Síða 2120

Mikið fjör á Boccia móti

Íþróttafélagið Ívar hélt 14. fyrirtækjamót sitt í boccia sl. sunnudag og í ár  voru 36 lið skráð til leiks en 25 lið tóku þátt í keppninni sjálfri. Að sögn mótshaldara var stemningin var góð og höfðu allir mjög gaman af. Heyrðist að sumir ætluðu að koma aftur á næsta ári, en það hefur alltaf verið góður andi og gaman á þessum fyrirtækjamótum.

Til úrslita kepptu eitt af liðum  Hraðfrystihússins Gunnvarar ehf. og Kampa ehf. og hafði lið Hraðfrystihússins betur og sigraði keppnina í ár. Ívar hefur boðist til að manna lið fyrir fyrirtæki ef þau vilja og í ár var sigurliðið mannað liðsmönnum Ívars þeim Emilíu Arnþórsdóttur og Magnúsi Guðmundssyni.

Veitt voru ýmis aukaverðlaun en Ívar hefur m.a. hvatt vinnustaði til að mæta í vinnufatnaði / einkennisfatnaði eða öðrum búningum til að lífga upp á mótið.

Verðlaun fyrir bestu búninga hlutu Hafnir Ísafjarðarbæjar.

Verðlaun fyrir bestu liðsheild hlaut Hamraborg.

Verðlaun fyrir mestu tilþrif hlaut TM.

Og verðlaun fyrir hæsta skor í leik hlaut Ísafjarðarbær 1 sem sigraði 11-0 í einum leikja sinna.

Fyrirtækjamótið er helsta fjáröflun Ívars og er því mjög mikilvægt fyrir félagið, mótið er líka öðruvísi að því leyti að fyrirtækjum gefst kostur á að vera með hópefli og taka þátt í leiknum.

Á næsta ári verður Íþróttafélagið Ívar 30 ára og þá verður fimmtánda fyrirtækjamót Ívars í Boccia haldið og til stendur að gera það með glæsibrag.

bryndis@bb.is

Veiðigjöld verði endurskoðuð

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda mótmælir hækkun veiðigjalda og telur að útreikningur veiðigjalda sé ekki framkvæmdur á réttan hátt. Aðalfundur sambandsins var haldinn um síðustu helgi. LS skorar á stjórnvöld að breyta lögum um veiðigjald og hafnar þeim málflutningi að útgerðarmenn hafi átt að sjá hækkanirnar fyrir og leggja fé til hliðar. „Smábátaeigendur glíma enn við gríðarlega háa greiðslubyrði lána vegna afleiðinga Hrunsins. Öll endurnýjun hefur því setið á hakanum fyrir skuldbindingum. Auk veiðigjaldsins kemur hrun fiskverðs af fullum þunga á þessa viðkvæmu útgerð og ekkert lát á smánarlegri hækkun á veiðiheimildum í þorski.“

Aðalfundurinn samþykkti að barist verði af alefli fyrir því að strandveiðar verði leyfðar fjóra daga í viku frá 1. maí til 31. ágúst ár hvert á öllum svæðum án þess að það komi til stöðvunar veiða.

smari@bb.is

Óskiljanlegt að Teigsskógur hafi ekki verið tekinn eignarnámi

Kjartan á verönd kaffihússins á Saurbæ sem þau hjónin reka.

Það er óskiljanlegt að Teigsskógur skuli ekki hafa verið tekinn eignarnámi fyrir löngu. Þetta segir Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2. Kjartan og eiginkona hans, Sigríður Snævarr eiga jörðina Saurbæ á Rauðasandi og hafa staðið fyrir myndarlegri uppbyggingu þar síðustu 18 árin. Þau þekkja því vel til úr sér genginna vega í Gufudalssveit og Kjartan er ekki vafa um að fylgja eigi tillögu Vegagerðarinnar um veg um Teigsskóg. Hann vill að Teigsskógur verði tekinn eignarnámi.

„Mér finnst það eiginlega óskiljanlegt, miðað við það hvað ég hef sjálfur kynnst, – ég átti land einu sinni nálægt Reykjavík, – það var alveg hiklaust tekið eignarnámi. Það var ekkert verið neitt að velta því fyrir sér að gera það. Og ég hef aldrei skilið það hvernig í ósköpunum stendur á því, – þó að ég sé nú hlynntur einkaeignarétti og réttindum einstaklinganna að öllu leyti, – að það sé látið standa svona hressilega í veginum fyrir eðlilegum og sjálfsögðum samgöngubótum, – mál sem ég tel að hefði átt að leysa fyrir löngu síðan, annaðhvort með eignarnámi eða bara samningum við landeigendur,“ segir Kjartan.

smari@bb.is

Blýanturinn er besta vopnið

Halldór Jónsson.

Grein Sigríðar Gísladóttur,  sem skipar 9.sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi, á bb.is í gær gladdi mig mjög. Þá var loks rofin þögnin sem ríkt hefur hjá frambjóðendum þess flokks í þeim þremur stóru málum sem Vestfirðingar ræddu með svo eftirminnilegum hætti á borgarafundi sínum í haust.

Innihald greinarinnar olli mér hins vegar nokkrum vonbrigðum þó ég hafi talsverðan skilning á þeirri stöðu sem flokksmenn þar á bæ eru í. Þeir eru afar ósamstíga og óljóst hver raunveruleg stefna flokksins er í þessum málum. Í það minnsta hef ég engin svör fengið við einföldum spurningum mínum til frambjóðenda.

Að ásaka menn um að þyrla upp ryki þegar óskað er svara um helstu hagsmunamál fjórðungsins er Sigríði ekki samboðið. Það læt ég liggja á milli hluta.

Höggvið á hnútinn

Það var mjög leitt að þingmaður VG Lilja Rafney Magnúsdóttir skyldi ekki standa með öðrum þingmönnum kjördæmisins að tillögu  um sérlög um vegagerð um Teigsskóg. Tilraun Sigríðar til þess að blanda því máli við Þeistareykjamálið er í besta falli ókunnugleiki Sigríðar. Það mál var leyst með hraði innan gildandi laga og því þurfti ekki að grípa til lagasetningar.

Sérlög um Teigsskóg taka af skarið um val á leiðum. Það verður farið um Teigsskóg. Það hefur verið vilji sveitarfélagsins samkvæmt gildandi aðalskipulagi og er eins og öllum er ljóst öruggasta og hagkvæmasta leiðin og sú sem sérfræðistofnun á þessu sviði, Vegagerðin, telur besta kostinn. Lög um framkvæmdaleyfi eyða óvissu sem felst í málsmeðferð sveitarfélagsins, beinlínis með það að markmiði að koma í veg fyrir tafir vegna kæruferlis innan stjórnsýslunnar. Slík sérlög standast fullkomlega stjórnarskrá.

Að dreifa kröftum

Í stað þess að leysa málið í eitt skipti fyrir öll, þar sem öll rök hafa fyrir löngu komið fram í málinu, leggur Sigríður til að hafnar verði framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar. Manni fallast eiginlega hendur þegar slík tillaga kemur fram. Vegur um Þorskafjörð er ekki flöskuhálsinn. Þar er malbikaður láglendisvegur. Að hlaupa til og hefja framkvæmdir á besta kaflanum er glapræði þó ekki væri nema af hagkvæmnisástæðum. Að klippa sundur heildstætt verk dreifir kröftum og eykur mjög kostnað. Það er augljóst af málatilbúnaði VG að flokkurinn vill ekki taka af skarið í málinu. Það á að þæfast áfram í óskiljanlegu skipulagsferli. Hagsmunir tveggja landeigenda eiga að standa framar hagsmunum allra íbúa. Því skal enn ítrekuð fyrri spurning mín: Styðja forysta VG og frambjóðendur hennar í NV-kjördæmi núverandi tillögu Vegagerðarinnar um veglínu um Teigsskóg?

Hver ræður för?

Ég trúi  að Sigríður styðji hugmyndir og fyrirætlanir um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi en hún ræður ekki för í sínum flokki eða er ekki svo? Eru Sigríður og Bjarni Jónsson, sem situr í öðru sæti listans sammála um stefnuna í því máli? Hvað finnst Sigríði um þá einörðu skoðun Bjarna, sem sveitarstjórnarmanns í Skagafirði, að „lagareldissveitarfélög“ verði ekki tekin inn í samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Hann telur, ef marka má frétt bb.is, að sveitarfélag eins og Skagafjörður eigi meiri hagsmuni af því að vernda villta stofna í veiðiám. Styðja Vinstri Grænir, frambjóðendur þeirra  þ.m.t. Bjarni Jónsson fiskeldi í Ísafjarðardjúpi á grundvelli þeirra mótvægisaðgerða sem eldisfyrirtækin hafa unnið að?

Hver er að hafna rammaáætlun?

Sigríður rifjar upp réttilega að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki tillögu Svandísar Svavarsdóttur um rammaáætlun þar sem Hvalárvirkjun var sem fyrr í nýtingarflokki. Sú afstaða hafði ekkert með skoðun manna á Hvalárvirkjun. Það var pólitískt fikt Svandísar Svavarsdóttur sem sjálfstæðismenn gátu ekki sætt sig við þegar hún fórnaði því faglega ferli sem rammaáætlun hafði byggst á. Það eru einmitt svona spor Svandísar sem hræða svo mikið þegar kemur að málum sem reynt er að ná sátt um. Hún hefur sjaldnast almannahagsmuni í forgrunni eins og Sigríður veit. Því ítreka ég einu sinni enn spurningu mína til frambjóðenda VG: Styðja þeir þær hugmyndir sem nú liggja frammi um virkjun Hvalár í samræmi við títtnefnda rammaáætlun?

Blýanturinn er öflugt vopn

Baráttan um uppbyggingu innviða og atvinnulífs á Vestjörðum á sömu forsendum og í öðrum landshlutum hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Þar ræður einkum að hagsmunir íbúanna ráða sjaldnast för. Sú barátta verður að halda áfram eigi ásættanleg niðurstaða að nást. Baráttan á ekki bara að einskorðast við hugguleg kaffiboð.  Kjörklefinn á ekki að vera undanskilinn þeirri baráttu. Þar á að nota blýantinn til þess að velja þá sem í raun hafa barist og eru trúverðugir í þeirri baráttu. Hagsmunir íbúa verða að ráða för. Fáir hafa lýst því betur en Eiríkur Norðdahl: „Og það er hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki ballans. Það er ofbeldi.“

Halldór Jónsson

Bangsadagurinn í 20. sinn

Elín Magnfreðsdóttir lesa bangsasögur á bangsadeginum í fyrra.

Bangsadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á Bókasafninu Ísafirði allt frá árinu 1998 og hefur verið fastur liður hjá Bókasafninu allar götur síðan. Í ár verður bangsadagurinn föstudaginn 27. október og hefst dagskráin kl. 16.  Dagskráin verður með svipuðu sniði og vanalega: bangsasögustundin verður á sínum stað, það verður söngstund og börnin fá bangsamyndir til að lita. Að sjálfsögðu verður bangsaleikurinn á sínum stað og möguleiki á að fá bangsa í verðlaun.

Öll börn eru velkomin og eru þau minnt á að taka bangsana með.

smari@bb.is

Forsendubrestur í sauðfjárrækt

Aðalbjörg Óskarsdóttir

Nú sér fyrir endann á annasömum tíma í sveitum landsins. Út um allt land hafa vaskir smalar hlaupið uppi fé og rekið heim og dilkar sjaldan verið vænni að hausti. En nú horfir svo við að afurðarstöðvar hafa lækkað verð umtalsvert, eða um það bil 35%, og hafa bændur miklar áhyggjur af lífsafkomu sinni. Þeir sem hafa lagt í fjárfestingar á tækjum og húsakosti sjá fram á að geta ekki greitt af lánum að öllu óbreyttu. Eins og staðan er í dag þá fá bændur varla upp í framleiðslukostnað án þess að taka tillit til launa. Það er því forgangsatriði að sauðfjárbændum verði séð, strax í haust, fyrir leiðréttingu þess gríðarlega vanda sem 35 % verðskerðing í haust til viðbótar 15 % verðskerðingar á s.l. hausti á framleiðslu þeirra  mun hafa í för með sér. Í framhaldi af því þarf að vinna að framtíðarlausn með bændum, lausn til bjargar bændum, lausn til bjargar byggð þar sem búfjárrækt er ein af stoðum samfélagsins, lausn sem viðheldur byggð á Íslandi öllu. Að þessu er Miðflokkurinn tilbúinn að vinna fái hann til þess styrk.

Verði ekkert að gert má reikna með gjaldþrotum bænda um allt land og eftir standi jarðir ónýttar og landsbyggðin gjörbreytt og veik. Líklegt má telja að ungt fólk sem nýlega hefur lagt í fjárfestingar til framtíðar, jörð, bústofn og vélar, gefist fyrst upp eða verði gjaldþrota, ásamt því að ungu fjölskyldufólki verður gert ókleift að hefja búskap við slíkar aðstæður. Þannig staða er óásættanleg  í hverri atvinnugrein og ógn við byggð og samfélag þar sem  hún er ein megin stoða búsetunnar.

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á matvælaöryggi og að það eigi að vernda matvælaframleiðslu á Íslandi.  Það þarf varla að fjölyrða um kosti íslenska sauðfjárins, en notkun sýklalyfja er með því minnsta í heimi og það að fé sé „frjálst á fjalli“ allt sumarið og fái að njóta þess sem náttúran hefur upp á bjóða hlýtur að setja það í sérflokk og ætti að vera hægt að markaðsetja sem slíkt. Einnig þurfa afurðarstöðvarnar að leggja metnað í sölu og  framsetningu vörunnar.

Miðflokkurinn telur afar mikilvægt að sauðfjárbúskapur dafni á Íslandi bæði fyrir bændur en líka fyrir Íslendinga  alla enda mikill metnaður flokksins að landið haldist allt í byggð.

Aðalbjörg Óskarsdóttir

  1. sæti Miðflokksins í Norðvesturkjöræmi.

Nýtt mælitæki á sviði jafnréttismála

Frá vinstri: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Þorsteinn Víglundson ráðherra, Rakel Sveinsdóttir formaður FKA og Guðrún Ragnarsdóttir verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.

Félags- og jafnréttismálaráðherra og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu undirrituðu í gær samstarfssamning um þróun Jafnvægisvogar til að hafa eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnvægis í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Félag kvenna í atvinnulífi mun leiða verkefnið og þróa vogina í samstarfi við stjórnvöld og hagsmunaaðila í íslensku atvinnulífi. Meginmarkmið verkefnisins er meðal annars að:

  • Samræma og safna saman tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja.
  • Standa fyrir viðburðum og fræðslu um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum.
  • Veita fyrirtækjum viðurkenningu árlega, sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

Samstarfssamningurinn er til eins árs og felur í sér fimm milljóna króna fjárstuðning til verkefnisins með möguleika á framlengingu. Undirbúningur að gerð samningsins hófst snemma síðastliðið sumar en til grundvallar liggur 5 ára aðgerðaáætlun stjórnar FKA, sem ætlunin er að móta enn betur með aðkomu fleiri aðila. Aðild að FKA eiga nú ríflega eitt þúsund leiðtogakonur í öllum geirum atvinnulífsins.

smari@bb.is

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tapa manni

Sjö þingsæti af átta í Norðvesturkjördæmi eru nokkurn veginn ráðin, ef marka má þingsætaspá Kjarnans sem var birt í dag.

Í stuttu máli er aðferðafræðin Kjarnans sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna að fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum.

Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.

Haraldur Benediktsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir náðu kjöri í öllum 100.000 sýndarkosningunum. Næst hæstu líkurnar á að ná kjöri fær Bergþór Ólason úr Miðflokki, eða 88 prósent líkur.

Guðjón S. Brjánsson náði kjöri í 87 prósent tilvika og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er með 84 prósent líkur. Líkurnar á að Bjarni Jónsson nái kjöri eru 83 prósent og 79 prósent líkur á kjöri Ásmundar Einars Daðasonar.

Samkvæmt spá Kjarnans verður Eva Pandora Baldursdóttir áttundi þingmaður Norðvesturkjördæmis og eru 50 prósent líkur á kjöri hennar.

Mynd: Kjarninn.

smari@bb.is

Um gagnsæi, spillingu, traust og samvinnu

Eva Pandóra Baldursdóttir

Þegar gagnsæi og traust almennings hefur verið aukið fylgir því óhjákvæmilega aukið traust og samvinna milli ólíkra stjórnmálaflokka inni á þingi. Allir stjórnmálaflokkar ættu nefnilega að vera að vinna að sama markmiðinu: að bæta hag almennings í landinu. Við höfum ef til vill ólíka sýn á hvernig er best að standa að því en það er einmitt ástæðan af hverju það er mikilvægt að hafa breiðan, ólíkan hóp fólks á Alþingi.

Aðeins er liðið rúmlega ár síðan ég steig mín fyrstu skref í stjórnmálum og varð oddviti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Á sama tíma er ég einnig að heyja mína aðra kosningabaráttu. Lífið getur verið svo furðulegt stundum en fyrir ári síðan hefði mér aldrei dottið í hug að við Íslendingar værum á leiðinni inn í stjórnarkreppu sem yrði til þess að kjörtímabilið yrði stutt, enn og aftur. Segja má að hér á landi hafi eiginlega verið viðvarandi stjórnarkreppa síðan í hruninu. Eftir hrunið breyttust nefnilega stjórnmálin. Traustið hvarf. Traust milli ólíkra stjórnmálaflokka sem og traust almennings til Alþingis. Ekki var lengur hægt að einfaldlega treysta og trúa því að ráðamenn þjóðarinnar væru að vinna að hag almennings og störf stjórnmálamanna voru, því miður ekki yfir allan vafa hafin.

Þetta er helsta ástæðan af hverju ég vil bjóða fram krafta mína á Alþingi og af hverju ég geri svo undir merkjum Pírata. Helstu áherslur Pírata eru að boða gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og stjórnsýslu, berjast gegn spillingu, auka beint lýðræði þegar það býst og vernda borgararéttindi og einstaklingsfrelsi. Ef stjórnmálin og stjórnsýslan væru gagnsæ og almenningur hefði aðgang að upplýsingum um hvaða ákvarðanir stjórnvöld taka og hvernig staðið er að þeim ákvörðunum myndi traust almennings til Alþingis aukast, því ákvarðanataka og aðgerðir stjórnvalda væru einfaldlega hafin yfir vafa um spillingu og frændhygli. Þetta ætti að vera fyrsta skref nýs þings: auka gagnsæi til að auka traust.

Fulltrúalýðræðið virkar mjög vel ef rétt að því er staðið. Þeir ólíku einstaklingar sem veljast inn á þing munu ef til vill aldrei allir vera sammála um einstaka málefni og því er mikilvægt að alþingismenn hafi þann kost að virða skoðanir annarra þótt þær samræmist ekki sínum eigin, taka upplýstar ákvarðanir byggðar á gögnum og vinna saman á lausnamiðaðan hátt. Skotgrafar- og rifrildispólitík er orðin löngu úrelt. Það er tími til kominn að Alþingi rísi upp úr gamla leikskóla leiknum þar sem heyrist „Ég er með bláan og þú ert með bláan og þá getum við leikið. Hann er með grænan og hún er með rauðan og þá mega þau ekki vera með.“ og segjum frekar „Ég er með gulan, þú ert með rauðan, hann er með grænan og hún er með bláan. Komum öll og búum til regnboga saman!“.

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður og oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi

Grúskað í rökkrinu

Bókamarkaðurinn Grúskarar í rökkrinu er orðinn að árlegum viðburði Bókasafnsins á Ísafirði í tengslum við bæjarhátíðina Veturnætur. Markaðurinn verður opnaður fimmtudaginn 26. október um leið og stendur til og með laugardagsins 4. nóvember. Verður bókamarkaðurinn opinn á opnunartímum hússins sem er virka daga kl. 13-18 og laugardaga kl. 13-16.

Að mestu leyti verður bókamarkaðurinn staðsettur í salnum á 2. hæð, en lítil „markaðshorn“ verður einnig að finna á öðrum stöðum í húsinu. Í boði verða blanda af grisjuðum bókum og glænýjum; skáldsögum, ævisögum, fræðibókum og fleira sem bókagrúskarar geta haft gaman af. Verð er hófstillt og hægt að gera mjög góð kaup.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir