Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2120

650 þúsund til menningarmála

Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur lokið afgreiðslu á haustúthlutun á styrkjum til menningarmála. Til ráðstöfunar núna voru 650 þúsund krónur og hlutu fimm verkefni náð fyrir augum nefndarinnar. Hæsti styrkurinn, eða 235 þúsund krónur, kemur í hlut Skóbúðarinnar – hversdagssafns, til að halda námskeið í skapandi skrifum. Hjónaballsnefnd 2017 fær 150 þúsund króna styrk til að halda hjónaball. Kvennakór Ísafjarðar fær 100 þúsund krónur vegna jólatónleika. Eyþór Jóvinsson fær 100 þúsund króna styrk vegna endurútgáfu á bókinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði. Gamla bókabúðin á Flateyri fær 65 þúsund króna styrk til að halda ljósmyndasýningu í tilefni 100 ára afmælis verslunarinnar Bræðranna Eyjólfssona.

smari@bb.is

Amsterdam-maraþon

Guðbjörg Rós Sigurðardóttir glaðbeitt í hlaupinu

Riddarar Rósu eru svo sannarlega áberandi og mikilvægur félagsskapur á Ísafirði og má sjá hópa á þeirra vegum skokka léttfætt um bæinn. Í október fór dágóður hópur til Amsterdam til að prófa Hollenskar gangstéttar og hér að neðan er lýsing Guðbjargar Riddara á ferðinni og glæsilegum árangri hópsins.

Riddarar Rósu ákváðu fyrir um ári síðan að fara í hlaupaferð saman og var Maraþon í Amsterdam fyrir valinu. Þar er  hægt  að hlaupa þrjár mismunandi vegalengdir og hentar því breiðum hópi hlaupara. . Áður hafði hluti af Riddurum  skráð sig í maraþon í Berlín en að lokum voru það 42 Riddarar og makar sem héldu af stað til Amsterdam um miðjan október til að hlaupa maraþon, hálfmarþon eða 8 km hlaup.

Riddarar  Rósu æfa undir stjórn Mörthu Ernstsdóttur en hún sendir hlaupafélögum  prógramm sem farið er  eftir undir stjórn nokkurra Riddara. Æfingarnar í vetur snérust aðallega um að styrkja sig og hlaupa á brettinu en svo í sumar hófst undirbúningurinn fyrir alvöru þegar hægt var að byrja  að hlaupa úti. Að æfa fyrir maraþon er mun  tímafrekara en að hlaupa styttri vegalengdir s.s. hálf-maraþon eða 10 kílómetra og því varð að nýta tímann vel ogoft var farið að hlaupa fyrir vinnu á morgnana  og eldsnemma um helgar til að eiga daginn með fjölskyldunni. Einhverjir höfðu hlaupið  maraþon áður og gátu dreift visku sinni til hlaupafélaganna , sagt hvað mætti og hvað ekki og sköpuðust ansi skemmtilegar umræður í þessum löngu hlaupum okkar. Það fer nefninlega heilmikil jafningjafræsla fram á hlaupaæfingum. Við æfðum vel saman í sumar og tókum þátt í keppnum til að undirbúa okkur enn betur. Hlaupahátíðin okkar (Hlaupahátíð Vestfjarða)er góður undirbúningur fyrir svona stórt hlaup sem og Reykjavíkurmarþonið í lok ágúst. Þar fjölmenntu Riddarar ogkom  árangur sumarsins  berlega í ljós.

Ferðin til Amsterdam byrjaði vel, allir tilbúnir í slaginn og mættu ferskir á Expoið þar sem númerin voru afhent og einnig var hægt að gera góð kaup á hinum ýmsu hlaupavörum sem  alger nauðsyn er að eiga… Við tókum því rólega dagana fyrir hlaup, aðeins farið í búðir og borgin skoðuð en mest var reynt að „hlaða“ með hinum ýmsu góðgæti í mat og drykk

Miklum hita var spáð á sjálfan hlaupadaginn og því mikilvægt að vera vel undirbúinn, drekka vel dagana á undan, bera á sig sólarvörn og drekka vel í hlaupinu sjálfu. Þetta leit vel út um morguninn, hitinn ekkert of mikill en heiðskýrt sem gaf ekki góða von um íslenskt veður þegar leið á hlaupið.

Við mættum tímanlega í startið og gerðum það sem gera þarf fyrir svona hlaup, kamarinn vel nýttur, líkaminn smurður með vaselíni til að forðast núningssár, farið yfir plan dagsins og allt gert klárt. Stemningin var góð og allir fóru á sína staði í startinu.  Hlaupið byrjaði vel, hitinn í meðallagi en þegar hádegið nálgaðist fór hitinn aðeins yfir mörkin og erfitt að finna skjól fyrir sólinni. En Riddarar láta ekki smá hita hafa áhrif á sig og kláruðu allir hlaup sín með stæl þrátt fyrir sjúkrabíla og sírenur um alla braut, 19 kláruðu maraþon, 7 hálfmaraþon og einn 8 km hlaupið.

Eftir hlaupið hittumst við svo öll í stúkunni á Ólympíuleikvanginum í Amsterdam en þar hófust og enduðu hlaup dagsins. Svolítið erfitt var að ganga upp allar tröppurnar eftir átökin í hlaupinu og enn verra að fara niður aftur en allt gekk vel og vorum við dugleg að fagna þeim sem komu í mark og vorum vel sýnileg með íslenska fánann okkar og huhhhhh fagnið

Um kvöldið fórum við svo öll saman út að borða þar sem tekin var ákvörðun um næstu ferð því allir voru sammála um að þetta þyrfti að endurtaka, hvert skal fara er ekki komið á hreint  en kannski verður það ákveðið á uppskeruhátíðinni okkar um næstu helgi…..

Af lífeyri og bótum.

Eldri borgarar eru fólkið sem er búið að standa vaktina. Skila sínu. Þessi hópur fólks er búinn að greiða skatta og skyldur í áratugi til samfélagsins. Maður skildi ætla að einhver hluti þess fjár væri ætlaður til þess að fólk gæti átt áhyggjulaust ævikvöld. Það var allavega hugmyndin og það hefur verið réttlæting hárra skatta, að við greiddum hluta þeirra í samtrygginguna. Ellilífeyrir er ekki bætur eins og ýjað hefur verið að. Þetta eru peningar sem fólk lagði inn í samtrygginguna og á svo að fá seinna þegar vinnudegi líkur án skerðinga. Sumir hafa lagt fyrir og hafa lífeyri annarsstaðar frá. Það er gott en ætti ekki að rýra rétt til lífeyris frá tryggingastofnun. Þeir sem hafa atorku og elju fram eftir aldri ættu að fá að vinna ef þeir vilja, jafnvel fyrir fullum launum án skerðinga. Þau ættu að vera markaðslaun í hverri grein. Þetta mundi gera eldri borgurum kleift að stunda vinnu ef heilsan leyfir og mundi vera hvetjandi fyrir fyrirtæki að halda þessu fólki í vinnu í mörgum tilfellum. Við þurfum nauðsynlega á vinnufúsum höndum að halda og það er staðreynd að þekkingin og reynslan sem þetta fólk býr yfir og getur miðlað til yngri kynslóða og út í atvinnulífið verður ekki metin til fjár. Ekki síst núna þegar okkur bráðvantar vinnufúsar hendur og iðn og tækniþekking er gulls ígildi. Hitt er jafn mikilvægt að fá að eldast með reisn, geta framfleytt sér og sínum og haldið sjálfstæði eins lengi og líkamleg og andleg heilsa leyfir. Sveigjanleg starfslok eru sjálfsögð mannréttindi.

Hið sama á við um öryrkja, sumir eru 100% öryrkjar og geta engu bætt við en margir eru metnir öryrkjar að hluta. Þar þyrfti að leggja áherslu á að atorka þ.e. getan til vinnu yrði metin. Það er því er afar mikilvægt að fólk hafi réttinn til að afla þeirra tekna sem mögulegt er án skerðinga. Það leiðir af sér betri afkomu fyrir þann sem lifir við örorku og eykur framleiðni samfélagsins. Jákvæð félagsleg áhrif bæði á öryrkjan og samfélagið í heild hljóta að vera óumdeild. Það er einnig svo að margir glíma við örorku sem er af geðrænum og / eða líkamlegum toga og þessháttar örorka er ekki í öllum tilfellum lífstíðardómur, heldur tímabil í lífinu sem er erfitt. Það stóreykur líkur á bata ef fólk getur tekið þátt í atvinnulífinu án þess að bætur skerðist þess vegna.

Miðflokkurinn mun beita sér fyrir að lífeyrir og örorkubætur fylgi lágmarkslaunum og skerðist ekki við atvinnuþátttöku.

Gerum sáttmála.

-Sterkar grunnstoðir samfélagsins fyrir alla, Ísland allt.

-Leyfum einstaklingnum að njóta sín eins og hann er.

-Frelsi til athafna og skoðana svo fremi að það frelsi hefti ekki eða skerði frelsi annara.

-Berum virðingu hvert fyrir öðru, sjálfum okkur, landinu, menningu og tungumálinu.

-Byggjum upp betra samfélag og gerum það af skynsemi og án öfga.

-Sameinumst um skynsamlegar lausnir til að ná settum markmiðum

 

Jón Þór Þorvaldsson

Frambjóðandi Miðflokksins NV kjördæmi

 

Norðanátt í kortunum

Samstöðumótmæli verða á Silfurtorgi kl 17.

Í dag verður norðaustanátt 8-13 m/s norðvestanlands, annars hægari vindur. Súld eða rigning fyrir norðan, en léttskýjað suðvestantil. Hiti 3 til 9 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að á morgun verði norðaustanátt 3-10 m/s. Skýjað og dálítil væta austanlands, en léttskýjað sunnan heiða og hiti breytist lítið.

Það er spáð vestan kalda og skýjuðu vestanlands á fimmtudag, en bjartviðri á austanverðu landinu.

Á föstudag er útlit fyrir vestan 8-13 m/s með rigningu og mildu veðri.

smari@bb.is

Vetrinum fagnað

Í stað þess að leggjast í blús þegar dagurinn er farinn að styttast meir en góðu hófi gegnir efnir Ísafjaðrarbær til hátíðarinnar Veturnátta líkt og mörg undanfarin ár. Með þessu er vetrarkomunni fagnað en fyrsti vetrardagur samkvæmt fornu tímatali var laugardaginn. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á Veturnóttum sem hefjast á fimmtudag og standa fram til þriðjudags. Ógerningur er að telja upp allt sem verður í boði eða tína til hápunkta og þess í stað er bent á dagskrá hátíðarinnar á vef Ísafjarðarbæjar.

smari@bb.is

Sægur upplýsinga á einum stað

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Mælaborð ferðaþjónustunnar var formlega kynnt til sögunnar fyrir helgi. Mælaborðið er ný vefsíða þar sem tölulegar upplýsingar um atvinnugreinina eru birtar með myndrænum hætti. Þetta er í fyrsta skipti sem þessar upplýsingar eru aðgengilegar á einum og sama stað. Meðal þess sem mælaborðið sýnir er fjöldi ferðamanna, framboð gistirýmis, nýting hótelherbergja, dreifing, nýting og tekjur Airbnb gistingar, komur og dreifing skemmtiferðaskipa, fjöldi starfsmanna í atvinnugreininni, gjaldeyristekjur og fjöldi bílaleigubíla. Sérstaka athygli vekur að hægt er að skoða heilmikið af þessum upplýsingum eftir landshlutunum. Sem dæmi má nefna að fá má margvíslegar upplýsingar um umfang Airbnb útleigu í hverjum landshluta, fjölda hótela og hótelherbergja, gistinýtingu og tekjur. Þá er í fyrsta skipti hægt að sjá yfirlit um komur skemmtiferðaskipta í hafnir á landsbyggðinni, fjölda skipa og fjölda farþega.

Upplýsingar mælaborðsins eru byggðar á gögnum frá opinberum stofnunum og rannsóknaraðilum. Tölurnar eru uppfærðar jafnharðan og nýjar berast og því eru upplýsingarnar eins ferskar og hugsast getur. Í flestum tilfellum sýna gögnin þróunina nokkur ár aftur í tímann.

Þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu í þessari fyrstu útgáfu eru aðeins hluti þess sem áformað er að sýna. Gert er ráð fyrir að allt að 100 upplýsingagrunnar eigi eftir að bætast við. Mælaborðið verður í stöðugri þróun og viðræður standa yfir við fjölmargar stofnanir um birtingu á fleiri gögnum sem varða ferðaþjónustuna og þróun hennar. Meðal þeirra sem leggja mælaborðinu til gögn núna eru Hagstofan, Ferðamálastofa, Airdna og Samsýn.

Mælaborð ferðaþjónustunnar er unnið á vegum Stjórnstöðvar ferðamála í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Deloitte og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Markmiðið með mælaborði ferðaþjónustunnar er að mæta brýnni þörf fyrir aðgengilegar og áreiðanlegar upplýsingar á einum stað um vöxt og þróun þessarar stærstu atvinnugreinar landsins. Einstaklingar, fyrirtæki, fjárfestar, sveitarfélög, ríkisvaldið og fleiri aðilar hafa lengi kallað eftir slíkum gögnum til greiningar og ákvarðanatöku í ferðaþjónustunni. Til viðbótar við þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu verður hægt að fá aðgengi að undirliggjandi gögnum til frekari rannsókna.

smari@bb.is

Sókn í stað varnarbaráttu

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Það er kominn tími til að sækja fram fyrir landsbyggðina og almennt launafólk. Við getum gert svo miklu betur en gert hefur verið undanfarin ár, þegar efnahagur þjóðarinnar hefur batnað. Nú verðum við að blása til sóknar og byggja upp réttlátt samfélag til framtíðar.

Byggð á Vestfjörðum hefur háð varnarbaráttu lengi en nú er kominn tími til sóknar. Við verðum að hefja framkvæmdir strax í veglagningu á sunnanverðum Vestfjörðum – annað er ekki í boði og tryggja verður afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum því við lifum á 21. öldinni og annað er óásættanlegt.

Vinstri græn eru tilbúin að veita forystu vinstri félagshyggjustjórn eftir kosningar, fáum við gott brautargengi, og vinna af ábyrgð og heiðarleika að bættum kjörum almennings og eflingu innviða og atvinnulífs um allt land.

Það gengur ekki lengur að misskipting og ójöfnuður aukist í landinu og grunninnviðir eins og heilbrigðiskerfið, menntastofnanir, samgöngur og löggæsla séu fjársvelt þegar góðæri ríkir í landinu.

Síðasta ríkisstjórn sýndi á spilin og kynnti fjárlagafrumvarp með 44 milljarða tekjuafgangi en áframhaldandi sveltistefnu á öllum innviðum landsins. Ekkert er gert til að bæta stöðu barnafólks, aldraðra og öryrkja eða mæta miklum húsnæðisvanda. Tryggja verður húsnæðisframboð á viðráðanlegum kjörum um allt land og að búið verði betur að öldruðum og öryrkjum og barnafólki og fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað skatta á almennt launafólk undanfarin 4 ár og lækkað skatta á tekjuhæstu tíu prósentin. Þeir hafa lækkað barnabætur og vaxtabætur og hækkað virðisaukaskatt á matvæli. Staðreyndirnar tala sínu máli.

Við viljum þvert á móti ekki hækka skatta á almennt launafólk heldur að þeir tekjuhæstu greiði meira til samfélagsins. Það er hægt að jafna lífskjörin í landinu með ábyrgum og skynsömum hætti án þess að skattleggja almennt launafólk. Til að mynda með auknum arðgreiðslum úr bönkunum, auðlegðarskatti, auknu skattaeftirliti og hærri veiðigjöldum á stórútgerðina.

Við viljum gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og útfærslan á að stýrast af hagsmunum allra byggða í landinu í endurúthlutun aflaheimilda til  þess að styrkja byggðirnar. Haft verður að  leiðarljósi sátt, byggðafesta og atvinnuöryggi íbúanna. Efla verður strandveiðar og skapa forsendur fyrir nýliðun. Veiðigjöldin verða að vera afkomutengd eftir útgerðarflokkum.

Vinstri græn vilja standa vörð um öflugan innlendan og sjálfbæran landbúnað, matvælaframleiðslu og matvælaiðnað á grundvelli þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur mótað. Um leið og nýtt þing og ný ríkisstjórn tekur til starfa þarf að ráðast í aðgerðir vegna þess bráðavanda sem steðjar að sauðfjárræktinni og þar með byggð á stórum svæðum.

Fiskeldi hefur gjörbreytt þróun byggðar á sunnanverðum Vestfjörðum og í því eru miklir vaxtarmöguleikar eins og í Ísafjarðardjúpi þar sem greinin á mikla framtíðarmöguleika . Styðja þarf vel við þróunarstarf og rannsóknir og skapa stranga lagaumgjörð og reglur fyrir greinina. Tryggja þarf rétt sveitarfélaga til að skipuleggja haf- og strandsvæði og efnahags- og samfélagsleg áhrif eldis skulu metin á líkan hátt og áhrif á náttúruna. Stjórnvöld verða að hvetja til framþróunar og nýsköpunar í eldislausnum sem miða að hámarksnýtingu hliðarafurða, verndun villtra stofna og viðkvæmrar náttúru, ásamt því að hámarka dýravelferð og gæði afurða.  VG vill að fyrirtæki, sem stunda eldi í sjó, greiði fyrir nýtingu sjávar líkt og um lóðaleigu væri að ræða.

Þetta ásamt öðrum brýnum verkefnum bíður vinstri félagshyggjustjórnar sem vonandi fær tækifæri til að sýna landsmönnum að við getum gert miklu betur í okkar góða landi því það eiga allir að geta búið við mannsæmandi kjör og búið við sambærileg búsetuskilyrði.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Höfundur er alþingismaður og skipar 1. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.

 

Munurinn innan vikmarka

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,9 prósenta fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR og mælist með mest fylgi. Þar á eftir fylgja Vinstri græn með 19,9 prósent en munurinn á flokkunum mælist þó innan vikmarka.

Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa bætt við sig fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 18. október 2017 en þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 19,9 prósent og Vinstri græn með 19,1 prósent fylgi. Fylgi Samfylkingar minnkar aftur á móti á milli mælinga og er nú í 13,5 prósent, samanborið við 15,8 prósent í síðustu mælingu. Jafnframt fækkar fylgjendum Pírata á milli mælinga og mældust nú 9,3 prósent en mældust 11,9 prósent í síðustu könnun.

Fylgi Miðflokksins mældist nú 12,3 prósent og hækkar um 1,3 prósentustig frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn fer upp um 0,6 prósentustig milli kannana og mælist með 8,6 prósent fylgi.

Viðreisn gefur eftir, mælist með 5,5 prósent fylgi nú, en 6,7 prósent í síðustu könnun MMR. Sömu sögu er að segja um Flokk fólksins sem er rétt við 5 prósenta múrinn og mælist með 4,7 prósent og fer niður um 0,6 prósentustug. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 1,8 prósent og mældist 1,6 prósent í síðustu könnun.

Könnunin stóð yfir dagana 20. til 23. október.

smari@bb.is

Á bak við tjöldin

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir að á bak við árangursríkt íþróttalið stendur harðsnúið lið foreldra og áhugafólks sem sér um að allt gangi upp, á æfingum og á keppnisdögum, sér um að góðir þjálfarar séu ráðnir, að til sé fjármagn til greiða fyrir þjálfara og jafnvel leikmenn, skipuleggja keppnisferðir, sinna sjoppu o.fl. o.fl.

Á leik Vestra og Fsu á föstudag var dugnaðarforkunum Heiðrúnu Tryggvadóttur og Guðfinnu M. Hreiðarsdóttir þakkað fyrir vel unnin störf við Körfuboltabúðir Vestra en þær hlutu á dögunum hvatningarverðlaun UMFÍ 2017. Án barna- og unglingastarfs er ómögulegt að halda úti meistaraflokkum.

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir, Guðfinna Hreiðarsdóttir og Hildur Elísabet Pétursdóttir

Á leiknum var styrktarsamningur við Nettó undirritaður en stuðningur fyrirtækja á svæðinu er allri íþróttastarfsemi nauðsynlegur.

Ingólfur Þorleifsson og Ingólfur Ívar Hallgrímsson

Síðast en ekki síst má nefna framlag körfuboltaunnanda Vestra númer eitt, hann Dag sem mætir á alla leiki ef hann á heimangengt og í meðfylgjandi myndbandi má sjá hann taka til hendinni eftir leik.

bryndis@bb.is

Það sem fáir vilja segja – en við viljum segja.

Haraldur Benediktsson

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki. Hvernig komst hún þangað?

Jú,  vegna þess að það faglega ferli sem pólitíkin ákvað að nota til að raða virkjunarkostum lagði það til einróma til og þar hefur hún verið um árabil án athugasemda. Hvalárvirkjun er samt aðeins hluti af þeim tækifærum sem við viljum nýta. Með traustum rökum má benda á allt að 135 MW framleiðslugetu mögulegra virkjana á Vestfjörðum. Eru þá samt vantaldir margir smærri kostir. Smærri virkjanir sem sóma sér vel sem byggðfestuverkefni til dæmis á einstökum bújörðum. Verkefni sem við höfum fjallað sérstaklega um í fundaröð okkar um nýja byggða- og landbúnaðarstefnu; Látum Ísland allt blómstra.

En það sem fáir virðast minnast á er hversu miklu máli virkjanir á Vestfjörðum geta skipt. Virkjun í Hvalá og Austurgilsvirkjun og margar fleiri geta  í raun haft mikla þýðingu fyrir landið allt. Helsti veikleiki okkar landsmanna i raforkuframleiðslu er að við treystum mjög á vatnasvæði sem er í áhættu vegna jarðhræringa. Þjórsársvæðið og virkjanir í henni eru þungamiðja framleiðslunnar – en á sama tíma geta eldsumbrot á hálendi Íslands lamað eða skaðað til lengri eða skemmri tíma framleiðslu þar.

Skiptir þá ekki máli að við hugum að því að dreifa raforkuframleiðslu okkar á svæði þar sem við getum verið öruggari fyrir slíkum áföllum? Er ekki einfaldlega þjóðfélagslegt öryggismál að framleiða rafmagn á Vestfjörðum? Það er meinloka að flytja eigi orkuna frá Vestfjörðum. Það virðast helstu rök þeirra sem leggjast gegn orkuframleiðslu á Vestfjörðum að flytja eigi rafmagnið í burtu af svæðinu.

Þegar farið verður að framleiða meira rafmagn á Vestfjörðum er það einfaldlega heimskuleg nálgun. Það rafmagn sem þar þarf  verður að sjálfssögðu nýtt sem næst uppruna orkunnar. Það er einfaldlega eðli okkar raforkukerfis. Þeir sem svo mæla vilja hreinlega ekki skilja hvernig raforkumálum þjóðarinnar er fyrir komið. Það er matað á kerfið á einum stað og tappað af því á öðrum stað. Núna er mikið rafmagn flutt á Vestfirði um langan og ótryggan veg með miklu orkutapi. Það rafmagn verður nýtt á öðrum stað með minna orkuflutningstapi. Það er einhver óskapleg meinloka í þessari umræðu.

Sjálfstæðisflokkurinn styður aukna framleiðslu og bætta dreifingu raforku á Vestfjörðum. Hvalárvirkjun er sannarlega einn þeirra kosta.

Haraldur Benediktsson

Höfundur er alþingismaður og efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Nýjustu fréttir