Sunnudagur 20. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2121

Gera gott samfélag betra

Hugguleg stemmning á bláberjadögum í Súðavík í sumar.

Um helgina verður haldið íbúaþing í Súðavíkhreppi. Pétur G. Markan sveitarstjóri segir þingið vera part af átaki sem sveitarstjórn hóf í upphafi kjörtímabilsins sem miðar að því að efla þátttöku og aðkomu íbúa að málefnum sveitarfélagins.

Íbúaþingið verður í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur sem er sérfræðingur í lýðræðisþátttöku íbúa. Þingið stendur í tvo daga, laugardag og sunnudag. Pétur segir að afurð þingins verði síðan notuð m.a. í heildarendurskoðun aðalskipulags Súðavíkurhrepps sem nú stendur yfir. „Aukinheldur mun vinna þingsins gagnast vel þegar líður að kosningum næsta vor. Þá verður gott að hafa nýlega stefnumótun íbúa til að styðjast fyrir vonlega frambjóðendur. Fyrst og fremst er þingið hugsað til að vald- og hópefla alla þá framúrskarandi íbúa sem búa í Súðavíkurhreppi, leiða saman hugvit þeirra og krafta til að efla gott samfélag og gera það þannig enn betra,“ segir Pétur.

Í kringum þingið verða síðan fullt af viðburðum til að gleðja og kæta mannsandann, s.s. kótilettukvöld, pizzukvöld, dansleikur með stórhljómsveit Árna Þorgilssonar, íþróttadiskótek  og margt fl.

Dagskráin hefst í dag en sjálft íbúaþingið verður á morgun og á sunnudag.

 

Auglýsing

Súrnun sjávar ógnar Íslandsmiðum

Súrnun sjávar getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir lífríki í hafinu umhverfis Ísland.

„Víðtæk­ar breyt­ing­ar eru að verða á haf­inu – þegar kem­ur að hita­stigi, haf­straum­um og efna­fræðileg­um eig­in­leik­um. Súrn­un sjáv­ar er raun­veru­leg og al­var­leg ógn sem staf­ar að líf­ríki sjáv­ar. Kór­alrifj­um, sem eru fræg fyr­ir líf­fræðilega fjöl­breytni, bíður svört framtíð – bók­staf­lega – með hækk­andi hita­stigi og súrn­un.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda sem var les­in upp á loft­lagsþingi Sam­einuðu þjóðanna í dag. Í yfirlýsingunni i kem­ur fram að ástæða sé til að hafa áhyggj­ur af framtíð lífríkis­ins um­hverf­is Íslands og þar með sjáv­ar­út­vegs­ins.

Bent er á að á fáum stöðum sé hnatt­ræn hlýn­un aug­ljós­ari en á Íslandi. Vatna­jök­ull, sá stærsti í Evr­ópu, minnki hratt, ár frá ári. „Jökl­ar gætu að miklu leyti horfið á einni eða tveim­ur öld­um,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

 

Auglýsing

Fá og smá verk standa út af

Páll Pálsson ÍS (tv) og Breki VE í skipasmíðastöðinni í Kína.

Nú er ljóst að systurskipin Breki og Páll Pálsson koma ekki til landsins fyrr en á nýju ári – en ekki núna fyrir áramótin eins og að var stefnt. Um þetta er fjallað á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar, eiganda Breka VE. Þar segir að fulltrúar Samgöngustofu fóru til Kína og tóku skipin út eins og lög gera ráð fyrir og voru í kínversku skipasmíðastöðinni í um viku við úttekt á togurunum tveimur.

Fá og tiltölulega smá verk standa enn út af. Alveg í lokin verða skipin tekin í slipp á nýjan leik til að ljúka við að mála þau áður en þeim verður siglt heim á leið.

Tilkynnt var um smíði skipanna í maí 2014 en smíði togarann hefur dregist umtalsvert.

smari@bb.is

Auglýsing

Hey þú

Fyrir nokkrum árum tóku nokkrir rekstraraðilar á Ísafirði sig til og bjuggu til veggspjald þar sem íbúar voru hvattir til að versla í heimabyggð og kaupa jólagjafir af litlum fyrirtækjum og sjálfstætt starfandi í heimabyggð.

„Verum viss um að peningarnir okkar fari heldur til einstaklinga í samfélaginu en til stórfyrirtækja í öðrum landshlutum. Þannig mun stærri hluti heimafólksins eiga gleðileg jól“ segir í textanum og að lokum er hvatning til að „styðja raunverulegt fólk“.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Rjúpnaveiðum lýkur

Síðasta helgi rjúpnaveiða hófst í dag, en veiðar voru leyfðar fjórar þriggja daga helgar í ár, líkt og í fyrra. Ágætlega viðrar til rjúpnaveiða á Vestfjörðum um helgina og þá sérsaklega á morgun. Jörð er snævi þakin sem veitir rjúpunni betra skjól í harðri lífsbaráttu við veiðimenn gráa fyrir járnum. Veiði hefur verið þokkaleg á Vestfjörðum og þá sérstaklega fyrstu helgina. Þá var jörð alauð upp á fjallstoppa og hvítur felubúningur rjúpunnar kom að litlu gagni.

Í gær var fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar og því er vel við hæfi að birta ljóðið Óhræsið sem Jónas orti um rjúpuna:

 

Ein er upp til fjalla,

yli húsa fjær,

út um hamrahjalla,

hvít með loðnar tær,

brýst í bjargarleysi,

ber því hyggju gljúpa,

á sér ekkert hreysi

útibarin rjúpa.

 

Valur er á veiðum,

vargur í fuglahjörð,

veifar vængjum breiðum,

vofir yfir jörð;

otar augum skjótum

yfir hlíð, og lítur

kind, sem köldum fótum

krafsar snjó og bítur.

 

Rjúpa ræður að lyngi

– raun er létt um sinn –

skýst í skafrenningi

skjót í krafsturinn,

tínir, mjöllu mærri,

mola, sem af borði

hrjóta kind hjá kærri,

kvakar þakkarorði.

 

Valur í vígahuga

varpar sér á teig,

eins og fiskifluga

fyrst úr löngum sveig

hnitar hringa marga;

hnýfill er að bíta;

nú er bágt til bjarga,

blessuð rjúpan hvíta!

 

Elting ill er hafin,

yfir skyggir él,

rjúpan vanda vafin

veit sér búið hel;

eins og álmur gjalli,

örskot veginn mæli,

fleygist hún úr fjalli

að fá sér eitthvert hæli.

 

Mædd á manna besta

miskunn loks hún flaug,

inn um gluggann gesta

guðs í nafni smaug

– úti garmar geltu,

gólið hrein í valnum –

kastar hún sér í keltu

konunnar í dalnum.

 

Gæðakonan góða

grípur fegin við

dýri dauðamóða –

dregur háls úr lið;

plokkar, pils upp brýtur,

pott á hlóðir setur,

segir happ þeim hlýtur,

og horaða rjúpu étur.

smari@bb.is

Auglýsing

Norðlægar áttir verða ríkjandi

Veðurstofan spáir norðvestanátt 8-13 m/s og él á Vestfjörðum í dag. Dregur úr vindi í kvöld en áfram él og vægt frost. Í athugasemd veðurfræðings kemur fram að djúp lægð er nokkuð langt austur af landi en hún hefur áhrif á vind á austan- og suðaustanverðu landinu, en þar verður hvassviðri eða stormur um hádegi og fram á nótt. Hægari vindur og víða él um landið norðanvert í dag en samfelldari snjókoma norðaustanlands í kvöld. Norðvestan 3-10 um landið suðvestanvert og bjartviðri en stöku él við ströndina. Hiti áfram nálægt frostmarki.

Hæg breytileg átt á morgun en norðan 8-13 austast á landinu. Víða bjartviðri en dálítill éljagangur norðanlands.

Lægir heldur norðaustanlands á sunnudag, en áfram éljagangur og hvessir heldur suðvestanlands, en áfram bjartviðri.

Helgin setur tóninn fyrir næstu viku, norðlægar áttir ríkjandi með él eða snjókomu fyrir norðan en bjartviðri syðra. Hiti við frostmark við sjávarsíðuna en frost inn til landsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Blakveisla á morgun

Meistaraflokkur kvenna með Tihomir Paunovski þjálfara.

Meistaraflokkar karla og kvenna í blaki taka á móti Hamri um helgina og má reikna með spennandi viðureignum. Kvennaliðin mætast á Torfnesi kl. 11:00 og engar líkur á öðru en að okkar konur leggi allt í leikinn. Hamarskonur eiga tvo leiki til góða en þær hafa unnið einn leik og tapað þremur. Vestrakonur hafa unnið þrjá leiki og tapað þremur. Það er alltaf styrkur að hafa hávaða á pöllunum og um að gera að mæta á Torfnes kl. 11:00 á laugardaginn.

Karlalið Vestra hefur ekki riðið feitum hesti frá sínum viðureignum á þessari leiktíð og sigurleikur væri vel þeginn. Vestri hefur spilað tvo leiki og tapað báðum og Hamar hefur sömuleiðis spilað tvo leiki en unnið báða. Vestramenn lögðu 1. deildinni í fyrra með glæsibrag og þurfa að finna aftur taktinn og gráupplagt að gera það á laugardaginn kl. 15:00 á Torfnesi og klapplið myndi örugglega hjálpa þeim í gírinn.

Meistaraflokkur Vestra

bryndis@bb.is

Auglýsing

Tap í Borgarnesi

Barátta í Borgarnesinu í gær.

Vestri beið lægri hlut fyrir Skallagrími í Borgarnesi í gær, 106 : 96, þegar liðin mættust í 1. deilda karla í körfuknattleik. Nebojsa Knezevic var atkvæðamestur Vestramanna, skoraði 37 stig og tók 12 fráköst. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var bestur maður Borgnesinganna, skoraði 22 stig, tók fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Skalla­grím­ur er á toppi deild­ar­inn­ar með 14 stig, hef­ur unnið sjö af fyrstu átta leikj­um sín­um, en Vestri er í þriðja sæt­inu með 10 stig. Breiðablik er í öðru sæti með 12 stig og á leik til góða gegn Snæfelli á sunnu­dag.

Smari@bb.is

Auglýsing

Svalur nóvember

Nú er nóv­em­ber­mánuður hálfnaður og hef­ur hann verið frem­ur sval­ur, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Trausta Jóns­son­ar veður­fræðings. Meðal­hiti í Reykja­vík er +1,5 stig, -0,5 neðan meðallags 1961-1990, en -2,3 stig­um neðan meðallags síðustu tíu ár. Nóv­em­ber hef­ur þó tvisvar á öld­inni byrjað kald­ari í Reykja­vík en nú, árin 2005 og 2010. Hlýj­ast var árið 2011. Á langa sam­an­b­urðarlist­an­um er mánuður­inn nú rétt neðan við miðju, í 78. sæti af 142. Fyrri hluti nóv­em­ber var hlýj­ast­ur árið 1945 (8,2 stig), en kald­ast­ur 1969 (-2,6 stig). Meðalhiti var undir meðallagi á öllum veðurstöðvum landsins, minnst í Seley, -0,8 stig, en mest í Veiðivatnahrauni, -3,9 stig.

Trausti skrifar að hita er spáð undir meðallagi næstu daga „svo það verður trúlega þungur róður fyrir mánuðinn að ná meðallagi hvað hita varðar.“

smari@bb.is

Auglýsing

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga komið út

Út er komið 55. ársrit Sögufélags Vestfirðinga og kennir þar ýmissa grasa. Í inngangi ritstjóranna kemur fram að ársritið spanni að þessu sinni tvö ár, 2016-2017 en því miður hafi ársritið ekki staðið fyllilega undir nafni. Fyrsta ársritið kom út árið 1956, fyrir sextíu og einu ári.

Ritstjórar eru þeir Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson.

Kristján Pálsson fjallar um sögu Hnífsdals frá landnámi til 19. aldar, um Þórólf Brækir og hugsanlegan misskilning um Skálavík og Hnífsdal. Þar má líka lesa um átök Sólveigar Guðmundsdóttur og Björns hirðstjóra, deilur Magnúsar Prúða í Ögri og Árna Gíslasonar lögmanns og um fyrsta ættlegg Hnífsdalsættar. Heilsufar og trúarlíf Hnífsdælinga er líka líst og haft eftir Eggerti og Bjarna. Greinin í ársritinu er hluti af meistararitgerð Kristjáns í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Bragi Bergsson fjallar um Simsongarð og um líf og störf Martinusar Simson en hann hóf ræktun garðsins árið 1926.

Sigurður Pétursson fjallar um Þjóðminningarhátíð Ísfirðinga en í lok 19. aldar tóku Reykvíkingar að halda Þjóðminningardag þann 2. ágúst og tóku fleiri landsmenn það upp, þar á meðal Ísfirðingar. Sá dagur „týndist“ þegar 17. júní var að hátíðisdegi.

Birt er bréf um skólamál í Ísafjarðarsýslu sem sent var blaðinu Norðanfari árið 1881, bréfritari lýsir þar skoðun sinni á barnaskólum og hvetur frekar til að byggðir sem verði upp unglingaskólar.

Að lokum er í ritinu minningargrein um Karl Olgeirsson sem birtist í Vesturlandi í febrúar 1956.

Sögufélagið var stofnað árið 1953 og er tilgangur félagsins meðal annars að safna, varðveita og kynna hverskonar fróðleik um Ísafjarðarsýslu að fornu og nýju, um héraðið og kynna íbúa þess og gefa út rit um þetta efni, ásamt annarri útgáfustarfsemi. Formaður félagins er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir