Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2122

Listamannaspjall – þrjár heimsálfur listakvenna í Edinborg

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði, í samstarfi við menningarmiðstöðina Edinborg, býður upp á listamannaspjall föstudaginn 20.október. Spjallið fer fram í Rögnvaldarsal og hefst klukkan 17.
Gestavinnustofurnar hafa átt því láni að fagna að laða til sín fjölbreyttan hóp hæfileikaríkra listamanna og dvelja þar nú þrjár listakonur, hver úr sinni heimsálfunni: Annie Hamilton frá Ástralíu, Amanda Teixeira frá Brasilíu og Henriikka Tavi frá Finnlandi. Í spjallinu fara þær aðeins yfir feril sinn og hverju þær hafa unnið að meðan á dvölinni á Ísafirði hefur staðið.

Henriikka Tavi er ljóðskáld, skáldskaparhöfundur. Hún er virkur meðlimur í Poesia, útgáfufélagi sem stofnað var af 20 finnskum skáldum og gefur út bókmenntir sem ekki rata vegi fjöldans. Auk þess að fást við eigin sköpun kennir hún skapandi skrif og hefur hún mikið unnið með listamönnum úr öðrum geirum og þá sérstaklega myndlistarfólki.
Skrif hennar eru á annan bóginn tilraunakennd, hugtakakennd og meðvituð um formið og á hinn bóginn tilfinningarík, full tjáningar og jafnvel ævisöguleg. Mikla athygli vakti verk Henriikku „12.” Í því reyndi hún að ná yfir fátæktarmörk með höfundarréttarinnkomu, er hún gaf út 12 ljóðabækur á einu ári. Henriikka hefur unnið til verðlauna fyrir bækur sínar í heimalandinu og verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Á Ísafirði hefur Henriikka unnið að tveimur verkum. Samstarfsverkefni við finnska listahópinn IC-98 og skáldið Mikael Brygger. Í verkinu er stuðst við marga miðla, Veðurljóð, sem er sífelldum breytingum háð. Veðurljóð. Einnig vinnur hún að því að ljúka við sína fyrstu skáldsögu sem kemur út á næsta ári. Sú bók reynir að vera kvennabókmennta-krufning að sögn Henriikku, einhverskonar barnsleg, illgjörn, sálfræðilega ofurraunsæ endurskrif á háðskum og skemmtilegum sögum um líf kvenna.

Amanda Teixeira vinnur með sjónræna miðla, mest með ljósmyndir og myndbandsgerð, en einnig vinnur hún með hluti; texta og listrænar bækur. Hún er með bakkalárgráðu í sjónlistum frá Art Institute of UFRGS í heimalandinu Brasilíiu, en hluta af náminu tók hún við Háskólann í Buenos Aires í Argentínu. Hún var valin í DAAD Scholarship prógrammið og fór í árs nám við KHM, Lista- og miðlunarháskólann í Cologne í Þýskalandi. Amanda á útgáfufyrirtækið Azulejo sem fæst við útgáfu listrænna bóka og hún vinnur fyrir AVSD, videolista-hátíðina í Porto Alegre í Brasilíu.

Undanfarið hefur Amanda unnið með hugmyndir um tíma og rúm, og allar þess birtingarmyndir í hversdagslífinu. Til að þrengja það frekar; hvernig landslag (í hinni ytri veröld sem hinni innri) getur mótað persónuleikann, sagt sögur – sannar eður ei og hvaða bendingar eru notaðar til þess. Amanda vitnar í Certeau þessu til stuðnings, sem sagði litlar bendingar vera einn fárra staða hugvitssemi. Hugmyndafræðinni hefur Amanda fundið stað í teiknimyndagerð, ljósmyndun og teikningum, einnig í verkum sem geta orðið að texta eða bók.

Annie Hamilton er tónlistarkona og hönnuður. Hún er með bakgrunn í textílhönnun, grafískri hönnun og myndskreytingu. Hún byrjaði með sitt eigið fatamerki á síðasta ári, þar sem hún hannar silki- og hörfatnað sem er með áprentuðum myndum Annie af áströlskum plöntum og dýrum. Hún er með brennandi ástríðu fyrir siðlegri og sjálfbærri framleiðslu á tískuvarningi og styðst við þá hugmyndafræði og er ein af stofnendum bloggsíðunnar Locally made sem fjallar um tískuiðnaðinn í Ástralíu og víðar, þar sem áhersla er lögð á „slow fashion.“ Annie er einnig gítarleikari og söngkona og var í hljómsveitinni Little May sem hefur notið talsverðra vinsælda í Ástralíu og víðsvegar um heiminn.

Meðan á Ísafjarðardvölinni hefur staðið hefur Annie bæði unnið að tónlist sinni og hönnun. Hún er stöðugt að skrifa og teikna hlutina í allt í kring. Hún hefur safnað ógrynni af plöntum og steinum á gönguferðum sínum og svæðið – sem hún hefur svo í framhaldinu teiknað. Litirnir í umhverfinu og áferðin hafa fyllt hana innblæstri og andagift fyrir næstu fatalínu. Hún hefur nýtt sér til fullnustu gestavinnustofuna og það að hafa píanó til að semja á nýja tónlist – sem líka er innblásin af dramatísku landslaginu allt um kring.

bryndis@bb.is

Kæru Vestfirðingar

Jónas Þór Birgisson.

Við höfum um áratugaskeið horft upp á fólksfækkun og samdrátt.  Núna eru hins vegar blikur á lofti um að bjartari tímar geti verið framundan.  Að mínu mati vega þar þyngst þrír þættir; bættar samgöngur, bætt raforkuöryggi og uppbygging fiskeldis.

Samgöngur

Dýrafjarðargöng eru loksins komin af stað og þau ásamt endurbótum á Dynjandisheiði verða ekki stöðvuð úr þessu.  Þá stendur eftir margrædd veglagning um Teigskóg sem myndi valda því að hvorki þyrfti að fara um Ódrjúgsháls né Hjallaháls.  Sú leið sem Skipulagsstofnun leggur til, því hún er talin hafa minnst áhrif á náttúruna, felur í sér jarðgöng undir Hjallaháls en eftir sem áður þyrfti að fara yfir Ódrjúgsháls.  Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þessi leið í kringum 5 milljörðum dýrari en leiðin um Teigskóg.  Nú finnst mér fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að setja 5 milljarða umfram það sem þarf til að tryggja okkur Vestfirðingum nothæfan láglendisveg.  Segjum hins vegar sem svo að fólk sé sátt við að sleppa bara við annan hálsinn og finnist að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins en finnst ykkur líklegt að það muni takast á næstu árum eða jafnvel áratugum?

Raforkuöryggi

Vestfirðingar búa við aðstæður í raforkumálum sem fæstir landsmenn einfaldlega geta skilið.  Það líður ekki sá mánuður sem við verðum ekki rafmagnslaus í lengri eða skemmri tíma.  Eftir að olíuknúna varaaflsstöðin í Bolungarvík kom til sögunnar þá varir þetta ástand yfirleitt bara í nokkrar mínútur í hvert skipti í þéttbýlinu en oft mun lengur til sveita.  Þar að auki nær varaaflstöðin ekki að kynda híbýli okkar svo það getur orðið napurt þegar þetta gerist að vetri til.  Þessar nokkrar mínútur hljóma ekki sem langur tími en þær hafa mikil áhrif á atvinnulífið.  Það tekur miklu lengri tíma að koma tölvukerfum verslana aftur í gang heldur en heimilum fólks og ennþá lengri tíma að koma framleiðslufyrirtækjum í gang að nýju.  Það er svo sannarlega rétt sem margir hafa haldið fram að Hvalárvirkjun mun ekki ein og sér valda neinum straumhvörfum hvað þetta varðar.  Með tilkomu virkjunarinnar fer hins vegar Landsnet að fá nýjar tekjur sem nema hundruðum milljóna á hverju ári vegna flutnings á nýrri orku.  Þær nýju tekjur getur Landsnet og má nýta til að tengja Vestfirði við raforkukerfið með fullnægjandi hætti.  Það er alveg hægt að fara út í nauðsynlegar línulagnir án þess að Hvalárvirkjun komi til en þá þarf ríkisvaldið að leggja til með sérstökum hætti í kringum 7 milljarða.  Nú finnst mér fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að þeir leggi til 7 milljarða umfram það sem þarf til að tryggja okkur Vestfirðingum sama raforkuöryggi og langflestir landsmenn búa við.  Ef fólki finnst hins vegar að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins þá stendur eftir spurningin hvort ykkur finnist líklegt að það muni takast á næstu árum eða jafnvel áratugum?

Fiskeldi

Allir hlutar landsins hafa eitthvað til að bera sem styrkir búsetu og atvinnuskilyrði þar.  Nefna má t.d. góð hafnarskilyrði, heitt vatn, nálægð við millilandaflugvöllinn, gott gróðurlendi, nálægð við höfuðborgarsvæðið þar sem öll stjórnsýsla landsins er og 2/3 hlutar landsmanna búa o.s.frv.  Það sem var styrkleiki á sínum tíma verður það ekki endilega um aldur og ævi en það er augljós styrkleiki Vestfjarða í dag að hér eru firðir sem frá náttúrunnar hendi henta mjög vel til fiskeldis.  Með því að nýta þessa firði skynsamlega og í góðri sátt við náttúruna, þ.m.t. með nauðsynlegum mótvægisaðgerðum er varðar laxveiðiár við Ísafjarðardjúp, þá má á Vestfjörðum skapa gríðarleg verðmæti.  Það finnst mér afar jákvætt fyrir okkur sem hér búum en ekki síður fyrir aðra landsmenn því skatttekjur ríkisins af fiskeldi á Vestfjörðum geta orðið gríðarlegar og fyrir okkur sem þjóð eru gjaldeyrisskapandi greinar hreinlega lífsspursmál.  Tekjur ríkisins af fiskeldinu myndu auðveldlega standa undir öllum kostnaði ríkisins við uppbyggingu innviða á Vestfjörðum.  Nú er alveg hægt að hafa þá skoðun að ríkið eigi frekar að leggja okkur Vestfirðingum til einhverjar vesalingabætur fyrir að vilja búa hér og kannski finna upp á einhverju öðru sem getur skapað verðmæti og störf.  Mér finnst fráleitt að fara fram á það við aðra landsmenn að þeir leggi Vestfirðingum til einhverja fjármuni með sérstökum hætti en segjum sem svo að einhverjum finnist að við „eigum skilið“ eða eitthvað að fá þessa fjármuni miðað við hvað við höfum lagt til ríkisins, en finnst ykkur líklegt að það muni takast?

Allir þessir þrír þættir sem ég hef minnst á fela í sér, þótt á hóflegan hátt sé, ákveðin inngrip í náttúruna.  Finnst ykkur kæru Vestfirðingar þessi uppbygging sem ég hef gert grein fyrir vera mikilvæg?  Ef þið viljið fara aðrar leiðir en ég þá ber ég virðingu fyrir því þar sem lífið væri svo sannarlega verra ef allir hefðu sömu skoðanir.  Ef þið eruð hins vegar á sömu skoðun og ég bið ég ykkur að velta því fyrir ykkur hvort líklegra sé að vinstristjórn undir forystu Vinstri grænna muni styðja okkur í þessum málum eða ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

 

 

 

Segir orð Þorsteins pólitískt upphlaup

Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, segir það ósannindi í Þorsteini Pálssyni að hann hafi staðið gegn breytingum á  á núverandi fyrirkomulagi á innheimtu veiðigjalda. Þorsteinn fór fyrir nefnd sem átti að endurskoða innheimtu veiðigjalda og Teitur Björn sati í nefndinni fyrir hönd Sjálfstæðisflokks. Í morgun var greint frá að nefndinni hafi verið slitið og í greinargerð Þorsteins til sjávarútvegsráðherra segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn flokka ekki verið tilbúinn til að fallast á að tímabundinn veiðiréttur skyldi vera grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Jafnframt segir að Þorsteinn að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags um önnur atriði meðan sá flokkur sem fer með forystu fyrir ríkisstjórn opnaði ekki með ótvíræðum hætti fyrir lausn á þeirri forsendu.

Teitur Björn skrifar á Facebook að það komi á óvart að sjá „hvernig jafn reynslumikill stjórnmálamaður og formaður nefndarinnar er, kýs að leggja málið upp í fjölmiðlum. Það eru ósannindi að halda því fram að ég hafi staðið gegn breytingum á núverandi fyrirkomulagi á innheimtu veiðigjalda eins og formaður heldur fram.“

Um þá afstöðu að vera ekki reiðbúinn að leggja til grundvallar að gjaldtaka af auðlindinni miðaðist við tímabundin afnot segir Teitur Björn að hann telji að nefndin hafi ekki verið á þeim stað í sinni vinnu að geta afgreitt jafn víðtækt og flókið álitaefni án efnislegrar umfjöllunar eða rökstuðnings. „Ég kallaði eftir því í nefndinni að til víðbótar við þá sérfræðinga á sviði hagfræði, sem störfuðu með nefndinni, yrðu kallaði til fræðimanna á sviði stjórnskipunarlaga. Ræða yrði þetta atriði faglega og efnislega. Við því var ekki orðið. Þar fyrir utan taldi ég að skipunarbréf nefndarinnar næði varla utan um að nefndin kæmi með tillögu að algjörri uppstokkun á gildandi kerfi fiskveiðistjórnarlaga. Á þessa athugasemdir mína var ekki hlustað né að formaður nefndarinnar hafi gert réttilega grein fyrir þeim nú í fjölmiðlum,“ skrifar Teitur Björn.

Hann lýkur pistlinum á að minna á að Þorsteinn er í framboði fyrir Viðreisn og því verði að líta á orð hans um störf nefndarinnar sem pólitískt upphlaup rétt viku fyrir kosningar.

smari@bb.is

Aldrei meiri hagnaður í sjávarútvegi

Þótt tekjur í sjávarútvegi hafi dregist saman um 26 milljarða frá 2015 til 2016 varð hagnaðurinn engu að síður 55 milljarðar og hefur aldrei verið meiri. Þetta er meðal þess sem kom fram í kynningu Deloitte á Sjávarútvegsdeginum sem var haldinn fyrr í vikunni. Staða íslensks sjávarútvegs er sterk en hefur engu að síður þyngst nokkuð á allra síðustu árum. Á síðasta ári drógust tekjur greinarinnar saman um 26 milljarða, eða níu prósent, heildaraflinn dróst saman um 19 prósent og verðvísitala sjávarafurða í íslenskri mynt dróst saman um 6,4 prósent.

Af 55 milljarða kr. hagnaði árið 2016 eru sextán milljarðar, söluhagnaður eigna er um 9 milljarðar og lánaleiðrétting 4 milljarðar.

Heildarskuldir greinarinnar hafa lækkað um 175 milljarða frá árinu 2009 og voru í lok árs 2016 komnar niður í 319 milljarða.

smari@bb.is

Sjálfstæðisflokkur einn á móti tímabundnum kvótum

Full­trúar allra flokka sem eiga full­trúa á Alþingi nema Sjálf­stæð­is­flokks höfðu lýst yfir stuðn­ingi við að gjald­taka fyrir afnot af fisk­veiði­auð­lind­inni ætti að mið­ast við tíma­bundin afnot af henni. Þetta kemur fram í grein­ar­gerð Þor­steins Páls­son­ar, sem stýrði nefnd um fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lag gjald­töku fyrir afnot af fisk­veiði­auð­lind­inni. Starfi nefndarinnar hefur verið slitið, en hún var sett á fót í vor.

Í greinargerðinni lýsir Þorsteinn því að tilgangslítið væri að halda áfram tilraunum til samkomulags í nefndinni um önnur atriði meðan Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn að tímabundinn veiðiréttur verði grundvöllur gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.

Full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks í nefnd­inni er Teitur Björn Ein­ars­son, þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Þorsteinn segir tímabundinn afnotarétt forsendu fyrir því að ná megi tveimur markmiðum í löggjöf um þessi efni; að lagareglurnar endurspegli með ótvíræðum hætti sameign þjóðarinnar og að þær stuðli að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.

smari@bb.is

Hlustum og lærum.

Við íslendingar erum fljótir að gagnrýna aðrar þjóðir þegar þær fara augljóslega útaf sporinu.  Okkur þótti Færeyingar óttalega ábyrgðarlausir í fjármálum þegar þeir lentu í sinni kreppu 1990 i), en vöruðum okkur ekki á því að við gætum líka lent í kreppu.  Við vorum viss um að við værum miklu betri og ábyrgari í fjármálum en Færeyingar.

Grikkland.

Okkur þótti Grikkir óttalega ábyrgðarlausir í fjármálum.  Gríska ríkið lenti í skuldavanda eins og íslensku bankarnir í hruninu.  Það var vegna þess að óábyrgir stjórnmálamenn höfðu rekið ríkið með halla í langan tíma.  Það var hægt meðan það var ótakmarkað framboð á lánsfé.  Eftir nokkur neyðarlán frá Evrópusambandinu og AGS eru skuldir Grikkja 320 milljarðar evra ii).   Á núvirði eru þetta 40 þúsund milljarðar íslenskra króna.  Þetta er há fjárhæð, en íslensku bankarnir fóru á hausinn með 7,5 þúsund milljarða tapi.  Þetta tap er meira á hvern Íslending en hver Grikki skuldar.  Kröfuhafar íslensku bankanna sátu uppi með tapið.  Þetta voru aðallega erlendir bankar.  „Hrægammarnir“ svokölluðu.  iii)

Er hægt að bera þetta saman?  Grískir stjórnmálamenn létu ríkið safna skuldum.  Íslenskir stjórnmálamenn (Sjálfstæðis og Framsókn) seldu bankana félögum sínum og létu þá óáreitta þó að þeir söfnuðu gífurlegum skuldum.  Í Grikklandi var mjög erfitt fyrir erlendar eftirlitsstofnanir að fá upplýsingar um ástandið í fjármálakerfinu.  Á Íslandi var þjóðhagsstofnun lögð niður þegar hún fór að benda á gífurlegan viðskiptahalla.  Stjórnmálamenn í báðum löndum sýndu fádæma ábyrgðarleysi í stjórnun landsmálanna.  Leyndarhyggjan hjálpaði þeim með að komast upp með það.

Trump.    

Við horfum til kosningar Trumps í Bandaríkjunum með fyrirlitningu iv).  Hvernig geta þeir verið svona vitlausir að velja mann sem segir alveg mismunandi hluti um sama málefnið, bara eftir því hverjir eru að hlusta?  Aðferðin var að punda röngum upplýsingum á facebook síður almennings.

Er eitthvað þannig í gangi hér?  Jú hér stundar hægri hlið stjórnmálanna alveg sömu vinnubrögð.  Hér fáum við kostuð skilaboð frá „Andríki“, „samtök skattgreiðenda“ og „Kosningar 2017“ v) inná facebook reikninga okkar.  Þetta er rakalaus þvættingur, en það er nafnlaust, svo það er eins og að berjast við vindmyllur að svara því.

Niðurstaða.

Núna þurfum við að vara okkur á áróðrinum.  Hann hefur skaðað aðrar þjóðir, og getur skaðað okkur.  Við ættum ekki að umbera það að uppnefnið „Skatta Kata“ sé notað, bara af því að við höfum séð það svo oft.

Reynir Eyvindsson, nr 7 á lista VG í norðvesturkjördæmi.

  1. Googlið: „faroe islands financial crisis“
  2. Googlið: “Greek government-debt crisis” sjá wikipedia/Economic statistics
  • Ath! Icesave skuldin bliknar í samanburði við gjaldþrot íslensku bankana.
  1. Þarna á ég við fólk flest. Ég þekki samt aðila sem eru ánægðir með að Trump sé að „stríða“ vinstri mönnum með loftslagsmálunum og fleiru.  Þeim finnst það mikilvægara, en sjálf tilvera jarðarbúa!
  2. Ath sama nafn og grúppa sem RUV heldur úti, en alls ekki sama innihald.

Íslenskur lax fjarskyldur Evrópulaxi

Villtur lax. Mynd: Þorleifur.

Í nýrri grein sem birt var í Vísindariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES Journal of Marine Science, er greint frá niðurstöðum viðamikilla rannsókna á erfðafræði Atlantslax. Rannsóknin var mjög viðamikil, safnað var sýnum úr 26.822 löxum úr 282 vatnakerfum í 13 Evrópulöndum. Tveir íslenskir vísindamenn eru meðhöfundar greinarinnar, þeir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og Kristinn Ólafsson sem starfaði fyrir Matís.  Gögnin sýna að íslenskur lax er fjarskyldur öðrum evrópskum laxastofnum. Annars staðar í álfunni greinist laxinn í tvo meginhópa, norðurhóp og suðurhóp. Síðan er hægt að greina lax í erfðahópa eftir svæðum. Með þessum gögnum er unnt að rekja lax sem veiðist í sjó til síns heima, annað hvort eftir landsvæði eða til ákveðinnar áar.

Íslenskur lax skiptist einnig í hópa. Þar eru tveir meginhópar, annar á Norðurlandi, hinn á Vesturlandi. Líklegt er að lax á Suðurlandi myndi þriðja hópinn, en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það. Í flestum laxveiðiám landsins er sérstakur stofn.

smari@bb.is

Viðrar vel til útivistar

Haustlitir á Dynjanda.

Það eru rólegheit í veðurkortum helgarinnar og útlit fyrir ágætis haustveður og upplagt að njóta útivistar um helgina. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar með helgarspánni.

Í dag er suðlæg átt í kortunum og einhver væta nokkuð víða. Vindurinn og úrkoman minnkar þegar líður á daginn og í kvöld verður búið að stytta upp og komið hæglætisveður um allt land. Vegir verða margir blautir eftir daginn og í kvöld og nótt verður semsagt hægur vindur, það rofar til og kólnar. Vegfarendur ættu þá að vera á varðbergi gagnvart hálku.

smari@bb.is

Flutningur sjúkra í uppnámi

Guðjón Brjánsson.

Ein mestu verðmæti hverrar þjóðar er félagsauðurinn sem hún býr yfir. Hér er um að ræða öll þau félög sem sinna margs konar verkefnum til að auka lífsgleði og lífsgæði þjóðarinnar. Íslendingar eru svo lánsamir að þessi eiginleiki nánast liggur í blóðinu, enda hefur lífsbaráttan kennt kynslóðunum að hjálpsemi, samvinna og samkennd eru grundvallaratriði til að lifa af í harðbýlu landi.

Rauði krossinn á Íslandi er eitt þessara félaga. Hann var stofnaður fyrir rúmum níutíu árum og er hluti af stærstu mannúðarhreyfingu heims. Fyrstu verkefnin voru á sviði heilbrigðismála, en urðu síðar fjölþættari. Er bílaöld hófst urðu kaup á sjúkrabifreiðum áhersluverkefni félagsins og deildir stofnaðar víðs vegar um landið til að safna fé og reka sjúkrabifreiðar. Deildirnar öfluðu fjár í heimabyggð til bílakaupa til að tryggja sem best öryggi þeirra sem þyrftu á læknaþjónustu að halda.

Rauði krossinn átti og rak bifreiðarnar, en fyrir um tuttugu árum samdi félagið við stjórnvöld um reksturinn. Þar kom ríkið að honum með fjárframlögum, en Rauði krossinn lagði eignir sínar á móti. Í tuttugu ár hefur þessi rekstur gengið áfallalaust, Rauði krossinn hefur samt ávallt lagt til hans tugi milljóna króna á ári hverju. Má ætla að það framlag félagsins nemi á núvirði um einum milljarði króna.

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Stjórnvöld hafa ekki samið við Rauða krossinn í tvö ár um þessa mikilvægu þjónustu. Bílaflotinn hefur ekki fengið nauðsynlega endurnýjun. Velferðarráðuneytið vill breytingar á rekstrinum. Hvort til stendur að einkavæða hann er ekki ljóst, en tveir síðustu ráðherrar hafa viljað breytt fyrirkomulag.

Rauði krossinn hefur gætt ítrasta hagræðis, öryggis og hagsmuna landsbyggðarinnar, enda eru deildir félagsins vakandi yfir þessum málaflokki. Engar kvartanir eða athugasemdir hafa komið frá stjórnvöldum um reksturinn. Þess vegna er óskiljanlegt að stjórnvöld vilji nú með einhverjum óljósum hætti breyta fyrirkomulagi sem reynst hefur þjóðinni vel.

Guðjón S. Brjánsson,

alþingismaður

Bræður bjóða til tónleika

Sunnudaginn 22. október kl. 16:00  bjóða bræðurnir Maksymilian, Mikolaj og Nikodem Frach Vestfirðingum á skemmtilega og fjölbreytta  tónleika í Hömrum.

Þeir eru ísfirskum tónlistarunnendum að góðu kunnir, hafa víða komið fram, einir og með öðrum, og ávallt vakið mikla athygli fyrir frábæran tónlistarflutning.

Nú  hafa þeir fengið til liðs við sig vini frá Póllandi, Karolinu Marks, Beata Tasarz, og Hanna Nieborak auk þess sem foreldrar þeirra, Janusz og Iwona taka þátt í tónleikunum.

Efnisskráin er metnaðarfull og óvenjuleg. Mikolaj leikur einleik í hinum fagra píanókonsert Chopins  í f-moll nr. 2, Nikodem spilar einleik í fiðlukonsert í a-moll eftir Bach og Maksymilian og Karolina spila tvíelikinn í fiðlukonsert í d-moll BWV 1043 fyrir 2 fiðlur eftir Bach.

Maksymilian Haraldur er 21 árs, lauk framhaldsprófi með glæsibrag frá Tónlistarskóla Ísafjarðar fyrir nokkrum árum, fór svo í Listaháskóla Íslands þar sem hann var nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hann fór sem skiptinemi til Póllands og stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Kraków. Mikolaj Ólafur, sem er aðeins 17 ára, lauk framhaldsnámi í ipíanóleik sl. vor og hélt þá eftirminnilega tónleika í Hömrum. Hann hefur verið við píanónám í Póllandi undanfarna mánuði, en er nú kominn heim aftur. Yngsti bróðirinn, Nikodem Júlíus, 15 ára,  stundar fiðlunám hjá föður sínum við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Allir eru velkomnir á tónleika þessararar músíkölsku fjölskyldu og er aðgangur ókeypis. Frjáls framlög í ferðasjóð hljóðfæraleikaranna eru vel þegin.

Þess má geta að í næstu viku verða tónleikarnir endurteknir á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið i tónleikasal Tónlistarskólans í Garðabæ við Kirkjulund 11. Tónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 26.október og hefjast kl.19.30 og eru öllum opnir.

Nýjustu fréttir