Síða 2120

HS Orka fær nýja eig­end­ur

HS Orka rekur tvær jarðvarmavirkjanir en með Hvalárvirkjun bætist við vatnsaflsvirkjun,.

Kom­ist hef­ur á sam­komu­lag um kaup Inner­gex Renewable Energy á Alterra Power Corp. sem er stærsti hlut­haf­inn í HS Orku. Frá þessu er greint á mbl.is. Bæði Innergex Renewable Energy og Alterra Power Group eru kanadísk orkufyrirtæki og það síðarnefnda ræður yfir 66,6% hlut í HS Orku. Vesturverk ehf. á Ísafirði sem áformar að Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er í meirihlutaeigu HS Orku.

Kaup­verðið nemur 1,1 millj­arði Banda­ríkja­dala, eða tæp­um 116 millj­örðum ís­lenskra króna og fela í sér 25% reiðufé og 75% hluta­fé í Inner­gex. Þau eru háð samþykki hlut­hafa Alterra.

Léttir fyrir hreppsbúa

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Verslunin á Norðurfirði í Árneshreppi opnar á ný á morgun en engin verslun hefur verið í hreppnum frá því að útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar var lokað í september. Nýir verslunarstjórar eru hjónin Ólafur Valsson og Sif Konráðsdóttir og komu þau með búslóð sína í hreppinn í gær. Á morgun kemur flutningabíll frá Strandafrakt með fyrstu vörur í nýja verslun. Á vef Litla hjalla segir ritstjórinn Jón Guðbjörn Guðjónsson opnunar verslunarinnar sé mikill léttir fyrir íbúa hreppsins.

Í fjarveru Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita Árneshrepps, var það fyrrnefndur Jón Guðbjörn sem tók á móti kaupmannshjónunum og bauð þau velkomin í hreppinn og afhenti lykla að verslunarhúsinu og að íbúð sem Ólafur og Sif fá til afnota, en íbúðin er í sömu byggingu og verslunin er í, á efstu hæð kaupfélagsbygginganna.

Leituðu smala

Björgunarsveitir frá Vesturlandi, Ströndum, Vestfjörðum og við Húnaflóa voru kallaðar út í kvöld til að leita að týndum smölum í Selárdal á Ströndum. Uggur vaknaði með fólki þar sem smalarnir höfðu ekki skilað sér til byggða á tilætluðum tíma. Þeir fundust þó fljótlega eftir að björgunarsveitir fóru til leitar. Fyrstu hóparnir fóru úr húsi klukkan níu í kvöld og hálftíma síðar var búið að finna smalana heila á húfi.

Fimmtán manna hópur frá Björgunarfélagi Ísafjarðar var í þann mund að leggja af stað á Strandir þegar smalarnir fundust.

Leggur til þjóðgarð í stað virkjunar

Sigurður Gísli Pálmason.

„Undirritaður leggur því til á þessum tímamótum að Árneshreppur staldri örlítið við, áður en ákvörðun um framhald varðandi framkvæmdir til undirbúnings Hvalárvirkjunar er tekin,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, stjórnarformaður IKEA á Ísland, í athugasemd til hreppsnefndar Árneshrepps vegna fyrirhugaðar Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.

Sigurður Gísli vill stofna þjóðgarð á Ströndum sem hann sér fyrir sér að gæti orðið burðarás í samfélaginu, ekki aðeins í Árneshreppi heldur á norðanverðum Vestfjörðum.

Í bréfinu segir um m.a. um þjóðgarð á Ströndum:

„Ef vel er haldið á spöðunum myndir hann ekki aðeins skapa störf fyrir umsjónarmenn hans, heldur einnig stuðla að afleiddri atvinnustarfsemi s.s. ferðaþjónustu, uppbyggingu fræðaseturs og annarri nýsköpun.“

Hann segist gera sér grein fyrir að hugmynd um þjóðgarð virðist sem fugl í skógi meðan virkjunin er í hendi. „Mestu skiptir að ef hægt er að gera hugmynd um þjóðgað að veruleika með aðkomu áhugasamra aðila, bæði í atvinnulífi, stjórnsýslu og heimafyrir, þá verði sá möguleiki ekki sleginn af borðinu að óathuguðu máli,“ segir í bréfinu.

Sigurður Gísli er einn af kunnari kaupsýslumönnum á Íslandi og hefur einbeitt sér að náttúruvernd með ýmsum hætti.

Búnir með fyrsta útskotið

Tveir borar að störfum í Dýrafjarðargöngum.

Í síðustu viku voru grafnir 52,3 metrar í Dýrafjarðargöngum og lengd ganganna orðin 365 metrar. Í vikunni var lokið við að grafa útskot og tæknirými sem eru um það bil 15 metra langt og má segja að framvindan síðustu viku hafi verið 67,3 metrar. Þegar útskotið var borað var notast við tvo bora, annar boraði útskotið og hinn hélt áfram með göngin.

10 útskot í göngunum

Í göngunum eru 10 útskot, á 500 m fresti.  Þessi útskot eru til öryggis, t.d. ef bíll bilar í göngunum þarf hann ekki að standa á akbrautinni. Skissan að neðan sýnir hefðbundið útskot.

Útskotið sem grafið var í síðustu viku er að auki með tæknirými og sandgeymslu, þess vegna er sjálft útskotið aðeins lengra en hefðbundið útskot.

Á Farmal á kjörstað

Á kjördegi gerir fólk sér glaðan dag með ýmsum hætti enda er mikilvægt að fólk fagni og takist á við lýðræðið með bros á vör. Í Reykhólahreppi mætti fólk á kjörstað á farartækjum sem ekki sjást á götunum á hverjum degi. Reykhólavefurinn greinir frá að kaupmannshjónin Ása Fossdal og Reynir Róbertsson komu á kjörstað á virðulegum 55 ára gömlum Land Rover. Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir og Ingimar Ingimarsson mættu að sjálfsögðu hvort á sínum Farmall ásamt mökum, Guðmundi Ólafssyni og Silvíu Kristjánsdóttur.

Kjörsókn í hreppnum var léleg, eða 69,2 prósent sem er talsvert undir kjörsókn í Norðvesturkjördæmi sem var 83 prósent.

Lions styrkir bókasafnið

Formaður Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Leiknir Thoroddsen, afhenti Bókasafninu á Patreksfirði glæsilega gjöf á föstudag. Gjöfin er styrkur fyrir bókasafnið til kaupa á húsgögnum fyrir yngsta kúnnahóp bókasafnsins.

Krakkarnir úr lengdu viðverunni í grunnskólanum heimsækja bókasafnið alltaf á fimmtudögum og tóku við gjöfinni fyrir hönd allra krakka á Patreksfirði. Með þessu hefur aðstaðan fyrir börnin batnað mikið og á Lionsklúbburinn þakkir skildar fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

Mikilvægt skref í eldi á geldfiski

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Nofima – rannsóknastofnun norska matvælaiðnaðarins – hefur kynnt mikilvægt skref í áttina til þess að mögulegt sé að ala geldan lax. Um 2000 tilraunafiskar hafa nú þegar náð 300 grömmum og vaxa og dafna eins og aðrir laxar, að því undanskildu að þeir mynda ekki kynfæri. Frá þessu er greint á vef Fiskifrétta. Núna er verið að fylgjast með fiskinum og vinna að því að þróa skilvirka aðferð sem hægt er að nota á iðnaðarskala. Ef hvortveggja er í lagi eru 3-5 ár þangað til að hægt sé að framleiða geldfisk í miklu magni.

Beri það árangur að rækta geldfisk á iðnaðarskala reynast það stórfréttir í laxeldinu og allar áhyggjur af erfðablöndun verða fyrir bí. Sem kunnugt er hefur verið lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi vegna hættu á erfðablöndun í laxveiðiám í Djúpinu.

Meiri kjörsókn

Kjörsókn í Norðvesturkjördæmi var 83,06 prósent sem er tæplega tveimur prósentustigum meira en kjörsókn á landsvísu. Kjörsóknin í kjördæminu jókst um tæp tvo prósentustig frá kosningnum í fyrra. Aukinn kjörsókn bendir til aukins stjórnmálaáhuga, þvert á það sem menn hafa óttast þegar eins ört er kosið eins og undanfarin ár. Áður hefur verið greint frá úrslitum í kjördæminu þar sem Miðflokkurinn vann stórsigur og hagur Samfylkingarinnar vænkaðist verulega á meðan Píratar og Sjálfstæðisflokkur fengu skell.

Halla Signý Kristjánsdóttir úr Framsóknaflokki er sjöundi og síðasti kjördæmkjörni þingmaður í Norðvesturkjördæmi en ekki munaði mjög miklu að Bjarni Jónsson, annar maður á lista Vinstri grænna, kæmist inn í hennar stað, eða 111 atkvæðum. Nokkuð langt var í að næstu menn gætu ógnað Höllu Signýju en á eftir Bjarna kemur Eva Pandora Baldursdóttir en hana vantaði 420 atkvæði til að vera kjördæmakjörin og sjálfstæðismanninn Teit Björn Einarsson vantaði 533 atkvæði.

Sigurður Páll Jónsson úr Miðflokki vantaði heil 722 atkvæði til að ná inn sem kjördæmakjörinn þingmaður en hann komst inn sem jöfnunarmaður kjördæmisins. Það má því segja að hann sé þingmaðurinn sem kjósendur í kjördæminu voru ekki endilega að biðja um.

Andrew verður spilandi aðstoðarþjálfari

Samúel Samúelsson formaður meistaraflokksráðs og Andrew handsala samninginn.

Knattspyrnudeild Vestra hefur samið við Andrew James Pew um að vera spilandi aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Hann mun starfa við hlið Bjarna Jóhannssonar yfirþjálfara Vestra. Andrew kemur til Vestra frá Selfossi þar sem hann hefur spilað síðastliðin ár við góðan orðstír í Inkasso deildinni. Hann kom fyrst til landsins árið 2006 og á að baki 179 leiki á Íslandi og í þeim náð að skora 10 mörk.

Andrew er hávaxinn miðvörður og mun koma til með að styrkja varnarleikinn enda varnarmaður með mikla reynslu úr íslenska boltanum.

Stjórn meistaraflokksráðs Vestra lýsir yfir mikilli ánægju með þjálfarateymið sem félagið hefur krækt í og er ætlast til mikils af þessum reynslumiklu mönnum og er stefnan sett á toppbaráttu næsta sumar.

 

Nýjustu fréttir