa um 20.000 manns á aldrinum 20-29 ára í foreldrahúsum og hefur sá fjöldi farið vaxandi. Fjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi hefur hækkað undanfarin ár á meðan hann hefur almennt farið lækkandi á hinum Norðurlöndunum. Í dag eru um 2,5 íbúar í hverri íbúð á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum eru um 2 íbúar í hverri íbúð.

Flest sveitarfélög á landinu vinna nú að gerð húsnæðisáætlana í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Markmiðið með húsnæðisáætlunum er að tryggja að fjölgun íbúða í einstökum sveitarfélögum og á landinu öllu sé í takt við mannfjöldaspár og breyttar fjölskyldugerðir. Með þeim hætti er gengið úr skugga um að allir hafi aðgang að öruggu húsnæði við hæfi. 48 sveitarfélög hafa nú hafið vinnu við húsnæðisáætlun og eru 15 þeirra ýmist langt komin eða hafa birt áætlun.

smari@bb.is

 

 

Varð fyrir áreitni sem skattstjóri og sýslumaður

Sigríður Björk Guðjónsdóttir. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segist hafa orðið fyrir öllu því „helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna.“ Þá hafi hún verið ungur skattstjóri og síðar sýslumaður á Ísafirði. Sigríður skrifar pistil á Facebook sem innlegg í #metoo herferðinni sem hófst í kjölfar uppljóstrana um kynferðislega áreitni voldugs framleiðanda kvikmynda og sjónvarpsefnis í Hollywood. Konur um allan heim hafa lýst ógnandi framkomu karla í sinn garð með myllumerkinu metoo.

Á Facebook skrifar Sigríður að konur séu hvergi alveg öruggar um að verða ekki fyrir óumbeðnum og óviðeigandi athugasemdum eða jafnvel snertingum. Lögreglan sem vinnustaður sé ekki þar undanskilin.

Sigríður skrifar: „Þó að sýslumenn teljist nokkuð valdamiklir þá hafði undirrituð þó ekki meiri völd en svo að henni mætti sem ungum skattstjóra, og síðar sýslumanni á Vestfjörðum, allt það helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna. Kannski átti það þátt í að skapa mér skráp og nokkurn vott af harðfylgni en ég hefði þó gjarnan viljað vera laus við þessa reynslu.

Ég hef átt gott samstarf við flesta karlmenn í gegnum tíðina en staðreyndin er samt sú að það er ekki auðvelt fyrir þá að setja sig í spor okkar kvenna. Sú umræða sem kviknað hefur að undanförnu hefur þó vonandi opnað augu margra þeirra fyrir því alvarlega vandamáli sem áreitni gegn konum er.“

smari@bb.is

Rannsaka og skapa

Fab lab Ísafjörður bauð í gær stelpum og konum í smiðjuna sín í tilefni Ada Lovelace dagsins, dagur sem fagnar afrekum kvenna í vísindum. Ada Lovelace var kynnt en hún var enskur stærðfræðingur og er talin vera fyrsti forritarinn, þrívíddarprentarinn er byggður að mörgu leyti upp af hennar uppgötvunum. Ragnheiður Fossdal kennari við Menntaskólann á Ísafirði kynnti kennsluverkfæri sem hún hefur smíðað í þrívíddarprentara Fab lab smiðjunnar og notar í líffræðikennslu í skólanum.

Þórhildur Magnúsdóttir sagði viðstöddum frá skipulagsappi sem hún hefur hannað fyrir nemendur en slímsmiðjan sló í gegn hjá krökkunum.

bryndis@bb.is

Skemmtiferðaskip mikilvægust fyrir Ísafjarðarhöfn

MSC Priziosa við akkeri á Skutulsfirði.

Enginn hafnarstjóður á landinu á eins mikið undir skemmtiferðaskipum og hafnir Ísafjarðarbæjar. Áætlað er að tekjur af skemmtiferðaskipum nemi 44% ef tekjum hafnarsjóðs og er það hæsta hlutfall á landinu. Þetta kemur fram í árlegri úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagsstöðu íslenskra hafna, sem er unnin fyrir Hafnasamband Íslands.

Tólf hafnasjóðir höfðu tekjur af skemmtiferðaskipum á síðasta ári, alls um 662 milljónir króna. Þessar tekjur hafa farið vaxandi undanfarin ár, 2015 námu tekjurnar 560 milljónum og 2014 473 milljónum.

smari@bb.is

Flokkarnir vilja skoða skosku leiðina

Forystumenn stjórnmálaflokkanna eru tilbúnir að skoða skosku leiðina í innanlandsflugi. Þetta kom fram á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun. Skoska leiðin felur í sér að íbúar á af­mörkuðum af­skekkt­um svæðum í Skotlandi fá 50% af­slátt af flug­leiðum til sex áfangastaða, inn­an og utan Bret­lands­eyja. Ríkið stend­ur fyr­ir þessu verk­efni, sem kall­ast ADS, Air Discount Scheme, og setti það á lagg­irn­ar í sam­ræmi við regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins um styrki við jaðarbyggðir.

Skoska ríkið niður­greiðir þessa þjón­ustu til um 70 þúsund not­enda á ári og kostnaður rík­is­ins nem­ur um 16-17 þúsund krón­um á hvern not­anda. Reynslan sýnir að að lang­flest­ir nota niður­greiðsluna til að heim­sækja vini og ætt­ingja, frem­ur en til að sinna öðrum er­ind­um svo sem vinnu.

Frá því verk­efnið var sett á fót í Skotlandi hef­ur farþegum fjölgað á öll­um leiðum þar sem þetta er í gildi og talið að 13% flug­ferðanna hefðu ekki verið farn­ar ef ADS hefði ekki notið við.

smari@bb.is

Að einangra höfuðborg

Jón Þór Þorvaldsson

Flugið er lífæð okkar í viðskiptum við umheiminn og flugið er afar mikilvægur þáttur í samgöngum og byggðastefnu. Flugið er öruggasti og hagkvæmasti ferðamáti sem þekkist enn sem komið er. Hann er einnig sá fljótlegasti ef ferðast þarf um lengri veg. Það er ekki að ástæðulausu að allar borgir sem koma því við, eru að byggja upp flugvelli eða styrkja þá flugvelli í sessi sem þjóna viðkomandi borgum. Nýleg dæmi utan úr heimi sýna að margar borgir telja svo brýnt að haldið sé uppi flugsamgöngum að borgirnar styrkja flugfélög sem tilbúin eru til að þjónusta þá sem þurfa að komast til og frá borgunum.

Nú hefur meirihlutinn í borginni þ.e. Samfylking, VG, Píratar og Björt framtíð róið að því öllum árum að leggja Reykjavíkurflugvöll af. Þrengt að vellinum og stöðvað allar framkvæmdir til viðhalds á mannvirkjum tengdum vellinum. Skilningur þessara flokka á innviðum samfélags kristallast í þessum vinnubrögðum.

Þeim rökum flugvallarandstæðinga hefur verið haldið á lofti að flugvöllurinn þurfi að víkja svo að borgarsamfélagið fái þrifist. Þau rök falla dauð niður um leið og málið er krufið. Til að borgarsamfélag geti dafnað, rétt eins og sjálfstæðar þjóðir, þá eru greiðar samgöngur og aðflutningsleiðir fyrir fólk vörur og þjónustu grundvallaratriði. Enda er það það fyrsta sem gert er í hernaði og stríði, að tryggja samgöngu og flutningsnet eigin herja en eyðileggja samgöngumannvirki og flutningsæðar andstæðinganna. Slíka eyðileggingu er einsdæmi að farið sé í gegn sjálfum sér á friðartímum en er lýsandi fyrir vinnubrögð þeirra sem hafa beitt sér fyrir lokun Reykjavíkurflugvallar.  Þessi vinnubrögð eru aðför að höfuðborginni, landsbyggðinni og að mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarbúsins sem enn eru að vaxa, flugi og ferðaþjónustu.

Miðflokkurinn mun standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og flugvöllurinn fer ekki neitt ef ríkið gefur ekki heimild til þess. Hafi borgin hugsað sér að kæfa völlinn með því að þrengja að honum þannig að ekki sé hægt að starfrækja flug og tengda starfsemi, þá kallar það á lagasetningu af hálfu ríkisins um skipulagsmál höfuðborgarinnar.  Flugvöllurinn er nefnilega ekki einkamál einhvers sveitarfélags sem heitir Reykjavík, hann varðar alla landsmenn þar sem Reykjavík er höfuðborg landsins, Hún ber ábyrgð þar að lútandi. Allir landsmenn eiga rétt á greiðum aðgangi að hátæknisjúkrahúsum, æðstu menntastofnunum og stjórnsýslu landsins á hagkvæmasta og öruggasta hátt sem völ er á.

Flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir millilandaflug og þjónar gríðarlega viðamiklu hlutverki í öryggismálum flugsins. Við megum ekki gleyma að við Íslendingar eru með 7-unda stærsta loftstjórnarrými í heiminum. við hirðum af því arð en berum jafnframt skyldur í þeim efnum er varða leit björgun og neyðarþjónustu. Hlutverk flugvallarins í almannavörnum ætti að vera hverju mannsbarni ljóst sem býr á eldfjallaeyju í norðurhöfum. Það vill gleymast líka að hann er mennta og þekkingarstofnun. Á Reykjavíkurflugvelli eru menntaðir flugmenn, flugvirkjar og flugumferðastjórar. Allt góð og vel launuð störf sem skila sér beint í þjóðarbúið. Flugiðnaðurinn er einn burðarás þjóðarinnar í gjaldeyrisöflun í dag. Ekki mundi nokkrum hugsandi manni detta í hug að loka Háskóla Íslands til að þétta mætti byggð.

Flugvöllurinn og tengd starfsemi veltir milljörðum á ári hverju, skapar mörg hundruð störf og styður við vöxt og nýsköpun bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Miðflokkurinn ætlar að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

X-M

Jón þór Þorvaldsson

3ja sæti Miðflokksins í NV kjördæmi

 

 

 

Stefna á meistaraflokk kvenna

Mynd: Vestri.is

Stjórn Kkd. Vestra og barna- og unglingaráð vinna nú markvisst að því að félagið tefli fram meistaraflokki á ný. Allt bendir til þess að innan örfárra ára verði kominn góður grundvöllur fyrir endurvakningu meistaraflokks kvenna félagsins, en hann var síðast starfræktur vetur 2014-2015. Í gærkvöldi stóð félagið fyrir spjallfundi í Menntaskólanum á Ísafirði og var það liður í undirbúningi verkefnisins.

Stór hópur stúlkna er að ganga upp yngri flokka félagsins og mun hluti þeirra keppa í Stúlknaflokki á næstu leiktíð. Félagið teflir fram liðum í fimm aldursflokkum Íslandsmóts í vetur, alls um fjörutíu stelpur, og hafa liðin sjaldan eða aldrei verið fleiri.

Í gærkvöldi stóð deildin fyrir Stelpuspjalli þar sem kveniðkendur Vestra í 6.-10. bekk komu saman ásamt foreldrum sínum og hlýddu á fyrirlestra um framtíðarsýn félagsins, liðsheild og hvernig maður byggir upp karakter í liði.

Sérstaka athygli vakti fyrirlestur sem Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, liðsmaður í 10. flokki, flutti en hún sagði frá þátttöku sinni á ráðstefnunni „Sýnum karakter“ sem haldin var af ÍSÍ og UMFÍ í september síðastliðnum. Þar var Dagbjört Ósk fulltrúi KKÍ en flestir ráðstefnugestir voru á aldrinum 13-25 ára. Á vefslóð Sýnum karakter er að finna heilmikið efni sem nýtist bæði þjálfurum og iðkendum til uppbyggingar í íþróttum og lífinu almennt.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir