Jón Guðbjörn Guðjónsson í Litlu-Ávík hætti sem póstur í Árneshreppi þann 1. nóvember. Starfinu hafði Jón gegnt í 21 ár. Sveitin hefur tekið miklum breytingum á þessum árum, fólki fækkað og bréfum og bögglum með. Á fréttavefnum Litlahjalla segir Jón að samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hefur hann starfað lengst allra landpósta í Árneshreppi. Við póstdreifingunni tekur hið nýja verslunarfólk á Norðurfirði, Ólafur Valsson og Sif Konráðdóttir, en Jón ætlar að vera þeim innan handar ef á þarf að halda og fara í eina og eina ferð ef svo ber undir.
Bátar slitnuðu upp

Björgunarsveitarfólk var kallað út í gær til að aðstoða starfsmenn Ísafjarðarhafnar þegar mesti veðurhamurinn gekk yfir. Bátar höfðu slitnað upp og þurfti að binda þá aftur og treysta landfestar á fleiri bátum sem létu illa í höfninni. „Þetta var í skútuhöfninni. Það var allt með kyrrum kjörum hinum megin,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri. Honum er ekki kunnugt um að tjón hafi orðið á bátum. Guðmundur brýnir fyrir eigendum báta að huga að landfestum þegar veðurútlit er slæmt eins og raunin var í gær.
Vetrarlegt í kortunum
Eftir óveður gærdagsins hillir undir skárri tíð samkvæmt spá Veðurstofunnar. Spáð er fremur hægum sunnanvindum í dag með skúrum eða éljum á víð og dreif en léttir smám saman til að norðan. Nú undir morgun geisar enn suðaustanstormur með slyddu eða rigningu á austanverðu landinu, en hann gengur niður er líður á daginn samkvæmt spánni.
Í dag er spáð fremur hægum sunnanvindum með skúrum eða éljum á víð og dreif, en léttir smám saman til fyrir norðan. Fremur milt að deginum, en kólnar síðan. Á morgun er hann lagstur í norðanátt með svölu veðri og éljum á víð og dreif. Reyndar er veðurspáin næstu dag er í svipuðum dúr, þ.e. vetrarleg að kalla, sem ætti ekki að koma á óvart miðað við árstíma.
Enn taplausir á heimavelli
Sigurganga Vestra á heimavelli hélt áfram á föstudag þegar liðið lagði Hamar í íþróttahúsinu á Torfnesi, 93 : 81. Leikurinn var fjörugur, hraður og skemmtilegur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þeir Nökkvi Harðarson og Nemanja Knezevic voru bestu menn vallarins í kvöld, Nökkvi með 36 framlagspunkta og Nemanja með 35. Nökkvi átti án efa sinn besta leik til þessa í fyrstu deildinni og daðraði við þrennu með 26 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Nemanja var að vanda með tröllatvennu með 22 stig og 25 fráköst auk 3 stoðsendinga.
Vestri er í öðru sæti deildarinnar með 10 stig. Skallagrímur vermir efsta sætið, einnig með 10 stig en hefur spilað einum leik færra.
Nokkur bið er eftir næsta heimaleik Vestra en hann verður 1. desember.
Andri Rúnar genginn í raðir Helsingborgar
Andri Rúnar genginn í raðir Helsinborgar
Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er genginn í raðir Helsingborgar sem leikur í sænsku b-deildinni í knattspyrnu. Frá þessu er greint á vef Helsinborgar. Andri Rúnar sló rækilega í gegn með Grindvíkungum í sumar. Hann var makrakóngur í Pepsi-deildinni með 19 mörk og jafnaði markamet í efstu deild og er í góðum félagsskap með þeim Pétri Péturssyni, Guðmundir Torfasyni, Tryggva Guðmundssyni og Þórði Guðjónssyni.
Andri Rúnar var einnig valinn besti maður deildarinnar. Hann lék með BÍ/Bolungarvík á árunum 2006-2014 er hann hélt suður á bóginn og lék fyrst með Víkingi áður en hann fór til Grindavíkur.
Bolvískir krakkar setja söngleik á svið
Undanfarnar vikur hafa nokkrir tugir barna æft og leikið í Bolungarvík því þar skal í lok nóvember frumsýna söngleik um hana Matildu, stórskemmtilega stúlku sem Roald Dahl skrifaði inn í tilveruna. Matilda er ekki metin að verðleikum heima hjá sér og í skólanum horfir hún upp á óþolandi óréttlæti. Matilda hlýðir ekki alltaf reglum þegar berjast þarf gegn óréttlætinu.
Það er Halldóra Jónasdóttir sem stendur að sýningunni en hún bæði leikstýrir verkinu og hefur þýtt leiktextann og alla söngtextana. Halldóra stundar nám við kennaradeild Háskóla Íslands og er sýningin hluti af útskriftarverkefni hennar úr grunnnáminu næsta vor. Höfundur sögunnar er eins og áður sagði Roald Dahl en Dennis Kelly samdi söngleikinn með tónlist Tim Minchen.
Söngleikurinn Matilda verður sýndur í Félagsheimili Bolungarvíkur í lok nóvember.
Gamla kaupfélagið opnað
Hinir nýju verslunarrekendur á Norðurfirði í Árneshreppi opnuðu verslun sína á miðvikudaginn. Að svo stöddu gengur verslunin undir nafninu Gamla kaupfélagið. Þegar tíðindamann Litlahjalla bar að garði voru verslunareigendur, þau Ólafur Valsson og Sif Konráðsdóttir að raða upp vörum og koma öllu fyrir.
Kaupfélag Steingrímsfjarðar lokaði útibúi sínu í Norðufirði í september og um tíma leit út fyrir að hreppurinn yrði án verslunar sem hefði verið þungt högg fyrir byggðina. Ólafur og Sif svöruðu kalli hreppsnefndar sem auglýsti eftir nýju fólki til að taka við búðinni. Ólafur er dýralæknir að mennt og Sif er lögfræðingur.
Málhöfðun gegn laxeldinu vísað frá dómi
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað málshöfðun Náttúrverndar 1 frá dómi. Náttuvernd 1 er málsóknarfélag sem stefndi Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun vegna laxeldis Arnarlax í Arnarfirði. Stofnfélagar málsóknarfélagsins eru eigendur Haffjarðarár á Snæfellsnesi, veiðifélag Laxár á Ásum í Húnavatnsssýslu og þrír landeigendur í Arnarfirði.
Málinu var vísað frá dómi með þeim rökum að málshöfðunin uppfylli ekki skilyrði laga um málsóknarfélög. Í þeim lögum er m.a. kveðið á um að lögvarðir hagsmunir hvers og eins félaga þurfi að vera með einsleitum hætti, en því er ekki að heilsa í tilfelli Náttúruverndar 1 og í úrskurði dómara er t.d. bent á að Haffjarðará er í 200 km fjarlægð frá eldissvæðum Arnarlax í Arnarfirði.
Takk fyrir stuðninginn!
Á Laugardaginn gengu Íslendingar til Alþingiskosninga. Hér í Norðvesturkjördæmi bauð Framsóknarflokkurinn fram framboðslista með kraftmiklu fólki víðsvegar úr kjördæminu. Eins og öllum er ljóst þá hefur flokkurinn gengið í gegnum talsverða erfiðleika. En á undanförnum vikum hefur komið fram mikill kraftur og tekist hefur að virkja grasrót flokksins víðsvegar um landið. Á ferðum okkar um kjördæmið fundum við fyrir mikilli jákvæðni og hún endurspeglaðist í úrslitum kosninganna. Þegar búið var að telja öll atkvæði þá fékk Framsóknarflokkurinn 18,42% atkvæða og er næststærsti flokkurinn í kjördæminu.
Undirrituð voru kjörin á Alþingi fyrir okkar kjördæmi og við viljum með þessari stuttu grein þakka ykkur fyrir þann stuðning sem þið sýnduð bæði okkur og Framsóknarflokknum. Þessu fylgir mikil ábyrgð og við munum leggja okkur fram að standa undir henni. Norðvesturkjördæmi er stórt og víðfemt. Það að ná tveimur þingmönnum auðveldar okkur að ná utan um kjördæmið.
Við viljum að lokum hvetja íbúa kjördæmisins til að vera í sambandi við okkur um mál sem brenna á fólki. Við erum hér fyrir ykkar tilstilli og mikilvægt að samstarf okkar verði gott á kjörtímabilinu.
Með góðri kveðju og þökk fyrir stuðninginn.
Ásmundur Einar Daðason
Halla Signý Kristjánsdóttir
Merkingum á hættulegum efnum ábótavant
Umhverfisstofnun stóð nýlega fyrir eftirlitsverkefni með merkingum á vörum sem innihalda hættuleg efni og náði umfang þess til algengra neysluvara fyrir almenning eins og uppþvottavélaefna, uppþvottalaga, stíflueyða, uppkveikilaga og salernis-, uppþvottvéla-, bletta, ofna- og grillhreinsa. Farið var í 12 matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Akureyri og skoðað úrtak með 60 vörum í ofangreindum vöruflokkum, sem þar voru í sölu, til að athuga hvort merkingar þeirra væru í samræmi við reglur.
Einungis 15% varanna sem lentu í úrtaki reyndust standast allar kröfur um merkingar. Á kökuritinu sem fylgir fréttinni má sjá hvernig frávikin skiptust en algengasta frávikið var að vörurnar vantaði algerlega íslenskar merkingar, eða í 38% tilfella. Um 42% varanna voru merkt á íslensku samkvæmt núgildandi reglugerð en með einhver misalvarleg frávik. Þá reyndust þrjár vörur (5%) vera merktar samkvæmt eldri reglum.
Öllum birgjum sem ábyrgir voru fyrir vörum sem báru ófullnægjandi merkingar var sent bréf þar sem krafist var viðeigandi úrbóta. Langflestir brugðust við á fullnægjandi hátt innan frestsins sem gefinn var, en í nokkrum tilfellum kom þó til eftirfylgni. Voru þeim birgjum send áform um áminningu, en þar sem þeir brugðust við kröfum stofnunarinnar innan tilsettra tímamarka kom ekki til frekari eftirfylgni.
Niðurstöður eftirlitsins gefa til kynna að merkingum á efnavörum hér á landi sé verulega ábótavant og að þörf sé á átaki til lagfæringa hjá birgjum sem bera ábyrgð á því að þessar vörur séu rétt merktar. Umhverfisstofnun mun áfram fylgjast náið með merkingum hættulegra efnavara á markaði og standa fyrir eftirliti til að fylgja því eftir að farið sé að reglum hvað þetta varðar.
Merkingar á hættulegum efnavörum koma til skila upplýsingum um eðli hættunnar og hvernig eigi að bregðast við eða komast hjá henni og skulu þær vera á íslensku. Þeir sem setja á markað vörur sem innihalda hættuleg efni eru ábyrgir fyrir því að umbúðir varanna séu rétt merktar. Seljendum er óheimilt að hafa í sölu hættulegar vanmerktar vörur.
Þetta er megininntakið í reglum um merkingar hættulegra efna sem gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins og öðluðust fullt gildi þann 1. júní 2017 eftir langt aðlögunartímabil. Það þýðir að merkingar samkvæmt eldri reglum skulu nú alfarið heyra sögunni til.