Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2124

Leggja til víðtækar aðgerðir um meðferð kynferðisbrota

Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur skilað lokadrögum að aðgerðaráætlun til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen. Drögin eru nú aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins og er unnt að senda ráðuneytinu umsagnir um áætlunina. Vinna við áætlunina hefur staðið yfir í ár en Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði samráðshópinn í mars 2016 og fól honum að setja fram tillögur um aðgerðir með það að markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Hópurinn átti víðtækt samráð við fagaðila  innan réttarvörslukerfisins, heilbrigðiskerfisins, sem og frjáls félagasamtök sem vinna að málaflokknum, auk fræðasamfélagsins.

María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, er formaður samráðshópsins en ásamt henni sátu í hópnum fulltrúar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands.

Hópurinn skilaði fyrstu drögum til ráðherra í júní 2016 en í kjölfarið voru drögin kynnt ýmsum aðilum og unnið áfram að útfærslu nokkurra verkefna.

Unnið er að framkvæmda- og kostnaðaráætlun og forgangsröðun aðgerða. Er áætlað að samráðshópurinn ljúki störfum og skili lokaskýrslu og framkvæmdaáætlun með ítarlegri greiningu á kostnaðarmati, mælikvörðum og tímaáætlun aðgerða til ráðherra eigi síðar en í árslok 2017.

Víðtækar aðgerðir lagðar til

Aðgerðaáætlunin skiptist í sex kafla og fjallar hver kafli um aðgerðir sem snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Voru aðgerðirnar flokkaðar eftir því hvort hægt væri að ráðast í þær strax á næstu tveimur árum eða hvort aðgerðir kynnu að þarfnast frekari úrvinnslu og athugunar af hálfu ráðuneytisins og krefðust aukins fjármagns eða lagabreytinga.

Mörgum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Má þar nefna sem dæmi samræmingu gátlista og verkferla, styttingu málsmeðferðartíma innan kerfisins, bætt gagnaflæði í réttarvörslukerfinu, vinnu að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og loks að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, sem tók til starfa í febrúar 2017.

Orkumálin komist í efstu deild

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Í einni af heimsóknum mínum til Ísafjarðar nýlega fór ég meðal annars í nokkur fyrirtæki og heyrði þar frá fyrstu hendi hvernig ítrekaðar rafmagnstruflanir valda tjóni sem hleypur auðveldlega á hundruðum þúsunda króna í hvert sinn. Þetta er grátleg staðreynd í landi sem býr við ofgnótt rafmagns.

Afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum var árum saman út úr öllu korti í samanburði við aðra landshluta. Ekki í þriðju eða fjórðu deild heldur í „utandeild”, svo að gripið sé til íþróttamáls.

Landsnet hefur á undanförnum árum sett þrjá milljarða í endurbætur sem hafa skilað töluverðum árangri. Straumleysismínútur forgangsorku fóru þannig úr sex þúsund árið 2012 niður í tvö þúsund 2013, tvö hundruð 2014 og eitt hundrað í fyrra.

En betur má ef duga skal því ennþá vantar talsvert upp á að komast í efstu deild, þar sem suðvesturhorn landsins spilar. Ekki má heldur gleyma því að bætt staða byggir að stórum hluta til á díselvarastöð, sem getur ekki talist ásættanleg lausn til framtíðar í landi endurnýjanlegrar orku.

Tvennt getur komið orkumálum Vestfjarða upp í efstu deild. Í fyrsta lagi aukin orkuframleiðsla innan svæðisins, til að ekki þurfi að treysta eins mikið á bilanagjarna aðflutningsleiðina (Vesturlínu). Vestfirðir þurfa í dag u.þ.b. 40 MW af afli og er aðeins um helmingur þess framleiddur á svæðinu. Í öðru lagi væru það betri tengingar, bæði til og frá svæðinu og innan þess. Sóknarfærin eru mörg á báðum þessum sviðum.

Gangi allt upp með Hvalárvirkjun (55 MW) – sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar hvað sem öllum blaðaskrifum líður – eru helst uppi hugmyndir um að orkan frá henni yrði tengd inn á meginflutningskerfið í Kollafirði. Ekki er talið að sú tenging yrði útsett fyrir sérlega miklum truflunum. Þetta eitt og sér myndi stórbæta afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum því að bilanir á hinni löngu og erfiðu leið alla leið frá Kollafirði suður í Hrútatungu myndu hætta að skipta máli vestan tengipunktsins í Kollafirði. Eftir stæði bilanahætta á erfiðum 40 km kafla frá Kollafirði til Mjólkár en hægt væri að styrkja línuna á þeirri leið verulega frá því sem nú er. Einnig myndu Reykhólasveit, Strandir og Dalir öðlast við þetta mun betra afhendingaröryggi þar sem orkan til þessara svæða gæti nú komið úr tveimur áttum, þ.e. frá Kollafirði og meginflutningskerfinu, sem væri ígildi hringtengingar.

Fleiri virkjanakostir eru á svæðinu, bæði stórir og smáir. Austurgilsvirkjun (35 MW) og Skúfnavatnavirkjun (10 MW) gætu nýtt nýjan tengipunkt innst í Djúpi; sú fyrri er í nýtingarflokki rammaáætlunar og sú síðari fellur ekki undir gildissvið hennar. Utar á fjörðunum, og tiltölulega skammt frá núverandi orkuflutningskerfi, hefur Glámuvirkjun komið til skoðunar, stundum nefnd Hestfjarðarvirkjun. Hún er til í ýmsum misstórum útfærslum og gæti skilað 20 MW eða jafnvel mun meiru skv. eldri útfærslum. Stækkun Mjólkárvirkjunar um 7 MW hefur einnig verið til skoðunar sem og margar smávirkjanir sem saman gætu skilað umtalsverðu afli. Loks má nefna að mjög stór hluti orkunotkunar Vestfjarða fer til húshitunar og því vert að skoða hvort raunhæft sé að setja upp varmadælur til að draga úr þeirri orkunotkun og losa þar með um rafmagn sem væri ekki síður dýrmætt en rafmagn frá nýrri virkjun. Loks er ekki útilokað að jarðhiti finnist sem nýta megi í fyllingu tímans.

Ljóst er af framansögðu að það er vel raunhæft að Vestfirðir verði ekki aðeins sjálfbærir um orku heldur umsvifamikill útflytjandi.

Góðar tengingar skipta líka sköpum eins og áður segir. Landsnet er með margt á prjónunum hvað þetta varðar, meðal annars streng um Dýrafjarðargöng og viðamikið verkefni sem miðar að því að styrkja kerfið allt frá Önundarfirði (Breiðadal) suður til Tálknafjarðar (Keldeyri) með annarri af tveimur útfærslum sem kallaðar hafa verið “áttan” og “hringurinn”. Línuna frá Hrútatungu til Mjólkár mætti styrkja á nokkrum mikilvægum stöðum sem myndi styðja við flutning á orku bæði til svæðisins og frá því. Stóra hringtengingin út Djúpið til Ísafjarðar er auðvitað áfram möguleiki sem verður veginn og metinn þegar þar að kemur.

Ég hef fulla trú á að orkumál Vestfjarða komist í efstu deild. Í því felast gífurlegir hagsmunir fyrir íbúa svæðisins og fyrirtækin sem hér starfa, en einnig þau fyrirtæki sem gætu haslað sér völl hérna á grunvelli meiri og tryggari orku, og skapað þau auknu verðmæti og störf sem eru undirstaða kröftugrar byggðar.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í 23. tbl. Bæjarins besta

Kvennaliðið í 4. sæti

U17 ára landsliðin hafa lokið keppni í NEVZA móti unglinga í IKAST. Stelpurnar jöfnuðu sinn besta árangur með því að enda í 4. sæti mótsins en strákarnir enduðu í 7. sæti. Auður Líf Benediktsdóttir og Hafsteinn Már Sigurðsson úr Vestra voru nánast allan tímann í byrjunarliði.

Úrslitaleikirnir voru í dag þar sem stelpurnar spiluðu við Finnland um þriðja sæti mótsins. Finnar unnu leikinn 3-0 og endaði Ísland því í fjórða sæti mótsins. Danir unnu Svía í úrslitaleiknum einnig 3-0 og hampaði heimaliðið meistaratitlinum í lok móts. Að vanda var draumaliðið verðlaunað og hampaði fyrirliðinn Matthildur Einarsdóttir MVP verðlaununum.

Drengjaliðið var í umspili um 5.-7. sæti í mótinu en tapaði báðum leikjum sínum þar og hafnaði því í sjöunda sæti mótsins. Lið Íslands er ungt að árum og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér enda í góðum höndum þjálfara sinna en þetta er nánast sama lið og spilaði í Evrópukeppni U17 á síðasta ári sem keppti bæði í Danmörku í desember og í Búlgaríu í apríl.

Svíar unnu mótið í drengjaflokki eftir æsispennandi úrslitaleik gegn heimaliði Danmerkur en Finnar unnu til bronsverðlauna eftir sigur á Englandi. David Ahman frá Svíþjóð var MVP drengjamótsins.

Í næstu viku fer Kjartan Óli Kristinsson í Vestra til Englands með U19 landsliðinu.

bryndis@bb.is

Vika í rjúpuna – veiðimenn undirbúi sig

Nú þegar styttist í fyrstu rjúpnaveiðihelgina, en fyrsti veiðidagur er föstudagurinn 27. október næstkomandi, minnir Umhverfisstofnun veiðimenn á að skila inn veiðiskýrslu og sækja um endurnýjun veiðikorts.

Miðað við veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar þá mega vestfirskir rjúpnaveiðimenn ekki búast við gjöfulli vertið. Meginniðurstöður Náttúrufræðistofnunar eru að rjúpnastofninn er í uppsveiflu víðast hvar um land, en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi þar sem stofninn er í lágmarki og á Austurlandi er kyrrstaða eða fækkun. Viðkoma rjúpunnar var ágæt á liðnu sumri og rjúpnafjöldinn í aðdraganda veiðitíma er í meðallagi miðað við síðustu áratugi annars staðar en Vestfjörðum og Suðausturlandi þar sem mjög lítið er af rjúpu.

smari@bb.is

Ferðaþjónusta utan hánnatíma

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er mjög árstíðaskipt atvinnugrein og keppikefli allra sem í ferðaþjónustu starfa að lokka ferðamenn til fjórðungsins utan háannatímans. Til að velta þeim málum upp hefur Markaðsstofa Vestfjarða ásamt Ferðamálasamtökum Vestfjarða boða til ráðstefnu um þróun vörupakka fyrir Vestfirska ferðaþjónustu utan háannar. Ráðstefnan verður á morgun í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Á ráðstefnunni verður meðal annars farið yfir nýútkomna markhópagreiningu Íslandsstofu. Jafnframt verður vinnustofur um áframhaldandi þróun vestfirskra vörupakka.

smari@bb.is

Opið hús á Hlíf

Afmælið verður haldið í Naustinu á Hlíf 2 og allir eru velkomnir.

Eins og mörg undanfarin ár verður Kvenfélagið Hvöt Hnífsdal með opið hús á Hlíf á morgun kl. 20:00

Þar verður boðið uppá kaffiveitingar og skemmtiatriði og að sjálfsögðu eru allir eldri borgarar í bænum velkomnir.

Hér að neðan eru allnokkrar myndir úr safni bb.is sem teknar eru við hin ýmsu tækifæri á Hlíf en af þeim má sjá að oft er gaman á þessum bæ.

 

 

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu

23. tölublað 34. árgangur

23. tölublað Bæjarins besta mun smeygja sér inn um lúgur í dag og á morgun og að þessu sinni er það helgað Birki Snæ, fjölskyldu hans og öllum öðrum veikum einstaklingum landsbyggðarinnar. Birkir Snær er tæplega tveggja ára og berst við alvarlegan sjúkdóm sem er honum og fjölskyldu hans þungbært.

Daglega berast fréttir af gríðarlegum kostnaði sem mætir einstaklingum sem greinast með alvarlega sjúkdóma en það sem mætir veikum einstaklingum af landsbyggðinni er margföld byrði. Foreldrar Birkis Snæs fylgja sínu barni í meðferðir til Reykjavíkur þar sem þjóðarsjúkrahúsið er, ferðunum fylgir bæði vinnutap og ferða- og uppihaldskostnaður sem aðeins að litlu leyti er bætt. Þetta hlýtur að vera alvarlega brot á jafnræði og með ólíkindum að ástand sem þetta hafi verið liðið svo lengi. Það myndi væntanlega heyrast hljóð úr horni ef til dæmis öllum hjartasjúklingum væri gert að ferðast nánast á eigin kostnað á Kópasker eða Flateyri til að leita sér læknismeðferðar en við þetta mega veikir einstaklingar landsbyggðarinnar búa.

Öll framboð í Norðvesturkjördæmi voru beðin um að gera grein fyrir stefnu sinna flokka í þessum málaflokki og þá var ekki verið að spyrja um skoðun þeirra persónulega, það liggur ljóst fyrir að frambjóðendur í þessu kjördæmi gera sér grein fyrir alvarleika málsins, vandinn liggur í að koma málinu í farveg innan sinna flokka, þingmenn eins kjördæmis gera lítið einir.

Í blaðinu má lesa svör Gylfa Ólafssonar í Viðreisn, Evu Pandóru Baldursdóttir Pírata, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í Framsóknarflokknum og Haraldar Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum. Hér er hlekkur á rafræna útgáfu blaðsins. Til viðbótar ritaði Arna Lára Jónsdóttir grein sem birt var á bb.is þann 16. október.

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verður að hafa í för með sér að sjúklingar af landsbyggðinni geti sótt sér læknisþjónustu á Þjóðarsjúkrahúsið, án kostnaðar, rétt eins og aðrir íbúar þessa lands.

Bryndís Sigurðardóttir

Spennandi viðureign í uppsiglingu

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Á morgun taka Vestramenn á móti FSu í 1.deild karla í körfubolta. Leikurinn hefur alla burði til að vera spennandi viðureign enda hafa þessi lið verið fremur jöfn undanfarin ár og leikir þeirra ávallt spennandi. Þótt FSu menn séu enn án sigurs í deildinni, en Vestri enn ósigraður á heimavelli. Vestramenn eru staðráðnir í að halda áfram sigurgöngu sinni á Jakanum á meðan FSu menn eru hungraðir í sinn fyrsta sigur.

Þess má geta að innan raða FSu eru fjórir fyrrum liðsmenn KFÍ, þeir Florijan Jovanov, Haukur og Hlynur Hreinssynir sem og frændi þeirra Ari Gylfason. Svo má einnig nefna að Adam Smári Ólafsson leikmaður Vestra lék um skeið með FSu.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og að vanda verða steiktir hamborgarar og fínerí fyrir leik og því tilvalið að mæta í fyrra fallinu.

smari@bb.is

Bæjarins besta 23. tbl. 34. árgangur

23. tölublað 34. árgangur

BB_23

Árlegt fyrirtækjamót Ívars

Mikið er lagt upp úr búningum á fyrirtækjamóti Ívars.

Á sunnudaginn verður árlegt fyrirtækjamót Ívars í Boccia. Mótið er opið öllum og einu skilyrðin fyrir þátttöku er að vera með lið skipað tveimur einstaklingum. Það geta verið vinnufélag, fjölskyldumeðlimir og ef á þarf að halda geta liðsmenn Ívars fyllt upp í lið. Veittur er farandbikar fyrir fyrsta sæti og að auki verða ýmis aukaverðlaun svo sem fyrir bestu liðsheild, besta búnin og fleira.

Sú nýbreytni verður í ár er að fyrirækjum verður gefinn kostur á að skora á önnur fyriræki og verður séð til þess að þau verði í sama riðli. Mótið verður á sunnudaginn í íþróttahúsinu á Torfnesi og hefst kl. 13.30. Tekið er við skráningum í síma 863 1618 og 893 4393 eða á ivarithrottafelag@gmail.com fram til kl 13 á föstudaginn.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir