Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2121

Austurvegi lokað vegna framkvæmda

Austurvegi hefur verið lokað vegna viðgerðar á skólplögnum

Loka þarf Austurvegi á Ísafirði frá Kaupfélagshúsinu (Kaupmaðurinn, Craftsport, Hótel Horn) frá klukkan eitt í dag og í nokkra daga. Í tilkynningu frá Ísafjarðarbær kemur fram að skolplögn er að falla saman undir götunni og þarf að fara í tafarlausar viðgerðir. Augljóslega mun þetta hafa umtalsverð óþægindi í för með sér fyrir nokkuð marga, sér í lagi nemendur og starfsfólk í Grunnskólanum á Ísafirði. Meðan á framkvæmdum stendur mun skólastrætó hleypa úr og taka uppí farþega við stoppistöð á Pollgötu.

smari@bb.is

Framtíðin er vinstri græn

Sigríður Gísladóttir

Spjótin hafa staðið á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði síðustu daga í greinaskrifum vestfirskra sjálfstæðismanna. Tilgangurinn er augljós, að þyrla upp ryki svo að fókusinn færist af því sem þessar kosningar snúast um; hvaða stjórnmálamönnum er treystandi til að byggja upp réttlátt samfélag þar sem jöfnuður ríkir milli landsmanna.

Í grein Halldórs Jónssonar leggur hann mikið upp úr því að þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hafi ekki gerst meðflutningsmaður að sérlögum um vegagerð í Gufudalssveit, oftast nefnd vegagerð um Teigsskóg. Það er rétt hjá Halldóri að þingmaðurinn lagði ekki nafn sitt við þetta frumvarp, enda er það vanhugsað og ekki til annars en að slá pólitískar keilur heima í héraði.

Fyrir rétt rúmu ári lagði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fram frumvarp sama eðlis nema þá átti að grípa fram fyrir hendur á lögboðnu ferli við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna lagningu raflína til Bakka. Á þeim tíma sat þingmaðurinn sem fulltrúi VG í atvinnuveganefnd og þegar frumvarpið kom til meðferðar nefndarinnar var fundað stíft um málið enda lítill tími til stefnu og stutt í þinglok. Það varð deginum ljósara að inngrip í lögboðið ferli er bæði umdeilt og lagalega vafasamt – líklegast ógerningur. Nefndinni bárust fleiri en eitt lögfræðilegt álit sem sögðu að þessi leið væri ekki fær og bryti gegn sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Þá er einboðið að sérlög verði kærð og í tilfelli Bakkalínanna kom það á daginn að Landvernd ætlaði að kæra lagasetninguna til ESA. Það hefði að öllum líkindum verið eitt af mörgum kærumálum sem lögin hefðu framkallað.

Það fór svo að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, dró frumvarpið til baka enda einsýnt að málið stefndi rakleiðis niður blindgötuna.

En hvað á að gera?

Við Vestfirðingar erum allir sem einn orðnir langþreyttir á Teigsskógsþrætunni og viljum fara að sjá eitthvað gerast. Um það erum við öll sammála. Eins og þeir sem fylgjast með málinu vita er það nú á borði Reykhólahrepps að breyta aðalskipulagi hreppsins og niðurstöðu hreppsins er að vænta um áramótin. Þá fyrst verður ljóst hvort að ný veglína muni liggja í gegnum Teigsskóg og þá getur Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi.

Í stað þess að bjóða Vestfirðingum upp á enn eina lagaþrætuna um Teigsskóg hafa Vinstri græn lagt til að Vegagerðin hefji framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar, enda er sá kafli framkvæmdanna lítt umdeildur og hluti af báðum veglínum sem helst koma til álita, þ.e.a.s. leiðinni um Teigsskóg og svo leiðinni undir Hjallaháls. Þessar framkvæmdir ættu að geta hafist innan skamms og sé það einlægur vilji þingmanna að flýta framkvæmdum er ljóst að þessi leið kemur að mestu gagni.

Vinstri græn og fiskeldi

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. En fiskeldi er umdeilt eins og við vitum öll og það er hægt að gera hlutina vel og það er hægt að gera hlutina illa. Stjórnmálaflokkarnir hafa því miður að mestu staðið stikkfrí og horft á darraðadansinn. Það gerðum við í VG ekki. Á nýafstöðnum landsfundi ræddum við málið og mótuðum okkur stefnu.

Rauður þráður í stefnu VG í fiskeldi er að við viljum fara varlega – við þekkjum dæmi um að farið hefur verið of geyst í fiskeldi, ekki bara á Íslandi heldur í nágrannalöndunum. Kapp er best með forsjá og hvorki fyrirtækjum né byggðarlögum er greiði gerður með rússíbanareið. Uppbyggingin þarf að gerast í ákveðnum skrefum með fagmennsku að leiðarljósi. Við þurfum fyrirtæki sem af þrautseigju og þolinmæði geta byggt upp faglegt fiskeldi og orðið burðarás í atvinnulífi á Vestfjörðum.

 Fiskeldi í fremstu röð

Eins og við vitum var útkoman úr áhættumatinu ekki eins og íbúar við Djúp vildu. Þrátt fyrir áhættumatið og allan hávaðann sem það skapaði, er síður en svo öll nótt úti. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa bent á leiðir til að minnka umhverfisáhættuna í Ísafjarðardjúpi.

Það er því ánægjulegt að fiskeldisfyrirtækin og Hafrannsóknastofnun skuli nú vinna hörðum höndum að nýjum leiðum sem munu gera fiskeldi í Ísafjarðardjúpi í fremstu röð – rétt eins og við í VG viljum sjá.

Það er á þessum grunni sem stefna VG í fiskeldi stendur.

Almannahagsmunir í forgrunni

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar sem Svandís Svavarsdóttir þáverandi umhverfisráðherra lagði fram og allur þingflokkur VG samþykkti. Hið sama verður ekki sagt um þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði gegn rammaáætluninni. Í ljósi þessa er mikilvægt að Hvalárvirkjun komi Vestfirðingum til góða, með því að orkan verði nýtt í fjórðungnum í þarfa uppbyggingu eða hún verði til þess að dreifikerfið styrkist og það sé hafið yfir vafa og fyrir liggi tímasett áætlun um að Vestfirðir komist inn í nútímann í raforkumálum. Sú skoðun byggir á því að almannahagsmunir verði í forgrunni.

Í allri umræðunni um Hvalárvirkjun hafa varnaðarorð þingmannsefnis VG í Suðurkjördæmi, Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur sauðfjárbónda, drukknað í flaumi innistæðulítilla loforða frá stjórnmálamönnum um hringtengingar og raforkuöryggi. Á borgarafundi í Árneshreppi í sumar talaði hún af reynslu þegar hún varaði hreppsbúa og aðra við því að láta málið verða að rýtingi inn í brothætt samfélög, sem eiga kannski aðeins samstöðuna eftir, í baráttunni fyrir tilvist sinni.

Vestfirðingar eiga betra skilið en skammsýni og sundrung meðal þeirra sem vilja landshlutanum allt gott, en það er mikilvægt að greina kjarnann frá hisminu í umræðunni um stóru málin okkar í dag.

Síðast en ekki síst skal minnt á að það er ekki vinstristefnu að kenna að Vestfirðir hafa farið halloka síðustu áratugi, heldur skrifast það á óhefta markaðsvæðingu lífsbjargarinnar sem hefur verið seld úr héraði til hagsbóta fyrir örfáar fjölskyldur.

Sigríður Gísladóttir, Ísafirði

Höfundur skipar 9. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi

Stofninn ekki eins sterkur í rúma öld

Arnarhreiður við Breiðfjörð.

Hafarnarstofninn hefur ekki verið jafn sterkur og nú síðan í lok 19. aldar. Hafarnarpörin voru 76  í sumar og fjölgaði um tvö frá því í fyrra. Þá komust upp 36 ungar úr 28 hreiðrum, en 51 par reyndi varp í sumar. Yfirleitt eru það sömu óðulin ár eftir ár þar sem varp gengur best. Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Kristin Hauk Skarphéðinsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ernir hafa sést í auknum mæli í námunda við gamla varpstaði. Nú sjást fullorðnir fuglar t.d. á Suðurlandi alveg fram á varptímann. Hafarnavarpið er þéttast við sunnanverðan Breiðafjörð og þéttist stöðugt. Á varpsvæði þar sem var eitt par fyrir 50 árum verpa nú átta pör

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vestfjörðum og á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum.

smari@bb.is

Hefja frumathugun fyrir þvergarð í Hnífsdal

Bleiku línurnar sýna legu hugsanlegs þvergarðs.

Í dag hefjast frumathuganir vegna ofnaflóðavarna í sunnanverðum Hnífsdal, en bæjarráð Ísafjarðarbæjar óskaði eftir því við Ofanflóðasjóð í júní að hafin verið vinna við varnir í dalnum. Jarðfræðingur frá Verkís mun í dag hefjast handa við að greina jarðlög, stöðu grunnvatns og dýpi niður á fast á því svæði þar sem hugsanlegur þvergarður verður reistur. Grafnar verða 5-7 gryfjur ofan Bakkavegs og 3-5 ofan Hlégerðis og Dalbrautar. Gryfjurnar verða u.þ.b. 5 metra djúpar og verður gengið frá þeim nánast jafnóðum og gengið eins vel um svæðið og mögulegt er.

smari@bb.is

Gerum betur í heilbrigðismálum

Dagrún Ósk Jónsdóttir rannsakaði mannát í íslenskum þjóðsögum.

Eitt af því sem þarf að taka fastari tökum eftir komandi kosningar eru heilbrigðismál. Það er ekki síst mikilvægt fyrir dreifðar byggðir landsins. Skilgreina þarf vandlega hvaða heilbrigðisþjónusta á að vera í boði að lágmarki í öllum byggðarlögum og finna leiðir til að veita þá grunnþjónustu og bæta hana síðan jafnt og þétt. Aðgengi að heilsugæslu og læknum verður að vera tryggt alls staðar á landinu. Það er mikilvægt byggðamál.

Kostnaðarþátttaka fólks vegna heilbrigðisþjónustu er of mikil og þarf að minnka, fyrst hjá öryrkjum og öldruðum, langveikum og börnum. Um leið þarf að auka stuðning vegna endurtekinna ferðalaga fyrir fólk sem er búsett utan höfuðborgarsvæðisins og þarf að leita þangað til sérfræðinga. Sláandi reynslusagnir fólks um erfiðleika og kostnað vegna sífelldra ferðalaga vegna alvarlegra sjúkdóma eða með langveik börn eiga að heyra sögunni til. Sama gildir um reynslu kvenna sem þurfa að dvelja langdvölum á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja öryggi við barnsfæðingu með tilheyrandi dvalarkostnaði. Nóg er samt að þurfa jafnvel að skipta upp fjölskyldunni með langri dvöl fjarri heimili fyrir barnsfæðingu. Koma þarf til móts við þennan kostnað, þar sem ekki er mögulegt að veita þjónustuna í heimabyggð sem væri auðvitað besti kosturinn.

Forvarnir í heilbrigðismálum skipta líka miklu máli og á jafnt við um líkamlega sjúkdóma og andlega. Gera þarf stórátak í að vinna fyrirbyggjandi starf gegn sjúkdómum eins og þunglyndi og kvíða sem fer mjög vaxandi, ekki síst meðal ungs fólks. Það bókstaflega verður að leggja aukna áherslu á hugarfarsbreytingu gagnvart ósýnilegum sjúkdómum. Þannig mætti auka lífsgæðin hjá fjölda fólks. Hluti af því er líka að vinna gegn þöggun og ofbeldismenningu í samfélaginu og opna enn betur umræðu um virkilega erfið málefni, eins og kynferðislega áreitni, líkamlegt og andlegt ofbeldi, heimilisofbeldi, einelti meðal fullorðinna jafnt sem barna, þunglyndi og sjálfsvíg. Á þessu sviði er hægt að gera betur og það á að vera forgangsmál. Einkarekstur heilbrigðisþjónustu er ekki lausnin, heldur aukið fjármagn, betra skipulag og betri þjónusta.

Það er stefna VG að sálfræðiþjónusta verði hluti af almenna heilbrigðiskerfinu og að enginn þurfi að neita sér um slíka þjónustu vegna kostnaðar eða skorti á aðgengi. Sálfræðiþjónusta þarf að vera í boði við alla framhaldsskóla landsins og stórátak þarf einnig  í geðheilbrigðismálum. Fyrsta skrefið á því sviði er að tryggja fjármagn til að veita viðunandi þjónustu á bráðageðdeild og barna- og unglingageðdeild.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur,
í 4. sæti framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi

Ekki átakalaust að veiða í jólamatinn

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár, en veiðar hefjast á föstudaginn. Ætla má að fjöldi veiðimanna sé að yfirfara útbúnað sinn til veiðanna og skipuleggja veiðferðir. Rjúpnaveiðar eru líkamlega erfiðar og krefjast úthalds og útbúnaðar við hæfi. Umhverfisstofnun bendir veiðimönnum á að margt er líkt með rjúpnaveiðum og fjallgöngu. Veiðimaðurinn þarf að vera fær um fjallgöngu bæði hvað varðar útbúnað og þol. Það gengur því ekki átakalaust að veiða rjúpur í jólamatinn. Huga þarf einnig vel að veðri.

Einnig er mikilvægt að gera ferðaáætlun sem allir veiðifélagar viti af og líka þeir sem heima sitja. Þannig er hægt að kalla til hjálp ef veiðimaður skilar sér ekki á tilsettum tíma. 112 smáforritið fyrir snjallsíma er gagnlegt fyrir veiðimenn í því sambandi. Hægt er að sækja smáforritið á safetravel.is.

Veiðifélagar sem leggja af stað til veiða að morgni ættu að sammælast um komutíma í bíl og virða þá ferðaáætlun. Sé einhver ekki kominn á tilsettum tíma og ekki næst samband við hann er mikilvægt að kalla til hjálp áður en myrkur skellur á. Það er því mikilvægt að hafa í huga hversu langt á eftir að ganga þegar skyggja tekur. Heppilegt er að hafa meðferðis áttavita, GPS-tæki, höfuðljós og farsíma/talstöð. Farsíminn þarf að vera í vatnsheldu hulstri og heppilegt er að hafa með auka rafhlöður í hann og GPS-tækið.

Réttur til veiða á landi ræðst af eignarhaldi landsins og Umhverfisstofnun áréttar mikilvægi þess að veiðimenn þekki eignarhald þar sem þeir hyggjast veiða og virða rétt landeigenda til að stjórna veiðum á sínu landi. Ennfremur þarf að hafa í huga að ákveðin landsvæði hafa verið friðlýst. Þegar svæði er friðlýst er ekki sjálfgefið að veiðar séu bannaðar. Það hvílir skylda á veiðimönnum að kynna sér í hverju tilfelli fyrir sig hvaða reglur gilda um það landsvæði sem þeir hyggjast veiða á. Ábyrgðin er veiðimannsins. Hægt er að finna upplýsingar um friðlýst svæði á vefsvæði Umhverfisstofnunar. Þar er hægt að sjá hvort veiðar séu heimilar eða ekki samkvæmt friðlýsingunni.

smari@bb.is

Framsókn og Píratar tapa manni

.

Mikil endurnýjun yrði á þingliði samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Þegar niðurstöðu skoðanakönnunarinnar er raðað niður á kjördæmi sést að bæði VG og Samfylking eru í sókn í Norðvesturkjördæmi miðað við kosningarnar 2016. Framsóknarflokkurinn tapar rúmlega helming af fylgi sínu, Píratar dala nokkuð og Sjálfstæðisflokkurinn gefur litillega eftir. Miðflokkurinn kemur inn í sínar fyrstu kosningar af miklum krafti og nær auðveldlega inn manni.

Hafa ber í huga að við útreikning á fylgi flokka eftir kjördæmum og skiptingu þingsæta eru stundum fáir á bak við tölurnar. Vikmörk eru þá nokkuð há.

Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kjördæminu með 28,6 prósent, en flokkurinn fékk 29,5 prósent í kosningunum fyrir ári. Miðað við þetta heldur Sjálfstæðisflokkurinn sínum þremur þingmönnum. Vinstri græn mælast með 23,6 prósent, bæta við sig 5,6 prósentustigum frá því í fyrra sem og einum þingmanni. Fylgi Samfylkingarinnar tvöfaldast milli ára, fer úr 6,3 í 12,4 prósent, en það nægir ekki til að bæta við öðrum þingmanni. Miðflokkurinn mælist með sama fylgi og Samfylking og nær inn einum þingmanni. Fylgi Framsóknarflokksins rúmlega helmingast milli kosninga. Í fyrra fékk flokkurinn 20,8 prósent en fær nú 9,3 prósent og missir einn þingmann.

Píratar fá 6,8 prósent en fengu 10,9 prósent í kosningunum í fyrra og flokkurinn tapar þingmanni kjördæmisins. Viðreisn mælist með 1,2 prósent, niður úr 6,2 prósentum í fyrra. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist ekkert, 0,0 prósent, en flokkurinn fékk 3,5 prósent í fyrra.

Ef niðurstaða kosninganna verður á þessa leið verða þingmenn kjördæmisins þessir:

Haraldur Benediktsson (D)

Teitur Björn Einarsson (D)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (D)

Lilja Rafney Magnúsdóttir (V)

Bjarni Jónsson (V)

Guðjón S. Brjánsson (S)

Bergþór Ólason (M)

Ásmundur Einar Daðason (B)

smari@bb.is

Hvers vegna ég styð Viðreisn.

Gísli Halldór Halldórsson, verðandi bæjarstjóri Árborgar.

Við lifum á tímum umróts í íslenskum stjórnmálum. Flokkar koma og fara. Reglulega gýs upp reiði vegna misheppnaðrar framgöngu stjórnmálamanna og fólk lýsir vonbrigðum yfir þróun mála. Mikill skortur er á pólitískri forystu og trúverðugleika. Stundum veit fólk varla hvert skal beina spjótum til að hreyfa stjórnmálin fram á veginn – í eitthvert ásættanlegt ástand. Grimmilegar orrahríðir á Facebook án nokkurrar sýnilegrar niðurstöðu eru daglegt brauð.

Það sem vantar sárlega er stefnufesta og heilindi. Að unnið sé á grunni lýðræðislegra sjónarmiða sem halda til lengri tíma. Að hagsmunir þjóðarinnar séu alltaf í forgrunni – að atvinnumál, umhverfismál, innflytjendamál og önnur mál séu unnin með þjóðarheildina í huga. Vinsæl dægurmál koma og fara en verða sjaldan til að ná fram grundvallarbreytingum. Áfengi í búðir, lögleiðing kannabis eða jafnvel hin mjög svo brýnu flugvallarmál í Reykjavík eru í raun dægurmál og þegar þau hafa verið afgreidd þá hafa íslensk stjórnmál samt ekkert endilega breyst.

Almenningur þarf að fá að upplifa að stjórnmálaflokkar séu að vinna í þágu þjóðarinnar allrar – þannig að ekki liggi að baki duldir hagsmunir sem leiða til annarrar niðurstöðu en búið var að lofa, annarrar niðurstöðu en þjónar almenningi.

Loforð Viðreisnar er að „almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum.“ Þetta skiptir öllu máli.

Ástæða þess að Vinstri grænir og Samfylking gátu ekki lagt til atlögu við kvótakerfið árið 2009 var að of margir þingmenn þeirra voru með hagsmuni útgerðarinnar á bakinu. Reyndar má lofa þá ríkisstjórn fyrir að koma á strandveiðunum, strax árið 2009, en lengra varð ekki komist þá. Hinir gömlu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eru svo þjakaðir af hagsmunagæslu að þaðan verður enga leiðréttingu hægt að sækja í nálægri framtíð – frekar en síðustu þrjátíu ár.

Þorgerður Katrín, núverandi formaður Viðreisnar, minntist á það við mig í samtali okkar síðasta vetur hversu mikið frelsi það væri að geta beitt sér í sjávarútvegsmálum án þess að vera bundin á klafa hagsmunaaflanna! Þetta var í miðju sjómannaverkfallinu, en Þorgerður Katrín hafði í þeirri sömu viku opnað tímabundna skrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins á Vestfjörðum.

Í orðum Þorgerðar Katrínar kristallast tilgangur Viðreisnar – að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Þess vegna styð ég Viðreisn til Alþingis.

Gísli Halldór Halldórsson,

Höfundur er í 7. sæti á lista Viðreisnar í Norðvestur kjördæmi.

Afgerandi sigur

Hamarsmenn áttu í erfiðleikum með Nemanja Knezevic.

Vestri lagði FSu örugglega 82-68 á föstudaginn. Um það bil sem flautað var til leiksloka bárust fregnir af því að jörð hafi skolfið rétt norðan við Selfoss. Hvort drunurnar frá magnaðri tröllatvennu sem Vestramaðurinn Nemanja Knezevic skilaði í kvöld voru þess valdandi skal ósagt látið en pilturinn sá átti magnaðan leik á þrítugsafmælisdegi sínum. Sannarlega maður leiksins.

Vestramenn mættu mjög ákveðnir til leiks og spiluðu hörku vörn frá fyrstu sekúndu. Gestirnir fengu erfið skot og hittu illa en skoruðu þó fyrstu tvö stig leiksins af vítalínunni. Björn Ásgeir setti svo tóninn fyrir Vestra með tveimur þriggja stiga körfum í röð og upp frá því leiddu heimamenn. Þessi frábæri varnarleikur í fyrsta fjórðungi skóp í raun sigurinn því gestirnir sáu vart til sólar eftir hann. Þeir náðu þó aðeins að rétt úr kútnum í öðrum fjórðungi með því að skipta í svæðisvörn sem gaf góða raun og var munurinn aðeins 8 stig, 40-32 í hálfleik. Vestramenn mættu þó ákveðnir til leiks eftir hálfleik og bættu í forystuna sem skilaði öruggum sigri.

Eins og fyrr segir átti afmælisbarn dagsins, Nemanja Knezevic enn einn stórleikinn með enn eina tröllatvennuna. Hann skoraði 29 stig, tók 19 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og var með 45 framlagspunkta. Nebojsa skilaði líka góðu dagsverki með 19 stig og 7 fráköst. Björn Ásgeir átti frábæran leik, spilaði hörkuvörn eins og endranær, skoraði 15 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Adam skoraði 8 stig og tók 8 fráköst, Nökkvi skoraði 6 stig, tók 5 fráköst og var með 5 stoðsendingar og Ingimar skoraði 5 stig og gaf 3 stoðsendingar. Þótt aðrir leikmenn hafi ekki komist á blað í stigskorun lögðu þeir sig alla fram í verkefnið og skiluðu sínu.

Hjá gestunum var Jett Speelman atkvæðamestur með 16 stig, Ari Gylfason skoraði 13 en aðrir minna.

Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.

bryndis@bb.is

Íhuga að selja beint á erlenda markaði

Landssamband smábátaeigenda íhugar nú hvort að rétt sé að undirbúa fisksölu beint á erlenda markaði af bátum félagsmanna sambandsins. Þetta kom fram í ræðu Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra LS, á aðlafundi sambandsins fyrir helgi. Á fundinum kom fram að heildaraflaverðmæti smá­báta fisk­veiðiárið 2016/​2017 varð 18 millj­arðar og minnkaði um fimm millj­arða á milli ára eða um rúm­an fimmt­ung.

Örn Páls­son gerði lágt fisk­verð síðasta árs meðal ann­ars að umræðuefni og sagði að ýms­ar skýr­ing­ar hefðu verið gefn­ar á því, t.d. að vinnsl­an hefði tekið meira til sín vegna launa­hækk­ana sem orðið hefðu hjá fisk­vinnslu­fólki.

„Grund­firðing­ar brugðust við hinu lága verði og ákváðu að selja á fisk­markaði í Bretlandi. Til­raun­in gekk vel. LS íhug­ar nú hvort rétt sé að und­ir­búa sölu beint á er­lenda markaði af bát­um fé­lags­manna,“ sagði Örn.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir