Síða 2120

Nýtt viðvörunarkerfi

Veðurstofan tók í dag í notkun nýtt viðvörunarkerfi. Með nýju kerfi er leitast við að auka þjónustu við almenning og hagsmunaaðila. Helstu breytingar í útgáfu viðvarana verða þær að nýja kerfið tekur meira tillit til aðstæðna hverju sinni. Stakir veðurfarsþröskuldar verða úr sögunni, en það eru viðmið sem Veðurstofan hefur notað, svo sem 20 m/s fyrir vind og 100 mm úrkoma á 24 klst. Þau víkja nú fyrir viðmiðum sem taka tillit til árstíðar og aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig. Viðvörunarkerfið byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er stafrænt snið fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Útgefin skeyti eru á þekktu, stöðluðu formi sem gerir alla miðlun viðvarana samræmda yfir mismundandi samskiptaleiðir og miðla. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshluta sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið. Fyrsta útgáfa kerfisins nær eingöngu til viðvarana vegna veðurs, en áætlað er að innan örfárra ára muni kerfið ná til allrar náttúruvár sem Veðurstofan vaktar.

Viðvaranirnar verða í litum; gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika væntanlegs veðurs. Litirnir eru að erlendri fyrirmynd og hafa fjölmargar evrópskar veðurstofur r tekið þá í notkun. Rauðar viðvaranir eru hæsta stig og boða mikil samfélagsleg áhrif af veðri; gular viðvaranir eru lægsta stig þar sem annað hvort samfélagsleg áhrif eru takmörkuð þó miklar líkur séu á veðrinu, eða minni líkur á áhrifum mikils veðurs lengra fram í tíman.

Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða. Viðbragðsaðilar verða hafðir með í ráðum um útgáfu viðvarana á efri stigum og má þar nefna Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðina. Veðurfræðingar gefa frekari lýsingu á atburðinum í texta sem fylgir viðvöruninni. Áhrifatafla mun fylgja útgefinni viðvörun á vef Veðurstofunnar.

Viðvaranir Veðurstofunnar verða birtar á vefjum stofnunarinnar. Viðvaranaskeyti verður hægt að nálgast í gegnum vefþjónustu Veðurstofunnar fyrir birtingu á öðrum miðlum og fréttaveitum

Reksturinn tæplega sjálfbær

Rekstur Edinborgarhússins á Ísafirði er að óbreyttu tæplega sjálfbær. Þetta kemur fram í bréfi stjórnar Edinborgarhússins til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Stjórnin óskar eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um tryggja að markmiði hússins verði náð. Í því er vísað til samkomulags ríkis, Ísafjarðarbæjar og Edinborgarhússins frá síðasta áratug. Uppbyggingarsamningur bæjarins og Edinborgarhússins rann út á síðasta ári og markaði það tímamót í sögu hússins en þá var uppbyggingu formlega lokið.

Í bréfinu kemur fram að þau tímamót séu tilefni til að huga að framtíð hússins og hvernig tryggja megi að tilgangi uppbyggingarinnar sé náð með öflugri menningarstarfsemi.

Mótmælir niðurskurði til Náttúrustofunnar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir niðurskurði til Náttúrustofu Vestfjarða sem er boðaður í fjármálafrumvarpi sem var lagt fram í haust. Framlag ríkisins til stofunnar verður skorið niður um þriðjung, eða 10 milljónir króna. Í bókun bæjarráðs segir að ráðið skilji ekki eftir ekki eftir umræðu undanfarinna mánaða að nú eigi að veikja fræðastofnanir á Vestfjörðum þegar allt kapp hefur verið lagt á að styrkja þær. „Mikilvæg tækifæri gætu falist í því með því að efla t.d. fiskeldishlutverk Náttúrustofu. Því skorar bæjarráð Ísafjarðarbæjar á verðandi umhverfisráðherra og nýkjörið þing að beita sér fyrir vexti og viðgangi stofnunarinnar,“ segir í bókun bæjarráðs.

Nancy Bechtloff, forstöðumaður Náttúrustofunnar, sagði í samtali við bb.is í síðustu viku að verði niðurskurðurinn að veruleika sé eitt stöðugildi við stofuna í hætt.

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram áður en ríkisstjórnin féll og því er allt óvíst með þinglega meðferð frumvarpsins á meðan stjórnmálaflokkarnir reyna að greiða úr óljósri stöðu sem myndaðist þegar úrslit kosninganna lágu fyrir.

Margrét Björk nýr kennslustjóri Háskólasetursins

Sautján umsóknir bárust um starf kennslustjóra við Háskólasetur Vestfjarða og valnefnd hefur ákvaðið að ráða Margréti Björk Arnardóttur í starfið. Margrét Björk er náms- og starfsráðgjafi í Árskóla á Sauðárkróki en hefur auk þess starfað sem náms- og starfsráðgjafi við Háskólann á Hólum og Farskólann – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Hún hefur sinnt ýmsu fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi og er verkefnastjóri starfakynningar á Norðurlandi vestra. Við Árskóla heldur hún utan um Olweusaráætlun skólans og situr í áfallaráði og jafnréttisráði skólans. Hún hefur kennslureynslu og víðtæka reynslu af fjarnámi. Margrét Björk er með meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands auk félagsráðgjafamenntunar frá Danmörku. Hún hefur tengsl til Ísafjarðar og gekk m.a. annar í Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að Margrét Björk hefji störf eftir áramót.

Kristín Ósk Jónasdóttir sem gengt hefur starfi kennslustjóra undanfarin sex ár lætur af störfum um áramót. Kristín hefur verið ráðin sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem umsjónarmaður Hornstrandafriðlandsins.

Vestfirsk orka í víðum skilningi

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Orkubú Vestfjarða efnir nú til ljósmyndasamkeppni með glæsilegum vinningum. Þemað er „vestfirsk orka í víðum skilningi,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Orkubúsins og er skilafrestur til 14. nóvember. Allar myndir sem berast í keppnina verða birtar á Facebooksíðunni þann 16. Nóvember og sú sem fær flest læk hreppir vinning sem er veglegur, eða út að borða á Hótel Ísafirði fyrir tvo og tveir miðar á tónleikana Hátíðartóna með þeim Jógvan Hansen, Heru Björk og Halldóri Smárasyni. Myndasmiðirnir sem hreppa annað og þriðja sætið hreppa einnig tónleikamiða í vinning.

 

Enn fjölgar gistinóttum

Nærri 380 þúsund gistinætur voru skráðar á hótelum í síðasta mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er þriggja prósenta aukning frá því í september í fyrra. Flestar gistinætur voru á höfuðborgarsvæðinu, eða ríflega helmingur allra gistinátta. Á Vestfjörðum og Vesturlandi, en landshlutarnir eru taldir saman í gögnum Hagstofunnar, voru 21.724 gistinætur og fjölgaði um 7 prósent milli ára. Mest fjölgaði gistinóttum á Suðurnesjum eða um tíu af hundraði. Erlendir ferðamenn eru langstærstur hlutinn en níu af hverjum tíu gistinóttum eru skráðar á erlenda ferðamenn.

Gistinætur á hótelum frá október 2016 til loka síðasta mánaðar eru 18 prósent fleiri en sömu mánuði árið á undan.

Norðvesturkjördæmi á barmi þess að missa þingmann

Misvægi atkvæða er að aukast og er mest milli Norðvesturs- og Suðvesturkjördæmis. Við endurskoðun á kosningalögum árið 2000 var kjördæmum fækkað úr átta í sex og jafnframt var misvægi atkvæða sett mörk í stjórnarskrá þannig að vægi atkvæða í einu kjördæmi megi ekki vera tvöfalt meira en í öðru kjördæmi. Í fréttaskýringu RÚV kemur fram að frá því 2000 hafa tveir þingmenn færst úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi, fyrst í kosningunum 2003 og svo árið 2009.

Í kosningunum á laugardag voru 2.690 kjósendur að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi, samanborið við 5.346 í Suðvesturkjördæmi. Hlutfallið er 199% og á barmi þess að fara yfir stjórnarskrárbundin mörk, sem eru 200%.

Helstu rökin fyrir meira vægi atkvæða í dreifðair byggðum er að vega upp á móti valdi þéttbýlis og valdamiðstöðva og þetta er fyrirkomulag sem þekkist í nágrannalöndunum en Ísland hefur þó gengið lengra í þessa átt en önnur lönd.

Jöfnunarmenn eiga að tryggja að þingstyrkur flokkanna sé í samræmi við atkvæðafjölda en þeir eru ekki nógu margir, eða níu. Í kosningunum á laugardag stingur í augun að Framsóknarflokkurinn fékk einum fleiri þingmann en Samfylkingin þrátt fyrir að Framóknarflokkurinn hafi fengið 10,7 prósent á landsvísu en Samfylkingin 12,1 prósent. Fleir jöfnunarmenn hefðu fært einn þingmann frá Framsókn til Samfylkingar. Að öðru leyti er þingstyrkur flokkanna í samræmi við fylgi.

Between Mountains á Iceland Airwaves

Vestfirsku tónlistarkonurnar Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Guðmundsdóttir sem komu, sáu og sigruðu Músíktilraunir í byrjun árs láta nú ljós sitt skína á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves, dagskáin er þétt og hefst í dag:

31.10.17- Hitt húsið- 18:30
1.11.17- Grund dvalar- og hjúkrunarheimilið- 10:15
1.11.17- KEX Hostel- 13:00
1.11.17- Sólon Bistro- 19:00
2.11.17- Víking Brewery Reykjavík- 14:00
3.11.17- Bíó Paradís- 13:00
3.11.17- Hitt Húsið- 19:30
3.11.17- Fríkirkjan (on venue) 21:00
4.11.17- Landsbankinn (Reykjavík)- 15:00
5.11.17- Gaukurinn (on venue) 22:30

Fylgjast má með tónlistarviðburðum Between Mountains á Facebooksíðu hljómsveitarinnar.

Tíðindalítið veður í dag

Það stefnir í frekar tíðindalítið veður í dag, suðvestlæga átt og dálitla vætu S- og V-lands, en úrkomulítið NA-til. Síðdegis fara skil yfir landið frá vestri til austurs og eykst þá úrkoman V-lands um tíma en skilin munu líklega ekki færa neina úrkomu að ráði á NA- og A-land. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðins.

Í kvöld snýst í norðlæga átt og kólnar nokkuð hratt með henni, fyrst um landið V-vert. Það má búast við slydduéljum á Vestfjörðum fram eftir nóttu, en éljum NA- og A-til á morgun. Norðanáttin verður einna hvössust á SA- og A-landi í fyrramálið þar sem hviður við fjöll geta auðveldlega farið yfir 30 m/s, einkum suður af Vatnajökli og á sunnanverðum Austfjörðum. Á sama tíma léttir til fyrir sunnan og vestan og eru ágætis líkur á björtu veðri þar á morgun. Það lægir síðan og styttir upp á landinu um og eftir hádegi.

Tíðin er heldur rysjótt þessa dagana en annað kvöld er útlit fyrir vaxandi suðlæga átt og rigningu V-lands eftir nokkuð fallegan og svalan dag á þeim slóðum.

Tvöfaldur Evrópumeistari eftir fyrsta keppnisdag

Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið einstaklega sigursæl síðustu ár.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir bætti tveimur Evrópumeistaratitlum í safnið sitt á fyrsta degi Evrópumeistaramóti DSISO sem er haldið í París. Á fyrsta keppnisdegi í gær tók hún þátt í tveimur greinum, 50 metra flugsundi og 100 metra baksundi. Flugsundið var æsispennandi sem Kristín sigraði mjög naumlega og ekki nema 6 sekúndubrotum á undan næsta keppanda.

Seinnipartinn í gær var komið að 100 metra baksundi en það er grein sem Kristín óttaðist eilítið fyrirfram eftir að hafa gert ógilt í sömu grein á móti í Malmö í vor. Kristín Þorsteinsdóttir er íþróttakona sem lætur ekkert stoppa sig og hélt ótrauð til sunds og landaði að sjálfsögðu öðrum Evrópumeistaratitli.

Nýjustu fréttir