Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2120

Munurinn innan vikmarka

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,9 prósenta fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR og mælist með mest fylgi. Þar á eftir fylgja Vinstri græn með 19,9 prósent en munurinn á flokkunum mælist þó innan vikmarka.

Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa bætt við sig fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 18. október 2017 en þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 19,9 prósent og Vinstri græn með 19,1 prósent fylgi. Fylgi Samfylkingar minnkar aftur á móti á milli mælinga og er nú í 13,5 prósent, samanborið við 15,8 prósent í síðustu mælingu. Jafnframt fækkar fylgjendum Pírata á milli mælinga og mældust nú 9,3 prósent en mældust 11,9 prósent í síðustu könnun.

Fylgi Miðflokksins mældist nú 12,3 prósent og hækkar um 1,3 prósentustig frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn fer upp um 0,6 prósentustig milli kannana og mælist með 8,6 prósent fylgi.

Viðreisn gefur eftir, mælist með 5,5 prósent fylgi nú, en 6,7 prósent í síðustu könnun MMR. Sömu sögu er að segja um Flokk fólksins sem er rétt við 5 prósenta múrinn og mælist með 4,7 prósent og fer niður um 0,6 prósentustug. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 1,8 prósent og mældist 1,6 prósent í síðustu könnun.

Könnunin stóð yfir dagana 20. til 23. október.

smari@bb.is

Á bak við tjöldin

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir að á bak við árangursríkt íþróttalið stendur harðsnúið lið foreldra og áhugafólks sem sér um að allt gangi upp, á æfingum og á keppnisdögum, sér um að góðir þjálfarar séu ráðnir, að til sé fjármagn til greiða fyrir þjálfara og jafnvel leikmenn, skipuleggja keppnisferðir, sinna sjoppu o.fl. o.fl.

Á leik Vestra og Fsu á föstudag var dugnaðarforkunum Heiðrúnu Tryggvadóttur og Guðfinnu M. Hreiðarsdóttir þakkað fyrir vel unnin störf við Körfuboltabúðir Vestra en þær hlutu á dögunum hvatningarverðlaun UMFÍ 2017. Án barna- og unglingastarfs er ómögulegt að halda úti meistaraflokkum.

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir, Guðfinna Hreiðarsdóttir og Hildur Elísabet Pétursdóttir

Á leiknum var styrktarsamningur við Nettó undirritaður en stuðningur fyrirtækja á svæðinu er allri íþróttastarfsemi nauðsynlegur.

Ingólfur Þorleifsson og Ingólfur Ívar Hallgrímsson

Síðast en ekki síst má nefna framlag körfuboltaunnanda Vestra númer eitt, hann Dag sem mætir á alla leiki ef hann á heimangengt og í meðfylgjandi myndbandi má sjá hann taka til hendinni eftir leik.

bryndis@bb.is

Það sem fáir vilja segja – en við viljum segja.

Haraldur Benediktsson

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki. Hvernig komst hún þangað?

Jú,  vegna þess að það faglega ferli sem pólitíkin ákvað að nota til að raða virkjunarkostum lagði það til einróma til og þar hefur hún verið um árabil án athugasemda. Hvalárvirkjun er samt aðeins hluti af þeim tækifærum sem við viljum nýta. Með traustum rökum má benda á allt að 135 MW framleiðslugetu mögulegra virkjana á Vestfjörðum. Eru þá samt vantaldir margir smærri kostir. Smærri virkjanir sem sóma sér vel sem byggðfestuverkefni til dæmis á einstökum bújörðum. Verkefni sem við höfum fjallað sérstaklega um í fundaröð okkar um nýja byggða- og landbúnaðarstefnu; Látum Ísland allt blómstra.

En það sem fáir virðast minnast á er hversu miklu máli virkjanir á Vestfjörðum geta skipt. Virkjun í Hvalá og Austurgilsvirkjun og margar fleiri geta  í raun haft mikla þýðingu fyrir landið allt. Helsti veikleiki okkar landsmanna i raforkuframleiðslu er að við treystum mjög á vatnasvæði sem er í áhættu vegna jarðhræringa. Þjórsársvæðið og virkjanir í henni eru þungamiðja framleiðslunnar – en á sama tíma geta eldsumbrot á hálendi Íslands lamað eða skaðað til lengri eða skemmri tíma framleiðslu þar.

Skiptir þá ekki máli að við hugum að því að dreifa raforkuframleiðslu okkar á svæði þar sem við getum verið öruggari fyrir slíkum áföllum? Er ekki einfaldlega þjóðfélagslegt öryggismál að framleiða rafmagn á Vestfjörðum? Það er meinloka að flytja eigi orkuna frá Vestfjörðum. Það virðast helstu rök þeirra sem leggjast gegn orkuframleiðslu á Vestfjörðum að flytja eigi rafmagnið í burtu af svæðinu.

Þegar farið verður að framleiða meira rafmagn á Vestfjörðum er það einfaldlega heimskuleg nálgun. Það rafmagn sem þar þarf  verður að sjálfssögðu nýtt sem næst uppruna orkunnar. Það er einfaldlega eðli okkar raforkukerfis. Þeir sem svo mæla vilja hreinlega ekki skilja hvernig raforkumálum þjóðarinnar er fyrir komið. Það er matað á kerfið á einum stað og tappað af því á öðrum stað. Núna er mikið rafmagn flutt á Vestfirði um langan og ótryggan veg með miklu orkutapi. Það rafmagn verður nýtt á öðrum stað með minna orkuflutningstapi. Það er einhver óskapleg meinloka í þessari umræðu.

Sjálfstæðisflokkurinn styður aukna framleiðslu og bætta dreifingu raforku á Vestfjörðum. Hvalárvirkjun er sannarlega einn þeirra kosta.

Haraldur Benediktsson

Höfundur er alþingismaður og efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Nokkuð af vatni í berginu

Í síðustu viku voru grafnir 62,5 m í Dýrafjarðargöngum og göngin orðin 312,6 m að lengd. Eftir stíganda í greftrinum frá því að framkvæmdir hófust var heldur hægari gangur í síðustu viku samanborið við vikuna á undan. Það helgast af því að vikunni var byrjað á fyrsta útskoti ganganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur nokkuð af vatni komið úr berginu undanfarið og því hafa verið boraðar drenholur í þekju til að leiða vatn úr berginu. Efni úr jarðgöngum hefur verið keyrt á haugsvæði og í fyllingar.

Undanfarið hefur verið unnið við að standsetja skrifstofur verktaka og eftirlits við munna ganga, væntanlega verða þær teknar í notkun síðar í vikunni.  Eins hafa verið settir upp olíutankar.

smari@bb.is

Félagsvísindastofnun gerir íbúakönnun um sundlaugamál

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að fá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að framkvæma íbúakönnun vegna málefna Sundhallarinnar á Ísafirði. Bærinn gekkst fyrir hugmyndasamkeppni um breytingar á Sundhöllinni á síðasta ári og voru niðurstöður kynntar í febrúar síðastliðnum. Fyrstu verðlaun fóru til Kanon arkitekta ehf.

Málefni Sundhallarinnar hafa verið tilefni deilna í sveitarfélaginu um langt skeið og sitt sýnist hverjum um framkvæmdir sem kosta fleiri hundruð milljónir án möguleika á lengri laug, nokkuð sem sundfólk í sveitarfélaginu hefur kallað eftir lengi.

Með íbúakönnuninni að leiða fram vilja íbúanna sjálfra á málinu.

Í svari bæjarritara við fyrirspurn Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokks, kemur fram að kostnaður við hugmyndasamkeppni Sundhallarinnar nemur 13,6 milljónum kr.

smari@bb.is

Píratar um kvótann

Álfheiður Eymarsdóttir og Gunnar Ingiberg Guðmundsson

Það má eitt gott um kvótakerfið segja. Áhrif þess á aflamagn. Hafrannsóknastofnun leggur til veiðimagn upp úr sjó og síðustu ár hefur sjávarútvegsráðherra farið eftir þeirri ráðgjöf. Íslendingar eru í kjölfarið með viðurkenndar, sjálfbærar og umhverfisvænar veiðar og fiskafurðir Íslendinga fá því toppverð á toppmörkuðum um allan heim.

En þar með er ávinningur þjóðarinnar upptalinn. Áhrif kvótakerfisins á byggðir víða um land eru skelfilegar. Lífsskilyrði heilu byggðarlaganna hafa horfið á augabragði. Lausnir sem ráðamenn bjóða uppá virka ekki. Byggðakvótinn er háður skilyrðum sem er erfitt að uppfylla. Ekkert sveitarfélag hefur nýtt sér forkaupsrétt á veiðiheimildum því þau hafa ekki ráð á því. Eftir standa því byggðarlögin, brotin og viðkvæm.

En þetta er auðveldlega hægt að lagfæra.

Fiskmarkaði verður að styrkja. Einna mest frumkvöðlastarfsemi innan sjávarútvegsins er í fyrirtækjum sem reiða sig á fiskmarkaði fyrir hráefni. Útgerðir sem  selja afla á markað fá einna mest aflaverðmæti í krónum á tonnið. Sjómennirnir á þessum veiðum skila því hlutfallslega mestum tekjuskatti og útsvari til samfélagsins. En þessi fyrirtæki eru oft smá og mun viðkvæmari en útgerðir með vinnslu á bak við sig. Þau eru viðkvæmari fyrir gengisveiflum og breytingum í atvinnugreininni  á meðan stærri fyrirtæki með útgerð og vinnslu eru mun betur í stakk búin til að geyma afla og peninga fyrir niðursveiflur af hvaða tagi sem er. Þessi  aðstöðumunur verður að víkja. Allir eiga að sitja við sama borð. Þess vegna verður að aðskilja veiðar og vinnslu og fá allan afla á markað.

Það þarf líka að gefa handfæraveiðar frjálsar. Þetta eru umhverfisvænustu veiðarnar okkar og þangað eigum við að stefna. Allur fiskurinn kemur í land blóðgaður og tilbúinn til frekari vinnslu. Því er hægt að nýta slógið, roðið, beinin og haus. Það er lítil hætta á ofveiði því veiðigetan er lítil og fiskistofnar á landgrunni eru aðrir en þeir sem togararnir elta.

Þetta eru vissulega róttækar breytingar á kvótakerfinu. Við þurfum að viðurkenna eignarrétt þjóðarinnar á sjávarauðlindinni skilyrðislaust. Það getur enginn átt kvóta nema þjóðin.  Það þarf að auka atvinnufrelsi, styrkja fiskmarkaði og frumkvöðla, frelsa strandveiðar, tryggja jafnræði, nýliðun og jafna aðstöðumun í greininni. En við Píratar teljum þessar aðgerðir og fleiri tengdar sjávarútvegi, mikilvægustu atvinnustefnu landsbyggðarinnar.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, 2. sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi

Álfheiður Eymarsdóttir, 2.sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi

Austurvegi lokað vegna framkvæmda

Austurvegi hefur verið lokað vegna viðgerðar á skólplögnum

Loka þarf Austurvegi á Ísafirði frá Kaupfélagshúsinu (Kaupmaðurinn, Craftsport, Hótel Horn) frá klukkan eitt í dag og í nokkra daga. Í tilkynningu frá Ísafjarðarbær kemur fram að skolplögn er að falla saman undir götunni og þarf að fara í tafarlausar viðgerðir. Augljóslega mun þetta hafa umtalsverð óþægindi í för með sér fyrir nokkuð marga, sér í lagi nemendur og starfsfólk í Grunnskólanum á Ísafirði. Meðan á framkvæmdum stendur mun skólastrætó hleypa úr og taka uppí farþega við stoppistöð á Pollgötu.

smari@bb.is

Framtíðin er vinstri græn

Sigríður Gísladóttir

Spjótin hafa staðið á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði síðustu daga í greinaskrifum vestfirskra sjálfstæðismanna. Tilgangurinn er augljós, að þyrla upp ryki svo að fókusinn færist af því sem þessar kosningar snúast um; hvaða stjórnmálamönnum er treystandi til að byggja upp réttlátt samfélag þar sem jöfnuður ríkir milli landsmanna.

