Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 2122

Sjálfstæðisflokkur einn á móti tímabundnum kvótum

Full­trúar allra flokka sem eiga full­trúa á Alþingi nema Sjálf­stæð­is­flokks höfðu lýst yfir stuðn­ingi við að gjald­taka fyrir afnot af fisk­veiði­auð­lind­inni ætti að mið­ast við tíma­bundin afnot af henni. Þetta kemur fram í grein­ar­gerð Þor­steins Páls­son­ar, sem stýrði nefnd um fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lag gjald­töku fyrir afnot af fisk­veiði­auð­lind­inni. Starfi nefndarinnar hefur verið slitið, en hún var sett á fót í vor.

Í greinargerðinni lýsir Þorsteinn því að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags í nefndinni um önnur atriði meðan Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn að tímabundinn veiðiréttur verði grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.

Full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks í nefnd­inni er Teitur Björn Ein­ars­son, þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Þorsteinn segir tímabundinn afnotarétt forsendu fyrir því að ná megi tveimur markmiðum í löggjöf um þessi efni; að lagareglurnar endurspegli með ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar og að þær stuðli að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.

smari@bb.is

Hlustum og lærum.

Við íslendingar erum fljótir að gagnrýna aðrar þjóðir þegar þær fara augljóslega útaf sporinu.  Okkur þótti Færeyingar óttalega ábyrgðarlausir í fjármálum þegar þeir lentu í sinni kreppu 1990 i), en vöruðum okkur ekki á því að við gætum líka lent í kreppu.  Við vorum viss um að við værum miklu betri og ábyrgari í fjármálum en Færeyingar.

Grikkland.

Okkur þótti Grikkir óttalega ábyrgðarlausir í fjármálum.  Gríska ríkið lenti í skuldavanda eins og íslensku bankarnir í hruninu.  Það var vegna þess að óábyrgir stjórnmálamenn höfðu rekið ríkið með halla í langan tíma.  Það var hægt meðan það var ótakmarkað framboð á lánsfé.  Eftir nokkur neyðarlán frá Evrópusambandinu og AGS eru skuldir Grikkja 320 milljarðar evra ii).   Á núvirði eru þetta 40 þúsund milljarðar íslenskra króna.  Þetta er há fjárhæð, en íslensku bankarnir fóru á hausinn með 7,5 þúsund milljarða tapi.  Þetta tap er meira á hvern Íslending en hver Grikki skuldar.  Kröfuhafar íslensku bankanna sátu uppi með tapið.  Þetta voru aðallega erlendir bankar.  „Hrægammarnir“ svokölluðu.  iii)

Er hægt að bera þetta saman?  Grískir stjórnmálamenn létu ríkið safna skuldum.  Íslenskir stjórnmálamenn (Sjálfstæðis og Framsókn) seldu bankana félögum sínum og létu þá óáreitta þó að þeir söfnuðu gífurlegum skuldum.  Í Grikklandi var mjög erfitt fyrir erlendar eftirlitsstofnanir að fá upplýsingar um ástandið í fjármálakerfinu.  Á Íslandi var þjóðhagsstofnun lögð niður þegar hún fór að benda á gífurlegan viðskiptahalla.  Stjórnmálamenn í báðum löndum sýndu fádæma ábyrgðarleysi í stjórnun landsmálanna.  Leyndarhyggjan hjálpaði þeim með að komast upp með það.

Trump.    

Við horfum til kosningar Trumps í Bandaríkjunum með fyrirlitningu iv).  Hvernig geta þeir verið svona vitlausir að velja mann sem segir alveg mismunandi hluti um sama málefnið, bara eftir því hverjir eru að hlusta?  Aðferðin var að punda röngum upplýsingum á facebook síður almennings.

Er eitthvað þannig í gangi hér?  Jú hér stundar hægri hlið stjórnmálanna alveg sömu vinnubrögð.  Hér fáum við kostuð skilaboð frá „Andríki“, „samtök skattgreiðenda“ og „Kosningar 2017“ v) inná facebook reikninga okkar.  Þetta er rakalaus þvættingur, en það er nafnlaust, svo það er eins og að berjast við vindmyllur að svara því.

Niðurstaða.

Núna þurfum við að vara okkur á áróðrinum.  Hann hefur skaðað aðrar þjóðir, og getur skaðað okkur.  Við ættum ekki að umbera það að uppnefnið „Skatta Kata“ sé notað, bara af því að við höfum séð það svo oft.

Reynir Eyvindsson, nr 7 á lista VG í norðvesturkjördæmi.

  1. Googlið: „faroe islands financial crisis“
  2. Googlið: “Greek government-debt crisis” sjá wikipedia/Economic statistics
  • Ath! Icesave skuldin bliknar í samanburði við gjaldþrot íslensku bankana.
  1. Þarna á ég við fólk flest. Ég þekki samt aðila sem eru ánægðir með að Trump sé að „stríða“ vinstri mönnum með loftslagsmálunum og fleiru.  Þeim finnst það mikilvægara, en sjálf tilvera jarðarbúa!
  2. Ath sama nafn og grúppa sem RUV heldur úti, en alls ekki sama innihald.

Íslenskur lax fjarskyldur Evrópulaxi

Villtur lax. Mynd: Þorleifur.

Í nýrri grein sem birt var í Vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES Journal of Marine Science, er greint frá niðurstöðum viðamikilla rannsókna á erfðafræði Atlantslax. Rannsóknin var mjög viðamikil, safnað var sýnum úr 26.822 löxum úr 282 vatnakerfum í 13 Evrópulöndum. Tveir íslenskir vísindamenn eru meðhöfundar greinarinnar, þeir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Kristinn Ólafsson sem starfaði fyrir Matís.  Gögnin sýna að íslenskur lax er fjarskyldur öðrum evrópskum laxastofnum. Annars staðar í álfunni greinist laxinn í tvo meginhópa, norðurhóp og suðurhóp. Síðan er hægt að greina lax í erfðahópa eftir svæðum. Með þessum gögnum er unnt að rekja lax sem veiðist í sjó til síns heima, annað hvort eftir landsvæði eða til ákveðinnar áar.

Íslenskur lax skiptist einnig í hópa. Þar eru tveir meginhópar, annar á Norðurlandi, hinn á Vesturlandi. Líklegt er að lax á Suðurlandi myndi þriðja hópinn, en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það. Í flestum laxveiðiám landsins er sérstakur stofn.

smari@bb.is

Viðrar vel til útivistar

Haustlitir á Dynjanda.

Það eru rólegheit í veðurkortum helgarinnar og útlit fyrir ágætis haustveður og upplagt að njóta útivistar um helgina. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar með helgarspánni.

Í dag er suðlæg átt í kortunum og einhver væta nokkuð víða. Vindurinn og úrkoman minnkar þegar líður á daginn og í kvöld verður búið að stytta upp og komið hæglætisveður um allt land. Vegir verða margir blautir eftir daginn og í kvöld og nótt verður semsagt hægur vindur, það rofar til og kólnar. Vegfarendur ættu þá að vera á varðbergi gagnvart hálku.

smari@bb.is

Flutningur sjúkra í uppnámi

Guðjón Brjánsson.

Ein mestu verðmæti hverrar þjóðar er félagsauðurinn sem hún býr yfir. Hér er um að ræða öll þau félög sem sinna margs konar verkefnum til að auka lífsgleði og lífsgæði þjóðarinnar. Íslendingar eru svo lánsamir að þessi eiginleiki nánast liggur í blóðinu, enda hefur lífsbaráttan kennt kynslóðunum að hjálpsemi, samvinna og samkennd eru grundvallaratriði til að lifa af í harðbýlu landi.

Rauði krossinn á Íslandi er eitt þessara félaga. Hann var stofnaður fyrir rúmum níutíu árum og er hluti af stærstu mannúðarhreyfingu heims. Fyrstu verkefnin voru á sviði heilbrigðismála, en urðu síðar fjölþættari. Er bílaöld hófst urðu kaup á sjúkrabifreiðum áhersluverkefni félagsins og deildir stofnaðar víðs vegar um landið til að safna fé og reka sjúkrabifreiðar. Deildirnar öfluðu fjár í heimabyggð til bílakaupa til að tryggja sem best öryggi þeirra sem þyrftu á læknaþjónustu að halda.

Rauði krossinn átti og rak bifreiðarnar, en fyrir um tuttugu árum samdi félagið við stjórnvöld um reksturinn. Þar kom ríkið að honum með fjárframlögum, en Rauði krossinn lagði eignir sínar á móti. Í tuttugu ár hefur þessi rekstur gengið áfallalaust, Rauði krossinn hefur samt ávallt lagt til hans tugi milljóna króna á ári hverju. Má ætla að það framlag félagsins nemi á núvirði um einum milljarði króna.

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Stjórnvöld hafa ekki samið við Rauða krossinn í tvö ár um þessa mikilvægu þjónustu. Bílaflotinn hefur ekki fengið nauðsynlega endurnýjun. Velferðarráðuneytið vill breytingar á rekstrinum. Hvort til stendur að einkavæða hann er ekki ljóst, en tveir síðustu ráðherrar hafa viljað breytt fyrirkomulag.

Rauði krossinn hefur gætt ítrasta hagræðis, öryggis og hagsmuna landsbyggðarinnar, enda eru deildir félagsins vakandi yfir þessum málaflokki. Engar kvartanir eða athugasemdir hafa komið frá stjórnvöldum um reksturinn. Þess vegna er óskiljanlegt að stjórnvöld vilji nú með einhverjum óljósum hætti breyta fyrirkomulagi sem reynst hefur þjóðinni vel.

Guðjón S. Brjánsson,

alþingismaður

Bræður bjóða til tónleika

Sunnudaginn 22. október kl. 16:00  bjóða bræðurnir Maksymilian, Mikolaj og Nikodem Frach Vestfirðingum á skemmtilega og fjölbreytta  tónleika í Hömrum.

Þeir eru ísfirskum tónlistarunnendum að góðu kunnir, hafa víða komið fram, einir og með öðrum, og ávallt vakið mikla athygli fyrir frábæran tónlistarflutning.

Nú  hafa þeir fengið til liðs við sig vini frá Póllandi, Karolinu Marks, Beata Tasarz, og Hanna Nieborak auk þess sem foreldrar þeirra, Janusz og Iwona taka þátt í tónleikunum.

Efnisskráin er metnaðarfull og óvenjuleg. Mikolaj leikur einleik í hinum fagra píanókonsert Chopins  í f-moll nr. 2, Nikodem spilar einleik í fiðlukonsert í a-moll eftir Bach og Maksymilian og Karolina spila tvíelikinn í fiðlukonsert í d-moll BWV 1043 fyrir 2 fiðlur eftir Bach.

Maksymilian Haraldur er 21 árs, lauk framhaldsprófi með glæsibrag frá Tónlistarskóla Ísafjarðar fyrir nokkrum árum, fór svo í Listaháskóla Íslands þar sem hann var nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann fór sem skiptinemi til Póllands og stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Kraków. Mikolaj Ólafur, sem er aðeins 17 ára, lauk framhaldsnámi í ipíanóleik sl. vor og hélt þá eftirminnilega tónleika í Hömrum. Hann hefur verið við píanónám í Póllandi undanfarna mánuði, en er nú kominn heim aftur. Yngsti bróðirinn, Nikodem Júlíus, 15 ára,  stundar fiðlunám hjá föður sínum við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Allir eru velkomnir á tónleika þessararar músíkölsku fjölskyldu og er aðgangur ókeypis. Frjáls framlög í ferðasjóð hljóðfæraleikaranna eru vel þegin.

Þess má geta að í næstu viku verða tónleikarnir endurteknir á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið i tónleikasal Tónlistarskólans í Garðabæ við Kirkjulund 11. Tónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 26.október og hefjast kl.19.30 og eru öllum opnir.

Kosningapróf

RUV býður upp á próf sem á að sýna þér þann frambjóðanda í þínu kjördæmi sem næst þér stendur í skoðunum. Það voru um 80 þúsund manns sem tóku prófið í fyrra og en á vef RUV er þó tekið fram að þetta sé nú meira til gamans gert.

Prófið byggir á afstöðu fimm efstu frambjóðendum á hverjum lista stjórnmálaflokkanna til ákveðinna fullyrðinga. Þegar þetta er skrifað eiga 60 frambjóðendur enn eftir að svara kosningaprófinu.

Kjósendur geta tekið prófið og séð á niðurstöðum þess hvernig afstaða þeirra til fullyrðinganna passar við afstöðu frambjóðendanna annars vegar og stefnu stjórnmálaflokkanna hins vegar.

Prófið má nálgast hér.

bryndis@bb.is

Alvarlegt bílslys í Álftafirði

Einn maður slasaðist alvarlega í bílveltu í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi í gærkvöld. Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum voru kallaðar út á tíunda tímanum þar sem maður á leið til Ísafjarðar skilaði sér ekki. Björgunarsveitarfólk hélt til leitar og fann bíllinn utan vegar í Álftafirðinum á ellefta tímanum. Einn maður var í bílnum og var hann fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug vestur og sótti hinn slasaða.

Þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi á þriðja tímanum í nótt. Meiðsl ökumannsins voru alvarleg, en hann var þó með meðvitund þegar hann var fluttur suður.

Á fjórða tug björgunarsveitarmanna auk lögreglu og sjúkraflutningamanna tóku þátt í aðgerðum kvöldsins. Tildrög slyssins eru óljós.

smari@bb.is

Farþegafjölgun í innanlandsflugi

Nærri fjórtán þúsund fleiri farþegar nýttu sér ferðir frá innanlandsflugvöllunum á fyrri helmingi ársins og nam heildarfjöldinn 385 þúsundum. Hlutfallslega var aukningin langmest á Akureyri eða um tíund en samdrátturinn mestur á Húsavík og í Vestmannaeyjum eða rúmlega 13 prósent samkvæmt nýjum tölum frá Isavia sem turisti.is birtir. Þar sem flestar ferðir eru til og frá Reykjavík þá stóð flugvöllurinn í Vatnsmýri undir rúmlega helmingi farþegafjöldans og þar fjölgaði ferðum um 2,3% fyrstu sex mánuðina en á landsvísu nam aukningin 3,5%. Viðbótin á fyrri helmingi síðasta árs var nærri tvöfalt meiri eða 6,7%.

Á Ísafjarðarflugvelli jókst farþegafjöldinn lítillega, eða um 1,7 prósent. Fór úr 15.978 farþegum á fyrrihluta 2016 í 16.256 á þessu ári.

Farþegafjöldi á Ísafjaðrarflugvelli fyrstu sex mánuði hvers ár. Mynd: turisti.is

smari@bb.is

Leggja til víðtækar aðgerðir um meðferð kynferðisbrota

Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur skilað lokadrögum að aðgerðaráætlun til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen. Drögin eru nú aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins og er unnt að senda ráðuneytinu umsagnir um áætlunina. Vinna við áætlunina hefur staðið yfir í ár en Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði samráðshópinn í mars 2016 og fól honum að setja fram tillögur um aðgerðir með það að markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Hópurinn átti víðtækt samráð við fagaðila  innan réttarvörslukerfisins, heilbrigðiskerfisins, sem og frjáls félagasamtök sem vinna að málaflokknum, auk fræðasamfélagsins.

María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, er formaður samráðshópsins en ásamt henni sátu í hópnum fulltrúar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands.

Hópurinn skilaði fyrstu drögum til ráðherra í júní 2016 en í kjölfarið voru drögin kynnt ýmsum aðilum og unnið áfram að útfærslu nokkurra verkefna.

Unnið er að framkvæmda- og kostnaðaráætlun og forgangsröðun aðgerða. Er áætlað að samráðshópurinn ljúki störfum og skili lokaskýrslu og framkvæmdaáætlun með ítarlegri greiningu á kostnaðarmati, mælikvörðum og tímaáætlun aðgerða til ráðherra eigi síðar en í árslok 2017.

Víðtækar aðgerðir lagðar til

Aðgerðaáætlunin skiptist í sex kafla og fjallar hver kafli um aðgerðir sem snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Voru aðgerðirnar flokkaðar eftir því hvort hægt væri að ráðast í þær strax á næstu tveimur árum eða hvort aðgerðir kynnu að þarfnast frekari úrvinnslu og athugunar af hálfu ráðuneytisins og krefðust aukins fjármagns eða lagabreytinga.

Mörgum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Má þar nefna sem dæmi samræmingu gátlista og verkferla, styttingu málsmeðferðartíma innan kerfisins, bætt gagnaflæði í réttarvörslukerfinu, vinnu að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) og loks að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, sem tók til starfa í febrúar 2017.

Nýjustu fréttir