Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2123

Íslenskur lax fjarskyldur Evrópulaxi

Villtur lax. Mynd: Þorleifur.

Í nýrri grein sem birt var í Vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES Journal of Marine Science, er greint frá niðurstöðum viðamikilla rannsókna á erfðafræði Atlantslax. Rannsóknin var mjög viðamikil, safnað var sýnum úr 26.822 löxum úr 282 vatnakerfum í 13 Evrópulöndum. Tveir íslenskir vísindamenn eru meðhöfundar greinarinnar, þeir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Kristinn Ólafsson sem starfaði fyrir Matís.  Gögnin sýna að íslenskur lax er fjarskyldur öðrum evrópskum laxastofnum. Annars staðar í álfunni greinist laxinn í tvo meginhópa, norðurhóp og suðurhóp. Síðan er hægt að greina lax í erfðahópa eftir svæðum. Með þessum gögnum er unnt að rekja lax sem veiðist í sjó til síns heima, annað hvort eftir landsvæði eða til ákveðinnar áar.

Íslenskur lax skiptist einnig í hópa. Þar eru tveir meginhópar, annar á Norðurlandi, hinn á Vesturlandi. Líklegt er að lax á Suðurlandi myndi þriðja hópinn, en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það. Í flestum laxveiðiám landsins er sérstakur stofn.

smari@bb.is

Viðrar vel til útivistar

Haustlitir á Dynjanda.

Það eru rólegheit í veðurkortum helgarinnar og útlit fyrir ágætis haustveður og upplagt að njóta útivistar um helgina. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar með helgarspánni.

Í dag er suðlæg átt í kortunum og einhver væta nokkuð víða. Vindurinn og úrkoman minnkar þegar líður á daginn og í kvöld verður búið að stytta upp og komið hæglætisveður um allt land. Vegir verða margir blautir eftir daginn og í kvöld og nótt verður semsagt hægur vindur, það rofar til og kólnar. Vegfarendur ættu þá að vera á varðbergi gagnvart hálku.

smari@bb.is

Flutningur sjúkra í uppnámi

Guðjón Brjánsson.

Ein mestu verðmæti hverrar þjóðar er félagsauðurinn sem hún býr yfir. Hér er um að ræða öll þau félög sem sinna margs konar verkefnum til að auka lífsgleði og lífsgæði þjóðarinnar. Íslendingar eru svo lánsamir að þessi eiginleiki nánast liggur í blóðinu, enda hefur lífsbaráttan kennt kynslóðunum að hjálpsemi, samvinna og samkennd eru grundvallaratriði til að lifa af í harðbýlu landi.

Rauði krossinn á Íslandi er eitt þessara félaga. Hann var stofnaður fyrir rúmum níutíu árum og er hluti af stærstu mannúðarhreyfingu heims. Fyrstu verkefnin voru á sviði heilbrigðismála, en urðu síðar fjölþættari. Er bílaöld hófst urðu kaup á sjúkrabifreiðum áhersluverkefni félagsins og deildir stofnaðar víðs vegar um landið til að safna fé og reka sjúkrabifreiðar. Deildirnar öfluðu fjár í heimabyggð til bílakaupa til að tryggja sem best öryggi þeirra sem þyrftu á læknaþjónustu að halda.

Rauði krossinn átti og rak bifreiðarnar, en fyrir um tuttugu árum samdi félagið við stjórnvöld um reksturinn. Þar kom ríkið að honum með fjárframlögum, en Rauði krossinn lagði eignir sínar á móti. Í tuttugu ár hefur þessi rekstur gengið áfallalaust, Rauði krossinn hefur samt ávallt lagt til hans tugi milljóna króna á ári hverju. Má ætla að það framlag félagsins nemi á núvirði um einum milljarði króna.

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Stjórnvöld hafa ekki samið við Rauða krossinn í tvö ár um þessa mikilvægu þjónustu. Bílaflotinn hefur ekki fengið nauðsynlega endurnýjun. Velferðarráðuneytið vill breytingar á rekstrinum. Hvort til stendur að einkavæða hann er ekki ljóst, en tveir síðustu ráðherrar hafa viljað breytt fyrirkomulag.

Rauði krossinn hefur gætt ítrasta hagræðis, öryggis og hagsmuna landsbyggðarinnar, enda eru deildir félagsins vakandi yfir þessum málaflokki. Engar kvartanir eða athugasemdir hafa komið frá stjórnvöldum um reksturinn. Þess vegna er óskiljanlegt að stjórnvöld vilji nú með einhverjum óljósum hætti breyta fyrirkomulagi sem reynst hefur þjóðinni vel.

Guðjón S. Brjánsson,

alþingismaður

Bræður bjóða til tónleika

Sunnudaginn 22. október kl. 16:00  bjóða bræðurnir Maksymilian, Mikolaj og Nikodem Frach Vestfirðingum á skemmtilega og fjölbreytta  tónleika í Hömrum.

Þeir eru ísfirskum tónlistarunnendum að góðu kunnir, hafa víða komið fram, einir og með öðrum, og ávallt vakið mikla athygli fyrir frábæran tónlistarflutning.

Nú  hafa þeir fengið til liðs við sig vini frá Póllandi, Karolinu Marks, Beata Tasarz, og Hanna Nieborak auk þess sem foreldrar þeirra, Janusz og Iwona taka þátt í tónleikunum.

Efnisskráin er metnaðarfull og óvenjuleg. Mikolaj leikur einleik í hinum fagra píanókonsert Chopins  í f-moll nr. 2, Nikodem spilar einleik í fiðlukonsert í a-moll eftir Bach og Maksymilian og Karolina spila tvíelikinn í fiðlukonsert í d-moll BWV 1043 fyrir 2 fiðlur eftir Bach.

Maksymilian Haraldur er 21 árs, lauk framhaldsprófi með glæsibrag frá Tónlistarskóla Ísafjarðar fyrir nokkrum árum, fór svo í Listaháskóla Íslands þar sem hann var nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann fór sem skiptinemi til Póllands og stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Kraków. Mikolaj Ólafur, sem er aðeins 17 ára, lauk framhaldsnámi í ipíanóleik sl. vor og hélt þá eftirminnilega tónleika í Hömrum. Hann hefur verið við píanónám í Póllandi undanfarna mánuði, en er nú kominn heim aftur. Yngsti bróðirinn, Nikodem Júlíus, 15 ára,  stundar fiðlunám hjá föður sínum við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Allir eru velkomnir á tónleika þessararar músíkölsku fjölskyldu og er aðgangur ókeypis. Frjáls framlög í ferðasjóð hljóðfæraleikaranna eru vel þegin.

Þess má geta að í næstu viku verða tónleikarnir endurteknir á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið i tónleikasal Tónlistarskólans í Garðabæ við Kirkjulund 11. Tónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 26.október og hefjast kl.19.30 og eru öllum opnir.

Kosningapróf

RUV býður upp á próf sem á að sýna þér þann frambjóðanda í þínu kjördæmi sem næst þér stendur í skoðunum. Það voru um 80 þúsund manns sem tóku prófið í fyrra og en á vef RUV er þó tekið fram að þetta sé nú meira til gamans gert.

Prófið byggir á afstöðu fimm efstu frambjóðendum á hverjum lista stjórnmálaflokkanna til ákveðinna fullyrðinga. Þegar þetta er skrifað eiga 60 frambjóðendur enn eftir að svara kosningaprófinu.

Kjósendur geta tekið prófið og séð á niðurstöðum þess hvernig afstaða þeirra til fullyrðinganna passar við afstöðu frambjóðendanna annars vegar og stefnu stjórnmálaflokkanna hins vegar.

Prófið má nálgast hér.

bryndis@bb.is

Alvarlegt bílslys í Álftafirði

Einn maður slasaðist alvarlega í bílveltu í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi í gærkvöld. Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum voru kallaðar út á tíunda tímanum þar sem maður á leið til Ísafjarðar skilaði sér ekki. Björgunarsveitarfólk hélt til leitar og fann bíllinn utan vegar í Álftafirðinum á ellefta tímanum. Einn maður var í bílnum og var hann fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug vestur og sótti hinn slasaða.

Þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi á þriðja tímanum í nótt. Meiðsl ökumannsins voru alvarleg, en hann var þó með meðvitund þegar hann var fluttur suður.

Á fjórða tug björgunarsveitarmanna auk lögreglu og sjúkraflutningamanna tóku þátt í aðgerðum kvöldsins. Tildrög slyssins eru óljós.

smari@bb.is

Farþegafjölgun í innanlandsflugi

Nærri fjórtán þúsund fleiri farþegar nýttu sér ferðir frá innanlandsflugvöllunum á fyrri helmingi ársins og nam heildarfjöldinn 385 þúsundum. Hlutfallslega var aukningin langmest á Akureyri eða um tíund en samdrátturinn mestur á Húsavík og í Vestmannaeyjum eða rúmlega 13 prósent samkvæmt nýjum tölum frá Isavia sem turisti.is birtir. Þar sem flestar ferðir eru til og frá Reykjavík þá stóð flugvöllurinn í Vatnsmýri undir rúmlega helmingi farþegafjöldans og þar fjölgaði ferðum um 2,3% fyrstu sex mánuðina en á landsvísu nam aukningin 3,5%. Viðbótin á fyrri helmingi síðasta árs var nærri tvöfalt meiri eða 6,7%.

Á Ísafjarðarflugvelli jókst farþegafjöldinn lítillega, eða um 1,7 prósent. Fór úr 15.978 farþegum á fyrrihluta 2016 í 16.256 á þessu ári.

Farþegafjöldi á Ísafjaðrarflugvelli fyrstu sex mánuði hvers ár. Mynd: turisti.is

smari@bb.is

Leggja til víðtækar aðgerðir um meðferð kynferðisbrota

Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur skilað lokadrögum að aðgerðaráætlun til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen. Drögin eru nú aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins og er unnt að senda ráðuneytinu umsagnir um áætlunina. Vinna við áætlunina hefur staðið yfir í ár en Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði samráðshópinn í mars 2016 og fól honum að setja fram tillögur um aðgerðir með það að markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Hópurinn átti víðtækt samráð við fagaðila  innan réttarvörslukerfisins, heilbrigðiskerfisins, sem og frjáls félagasamtök sem vinna að málaflokknum, auk fræðasamfélagsins.

María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, er formaður samráðshópsins en ásamt henni sátu í hópnum fulltrúar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands.

Hópurinn skilaði fyrstu drögum til ráðherra í júní 2016 en í kjölfarið voru drögin kynnt ýmsum aðilum og unnið áfram að útfærslu nokkurra verkefna.

Unnið er að framkvæmda- og kostnaðaráætlun og forgangsröðun aðgerða. Er áætlað að samráðshópurinn ljúki störfum og skili lokaskýrslu og framkvæmdaáætlun með ítarlegri greiningu á kostnaðarmati, mælikvörðum og tímaáætlun aðgerða til ráðherra eigi síðar en í árslok 2017.

Víðtækar aðgerðir lagðar til

Aðgerðaáætlunin skiptist í sex kafla og fjallar hver kafli um aðgerðir sem snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Voru aðgerðirnar flokkaðar eftir því hvort hægt væri að ráðast í þær strax á næstu tveimur árum eða hvort aðgerðir kynnu að þarfnast frekari úrvinnslu og athugunar af hálfu ráðuneytisins og krefðust aukins fjármagns eða lagabreytinga.

Mörgum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Má þar nefna sem dæmi samræmingu gátlista og verkferla, styttingu málsmeðferðartíma innan kerfisins, bætt gagnaflæði í réttarvörslukerfinu, vinnu að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og loks að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, sem tók til starfa í febrúar 2017.

Orkumálin komist í efstu deild

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Í einni af heimsóknum mínum til Ísafjarðar nýlega fór ég meðal annars í nokkur fyrirtæki og heyrði þar frá fyrstu hendi hvernig ítrekaðar rafmagnstruflanir valda tjóni sem hleypur auðveldlega á hundruðum þúsunda króna í hvert sinn. Þetta er grátleg staðreynd í landi sem býr við ofgnótt rafmagns.

Afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum var árum saman út úr öllu korti í samanburði við aðra landshluta. Ekki í þriðju eða fjórðu deild heldur í „utandeild”, svo að gripið sé til íþróttamáls.

Landsnet hefur á undanförnum árum sett þrjá milljarða í endurbætur sem hafa skilað töluverðum árangri. Straumleysismínútur forgangsorku fóru þannig úr sex þúsund árið 2012 niður í tvö þúsund 2013, tvö hundruð 2014 og eitt hundrað í fyrra.

En betur má ef duga skal því ennþá vantar talsvert upp á að komast í efstu deild, þar sem suðvesturhorn landsins spilar. Ekki má heldur gleyma því að bætt staða byggir að stórum hluta til á díselvarastöð, sem getur ekki talist ásættanleg lausn til framtíðar í landi endurnýjanlegrar orku.

Tvennt getur komið orkumálum Vestfjarða upp í efstu deild. Í fyrsta lagi aukin orkuframleiðsla innan svæðisins, til að ekki þurfi að treysta eins mikið á bilanagjarna aðflutningsleiðina (Vesturlínu). Vestfirðir þurfa í dag u.þ.b. 40 MW af afli og er aðeins um helmingur þess framleiddur á svæðinu. Í öðru lagi væru það betri tengingar, bæði til og frá svæðinu og innan þess. Sóknarfærin eru mörg á báðum þessum sviðum.

Gangi allt upp með Hvalárvirkjun (55 MW) – sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar hvað sem öllum blaðaskrifum líður – eru helst uppi hugmyndir um að orkan frá henni yrði tengd inn á meginflutningskerfið í Kollafirði. Ekki er talið að sú tenging yrði útsett fyrir sérlega miklum truflunum. Þetta eitt og sér myndi stórbæta afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum því að bilanir á hinni löngu og erfiðu leið alla leið frá Kollafirði suður í Hrútatungu myndu hætta að skipta máli vestan tengipunktsins í Kollafirði. Eftir stæði bilanahætta á erfiðum 40 km kafla frá Kollafirði til Mjólkár en hægt væri að styrkja línuna á þeirri leið verulega frá því sem nú er. Einnig myndu Reykhólasveit, Strandir og Dalir öðlast við þetta mun betra afhendingaröryggi þar sem orkan til þessara svæða gæti nú komið úr tveimur áttum, þ.e. frá Kollafirði og meginflutningskerfinu, sem væri ígildi hringtengingar.

Fleiri virkjanakostir eru á svæðinu, bæði stórir og smáir. Austurgilsvirkjun (35 MW) og Skúfnavatnavirkjun (10 MW) gætu nýtt nýjan tengipunkt innst í Djúpi; sú fyrri er í nýtingarflokki rammaáætlunar og sú síðari fellur ekki undir gildissvið hennar. Utar á fjörðunum, og tiltölulega skammt frá núverandi orkuflutningskerfi, hefur Glámuvirkjun komið til skoðunar, stundum nefnd Hestfjarðarvirkjun. Hún er til í ýmsum misstórum útfærslum og gæti skilað 20 MW eða jafnvel mun meiru skv. eldri útfærslum. Stækkun Mjólkárvirkjunar um 7 MW hefur einnig verið til skoðunar sem og margar smávirkjanir sem saman gætu skilað umtalsverðu afli. Loks má nefna að mjög stór hluti orkunotkunar Vestfjarða fer til húshitunar og því vert að skoða hvort raunhæft sé að setja upp varmadælur til að draga úr þeirri orkunotkun og losa þar með um rafmagn sem væri ekki síður dýrmætt en rafmagn frá nýrri virkjun. Loks er ekki útilokað að jarðhiti finnist sem nýta megi í fyllingu tímans.

Ljóst er af framansögðu að það er vel raunhæft að Vestfirðir verði ekki aðeins sjálfbærir um orku heldur umsvifamikill útflytjandi.

Góðar tengingar skipta líka sköpum eins og áður segir. Landsnet er með margt á prjónunum hvað þetta varðar, meðal annars streng um Dýrafjarðargöng og viðamikið verkefni sem miðar að því að styrkja kerfið allt frá Önundarfirði (Breiðadal) suður til Tálknafjarðar (Keldeyri) með annarri af tveimur útfærslum sem kallaðar hafa verið “áttan” og “hringurinn”. Línuna frá Hrútatungu til Mjólkár mætti styrkja á nokkrum mikilvægum stöðum sem myndi styðja við flutning á orku bæði til svæðisins og frá því. Stóra hringtengingin út Djúpið til Ísafjarðar er auðvitað áfram möguleiki sem verður veginn og metinn þegar þar að kemur.

Ég hef fulla trú á að orkumál Vestfjarða komist í efstu deild. Í því felast gífurlegir hagsmunir fyrir íbúa svæðisins og fyrirtækin sem hér starfa, en einnig þau fyrirtæki sem gætu haslað sér völl hérna á grunvelli meiri og tryggari orku, og skapað þau auknu verðmæti og störf sem eru undirstaða kröftugrar byggðar.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í 23. tbl. Bæjarins besta

Kvennaliðið í 4. sæti

U17 ára landsliðin hafa lokið keppni í NEVZA móti unglinga í IKAST. Stelpurnar jöfnuðu sinn besta árangur með því að enda í 4. sæti mótsins en strákarnir enduðu í 7. sæti. Auður Líf Benediktsdóttir og Hafsteinn Már Sigurðsson úr Vestra voru nánast allan tímann í byrjunarliði.

Úrslitaleikirnir voru í dag þar sem stelpurnar spiluðu við Finnland um þriðja sæti mótsins. Finnar unnu leikinn 3-0 og endaði Ísland því í fjórða sæti mótsins. Danir unnu Svía í úrslitaleiknum einnig 3-0 og hampaði heimaliðið meistaratitlinum í lok móts. Að vanda var draumaliðið verðlaunað og hampaði fyrirliðinn Matthildur Einarsdóttir MVP verðlaununum.

Drengjaliðið var í umspili um 5.-7. sæti í mótinu en tapaði báðum leikjum sínum þar og hafnaði því í sjöunda sæti mótsins. Lið Íslands er ungt að árum og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér enda í góðum höndum þjálfara sinna en þetta er nánast sama lið og spilaði í Evrópukeppni U17 á síðasta ári sem keppti bæði í Danmörku í desember og í Búlgaríu í apríl.

Svíar unnu mótið í drengjaflokki eftir æsispennandi úrslitaleik gegn heimaliði Danmerkur en Finnar unnu til bronsverðlauna eftir sigur á Englandi. David Ahman frá Svíþjóð var MVP drengjamótsins.

Í næstu viku fer Kjartan Óli Kristinsson í Vestra til Englands með U19 landsliðinu.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir