Síða 2118

Vestfirðingum fjölgar

Í lok september var íbúafjöldi á Vestfjörðum 6.990 og hafði fjölgað um 80 manns frá sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Mesta fjölgunin var í Ísafjarðarbæ eða um 70 manns og í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 3.690 manns í sveitarfélaginu. Mest fækkaði í Strandabyggð þar sem íbúatalan fór úr 480 í 450 á einu ári.

Frá þriðja ársfjórðungi 2016 til loka sama ársfjórðungs 2017 fjölgaði íbúum í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og Reykhólahreppi en fækkaði í Strandabyggð og Árneshreppi. Íbúafjöldinn stóð í stað í Vesturbyggð, Kaldrananeshreppi og Tálknafjarðarhreppi.

Alls bjuggu 346.750 manns á Íslandi, 176.590 karl­ar og 170.160 kon­ur, í lok sept­em­ber Á höfuðborg­ar­svæðinu bjuggu 221.480 manns en 125.270 utan þess. Í lok þriðja árs­fjórðungs bjuggu 36.690 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar á Íslandi. Flest­ir þeirra eru Pól­verj­ar.

Misvísandi niðurstöður

Það er ekki hægt að segja að könnun bb.is á vilja kjósenda fyrir kosningar hafi að öllu leyti gengið upp, en hugsanlega gefið vísbendingar um hvar hugur kjósenda í Vestfjarðarhluta kjördæmisins lægi. Lesendur bb.is reiknuðu með meira tapi Sjálfstæðisflokksins en raun varð en fylgi Framsóknarflokks og Vinstri grænna var nákvæmlega niðurstaða kosninga, 18% til Framsóknarflokks og 18% til VG. Lesendur bb.is voru bjartsýnni fyrir hönd Bjartrar Framtíðar og Pírata en raun varð á en höfðu enga trú á að Miðflokkurinn væri málið í kjördæminu. Viðreisn og Samfylking voru nokkurn veginn á pari en Flokkur fólksins heldur stærri að lesendur gerðu ráð fyrir.

En, svona könnun er nú meira til gamans gerð og hefur engar fræðilegar undirstöður.

Aflaverðmætið lækkar um 11,7 prósent

Afla­verðmæti ís­lenskra skila í júlí var rúm­lega 8,3 millj­arðar króna sem er 11,7% minna en í júlí á síðasta ári sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Fiskafli var rúm 73 þúsund tonn sem er 3% meira en í júlí 2016.

Verðmæti botn­fiskafl­ans í júlí nam tæp­lega 5,1 millj­arði króna sem er 12% sam­drátt­ur sam­an­borið við júlí 2016. Verðmæti þorskafl­ans dróst sam­an um 5,5% og nam 3,1 millj­arði þrátt fyr­ir 22% aukn­ingu í afla­magni.

Afla­verðmæti upp­sjáv­ar­teg­unda nam rúm­lega 1,6 millj­arði sam­an­borið við 2,3 millj­arða í júlí í fyrra en verðmæti flat­fiska jókst um tæp 23% á milli ára og var tæp­lega 1,2 millj­arður króna í júlí. Verðmæti skel- og krabba­dýra jókst einnig og nam 405 millj­ón­um sam­an­borið við 358 millj­ón­ir í júlí í fyrra.

Á 12 mánaða tíma­bili, frá ág­úst 2016 til júlí 2017 nam afla­verðmæti ís­lenskra skipa 111,5 millj­örðum króna, sem er 18,8% sam­drátt­ur miðað við sama tíma­bil í fyrra.

30 daga skilorð fyrir innbrot

Tveir karlmenn og ein kona hafa verið dæmd í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi hvert fyrir sig fyrir þjófnað. Þau voru dæmd fyrir að hafa brotist inn á veitingastaðinn Simbahöllina á Þingeyri. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að þau stálu meðal annars 10-15 flöskum af léttu og sterku áfengi, 50 flöskum af bjór, 4 pökkum af te, Philips hljómflutningstækjum, tveimur farsímum ásamt skiptimynt allt að 40 þúsund krónum. Þau játuðu brot sitt skýlaust.

Nýtt viðvörunarkerfi

Veðurstofan tók í dag í notkun nýtt viðvörunarkerfi. Með nýju kerfi er leitast við að auka þjónustu við almenning og hagsmunaaðila. Helstu breytingar í útgáfu viðvarana verða þær að nýja kerfið tekur meira tillit til aðstæðna hverju sinni. Stakir veðurfarsþröskuldar verða úr sögunni, en það eru viðmið sem Veðurstofan hefur notað, svo sem 20 m/s fyrir vind og 100 mm úrkoma á 24 klst. Þau víkja nú fyrir viðmiðum sem taka tillit til árstíðar og aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig. Viðvörunarkerfið byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er stafrænt snið fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Útgefin skeyti eru á þekktu, stöðluðu formi sem gerir alla miðlun viðvarana samræmda yfir mismundandi samskiptaleiðir og miðla. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshluta sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið. Fyrsta útgáfa kerfisins nær eingöngu til viðvarana vegna veðurs, en áætlað er að innan örfárra ára muni kerfið ná til allrar náttúruvár sem Veðurstofan vaktar.

Viðvaranirnar verða í litum; gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika væntanlegs veðurs. Litirnir eru að erlendri fyrirmynd og hafa fjölmargar evrópskar veðurstofur r tekið þá í notkun. Rauðar viðvaranir eru hæsta stig og boða mikil samfélagsleg áhrif af veðri; gular viðvaranir eru lægsta stig þar sem annað hvort samfélagsleg áhrif eru takmörkuð þó miklar líkur séu á veðrinu, eða minni líkur á áhrifum mikils veðurs lengra fram í tíman.

Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða. Viðbragðsaðilar verða hafðir með í ráðum um útgáfu viðvarana á efri stigum og má þar nefna Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðina. Veðurfræðingar gefa frekari lýsingu á atburðinum í texta sem fylgir viðvöruninni. Áhrifatafla mun fylgja útgefinni viðvörun á vef Veðurstofunnar.

Viðvaranir Veðurstofunnar verða birtar á vefjum stofnunarinnar. Viðvaranaskeyti verður hægt að nálgast í gegnum vefþjónustu Veðurstofunnar fyrir birtingu á öðrum miðlum og fréttaveitum

Reksturinn tæplega sjálfbær

Rekstur Edinborgarhússins á Ísafirði er að óbreyttu tæplega sjálfbær. Þetta kemur fram í bréfi stjórnar Edinborgarhússins til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Stjórnin óskar eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um tryggja að markmiði hússins verði náð. Í því er vísað til samkomulags ríkis, Ísafjarðarbæjar og Edinborgarhússins frá síðasta áratug. Uppbyggingarsamningur bæjarins og Edinborgarhússins rann út á síðasta ári og markaði það tímamót í sögu hússins en þá var uppbyggingu formlega lokið.

Í bréfinu kemur fram að þau tímamót séu tilefni til að huga að framtíð hússins og hvernig tryggja megi að tilgangi uppbyggingarinnar sé náð með öflugri menningarstarfsemi.

Mótmælir niðurskurði til Náttúrustofunnar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir niðurskurði til Náttúrustofu Vestfjarða sem er boðaður í fjármálafrumvarpi sem var lagt fram í haust. Framlag ríkisins til stofunnar verður skorið niður um þriðjung, eða 10 milljónir króna. Í bókun bæjarráðs segir að ráðið skilji ekki eftir ekki eftir umræðu undanfarinna mánaða að nú eigi að veikja fræðastofnanir á Vestfjörðum þegar allt kapp hefur verið lagt á að styrkja þær. „Mikilvæg tækifæri gætu falist í því með því að efla t.d. fiskeldishlutverk Náttúrustofu. Því skorar bæjarráð Ísafjarðarbæjar á verðandi umhverfisráðherra og nýkjörið þing að beita sér fyrir vexti og viðgangi stofnunarinnar,“ segir í bókun bæjarráðs.

Nancy Bechtloff, forstöðumaður Náttúrustofunnar, sagði í samtali við bb.is í síðustu viku að verði niðurskurðurinn að veruleika sé eitt stöðugildi við stofuna í hætt.

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram áður en ríkisstjórnin féll og því er allt óvíst með þinglega meðferð frumvarpsins á meðan stjórnmálaflokkarnir reyna að greiða úr óljósri stöðu sem myndaðist þegar úrslit kosninganna lágu fyrir.

Margrét Björk nýr kennslustjóri Háskólasetursins

Sautján umsóknir bárust um starf kennslustjóra við Háskólasetur Vestfjarða og valnefnd hefur ákvaðið að ráða Margréti Björk Arnardóttur í starfið. Margrét Björk er náms- og starfsráðgjafi í Árskóla á Sauðárkróki en hefur auk þess starfað sem náms- og starfsráðgjafi við Háskólann á Hólum og Farskólann – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Hún hefur sinnt ýmsu fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi og er verkefnastjóri starfakynningar á Norðurlandi vestra. Við Árskóla heldur hún utan um Olweusaráætlun skólans og situr í áfallaráði og jafnréttisráði skólans. Hún hefur kennslureynslu og víðtæka reynslu af fjarnámi. Margrét Björk er með meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands auk félagsráðgjafamenntunar frá Danmörku. Hún hefur tengsl til Ísafjarðar og gekk m.a. annar í Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að Margrét Björk hefji störf eftir áramót.

Kristín Ósk Jónasdóttir sem gengt hefur starfi kennslustjóra undanfarin sex ár lætur af störfum um áramót. Kristín hefur verið ráðin sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem umsjónarmaður Hornstrandafriðlandsins.

Vestfirsk orka í víðum skilningi

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Orkubú Vestfjarða efnir nú til ljósmyndasamkeppni með glæsilegum vinningum. Þemað er „vestfirsk orka í víðum skilningi,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Orkubúsins og er skilafrestur til 14. nóvember. Allar myndir sem berast í keppnina verða birtar á Facebooksíðunni þann 16. Nóvember og sú sem fær flest læk hreppir vinning sem er veglegur, eða út að borða á Hótel Ísafirði fyrir tvo og tveir miðar á tónleikana Hátíðartóna með þeim Jógvan Hansen, Heru Björk og Halldóri Smárasyni. Myndasmiðirnir sem hreppa annað og þriðja sætið hreppa einnig tónleikamiða í vinning.

 

Enn fjölgar gistinóttum

Nærri 380 þúsund gistinætur voru skráðar á hótelum í síðasta mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er þriggja prósenta aukning frá því í september í fyrra. Flestar gistinætur voru á höfuðborgarsvæðinu, eða ríflega helmingur allra gistinátta. Á Vestfjörðum og Vesturlandi, en landshlutarnir eru taldir saman í gögnum Hagstofunnar, voru 21.724 gistinætur og fjölgaði um 7 prósent milli ára. Mest fjölgaði gistinóttum á Suðurnesjum eða um tíu af hundraði. Erlendir ferðamenn eru langstærstur hlutinn en níu af hverjum tíu gistinóttum eru skráðar á erlenda ferðamenn.

Gistinætur á hótelum frá október 2016 til loka síðasta mánaðar eru 18 prósent fleiri en sömu mánuði árið á undan.

Nýjustu fréttir