Í grein Halldórs Jónssonar leggur hann mikið upp úr því að þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hafi ekki gerst meðflutningsmaður að sérlögum um vegagerð í Gufudalssveit, oftast nefnd vegagerð um Teigsskóg. Það er rétt hjá Halldóri að þingmaðurinn lagði ekki nafn sitt við þetta frumvarp, enda er það vanhugsað og ekki til annars en að slá pólitískar keilur heima í héraði.

Fyrir rétt rúmu ári lagði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fram frumvarp sama eðlis nema þá átti að grípa fram fyrir hendur á lögboðnu ferli við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna lagningu raflína til Bakka. Á þeim tíma sat þingmaðurinn sem fulltrúi VG í atvinnuveganefnd og þegar frumvarpið kom til meðferðar nefndarinnar var fundað stíft um málið enda lítill tími til stefnu og stutt í þinglok. Það varð deginum ljósara að inngrip í lögboðið ferli er bæði umdeilt og lagalega vafasamt – líklegast ógerningur. Nefndinni bárust fleiri en eitt lögfræðilegt álit sem sögðu að þessi leið væri ekki fær og bryti gegn sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Þá er einboðið að sérlög verði kærð og í tilfelli Bakkalínanna kom það á daginn að Landvernd ætlaði að kæra lagasetninguna til ESA. Það hefði að öllum líkindum verið eitt af mörgum kærumálum sem lögin hefðu framkallað.

Það fór svo að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, dró frumvarpið til baka enda einsýnt að málið stefndi rakleiðis niður blindgötuna.

En hvað á að gera?

Við Vestfirðingar erum allir sem einn orðnir langþreyttir á Teigsskógsþrætunni og viljum fara að sjá eitthvað gerast. Um það erum við öll sammála. Eins og þeir sem fylgjast með málinu vita er það nú á borði Reykhólahrepps að breyta aðalskipulagi hreppsins og niðurstöðu hreppsins er að vænta um áramótin. Þá fyrst verður ljóst hvort að ný veglína muni liggja í gegnum Teigsskóg og þá getur Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi.

Í stað þess að bjóða Vestfirðingum upp á enn eina lagaþrætuna um Teigsskóg hafa Vinstri græn lagt til að Vegagerðin hefji framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar, enda er sá kafli framkvæmdanna lítt umdeildur og hluti af báðum veglínum sem helst koma til álita, þ.e.a.s. leiðinni um Teigsskóg og svo leiðinni undir Hjallaháls. Þessar framkvæmdir ættu að geta hafist innan skamms og sé það einlægur vilji þingmanna að flýta framkvæmdum er ljóst að þessi leið kemur að mestu gagni.

Vinstri græn og fiskeldi

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. En fiskeldi er umdeilt eins og við vitum öll og það er hægt að gera hlutina vel og það er hægt að gera hlutina illa. Stjórnmálaflokkarnir hafa því miður að mestu staðið stikkfrí og horft á darraðadansinn. Það gerðum við í VG ekki. Á nýafstöðnum landsfundi ræddum við málið og mótuðum okkur stefnu.

Rauður þráður í stefnu VG í fiskeldi er að við viljum fara varlega – við þekkjum dæmi um að farið hefur verið of geyst í fiskeldi, ekki bara á Íslandi heldur í nágrannalöndunum. Kapp er best með forsjá og hvorki fyrirtækjum né byggðarlögum er greiði gerður með rússíbanareið. Uppbyggingin þarf að gerast í ákveðnum skrefum með fagmennsku að leiðarljósi. Við þurfum fyrirtæki sem af þrautseigju og þolinmæði geta byggt upp faglegt fiskeldi og orðið burðarás í atvinnulífi á Vestfjörðum.

 Fiskeldi í fremstu röð

Eins og við vitum var útkoman úr áhættumatinu ekki eins og íbúar við Djúp vildu. Þrátt fyrir áhættumatið og allan hávaðann sem það skapaði, er síður en svo öll nótt úti. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa bent á leiðir til að minnka umhverfisáhættuna í Ísafjarðardjúpi.

Það er því ánægjulegt að fiskeldisfyrirtækin og Hafrannsóknastofnun skuli nú vinna hörðum höndum að nýjum leiðum sem munu gera fiskeldi í Ísafjarðardjúpi í fremstu röð – rétt eins og við í VG viljum sjá.

Það er á þessum grunni sem stefna VG í fiskeldi stendur.

Almannahagsmunir í forgrunni

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar sem Svandís Svavarsdóttir þáverandi umhverfisráðherra lagði fram og allur þingflokkur VG samþykkti. Hið sama verður ekki sagt um þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði gegn rammaáætluninni. Í ljósi þessa er mikilvægt að Hvalárvirkjun komi Vestfirðingum til góða, með því að orkan verði nýtt í fjórðungnum í þarfa uppbyggingu eða hún verði til þess að dreifikerfið styrkist og það sé hafið yfir vafa og fyrir liggi tímasett áætlun um að Vestfirðir komist inn í nútímann í raforkumálum. Sú skoðun byggir á því að almannahagsmunir verði í forgrunni.

Í allri umræðunni um Hvalárvirkjun hafa varnaðarorð þingmannsefnis VG í Suðurkjördæmi, Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur sauðfjárbónda, drukknað í flaumi innistæðulítilla loforða frá stjórnmálamönnum um hringtengingar og raforkuöryggi. Á borgarafundi í Árneshreppi í sumar talaði hún af reynslu þegar hún varaði hreppsbúa og aðra við því að láta málið verða að rýtingi inn í brothætt samfélög, sem eiga kannski aðeins samstöðuna eftir, í baráttunni fyrir tilvist sinni.

Vestfirðingar eiga betra skilið en skammsýni og sundrung meðal þeirra sem vilja landshlutanum allt gott, en það er mikilvægt að greina kjarnann frá hisminu í umræðunni um stóru málin okkar í dag.

Síðast en ekki síst skal minnt á að það er ekki vinstristefnu að kenna að Vestfirðir hafa farið halloka síðustu áratugi, heldur skrifast það á óhefta markaðsvæðingu lífsbjargarinnar sem hefur verið seld úr héraði til hagsbóta fyrir örfáar fjölskyldur.

Sigríður Gísladóttir, Ísafirði

Höfundur skipar 9. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi

Stofninn ekki eins sterkur í rúma öld

Arnarhreiður við Breiðfjörð.

Hafarnarstofninn hefur ekki verið jafn sterkur og nú síðan í lok 19. aldar. Hafarnarpörin voru 76  í sumar og fjölgaði um tvö frá því í fyrra. Þá komust upp 36 ungar úr 28 hreiðrum, en 51 par reyndi varp í sumar. Yfirleitt eru það sömu óðulin ár eftir ár þar sem varp gengur best. Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Kristin Hauk Skarphéðinsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ernir hafa sést í auknum mæli í námunda við gamla varpstaði. Nú sjást fullorðnir fuglar t.d. á Suðurlandi alveg fram á varptímann. Hafarnavarpið er þéttast við sunnanverðan Breiðafjörð og þéttist stöðugt. Á varpsvæði þar sem var eitt par fyrir 50 árum verpa nú átta pör

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vestfjörðum og á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum.

smari@bb.is

Hefja frumathugun fyrir þvergarð í Hnífsdal

Bleiku línurnar sýna legu hugsanlegs þvergarðs.

Í dag hefjast frumathuganir vegna ofnaflóðavarna í sunnanverðum Hnífsdal, en bæjarráð Ísafjarðarbæjar óskaði eftir því við Ofanflóðasjóð í júní að hafin verið vinna við varnir í dalnum. Jarðfræðingur frá Verkís mun í dag hefjast handa við að greina jarðlög, stöðu grunnvatns og dýpi niður á fast á því svæði þar sem hugsanlegur þvergarður verður reistur. Grafnar verða 5-7 gryfjur ofan Bakkavegs og 3-5 ofan Hlégerðis og Dalbrautar. Gryfjurnar verða u.þ.b. 5 metra djúpar og verður gengið frá þeim nánast jafnóðum og gengið eins vel um svæðið og mögulegt er.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir