Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2122

Hvers vegna ég styð Viðreisn.

Gísli Halldór Halldórsson, verðandi bæjarstjóri Árborgar.

Við lifum á tímum umróts í íslenskum stjórnmálum. Flokkar koma og fara. Reglulega gýs upp reiði vegna misheppnaðrar framgöngu stjórnmálamanna og fólk lýsir vonbrigðum yfir þróun mála. Mikill skortur er á pólitískri forystu og trúverðugleika. Stundum veit fólk varla hvert skal beina spjótum til að hreyfa stjórnmálin fram á veginn – í eitthvert ásættanlegt ástand. Grimmilegar orrahríðir á Facebook án nokkurrar sýnilegrar niðurstöðu eru daglegt brauð.

Það sem vantar sárlega er stefnufesta og heilindi. Að unnið sé á grunni lýðræðislegra sjónarmiða sem halda til lengri tíma. Að hagsmunir þjóðarinnar séu alltaf í forgrunni – að atvinnumál, umhverfismál, innflytjendamál og önnur mál séu unnin með þjóðarheildina í huga. Vinsæl dægurmál koma og fara en verða sjaldan til að ná fram grundvallarbreytingum. Áfengi í búðir, lögleiðing kannabis eða jafnvel hin mjög svo brýnu flugvallarmál í Reykjavík eru í raun dægurmál og þegar þau hafa verið afgreidd þá hafa íslensk stjórnmál samt ekkert endilega breyst.

Almenningur þarf að fá að upplifa að stjórnmálaflokkar séu að vinna í þágu þjóðarinnar allrar – þannig að ekki liggi að baki duldir hagsmunir sem leiða til annarrar niðurstöðu en búið var að lofa, annarrar niðurstöðu en þjónar almenningi.

Loforð Viðreisnar er að „almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum.“ Þetta skiptir öllu máli.

Ástæða þess að Vinstri grænir og Samfylking gátu ekki lagt til atlögu við kvótakerfið árið 2009 var að of margir þingmenn þeirra voru með hagsmuni útgerðarinnar á bakinu. Reyndar má lofa þá ríkisstjórn fyrir að koma á strandveiðunum, strax árið 2009, en lengra varð ekki komist þá. Hinir gömlu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eru svo þjakaðir af hagsmunagæslu að þaðan verður enga leiðréttingu hægt að sækja í nálægri framtíð – frekar en síðustu þrjátíu ár.

Þorgerður Katrín, núverandi formaður Viðreisnar, minntist á það við mig í samtali okkar síðasta vetur hversu mikið frelsi það væri að geta beitt sér í sjávarútvegsmálum án þess að vera bundin á klafa hagsmunaaflanna! Þetta var í miðju sjómannaverkfallinu, en Þorgerður Katrín hafði í þeirri sömu viku opnað tímabundna skrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins á Vestfjörðum.

Í orðum Þorgerðar Katrínar kristallast tilgangur Viðreisnar – að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Þess vegna styð ég Viðreisn til Alþingis.

Gísli Halldór Halldórsson,

Höfundur er í 7. sæti á lista Viðreisnar í Norðvestur kjördæmi.

Afgerandi sigur

Hamarsmenn áttu í erfiðleikum með Nemanja Knezevic.

Vestri lagði FSu örugglega 82-68 á föstudaginn. Um það bil sem flautað var til leiksloka bárust fregnir af því að jörð hafi skolfið rétt norðan við Selfoss. Hvort drunurnar frá magnaðri tröllatvennu sem Vestramaðurinn Nemanja Knezevic skilaði í kvöld voru þess valdandi skal ósagt látið en pilturinn sá átti magnaðan leik á þrítugsafmælisdegi sínum. Sannarlega maður leiksins.

Vestramenn mættu mjög ákveðnir til leiks og spiluðu hörku vörn frá fyrstu sekúndu. Gestirnir fengu erfið skot og hittu illa en skoruðu þó fyrstu tvö stig leiksins af vítalínunni. Björn Ásgeir setti svo tóninn fyrir Vestra með tveimur þriggja stiga körfum í röð og upp frá því leiddu heimamenn. Þessi frábæri varnarleikur í fyrsta fjórðungi skóp í raun sigurinn því gestirnir sáu vart til sólar eftir hann. Þeir náðu þó aðeins að rétt úr kútnum í öðrum fjórðungi með því að skipta í svæðisvörn sem gaf góða raun og var munurinn aðeins 8 stig, 40-32 í hálfleik. Vestramenn mættu þó ákveðnir til leiks eftir hálfleik og bættu í forystuna sem skilaði öruggum sigri.

Eins og fyrr segir átti afmælisbarn dagsins, Nemanja Knezevic enn einn stórleikinn með enn eina tröllatvennuna. Hann skoraði 29 stig, tók 19 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og var með 45 framlagspunkta. Nebojsa skilaði líka góðu dagsverki með 19 stig og 7 fráköst. Björn Ásgeir átti frábæran leik, spilaði hörkuvörn eins og endranær, skoraði 15 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Adam skoraði 8 stig og tók 8 fráköst, Nökkvi skoraði 6 stig, tók 5 fráköst og var með 5 stoðsendingar og Ingimar skoraði 5 stig og gaf 3 stoðsendingar. Þótt aðrir leikmenn hafi ekki komist á blað í stigskorun lögðu þeir sig alla fram í verkefnið og skiluðu sínu.

Hjá gestunum var Jett Speelman atkvæðamestur með 16 stig, Ari Gylfason skoraði 13 en aðrir minna.

Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.

bryndis@bb.is

Íhuga að selja beint á erlenda markaði

Landssamband smábátaeigenda íhugar nú hvort að rétt sé að undirbúa fisksölu beint á erlenda markaði af bátum félagsmanna sambandsins. Þetta kom fram í ræðu Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra LS, á aðlafundi sambandsins fyrir helgi. Á fundinum kom fram að heildaraflaverðmæti smá­báta fisk­veiðiárið 2016/​2017 varð 18 millj­arðar og minnkaði um fimm millj­arða á milli ára eða um rúm­an fimmt­ung.

Örn Páls­son gerði lágt fisk­verð síðasta árs meðal ann­ars að umræðuefni og sagði að ýms­ar skýr­ing­ar hefðu verið gefn­ar á því, t.d. að vinnsl­an hefði tekið meira til sín vegna launa­hækk­ana sem orðið hefðu hjá fisk­vinnslu­fólki.

„Grund­firðing­ar brugðust við hinu lága verði og ákváðu að selja á fisk­markaði í Bretlandi. Til­raun­in gekk vel. LS íhug­ar nú hvort rétt sé að und­ir­búa sölu beint á er­lenda markaði af bát­um fé­lags­manna,“ sagði Örn.

smari@bb.is

Mótmælir hugmyndum um þvingaðar sameiningar

Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir hugmyndum um lögfesta lágmarkafjölda íbúa sveitarfélaga. Í nýlegri skýrslu verkefnastjórnar innanríkisráðherra um stöðu og framtíð sveitarfélaga er lagt til að lágmarkfjöldi íbúa sveitarfélega verði 1.000 íbúar árið 2026. Verkefnastjórnin leggur til að þetta verði gert í skrefum þannig að árið 2020 verði lágmarkíbúafjöldi 250, 500 árið 2022 og svo 1.000 árið 2026.

Jafnframt mótmælir bæjarráð Bolugarvíkurkaupstaðar harðlega þeim lýðræðishalla sem kemur fram í niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar sem felst í þeirri tillögu að íbúum mun ekki gefast kostur á að kjósa um sameiningartillögur. „Það er ljóst að í tillögum verkefnisstjórnarinnar er ekki tekið tillit til margbreytilegra aðstæðna minni sveitarfélaga í fjárhagslegu, félagslegu og landfræðilegu tilliti,“ segir í bókun bæjarráðs og bent á að mikilvægt er að forsenda sameininga sveitarfélaga liggi í frumkvæði íbúana sjálfra og sé unnið á þeirra forsendum. Að mati bæjarráðs Bolungarvíkur verður það ekki til heilla fyrir samfélög ef minni sveitarfélög verða sameinuð stærri sveitarfélögum gegn þeirra vilja.

smari@bb.is

Raforkuöryggi og hringtenging

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Það eru nokkur svæði á landinu sem ekki eru tengd hringtengingu og mega því búa við skert raforkuöryggi. Í nútímasamfélagi er það ekki ásættanlegt. Það felur ekki einungis í sér óþægindi fyrir almenning heldur eru líka mörg fyrirtæki og stofnanir sem þola ekki rafmagnsleysi þar sem viðkvæmur búnaður er í hættu auk vinnutaps.

Á Vestfjörðum mega íbúar búa við þetta öryggisleysi allt árið um kring. Þrátt fyrir að varaaflstöð sem byggð var í Bolungarvík fyrir nokkrum árum þá hefur hún ekki getað tryggt öryggi nema að nokkru leiti. Fyrir utan það að það er ekki ásættanlegt að við skulum nýta okkur jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa í eins miklu magni og raunin er.

Raforkulögin úrelt
Raforkulögin sem nú er unnið eftir eru úrelt því aðaláherslan í þeim er að tengja stórnotendur og stóriðjur inn á raforkukerfið en á meðan hefur það hefur setið á hakanum að byggja upp dreifikerfið um allt land, meðal annars á Vestfjörðum. Þessi úreltu lög hafa líka sett Landsneti þrengri skorður en ella. Æskilegt væri að ríkið tæki yfir Landsnet sem er opinbert hlutafélag eins og m.a. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hefur bent á. Mér finnst það sjálfsagt að ríkið leggi til fjármuni til þess að laga raforkuinnviði eins og til dæmis á Vestfjörðum, okkur finnst ekkert tiltökumál að leggja fjárhæðir frá ríkinu í annars konar innviði, vegi, flugvelli, hafnir, ljósleiðara osfrv. Af hverju ekki í raforkukerfið?

Hringtenging rafmangs á Vestfjörðum verður því að vera í forgangi.

Horft er til nokkurra nýrra virkjanakosta til að auka raforkuframleiðslu á Vestfjörðum enda er framleiðsla inna fjórðungsins ekki nema helmingur af raforkuþörf  svæðisins. Þær virkjanir eru þegar á teikniborðinu og mjög líklegt er að einhverjar þeirra verða að veruleika að loknu lögbundnu ferli.

Það sem við í Framsókn leggjum hinsvegar aðaláherslu á er hringtengingin um Djúp. Ásættanlegt raforkuöryggi á Vestfjörðum næst ekki fyrr en við getum fengið rafmagnið úr tveimur áttum og fyrir því þarf að berjast, að leggja línu um Djúp. Þessi krafa hefur komið margoft fram bæði af hálfu sveitarstjórna og íbúa. Því var ég hissa á að lesa pistil hér á bb.is frá orkumálaráðherra og þingmanni Sjáflstæðisflokksins í kjördæminu sem tók ekki dýpra í árina en það að segja að hringtengingin væri áfram möguleiki og við ættum að vega og meta hana þegar að því kæmi.

Mér finnst það ekki hlutverk stjórnmálamanna að bíða og sjá hvort úrelt raforkukerfi leyfi hringtengingu Vestfjarða að verða að veruleika, heldur miklu fremur verðum við að taka pólitíska forystu að koma slíkri tengingu á dagskrá og það sem fyrst!

Halla Signý Kristjánsdóttir, 2. sæti Framsókn í Norðvesturkjördæmi og stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða.

Vinstri græn framtíð á Vestfjörðum?

Halldór Jónsson.

Á undanförnum mánuðum hafa nokkur mikilvæg framfaramál byggðar á Vestfjörðum verið mjög í brennidepli. Ekki vegna þess að þau séu draumórar einir heldur vegna þess að þau eru öll komin,  því sem næst,  til framkvæmda. En þá rekast heimamenn á þröskulda. Þröskulda sem ekki hafa verið til staðar þegar innviðir og atvinnulíf á öðrum stöðum hefur byggst upp. Vestfirðingar héldu kröftugan íbúafund á haustdögum sem staðfesti samstöðu þeirra um kröfuna um greiðan framgang þessara framfaramála.

Þrátt fyrir þröskuldana er sem betur fer ekki svo að engin framfaraskref hafi verið stigin á undanförnum misserum. Langþráður draumur rættist í haust þegar Jón Gunnarsson samgönguráðherra hóf formlega  gerð jarðaganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar með eftirminnilegri sprengingu.

Ljósleiðaravæðing byggðanna undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns hefur gengið vel og fært íbúa Vestfjarða nær umheiminum.

Atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum hefur tekið stórstígum breytingum með tilkomu framsækinna fyrirtækja í laxeldi og íbúum hefur fjölgað í kjölfarið.

Stjórnvöld í landinu hafa afgerandi áhrif á framgang mjög margra mála sem til framfara horfa og því mikilvægt í aðdraganda alþingiskosninga að kjósendur kynni sér vandlega verk og skoðanir þeirra er bjóða sig fram til þjónustu við íbúa.

Í tuttugu ár hefur gerð vegar um Teigsskóg verið í pattstöðu í óskiljanlegu skipulagsferli. Ferli sem fram að þessu hefur ekki stöðvað viðlíka framkvæmdir í öðrum landshlutum. Það var því mikið gleðiefni þegar flestir þingmenn Norðvesturkjördæmis undir forystu Teits Björns Einarssonar lögðu fram tillögu á Alþingi þar sem tryggja á þessar löngu tímabæru framkvæmdir. Þar vantaði hins vegar nafn eins þingmanns, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Af umræðum má ráða að hún vill halda áfram því skipulagsferli sem nú hefur staðið í tvo áratugi og var stöðvað á sínum tíma af flokksmönnum hennar með Svandísi Svavarsdóttur í fararbroddi.

Skipulagsferli Hvalárvirkjunar, sem um langt árabil hefur ágreiningslaust verið í nýtingarflokki, er á lokastigi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra hefur með afdráttarlausum hætti lýst stuðningi sínum og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í  Norðvesturkjördæmi við þá virkjun. Af einhverjum ástæðum hefur þingmaður VG í kjördæminu ekki lýst sömu skoðun sinni í kosningabaráttunni og Bjarni Jónsson varaþingmaður flokksins og meðframbjóðandi Lilju Rafneyjar í kjördæminu vildi ekki lýsa stuðningi sínum við virkjunina á framboðsfundi rásar 2.

Fyrirhugað laxeldi í Ísafjarðardjúpi er í ákveðinni pattstöðu eftir að fram kom sú skoðun ráðherra Viðreisnar að fara ætti í einu og öllu eftir áhættumati Hafrannsóknarstofnunar. Frambjóðendur  Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu hafa hins vegar lagt þunga áherslu á að eldi verði að veruleika í Djúpinu með því að ráðast í þær mótvægisaðgerðir sem eldisfyrirtækin hafa lagt til. Frambjóðandi VG Bjarni Jónsson hefur með fyrirvörum sínum slegið sjókvíaeldi útaf borðinu.

Ef marka má skoðanakannanir mun VG fá þrjá menn kjörna í Norðvesturkjördæmi og Lilja Rafney verður fyrsti þingmaður kjördæmisins í stað Haraldar Benediktssonar. Samkvæmt þeim spám fellur Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins af þingi.

Áður en að kjördegi kemur þurfa kjósendur og þeir sem áhuga hafa á blómlegri byggð á Vestfjörðum að velta fyrir sér nokkrum spurningum. Til dæmis þessum:

Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG breyti fyrri ákvörðunum og skoðunum ráðherra sinna varðandi Teigsskóg?

Veglína Dynjandisheiðar er nú í skipulagsferli. Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG muni heimila vegstæði um víðerni Dynjandisheiðar og um kjarrlendi Dynjandisvogs?

Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG muni heimila laxeldi í Ísafjarðardjúpi og virkjun Hvalár með hliðsjón af skoðunum núverandi þingmanna flokksins og frambjóðenda hans til slíkra framkvæmda fram að þessu?

Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG muni standa að framkvæmdum sem þörf er á til hringtengingar á flutningskerfi raforku á Vestfjörðum?

Kosningar eru ákveðin stefnuyfirlýsing kjósenda til fjögurra ára. Atkvæði greidd VG er stefnuyfirlýsing um að áðurnefndar framkvæmdir verði ekki að veruleika. Sú stefnuyfirlýsing er óafturkræf og ekki í samræmi við samstöðufundinn góða.

Framtíð byggðar á Vestfjörðum er nú bjartari en hún hefur verið um áratuga skeið. Við þurfum að halda áfram á leið uppbyggingar með hagsmuni fólksins í huga.

Halldór Jónsson

Höfundur er vestfirðingur búsettur á Akranesi.

 

Valinn í U-18 landsliðið

Daniel Wale Adeleye Mynd: Facebook

Daniel Wale Adeley, leikmaður handknattleiksdeildar Harðar á Ísafirði, var í síðustu viku valinn U-18 landsliðshópinn. Alls voru 55 leikmenn valdir til að mæta á landsliðsæfingar áður en Heimir Ríkharðsson landsliðsþjálfari velur endanlegan lokahóp. Æfingarnar fara fram um næstu helgi. Landsliðið tekur þátt í U-18 Sparkassen Cup í Þýskalandi í byrjun janúar.

Það er ekki á hverjum degi sem ísfirskir handknattleiksmenn eru valdir í landslið, en stígandi hefur verið í starfi Harðar síðustu ár.

smari@bb.is

Listamannaspjall – þrjár heimsálfur listakvenna í Edinborg

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði, í samstarfi við menningarmiðstöðina Edinborg, býður upp á listamannaspjall föstudaginn 20.október. Spjallið fer fram í Rögnvaldarsal og hefst klukkan 17.
Gestavinnustofurnar hafa átt því láni að fagna að laða til sín fjölbreyttan hóp hæfileikaríkra listamanna og dvelja þar nú þrjár listakonur, hver úr sinni heimsálfunni: Annie Hamilton frá Ástralíu, Amanda Teixeira frá Brasilíu og Henriikka Tavi frá Finnlandi. Í spjallinu fara þær aðeins yfir feril sinn og hverju þær hafa unnið að meðan á dvölinni á Ísafirði hefur staðið.

Henriikka Tavi er ljóðskáld, skáldskaparhöfundur. Hún er virkur meðlimur í Poesia, útgáfufélagi sem stofnað var af 20 finnskum skáldum og gefur út bókmenntir sem ekki rata vegi fjöldans. Auk þess að fást við eigin sköpun kennir hún skapandi skrif og hefur hún mikið unnið með listamönnum úr öðrum geirum og þá sérstaklega myndlistarfólki.
Skrif hennar eru á annan bóginn tilraunakennd, hugtakakennd og meðvituð um formið og á hinn bóginn tilfinningarík, full tjáningar og jafnvel ævisöguleg. Mikla athygli vakti verk Henriikku „12.” Í því reyndi hún að ná yfir fátæktarmörk með höfundarréttarinnkomu, er hún gaf út 12 ljóðabækur á einu ári. Henriikka hefur unnið til verðlauna fyrir bækur sínar í heimalandinu og verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Á Ísafirði hefur Henriikka unnið að tveimur verkum. Samstarfsverkefni við finnska listahópinn IC-98 og skáldið Mikael Brygger. Í verkinu er stuðst við marga miðla, Veðurljóð, sem er sífelldum breytingum háð. Veðurljóð. Einnig vinnur hún að því að ljúka við sína fyrstu skáldsögu sem kemur út á næsta ári. Sú bók reynir að vera kvennabókmennta-krufning að sögn Henriikku, einhverskonar barnsleg, illgjörn, sálfræðilega ofurraunsæ endurskrif á háðskum og skemmtilegum sögum um líf kvenna.

Amanda Teixeira vinnur með sjónræna miðla, mest með ljósmyndir og myndbandsgerð, en einnig vinnur hún með hluti; texta og listrænar bækur. Hún er með bakkalárgráðu í sjónlistum frá Art Institute of UFRGS í heimalandinu Brasilíiu, en hluta af náminu tók hún við Háskólann í Buenos Aires í Argentínu. Hún var valin í DAAD Scholarship prógrammið og fór í árs nám við KHM, Lista- og miðlunarháskólann í Cologne í Þýskalandi. Amanda á útgáfufyrirtækið Azulejo sem fæst við útgáfu listrænna bóka og hún vinnur fyrir AVSD, videolista-hátíðina í Porto Alegre í Brasilíu.

Undanfarið hefur Amanda unnið með hugmyndir um tíma og rúm, og allar þess birtingarmyndir í hversdagslífinu. Til að þrengja það frekar; hvernig landslag (í hinni ytri veröld sem hinni innri) getur mótað persónuleikann, sagt sögur – sannar eður ei og hvaða bendingar eru notaðar til þess. Amanda vitnar í Certeau þessu til stuðnings, sem sagði litlar bendingar vera einn fárra staða hugvitssemi. Hugmyndafræðinni hefur Amanda fundið stað í teiknimyndagerð, ljósmyndun og teikningum, einnig í verkum sem geta orðið að texta eða bók.

Annie Hamilton er tónlistarkona og hönnuður. Hún er með bakgrunn í textílhönnun, grafískri hönnun og myndskreytingu. Hún byrjaði með sitt eigið fatamerki á síðasta ári, þar sem hún hannar silki- og hörfatnað sem er með áprentuðum myndum Annie af áströlskum plöntum og dýrum. Hún er með brennandi ástríðu fyrir siðlegri og sjálfbærri framleiðslu á tískuvarningi og styðst við þá hugmyndafræði og er ein af stofnendum bloggsíðunnar Locally made sem fjallar um tískuiðnaðinn í Ástralíu og víðar, þar sem áhersla er lögð á „slow fashion.“ Annie er einnig gítarleikari og söngkona og var í hljómsveitinni Little May sem hefur notið talsverðra vinsælda í Ástralíu og víðsvegar um heiminn.

Meðan á Ísafjarðardvölinni hefur staðið hefur Annie bæði unnið að tónlist sinni og hönnun. Hún er stöðugt að skrifa og teikna hlutina í allt í kring. Hún hefur safnað ógrynni af plöntum og steinum á gönguferðum sínum og svæðið – sem hún hefur svo í framhaldinu teiknað. Litirnir í umhverfinu og áferðin hafa fyllt hana innblæstri og andagift fyrir næstu fatalínu. Hún hefur nýtt sér til fullnustu gestavinnustofuna og það að hafa píanó til að semja á nýja tónlist – sem líka er innblásin af dramatísku landslaginu allt um kring.

bryndis@bb.is

Kæru Vestfirðingar

Jónas Þór Birgisson.

Við höfum um áratugaskeið horft upp á fólksfækkun og samdrátt.  Núna eru hins vegar blikur á lofti um að bjartari tímar geti verið framundan.  Að mínu mati vega þar þyngst þrír þættir; bættar samgöngur, bætt raforkuöryggi og uppbygging fiskeldis.

Samgöngur

Dýrafjarðargöng eru loksins komin af stað og þau ásamt endurbótum á Dynjandisheiði verða ekki stöðvuð úr þessu.  Þá stendur eftir margrædd veglagning um Teigskóg sem myndi valda því að hvorki þyrfti að fara um Ódrjúgsháls né Hjallaháls.  Sú leið sem Skipulagsstofnun leggur til, því hún er talin hafa minnst áhrif á náttúruna, felur í sér jarðgöng undir Hjallaháls en eftir sem áður þyrfti að fara yfir Ódrjúgsháls.  Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þessi leið í kringum 5 milljörðum dýrari en leiðin um Teigskóg.  Nú finnst mér fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að setja 5 milljarða umfram það sem þarf til að tryggja okkur Vestfirðingum nothæfan láglendisveg.  Segjum hins vegar sem svo að fólk sé sátt við að sleppa bara við annan hálsinn og finnist að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins en finnst ykkur líklegt að það muni takast á næstu árum eða jafnvel áratugum?

Raforkuöryggi

Vestfirðingar búa við aðstæður í raforkumálum sem fæstir landsmenn einfaldlega geta skilið.  Það líður ekki sá mánuður sem við verðum ekki rafmagnslaus í lengri eða skemmri tíma.  Eftir að olíuknúna varaaflsstöðin í Bolungarvík kom til sögunnar þá varir þetta ástand yfirleitt bara í nokkrar mínútur í hvert skipti í þéttbýlinu en oft mun lengur til sveita.  Þar að auki nær varaaflstöðin ekki að kynda híbýli okkar svo það getur orðið napurt þegar þetta gerist að vetri til.  Þessar nokkrar mínútur hljóma ekki sem langur tími en þær hafa mikil áhrif á atvinnulífið.  Það tekur miklu lengri tíma að koma tölvukerfum verslana aftur í gang heldur en heimilum fólks og ennþá lengri tíma að koma framleiðslufyrirtækjum í gang að nýju.  Það er svo sannarlega rétt sem margir hafa haldið fram að Hvalárvirkjun mun ekki ein og sér valda neinum straumhvörfum hvað þetta varðar.  Með tilkomu virkjunarinnar fer hins vegar Landsnet að fá nýjar tekjur sem nema hundruðum milljóna á hverju ári vegna flutnings á nýrri orku.  Þær nýju tekjur getur Landsnet og má nýta til að tengja Vestfirði við raforkukerfið með fullnægjandi hætti.  Það er alveg hægt að fara út í nauðsynlegar línulagnir án þess að Hvalárvirkjun komi til en þá þarf ríkisvaldið að leggja til með sérstökum hætti í kringum 7 milljarða.  Nú finnst mér fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að þeir leggi til 7 milljarða umfram það sem þarf til að tryggja okkur Vestfirðingum sama raforkuöryggi og langflestir landsmenn búa við.  Ef fólki finnst hins vegar að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins þá stendur eftir spurningin hvort ykkur finnist líklegt að það muni takast á næstu árum eða jafnvel áratugum?

Fiskeldi

Allir hlutar landsins hafa eitthvað til að bera sem styrkir búsetu og atvinnuskilyrði þar.  Nefna má t.d. góð hafnarskilyrði, heitt vatn, nálægð við millilandaflugvöllinn, gott gróðurlendi, nálægð við höfuðborgarsvæðið þar sem öll stjórnsýsla landsins er og 2/3 hlutar landsmanna búa o.s.frv.  Það sem var styrkleiki á sínum tíma verður það ekki endilega um aldur og ævi en það er augljós styrkleiki Vestfjarða í dag að hér eru firðir sem frá náttúrunnar hendi henta mjög vel til fiskeldis.  Með því að nýta þessa firði skynsamlega og í góðri sátt við náttúruna, þ.m.t. með nauðsynlegum mótvægisaðgerðum er varðar laxveiðiár við Ísafjarðardjúp, þá má á Vestfjörðum skapa gríðarleg verðmæti.  Það finnst mér afar jákvætt fyrir okkur sem hér búum en ekki síður fyrir aðra landsmenn því skatttekjur ríkisins af fiskeldi á Vestfjörðum geta orðið gríðarlegar og fyrir okkur sem þjóð eru gjaldeyrisskapandi greinar hreinlega lífsspursmál.  Tekjur ríkisins af fiskeldinu myndu auðveldlega standa undir öllum kostnaði ríkisins við uppbyggingu innviða á Vestfjörðum.  Nú er alveg hægt að hafa þá skoðun að ríkið eigi frekar að leggja okkur Vestfirðingum til einhverjar vesalingabætur fyrir að vilja búa hér og kannski finna upp á einhverju öðru sem getur skapað verðmæti og störf.  Mér finnst fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að þeir leggi Vestfirðingum til einhverja fjármuni með sérstökum hætti en segjum sem svo að einhverjum finnist að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins, en finnst ykkur líklegt að það muni takast?

Allir þessir þrír þættir sem ég hef minnst á fela í sér, þótt á hóflegan hátt sé, ákveðin inngrip í náttúruna.  Finnst ykkur kæru Vestfirðingar þessi uppbygging sem ég hef gert grein fyrir vera mikilvæg?  Ef þið viljið fara aðrar leiðir en ég þá ber ég virðingu fyrir því þar sem lífið væri svo sannarlega verra ef allir hefðu sömu skoðanir.  Ef þið eruð hins vegar á sömu skoðun og ég bið ég ykkur að velta því fyrir ykkur hvort líklegra sé að vinstristjórn undir forystu Vinstri grænna muni styðja okkur í þessum málum eða ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

 

 

 

Segir orð Þorsteins pólitískt upphlaup

Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, segir það ósannindi í Þorsteini Pálssyni að hann hafi staðið gegn breytingum á  á núverandi fyrirkomulagi á innheimtu veiðigjalda. Þorsteinn fór fyrir nefnd sem átti að endurskoða innheimtu veiðigjalda og Teitur Björn sati í nefndinni fyrir hönd Sjálfstæðisflokks. Í morgun var greint frá að nefndinni hafi verið slitið og í greinargerð Þorsteins til sjávarútvegsráðherra segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn flokka ekki verið tilbúinn til að fallast á að tímabundinn veiðiréttur skyldi vera grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Jafnframt segir að Þorsteinn að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags um önnur atriði meðan sá flokkur sem fer með forystu fyrir ríkisstjórn opnaði ekki með ótvíræðum hætti fyrir lausn á þeirri forsendu.

Teitur Björn skrifar á Facebook að það komi á óvart að sjá „hvernig jafn reynslumikill stjórnmálamaður og formaður nefndarinnar er, kýs að leggja málið upp í fjölmiðlum. Það eru ósannindi að halda því fram að ég hafi staðið gegn breytingum á núverandi fyrirkomulagi á innheimtu veiðigjalda eins og formaður heldur fram.“

Um þá afstöðu að vera ekki reiðbúinn að leggja til grundvallar að gjaldtaka af auðlindinni miðaðist við tímabundin afnot segir Teitur Björn að hann telji að nefndin hafi ekki verið á þeim stað í sinni vinnu að geta afgreitt jafn víðtækt og flókið álitaefni án efnislegrar umfjöllunar eða rökstuðnings. „Ég kallaði eftir því í nefndinni að til víðbótar við þá sérfræðinga á sviði hagfræði, sem störfuðu með nefndinni, yrðu kallaði til fræðimanna á sviði stjórnskipunarlaga. Ræða yrði þetta atriði faglega og efnislega. Við því var ekki orðið. Þar fyrir utan taldi ég að skipunarbréf nefndarinnar næði varla utan um að nefndin kæmi með tillögu að algjörri uppstokkun á gildandi kerfi fiskveiðistjórnarlaga. Á þessa athugasemdir mína var ekki hlustað né að formaður nefndarinnar hafi gert réttilega grein fyrir þeim nú í fjölmiðlum,“ skrifar Teitur Björn.

Hann lýkur pistlinum á að minna á að Þorsteinn er í framboði fyrir Viðreisn og því verði að líta á orð hans um störf nefndarinnar sem pólitískt upphlaup rétt viku fyrir kosningar.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir