Síða 2123

63,3 milljónir til Vestfjarða

Bíldudalsflugvöllur. Bíldudalsvegur er frá flugvellinum og inn Arnarfjörðinn og upp á Dynjandisheiði að Helluskarði.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert viðaukasamninga við sóknaráætlanir þriggja landshlutasamtaka sveitarfélaga, á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Markmiðið er að styrkja sóknaráætlanir framangreindra landshluta með sérstöku framlagi og treysta þannig byggð á tilteknum svæðum.

Í hlut Vestfjarða koma 63,3 milljónir króna og er viðaukasamningurinn byggður á aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði frá desember 2016 og áherslum sóknaráætlunar fyrir Vestfirði 2015-2019. Samningurinn lýtur að eftirfarandi verkefnum:

  • Aukinni tíðni flugs til Bíldudals.
  • Fjarþjónustu í heilbrigðismálum.
  • Sjávarbyggðafræði.
  • Uppbyggingu hitaveitu á Hólmavík.
  • Rannsókn á Álftafjarðargöngum.
  • Lagfæringu á Flateyjarbryggju.

smari@bb.is

Hjartað á réttum stað

Guðjón Brjánsson

Íslendingar ganga til kosninga um helgina eftir skammlífa ríkisstjórn sem starfaði í skugga  spilltrar stjórnmálamenningar. Upplýsingum er haldið frá almenningi, ójöfnuður fer hratt vaxandi. Hagsmunir hinna ríku ráða för en almannahagsmunir að engu hafðir.

Fátæktargildrur

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sínu um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afgerandi skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

Okkar ásetningur er að auka verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi. Við ætlum að stuðla að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.Við ætlum að færa skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.Við viljum tryggja að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum og við leggjum höfuðáherslu á að bæta  lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækka lífeyri og draga verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

Reisum flaggið

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

Við höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum alla áherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.  Við ætlum að draga verulega úr  heilbrigðiskostnaði fólks, ekki síst fjölskyldna á landsbyggðinni og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu. Við munum ráðast í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.

Lykill að framtíðinni

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum á þröskuldi tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að gjörbreytast. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

Við viljum gefa nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.  Við leggjum áherslu á að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, hvort sem er á leikskólastigi eða framhaldsskólastigi. Við leggjum áherslu á að fjármagna háskólana sómasamlega og við munum styðja betur við fjölbreytta framhaldsskóla, ekki síst verknámsbrautir og vinna gegn brottfalli nemenda með markvissum aðgerðum.

 Mannúð

Við höfum kynnt átak gegn ofbeldi, hvort sem það er af kynbundnum toga eða því beitt með öðrum hætti í samfélaginu.  Við viljum líka sýna flóttafólki mannúð og taka aukinn þátt í þessu fjölþjóðlega viðfangsefni og vanda móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.

Bætum lífsgæði – treystum byggðir

Við viljum stórauka fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar og hrinda í framkvæmd kröftugri byggðastefnu.  Við þurfum að taka markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.  Nauðsynlegt er að flýta orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Hverjum er treystandi?
Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Við óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.  Við ætlum að vinna af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs.

Hjartað á réttum stað

Við fáum að nota okkar dýrmæta lýðræðislega rétt eftir fáa daga í kosningum til Alþingis.  Baráttumál okkar jafnaðarmanna eru enn á sömu lund, vörn og sókn fyrir venjulegt fólk en ekki þrönga sérhagsmuni.   Er ekki tækifærið einmitt núna, að taka nýja ákvörðun, ferska og djarfa – já, og láta hjartað ráða för.

Guðjón Brjánsson

Lýðháskólinn fær styrk og auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Stjórn félags um lýðháskóla á Flateyri samþykkti í gær að auglýsa eftir framkvæmdastjóra til að undirbúa stofnun skólans. Félagið mun vinna með Fræðslumiðstöð Vestfjarða að málinu en Fræðslumiðstöðin fékk í gær 5 milljóna kr. framlag frá mennta-og menningarmálaráðuneytinu til að þróa lýðháskóla. Áður hafði félagið fengið styrk frá uppbyggingarsjóði Vestfjarða til verkefnisins.

Framkvæmdastjóri verður með starfsstöð á Flateyri og vinnur að þróun skólans og undirbúningi. Umsóknarfrestur verður til 1. desember og ráðið í stöðuna frá 15. febrúar.

Stjórn félags um stofnun lýðháskóla á Flateyri lýsti jafnframt á fundi sínum yfir sérstakri ánægju með fyrirhugað samstarf við Fræðslumiðstöðina um málið og þakkaði mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt verkefninu sem og öðrum þeim sem að þróun þess hafa komið.

smari@bb.is

Ég fagna!

Daníel Þórarinsson

Ég fagna því að allt ísland fari að virka saman sem ein heild.

Ég fagna því að geta notið fullkominnar læknisþjónustu nær heimabyggð, sem stórlækkar kostnað fólks.

Ég fagna bættri geðheilsugæslu um allt land.

Ég fagna því að vörður verði staðinn um sjávarútveg og landbúnað.

Ég fagna því að starfsöryggi sauðfjárbænda verði tryggt.

Ég fagna því að tryggingagjald, sem kemur verst niður á minni fyrirtækjum, verði lækkað.

Ég fagna því að landið verði allt ljósleiðaravætt.

Ég fagna áherslu á nýsköpun á öllum sviðum og um allt land.

Ég fagna því að skattar verði ekki hækkaðir.

Ég fagna lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á lánum ungs fólks.

Ég fagna aukinni áherslu á iðn- og tækninám á framhalds- og háskólastigi.

Ég fagna því að stuðningur við námsmenn verði lagaður að fyrirkomulagi á Norðurlöndunum.

Ég fagna því að lífeyrissjóðirnir hætti að halda uppi vaxtastigi í landinu og fari að vinna fyrir sér í útlöndum.

Ég fagna því að fjármálakerfi landsins fari að þjónusta almenning en ekki öfugt.

Ég fagna sveigjanleika í starfslokaaldri.

Ég fagna því að lágmarkslífeyrir verði látinn fylgja lágmarkslaunum og tryggi tekjur, sem hægt er að lifa á.

Ég fagna Miðflokknum.

Daníel Þórarinsson

Þrír nýir í Norðvesturkjördæmi

Kjörstaðir verða opnaðir eftir tæpan sólarhring.

Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur 24,5 prósent fylgi í landsvísu í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið og birtist í blaðinu í dag. Vinstri græn eru næst stærst með 20,2 prósent og Samfylkingin kemur þar á eftir með 15,3 prósent fylgi. Þar fyrir neðan er þéttur pakki flokka sem eru undir 10 prósentum. Miðflokkurinn er þeirra stærstur með 9,3 prósent fylgi, þá Píratar með 8,8 prósent. Viðreisn fær 8,3 prósent í könnuninni og Framsóknarflokkur 7,9 prósent. Flokkur fólksins nær ekki manni á þing með sín 4,2 prósent og Björt framtíð rekur lestina með 1,3 prósent.

Horft á Norðvesturkjördæmi þá mun Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, falla af þingi og Framsóknarflokkurinn tapar einu þingsæti í kjördæminu. Bjarni Jónsson nær kjöri sem annar þingmaður Vinstri grænna og sömuleiðis nær Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason inn á þing. Þá verður Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknarflokksins en hann er gjörkunnugur kjördæminu eftir setu á fyrri þingum bæði fyrir Framsóknarflokk og Vinstri græna. Að öðru leyti verður þingmannahópurinn eins skipaður.

smari@bb.is

Þokkalegasta kosningaveður

Það ætti ekki vera vandamál að safna saman atkvæðum á morgun.

Það er leiðindaslagveður í kortunum í dag en á morgun lygnir, að minnsta kosti hér vestan til og þurrt en það er farið að kólna þó ekki sé þetta dæmigert októberveður.

Veðurspámaður á vedur.is segir að það verði suðvestan 15-25 m/s, hvassast norðan til og á Suðausturlandi. Rigning framan af degi, en dregur síðan úr vindi og úrkomu, fyrst norðvestanlands. Vestlæg átt, 5-10 m/s síðdegis og úrkomulítið, en léttir til austanlands í kvöld. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast austan til.

Norðan 8-15 á morgun, hvassast á annesjum. Skýjað með köflum N- og A-lands og él á stöku stað, en annars yfirleitt léttskýjað. Kólnar í veðri og frost víða 0 til 5 stig um kvöldið.

bryndis@bb.is

Vestri og Fjölnir á Jakanum

Vestramenn eru staðráðnir í að halda sigurgöngunni á heimavelli áfram.

Í kvöld mæta Fjölnismenn á Jakann (íþróttahúsið á Torfnesi) í fimmtu umferð Íslandsmótsins í 1. deild. Vestri er enn ósigraður á heimavelli og Vestramenn ætla ekki að gefa það eftir á morgun. Heimamenn eru í þriðja sæti deildarinnar og Fjölnir vermir fimmta sætið. Fjölnismenn eru með ungt og sprækt lið sem er til alls líklegt auk þess sem þeir eru með mjög góðan Bandaríkjamann innan sinna raða. Þá má ekki gleyma að þjálfarinn Falur Harðarson er enginn aukvisi og má því reikna með spennandi leik á morgun.

Leikurinn hefst að vanda kl. 19.15 og grilluðu hamborgararnir verða á sínum stað fyrir leik.

smari@bb.is

Syngjandi flakkari í Gallerí Úthverfu

Á laugardaginn opnar Bjargey Ólafsdóttir sýninguna Syngjandi flakkarinn (tilgangsverkefnið) í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. ,,Fyrir nokkrum árum hitti ég miðil í Buenos Aires. Hún féll í trans og sagði mér að í einu af mínum fyrri lífum hefði ég verið einmana hirðingi sem reikaði um sléttur Síberíu,“ segir Bjargey um sýninguna og bætir við að miðillinn hafi ennfremur sagt að tilgangur núverandi jarðvistar hennar væri að syngja og teikna. „Ef ég myndi einbeita mér að því að syngja og teikna þá myndi ég verða hamingjusöm mannvera og gera aðra hamingjusama. Verkin teiknaði ég syngjandi í gestavinnustofu Nordic Art Association-Malongen í Stokkhólmi sumarið 2017 og sýndi þau fyrst í verkefnarými NKF,“ segir hún.

Bjargey Ólafsdóttir býr og starfar að list sinni í Reykjavík. Hún nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands sem og Myndlistarakademíuna í Helsinki. Hún nam ljósmyndun við Aalto University í Helsinki og kvikmyndagerð við Binger Filmlab í Amsterdam.  Listsköpun Bjargeyjar Ólafsdóttur er ekki bundin við einn listmiðil heldur velur hún sér þann miðil sem henni finnst henta hugmyndinni best hverju sinni. Bjargey fæst við kvikmyndagerð, hljóðverk, gjörninga, teiknar, málar og ljósmyndar.

smari@bb.is

Nýtum kosningarétt okkar

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Tveir dagar í kosningar. Kosningar sem komu nokkuð óvænt til okkar og rifu okkur upp að værum blundi. Mörgum finnst þeir ekki hafa verið teknir alvarlega þegar þeir settu krossinn með sannfæringu á kjörseðilinn fyrir ári.  Hvað er þá til ráða?

Hér í NV kjördæmi höfum við úr að velja níu framboðum sem bjóða fram krafta yfir hundruð einstaklinga, öll til góðra verka skulum við halda. Það er úr vöndu að ráða. Það sem fólk kallar eftir er stöðuleiki í stjórnmálum, fólk setjist niður og hefji samtal um hvernig hægt sé að ná góðum árangri og að þjóðarskútan fari nú að sigla lygnan sjó.
Það er augljóst að núna í þessum kosningum er horft til Framsóknarflokksins sem sterkt afl til að koma inn í ríkisstjórn sem hefur það að leiðarljósi að horfa fram og vera þátttakandi í pólitísku samtali inn á Alþingi. Það hefur sýnt sig í umræðunni undanfarna daga að fólk ber mikið traust til  Sigurðar Inga og Lilju Alfreðsdóttur til góðra verka, því er mikilvægt að þau fái öflugt fylgi inn á þing .

Byggðamál

Það er mjög mikilvægt að kjördæmin eigi sterkar raddir sem skila þeim baráttumálum sem að okkur snúa inn í umræðuna. Hvert landssvæði hefur ákveðna sérþarfir og það er ljóst að við þurfum kröftuga raddir til að standa fyrir þeim. Við erum óhrædd við að benda á að það sérstakar aðgerðir í byggðarmálum að norskri fyrirmynd. Lægri skattar þeirra sem búa á ákveðnum skilgreindum stöðum á landsbyggðinni og líka við viljum fella niður afborgun námslána fyrstu fimm árin fyrir þá sem eru búsettir  á landsbyggðinni.  Þetta eru alvöru hugmyndir sem við viljum tala fyrir.

Hverjar eru kröfur kjósenda til okkar?

  • Við eigum að hlusta.
  • Við eigum að þora.
  • Við eigum að vera áræðin.
  • Við eigum að vera með.

Ég býð mig fram til þátttöku og treysti á að atkvæði þitt kæri kjósandi skili mér inn á Alþingi. Þar sem ég legg mig fram við að taka þátt í samtali og skila rödd okkar inn á Alþingi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Þriggja prósenta atvinnuleysi

Alls voru 3% vinnu­færa ein­stak­linga á Íslandi án at­vinnu í sept­em­ber. Þetta er niðurstaða vinnu­markaðsrann­sókn­ar Hag­stofu Íslands. Sam­kvæmt Vinnu­mála­stofn­un er skráð at­vinnu­leysi í sept­em­ber var 1,8% og minnkaði um 0,1 pró­sentu­stig frá ág­úst. Að meðaltali fækkaði um 158 manns á at­vinnu­leys­is­skrá frá ág­úst.

„Sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stofu Íslands voru að jafnaði 193.500 manns á aldr­in­um 16–74 ára á vinnu­markaði í sept­em­ber 2017, sem jafn­gild­ir 79,6% at­vinnuþátt­töku. Af þeim voru 187.700 starf­andi og 5.900 án vinnu og í at­vinnu­leit. Hlut­fall starf­andi af mann­fjölda var 77,2% og hlut­fall at­vinnu­lausra af vinnu­afli var 3%.

Sam­an­b­urður mæl­inga fyr­ir sept­em­ber 2016 og 2017 sýna að at­vinnuþátt­taka dróst sam­an um 2,7 pró­sentu­stig úr 82,3% í sept­em­ber 2016. Fjöldi starf­andi minnkaði um 1.600 manns og hlut­fall starf­andi af mann­fjölda lækkaði um 2,7 pró­sentu­stig. Fjöldi og hlut­fall at­vinnu­lausra stend­ur hins veg­ar í stað. Alls voru 49.700 utan vinnu­markaður og fjölgaði þeim um 7.800 manns frá því í sept­em­ber 2016 en þá voru þeir 41.900.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir