Síða 2120

Forsendubrestur í sauðfjárrækt

Aðalbjörg Óskarsdóttir

Nú sér fyrir endann á annasömum tíma í sveitum landsins. Út um allt land hafa vaskir smalar hlaupið uppi fé og rekið heim og dilkar sjaldan verið vænni að hausti. En nú horfir svo við að afurðarstöðvar hafa lækkað verð umtalsvert, eða um það bil 35%, og hafa bændur miklar áhyggjur af lífsafkomu sinni. Þeir sem hafa lagt í fjárfestingar á tækjum og húsakosti sjá fram á að geta ekki greitt af lánum að öllu óbreyttu. Eins og staðan er í dag þá fá bændur varla upp í framleiðslukostnað án þess að taka tillit til launa. Það er því forgangsatriði að sauðfjárbændum verði séð, strax í haust, fyrir leiðréttingu þess gríðarlega vanda sem 35 % verðskerðing í haust til viðbótar 15 % verðskerðingar á s.l. hausti á framleiðslu þeirra  mun hafa í för með sér. Í framhaldi af því þarf að vinna að framtíðarlausn með bændum, lausn til bjargar bændum, lausn til bjargar byggð þar sem búfjárrækt er ein af stoðum samfélagsins, lausn sem viðheldur byggð á Íslandi öllu. Að þessu er Miðflokkurinn tilbúinn að vinna fái hann til þess styrk.

Verði ekkert að gert má reikna með gjaldþrotum bænda um allt land og eftir standi jarðir ónýttar og landsbyggðin gjörbreytt og veik. Líklegt má telja að ungt fólk sem nýlega hefur lagt í fjárfestingar til framtíðar, jörð, bústofn og vélar, gefist fyrst upp eða verði gjaldþrota, ásamt því að ungu fjölskyldufólki verður gert ókleift að hefja búskap við slíkar aðstæður. Þannig staða er óásættanleg  í hverri atvinnugrein og ógn við byggð og samfélag þar sem  hún er ein megin stoða búsetunnar.

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á matvælaöryggi og að það eigi að vernda matvælaframleiðslu á Íslandi.  Það þarf varla að fjölyrða um kosti íslenska sauðfjárins, en notkun sýklalyfja er með því minnsta í heimi og það að fé sé „frjálst á fjalli“ allt sumarið og fái að njóta þess sem náttúran hefur upp á bjóða hlýtur að setja það í sérflokk og ætti að vera hægt að markaðsetja sem slíkt. Einnig þurfa afurðarstöðvarnar að leggja metnað í sölu og  framsetningu vörunnar.

Miðflokkurinn telur afar mikilvægt að sauðfjárbúskapur dafni á Íslandi bæði fyrir bændur en líka fyrir Íslendinga  alla enda mikill metnaður flokksins að landið haldist allt í byggð.

Aðalbjörg Óskarsdóttir

  1. sæti Miðflokksins í Norðvesturkjöræmi.

Nýtt mælitæki á sviði jafnréttismála

Frá vinstri: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Þorsteinn Víglundson ráðherra, Rakel Sveinsdóttir formaður FKA og Guðrún Ragnarsdóttir verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.

Félags- og jafnréttismálaráðherra og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu undirrituðu í gær samstarfssamning um þróun Jafnvægisvogar til að hafa eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnvægis í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Félag kvenna í atvinnulífi mun leiða verkefnið og þróa vogina í samstarfi við stjórnvöld og hagsmunaaðila í íslensku atvinnulífi. Meginmarkmið verkefnisins er meðal annars að:

  • Samræma og safna saman tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja.
  • Standa fyrir viðburðum og fræðslu um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum.
  • Veita fyrirtækjum viðurkenningu árlega, sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

Samstarfssamningurinn er til eins árs og felur í sér fimm milljóna króna fjárstuðning til verkefnisins með möguleika á framlengingu. Undirbúningur að gerð samningsins hófst snemma síðastliðið sumar en til grundvallar liggur 5 ára aðgerðaáætlun stjórnar FKA, sem ætlunin er að móta enn betur með aðkomu fleiri aðila. Aðild að FKA eiga nú ríflega eitt þúsund leiðtogakonur í öllum geirum atvinnulífsins.

smari@bb.is

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tapa manni

Sjö þingsæti af átta í Norðvesturkjördæmi eru nokkurn veginn ráðin, ef marka má þingsætaspá Kjarnans sem var birt í dag.

Í stuttu máli er aðferðafræðin Kjarnans sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna að fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum.

Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.

Haraldur Benediktsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir náðu kjöri í öllum 100.000 sýndarkosningunum. Næst hæstu líkurnar á að ná kjöri fær Bergþór Ólason úr Miðflokki, eða 88 prósent líkur.

Guðjón S. Brjánsson náði kjöri í 87 prósent tilvika og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er með 84 prósent líkur. Líkurnar á að Bjarni Jónsson nái kjöri eru 83 prósent og 79 prósent líkur á kjöri Ásmundar Einars Daðasonar.

Samkvæmt spá Kjarnans verður Eva Pandora Baldursdóttir áttundi þingmaður Norðvesturkjördæmis og eru 50 prósent líkur á kjöri hennar.

Mynd: Kjarninn.

smari@bb.is

Um gagnsæi, spillingu, traust og samvinnu

Eva Pandóra Baldursdóttir

Þegar gagnsæi og traust almennings hefur verið aukið fylgir því óhjákvæmilega aukið traust og samvinna milli ólíkra stjórnmálaflokka inni á þingi. Allir stjórnmálaflokkar ættu nefnilega að vera að vinna að sama markmiðinu: að bæta hag almennings í landinu. Við höfum ef til vill ólíka sýn á hvernig er best að standa að því en það er einmitt ástæðan af hverju það er mikilvægt að hafa breiðan, ólíkan hóp fólks á Alþingi.

Aðeins er liðið rúmlega ár síðan ég steig mín fyrstu skref í stjórnmálum og varð oddviti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Á sama tíma er ég einnig að heyja mína aðra kosningabaráttu. Lífið getur verið svo furðulegt stundum en fyrir ári síðan hefði mér aldrei dottið í hug að við Íslendingar værum á leiðinni inn í stjórnarkreppu sem yrði til þess að kjörtímabilið yrði stutt, enn og aftur. Segja má að hér á landi hafi eiginlega verið viðvarandi stjórnarkreppa síðan í hruninu. Eftir hrunið breyttust nefnilega stjórnmálin. Traustið hvarf. Traust milli ólíkra stjórnmálaflokka sem og traust almennings til Alþingis. Ekki var lengur hægt að einfaldlega treysta og trúa því að ráðamenn þjóðarinnar væru að vinna að hag almennings og störf stjórnmálamanna voru, því miður ekki yfir allan vafa hafin.

Þetta er helsta ástæðan af hverju ég vil bjóða fram krafta mína á Alþingi og af hverju ég geri svo undir merkjum Pírata. Helstu áherslur Pírata eru að boða gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og stjórnsýslu, berjast gegn spillingu, auka beint lýðræði þegar það býst og vernda borgararéttindi og einstaklingsfrelsi. Ef stjórnmálin og stjórnsýslan væru gagnsæ og almenningur hefði aðgang að upplýsingum um hvaða ákvarðanir stjórnvöld taka og hvernig staðið er að þeim ákvörðunum myndi traust almennings til Alþingis aukast, því ákvarðanataka og aðgerðir stjórnvalda væru einfaldlega hafin yfir vafa um spillingu og frændhygli. Þetta ætti að vera fyrsta skref nýs þings: auka gagnsæi til að auka traust.

Fulltrúalýðræðið virkar mjög vel ef rétt að því er staðið. Þeir ólíku einstaklingar sem veljast inn á þing munu ef til vill aldrei allir vera sammála um einstaka málefni og því er mikilvægt að alþingismenn hafi þann kost að virða skoðanir annarra þótt þær samræmist ekki sínum eigin, taka upplýstar ákvarðanir byggðar á gögnum og vinna saman á lausnamiðaðan hátt. Skotgrafar- og rifrildispólitík er orðin löngu úrelt. Það er tími til kominn að Alþingi rísi upp úr gamla leikskóla leiknum þar sem heyrist „Ég er með bláan og þú ert með bláan og þá getum við leikið. Hann er með grænan og hún er með rauðan og þá mega þau ekki vera með.“ og segjum frekar „Ég er með gulan, þú ert með rauðan, hann er með grænan og hún er með bláan. Komum öll og búum til regnboga saman!“.

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður og oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi

Grúskað í rökkrinu

Bókamarkaðurinn Grúskarar í rökkrinu er orðinn að árlegum viðburði Bókasafnsins á Ísafirði í tengslum við bæjarhátíðina Veturnætur. Markaðurinn verður opnaður fimmtudaginn 26. október um leið og stendur til og með laugardagsins 4. nóvember. Verður bókamarkaðurinn opinn á opnunartímum hússins sem er virka daga kl. 13-18 og laugardaga kl. 13-16.

Að mestu leyti verður bókamarkaðurinn staðsettur í salnum á 2. hæð, en lítil „markaðshorn“ verður einnig að finna á öðrum stöðum í húsinu. Í boði verða blanda af grisjuðum bókum og glænýjum; skáldsögum, ævisögum, fræðibókum og fleira sem bókagrúskarar geta haft gaman af. Verð er hófstillt og hægt að gera mjög góð kaup.

smari@bb.is

Læknirinn vill ekki veg um Teigsskóg né nágrenni

Það var okkur félögum mikill vegsauki að vera ávarpaðir um daginn í hinu rómaða Bændablaði. Reynir Tómas Geirsson, læknir, svarar þar málflutningi okkar um vestfirska vegagerð og margumtalaða vegarlagningu um Teigsskóg í Gufudalshreppi. Það sést á skrifum læknisins að hann er prúðmenni. Þar er ekki um svigurmæli eða ofstopa að ræða. Við slíka menn er gott að skiptast á skoðunum um málefni dagsins. Við höfum kannski ekki mikið vit á vestfirskri vegagerð. Og þó. Einn okkar var í liðinu sem fyrst lagði akfæra vegi á Vestfjörðum. Hann var í hópi brautryðjendanna undir stjórn Lýðs Jónssonar fyrirliða. Auk þess höfum við hátt í 200 ára reynslu samanlagt af akstri um vestfirska vegi. Geri aðrir menntaskólar betur!

Eyðilögðu brautryðjendurnir landið?

Við kumpánarnir höfum leyft okkur að rifja það upp, að á ótrúlega skömmum tíma lögðu vestfirskir vegagerðamenn vegi svo til að hverjum einasta bæ á Vestfjörðum. Það var torsótt vegagerð, mold, grjót og sandur í bland. En eyðilögðu þessir brautryðjendur landið? Hefur einhver heyrt að þessir lífsnauðsynlegu vegir hafi eyðilagt vistkerfi Vestfjarða? Hafa þeir eyðilagt einhverja skóga? Og fjöll eða dali? Auðvitað hafa verið lagðir hér vegir sem menn hafa ekki verið ánægðir með staðsetningu þeirra. Og komið hefur fyrir að gróið land hefur goldið þess. Þá hafa menn bara bölvað Vegagerðinni og lífið haldið áfram.

Læknirinn vill ekki veg um Teigsskóg né nágrenni

Við segjum: Búið er að leggja vegi vítt og breytt um alla Vestfirði á að minnsta kosti 100 mjög svo sambærilegum stöðum við Teigsskóg. Jafnvel malbikaða tvíbreiða vegi, sem víða eru svo til á sama stað og gömlu akvegirnir. Engir meinbugir þar á. Náttúran alveg söm við sig eftir því sem séð verður. Hvers vegna má þá ekki leggja bráðnauðsynlegan veg um Teigsskóg? Við stöndum í þeirri meiningu að Vestfirðingar almennt séu þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt flestra hluta vegna. En Reynir Tómas læknir vill ekki að lagður verði vegur um Teigsskóg, Hallsteinsnes eða nágrenni. Gott og vel. Það er hans mat og berum við fulla virðingu fyrir því svo langt sem það nær.

Kröftug mótmæli gegn nauðsynlegum vegabótum

Það er ekki ný saga þegar nauðsynlegar samgöngubætur ber á góma, að þá rísa menn upp með kröftug mótmæli gegn þeim. Oftast í nafni náttúruverndar. Nefna má Borgarfjarðarbrú, Dýrafjarðarbrú, Vatnaleið til Stykkishólms og Gilsfjarðarbrú. Brúin yfir Gilsfjörð átti að eyðileggja lífríkið óbætanlega á þeim slóðum. Kunnugir menn segja okkur að aldrei hafi verið meira æðarvarp fyrir innan þá brú en þessi árin. Og konungur fuglanna leikur þar við hvurn sinn fingur að sögn þeirra.

Hver mælir gegn þessum nauðsynlegu framkvæmdum í dag og hverju hefur verið spillt? Vegur yfir Þorskafjörð og Teigsskóg á að þýða óafturkallanlegt náttúrutjón. Bent hefur verið á jarðgöng í stað þeirrar leiðar í vegagerð. Þrjátíu og sex ár eru liðin frá því að fyrst var gerð athugun á gerð Dýrafjarðarganga. Svo segir í Bændablaðinu. Nú er það verk loks hafið og mun taka þrjú ár. Vestfirðingum er kannske ekki ofgott að bíða einhverja áratugi eftir jarðgöngum gegnum Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Sem eru á köflum háskaleiðir á vetrum. Það vita þeir best sem nauðugir viljugir verða að aka þá leið í fljúgandi hálku og illviðrum. Eða þegar allt er á floti á vorin.

Skemmtiferðavegir á Vestfjörðum?

Læknirinn okkar segir þegar hann ræðir um eldri vegagerð á Vestfjörðum og tvíbreiðan, upphækkaðan veg um Teigsskóg:

„Þá var um að ræða nauðsynlegar samgöngubætur sem nú á tímum nýtast helst til skemmtiferða á sumrin.“

Eigum við að trúa því að hann viti ekki betur? Veit Reynir Tómas ekki að stór hluti vestfirska vegakerfisins byggir enn á þeim grunni sem brautryðjendurnir lögðu fyrir 60-70 árum? Það má vera að kalla megi veginn hans Ella okkar skemmtiferðaveg. En hvað með Arnarfjörð svo til allan, Dýrafjörð að hluta, Árneshrepp og nefndu það bara. Við vitum ekki betur en vegurinn hans Ella hafi opnað augu margra fyrir stórkostlegri náttúrufegurð og sögu svæðisins. Verður það ekki eins með Teigsskóg?

Niðurlag

Reynir Tómas nefnir að við séum að minnast á stráka sem „aldrei hafa komið austur fyrir Elliðaár“. Að við séum með því orðalagi að kasta rýrð á aðra með skoðun á málefninu. Auðvitað erum við ekki að því. Þetta er einungis leikur með texta eða textabrigði. Við berum fulla virðingu fyrir þeim sem hafa aðrar skoðanir en við á mönnum og málefnum. Eftir stendur að menn þurfa að ná niðurstöðu í þessu máli: Annaðhvort jarðgöng strax undir hálsana í Gufudalssveit eða laglegan veg um Teigsskóg öllum til hagsbóta sem um Vestfirði leggja leið sína. Hvort er nú líklegra að verði?

Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson, Guðmundur Ingvarsson

 

650 þúsund til menningarmála

Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur lokið afgreiðslu á haustúthlutun á styrkjum til menningarmála. Til ráðstöfunar núna voru 650 þúsund krónur og hlutu fimm verkefni náð fyrir augum nefndarinnar. Hæsti styrkurinn, eða 235 þúsund krónur, kemur í hlut Skóbúðarinnar – hversdagssafns, til að halda námskeið í skapandi skrifum. Hjónaballsnefnd 2017 fær 150 þúsund króna styrk til að halda hjónaball. Kvennakór Ísafjarðar fær 100 þúsund krónur vegna jólatónleika. Eyþór Jóvinsson fær 100 þúsund króna styrk vegna endurútgáfu á bókinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði. Gamla bókabúðin á Flateyri fær 65 þúsund króna styrk til að halda ljósmyndasýningu í tilefni 100 ára afmælis verslunarinnar Bræðranna Eyjólfssona.

smari@bb.is

Amsterdam-maraþon

Guðbjörg Rós Sigurðardóttir glaðbeitt í hlaupinu

Riddarar Rósu eru svo sannarlega áberandi og mikilvægur félagsskapur á Ísafirði og má sjá hópa á þeirra vegum skokka léttfætt um bæinn. Í október fór dágóður hópur til Amsterdam til að prófa Hollenskar gangstéttar og hér að neðan er lýsing Guðbjargar Riddara á ferðinni og glæsilegum árangri hópsins.

Riddarar Rósu ákváðu fyrir um ári síðan að fara í hlaupaferð saman og var Maraþon í Amsterdam fyrir valinu. Þar er  hægt  að hlaupa þrjár mismunandi vegalengdir og hentar því breiðum hópi hlaupara. . Áður hafði hluti af Riddurum  skráð sig í maraþon í Berlín en að lokum voru það 42 Riddarar og makar sem héldu af stað til Amsterdam um miðjan október til að hlaupa maraþon, hálfmarþon eða 8 km hlaup.

Riddarar  Rósu æfa undir stjórn Mörthu Ernstsdóttur en hún sendir hlaupafélögum  prógramm sem farið er  eftir undir stjórn nokkurra Riddara. Æfingarnar í vetur snérust aðallega um að styrkja sig og hlaupa á brettinu en svo í sumar hófst undirbúningurinn fyrir alvöru þegar hægt var að byrja  að hlaupa úti. Að æfa fyrir maraþon er mun  tímafrekara en að hlaupa styttri vegalengdir s.s. hálf-maraþon eða 10 kílómetra og því varð að nýta tímann vel ogoft var farið að hlaupa fyrir vinnu á morgnana  og eldsnemma um helgar til að eiga daginn með fjölskyldunni. Einhverjir höfðu hlaupið  maraþon áður og gátu dreift visku sinni til hlaupafélaganna , sagt hvað mætti og hvað ekki og sköpuðust ansi skemmtilegar umræður í þessum löngu hlaupum okkar. Það fer nefninlega heilmikil jafningjafræsla fram á hlaupaæfingum. Við æfðum vel saman í sumar og tókum þátt í keppnum til að undirbúa okkur enn betur. Hlaupahátíðin okkar (Hlaupahátíð Vestfjarða)er góður undirbúningur fyrir svona stórt hlaup sem og Reykjavíkurmarþonið í lok ágúst. Þar fjölmenntu Riddarar ogkom  árangur sumarsins  berlega í ljós.

Ferðin til Amsterdam byrjaði vel, allir tilbúnir í slaginn og mættu ferskir á Expoið þar sem númerin voru afhent og einnig var hægt að gera góð kaup á hinum ýmsu hlaupavörum sem  alger nauðsyn er að eiga… Við tókum því rólega dagana fyrir hlaup, aðeins farið í búðir og borgin skoðuð en mest var reynt að „hlaða“ með hinum ýmsu góðgæti í mat og drykk

Miklum hita var spáð á sjálfan hlaupadaginn og því mikilvægt að vera vel undirbúinn, drekka vel dagana á undan, bera á sig sólarvörn og drekka vel í hlaupinu sjálfu. Þetta leit vel út um morguninn, hitinn ekkert of mikill en heiðskýrt sem gaf ekki góða von um íslenskt veður þegar leið á hlaupið.

Við mættum tímanlega í startið og gerðum það sem gera þarf fyrir svona hlaup, kamarinn vel nýttur, líkaminn smurður með vaselíni til að forðast núningssár, farið yfir plan dagsins og allt gert klárt. Stemningin var góð og allir fóru á sína staði í startinu.  Hlaupið byrjaði vel, hitinn í meðallagi en þegar hádegið nálgaðist fór hitinn aðeins yfir mörkin og erfitt að finna skjól fyrir sólinni. En Riddarar láta ekki smá hita hafa áhrif á sig og kláruðu allir hlaup sín með stæl þrátt fyrir sjúkrabíla og sírenur um alla braut, 19 kláruðu maraþon, 7 hálfmaraþon og einn 8 km hlaupið.

Eftir hlaupið hittumst við svo öll í stúkunni á Ólympíuleikvanginum í Amsterdam en þar hófust og enduðu hlaup dagsins. Svolítið erfitt var að ganga upp allar tröppurnar eftir átökin í hlaupinu og enn verra að fara niður aftur en allt gekk vel og vorum við dugleg að fagna þeim sem komu í mark og vorum vel sýnileg með íslenska fánann okkar og huhhhhh fagnið

Um kvöldið fórum við svo öll saman út að borða þar sem tekin var ákvörðun um næstu ferð því allir voru sammála um að þetta þyrfti að endurtaka, hvert skal fara er ekki komið á hreint  en kannski verður það ákveðið á uppskeruhátíðinni okkar um næstu helgi…..

Af lífeyri og bótum.

Eldri borgarar eru fólkið sem er búið að standa vaktina. Skila sínu. Þessi hópur fólks er búinn að greiða skatta og skyldur í áratugi til samfélagsins. Maður skildi ætla að einhver hluti þess fjár væri ætlaður til þess að fólk gæti átt áhyggjulaust ævikvöld. Það var allavega hugmyndin og það hefur verið réttlæting hárra skatta, að við greiddum hluta þeirra í samtrygginguna. Ellilífeyrir er ekki bætur eins og ýjað hefur verið að. Þetta eru peningar sem fólk lagði inn í samtrygginguna og á svo að fá seinna þegar vinnudegi líkur án skerðinga. Sumir hafa lagt fyrir og hafa lífeyri annarsstaðar frá. Það er gott en ætti ekki að rýra rétt til lífeyris frá tryggingastofnun. Þeir sem hafa atorku og elju fram eftir aldri ættu að fá að vinna ef þeir vilja, jafnvel fyrir fullum launum án skerðinga. Þau ættu að vera markaðslaun í hverri grein. Þetta mundi gera eldri borgurum kleift að stunda vinnu ef heilsan leyfir og mundi vera hvetjandi fyrir fyrirtæki að halda þessu fólki í vinnu í mörgum tilfellum. Við þurfum nauðsynlega á vinnufúsum höndum að halda og það er staðreynd að þekkingin og reynslan sem þetta fólk býr yfir og getur miðlað til yngri kynslóða og út í atvinnulífið verður ekki metin til fjár. Ekki síst núna þegar okkur bráðvantar vinnufúsar hendur og iðn og tækniþekking er gulls ígildi. Hitt er jafn mikilvægt að fá að eldast með reisn, geta framfleytt sér og sínum og haldið sjálfstæði eins lengi og líkamleg og andleg heilsa leyfir. Sveigjanleg starfslok eru sjálfsögð mannréttindi.

Hið sama á við um öryrkja, sumir eru 100% öryrkjar og geta engu bætt við en margir eru metnir öryrkjar að hluta. Þar þyrfti að leggja áherslu á að atorka þ.e. getan til vinnu yrði metin. Það er því er afar mikilvægt að fólk hafi réttinn til að afla þeirra tekna sem mögulegt er án skerðinga. Það leiðir af sér betri afkomu fyrir þann sem lifir við örorku og eykur framleiðni samfélagsins. Jákvæð félagsleg áhrif bæði á öryrkjan og samfélagið í heild hljóta að vera óumdeild. Það er einnig svo að margir glíma við örorku sem er af geðrænum og / eða líkamlegum toga og þessháttar örorka er ekki í öllum tilfellum lífstíðardómur, heldur tímabil í lífinu sem er erfitt. Það stóreykur líkur á bata ef fólk getur tekið þátt í atvinnulífinu án þess að bætur skerðist þess vegna.

Miðflokkurinn mun beita sér fyrir að lífeyrir og örorkubætur fylgi lágmarkslaunum og skerðist ekki við atvinnuþátttöku.

Gerum sáttmála.

-Sterkar grunnstoðir samfélagsins fyrir alla, Ísland allt.

-Leyfum einstaklingnum að njóta sín eins og hann er.

-Frelsi til athafna og skoðana svo fremi að það frelsi hefti ekki eða skerði frelsi annara.

-Berum virðingu hvert fyrir öðru, sjálfum okkur, landinu, menningu og tungumálinu.

-Byggjum upp betra samfélag og gerum það af skynsemi og án öfga.

-Sameinumst um skynsamlegar lausnir til að ná settum markmiðum

 

Jón Þór Þorvaldsson

Frambjóðandi Miðflokksins NV kjördæmi

 

Norðanátt í kortunum

Samstöðumótmæli verða á Silfurtorgi kl 17.

Í dag verður norðaustanátt 8-13 m/s norðvestanlands, annars hægari vindur. Súld eða rigning fyrir norðan, en léttskýjað suðvestantil. Hiti 3 til 9 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að á morgun verði norðaustanátt 3-10 m/s. Skýjað og dálítil væta austanlands, en léttskýjað sunnan heiða og hiti breytist lítið.

Það er spáð vestan kalda og skýjuðu vestanlands á fimmtudag, en bjartviðri á austanverðu landinu.

Á föstudag er útlit fyrir vestan 8-13 m/s með rigningu og mildu veðri.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir