Síða 2118

Rautt, grænt eða blátt?

Tölvuteikning af raðhúsinu sem á að byggja á Bíldudal.

Eins og áður hefur verið greint frá ætlar Íslenska kalkþörungafélagið ehf. á Bíldudal að reisa raðhús með átta smáíbúðum í þorpinu. Fyrirtækið hefur fengið úthlutað lóð við leikskólans á Tjarnarbraut. Það er eistneska byggingafyrirtækið Akso-Haus sem framleiðir húsið og annast mun uppsetningu þess á staðnum. „Hafa Bílddælingar skoðun á því hvaða litur þeim finnist að færi best á húsinu þegar þar að kemur, rauður, grænn, blár …?“ segir á Facebooksíðu kalkþörungafélagsins.

smari@bb.is

Byggðamál

Byggðamál snúast fyrst og fremst um að byggja upp innviði í landsbyggðunum. Gott vegasamband tryggir  vöru og þjónustu að og frá landsbyggðunum og treystir atvinnuuppbyggingu. Samgöngur í lofti og á sjó tryggir enn betur öryggi íbúa landsbyggðanna. Öruggt raforkukerfi treystir viðgang atvinnulífsins. Gott fjarskiptakerfi stuðlar að jafnari stöðu allra íbúa til orðs og æðis. Traust heilbrigðis- og velferðarkerfi er öllum nauðsynlegt sem og aðgengi að góðu menntakerfi. Sauðfjár- og hrossabúskapur skapar festu í mörgum byggðum.

Það sem liggur fyrir ef við meinum eitthvað með að byggð verði sem víðast í landinu er að:

  • Treysta vegasamband umhverfis landið og milli byggða.
  • Koma á verðjöfnunarkerfi í flutningum
  • Efla flugsamgöngur með því að styrkja innanlandsflug til fleiri staða
  • Efla fjarskiptasjóð til að flýta fyrir öruggari tengingu í byggðunum
  • Stórefla heilsugæsluna þar sem rekstrarformið þarf ekki að vera bitbein
  • Viðurkenna að sauðfjárbúskapur er byggðamál og beina stuðningi við greinina í þá átt.
  • Veita meira fé til skógræktar, landgræðslu og landbóta

Við verðum að vera opin fyrir því að sumar nýframkvæmdir í vegagerð þarf að fjármagna með notendagjöldum. Við vitum að tekjur ríkissjóðs duga ekki til að fjármagna það allt saman. Fyrir utan það hvað það er mikilvægt að umferðaröryggis er gætt þá er tómt mál að tala um að viðhalda byggð sem víðast nema að vegasamband umhverfis landið og milli byggða er sem traustast.  Það hvað er t. d. dýrt að byggja í landsbyggðunum utan höfuðborgarsvæðisins kallar á verðjöfnun í flutningum. Það hefur sýnt sig nú þegar þýðing ljósleiðaratengingar víða um dreifbýlli hluta landsins og er alls ekki eins dýrt og ætla mátti. Það er því vel varið fjármagn sem í þetta hefur farið og mætti auka. Við verðum líka að hraða styrkingu dreifikerfis rafmagns með því að endurnýja það hraðar en t.d. Rarik stefnir að. Til þess þarf meira fjármagn en dreififyrirtækin geta sett í verkefnið. Ég hygg að allir skilji að við verðum að hafa eitt sjúkrahús sem þjónar öllu landinu við greiningu og meðhöndlun margra sjúkdóma. Það er því ekki bara nauðsynlegt að tryggja Landsspítalanum nægt rekstrafé heldur þarf að skoða allt heilbrigðiskerfið í heild sinni. Í því sambandi þarf að tryggja að allir íbúar geti notið kerfisins óháð búsetu. Þannig þarf að stórauka fjármagn til sjúkraflutninga og ferðastyrkja til íbúa sem þurfa að fara um langan veg til að sækja þjónustu. Stofnanir og fyrirtæki hins opinbera eiga að koma á móts við starfsfólk sitt sem þarf að sækja sér sérfræðiaðstoðar þannig að starfsfólkið verði ekki að taka þetta sem orlof. Gera verður samninga við fyrirtæki á almenna markaðinum sem tryggir að þeirra starfsfólk þurfi ekki að klípa af orlofi sínu vegna þessa. Heilsugæsluna þarf að stórefla um allt land líka á höfuðborgarsvæðinu og það er ekkert nauðsynlegt að hún sé öll rekin af ríkinu. Yfirleitt er landbúnaður tengdur við byggðamál, ekki síst sauðfjárræktin. Í núgildandi samningi er sett fjármagn til svæðisbundins stuðnings (8. gr.). Þá er samkvæmt samningnum heimilt að færa stuðningsgreiðslur milli liða. Ég sé ekki annað en að sauðfjárrækt og hrossarækt eru samofin við byggð í mörgum landsbyggðum en skipta minna máli í öðrum byggðum. Það er því óhjákvæmilegt að viðurkenna það að stuðningur við þessar búgreinar geta verið mismunandi eftir landsbyggðum. Skógrækt, landgræðsla og landbætur ýmiskonar eru líka byggðamál. Í ljósi þess að við erum aðilar að Parísarsamkomulaginu um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda tel ég að það er tiltölulega ódýr leið fyrir ríkið að stórauka fjármagn til þessara málaflokka.

Það er ljóst að það kostar að viðhalda byggð sem víðast, en eru kostirnir ekki mun meiri en gallarnir? Hvernig á að fjármagna allt þetta er efni í aðra grein og snýr að tekjum ríkissjóðs og hvernig þeirra er aflað.

Gunnar Rúnar Kristjánsson, bóndi

Skipar 5 sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi

Aukið eldi í Skutulsfirði háð umhverfismati

Frá kvíum Hábrúnar.

Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að fiskeldisfyrirtækið Hábrún ehf. á Ísafirði er háð umhverfismati vegna aukinnar framleiðslu fyrirtækisins á regnbogasilungi og þorski í Skutulsfirði. Hábrún ehf. áformar að auka framleiðslu sína í allt að 1.000 tonn, skipt á 900 tonn af regnbogasilungi og 100 tonn af þorski. Fyrirtækið og forveri þess hefur stundað eldi í firðinum síðan 2002.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguðframleiðsluaukning Hábrúnar ehf. í allt að 1.000 tonna eldi á þorski og regnbogasilungi í Skutulsfirði, geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því er framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

smari@bb.is

Hvað ætlar þú að kjósa

.

bb.is stendur nú fyrir könnun á síðunni og eru lesendur hvattir til að taka þátt í þessum vinsæla og skemmtilega samkvæmisleik. Könnunin verður opin til miðnættis á föstudag.

Áhrif ferðamennsku á umhverfi og samfélög

Dr. Brack Hale.

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á föstudaginn kemur mun Brack Hale, dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss, fjalla um rannsóknarverkefni sem hann vann við Háskólasetrið síðastliðið vor. Í verkefninu bar hann saman möguleg áhrif ferðamennsku og sérstaklega námsferða á umhverfi og samfélag á Vestfjörðum.

Í rannsókn sinni notaði Brack landmælingar til að kortleggja vinsælustu áfangastaði ferðamanna annarsvegar og áfangastaði námsferðalanga hinsvegar. Í námsferðum er gjarnan farið á viðkvæma og leynda staði sem ekki eru búnir undir fjöldaferðamennsku og því kunna áhrif slíkra ferða að vera talsverð. Niðurstöðurnar benda til þess að námsferðir geti haft meiri áhrif á samfélag og náttúru en almenn ferðamennska. Slík vitneskja getur nýst háskólum víða um heim við að undirbúa nemendur betur undir það að verða sjálfbærir ferðamenn.

Brack er dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss þar sem hann er einnig forstöðumaður Sjálfbærnimiðstöðvarinnar við skólann. Hann kemur reglulega með nemendahópa frá Franklin til Íslands og Vestfjarða og er einmitt staddur á Ísafirði með einum slíkum þessar vikurnar. Hann lauk M.E.M. frá Nicholas School of Environment við Duke University og er með doktorspróf frá Nelson Institute for Environmental Studies við University of Wisconsin-Madison.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og er að vanda öllum opið. Erindi vikunnar fer fram á ensku.

smari@bb.is

„Ekki nógu gott fyrir mitt fólk“

Guðmundur Kristján Jónsson

Sá er hér heldur á penna hefur notið þeirra forréttinda frá blautu barnsbeini að hafa aðgang að sumarhúsi og nokkuð fjölmennri fjölskyldu á Vestfjörðum. Slíkt er ómetanlegt fyrir borgarbörn sem að öðrum kosti eiga að hættu á að fá ansi fábreytta sýn á íslenskt samfélag. Það verður seint sagt að vetrardvalir í Hlíðunum í Reykjavík einkennist af harðri lífsbaráttu þó að auðvitað megi ekki vanmeta áhrifin sem það hefur á fólk þegar blaðið er ekki komið inn um lúguna fyrir kl. 06 á morgnana í svartasta skammdeginu.
Upp á síðkastið hefur hinsvegar einn maður öðru fremur staðið vaktina í að minna mig og samstarfskonu mína á hver veruleiki Vestfirðinga er og hvaða úrlausnarmál eru brýnust hverju sinni.

Eins og gefur að skilja þá eru æði mörg mál á borði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem snúa að Vestfjörðum í einni eða annarri mynd. Þegar undirritaður hóf störf sem aðstoðarmaður ráðherra stóð sjómannaverkfallið sem hæst, laxeldismálin fylgdu í kjölfarið og nú síðast hefur afkomubrestur sauðfjárbænda verið í hámæli. Svo eru það auðvitað öll hin málin sem rata óbeint á borð ráðherra og skipta líka gríðarlega miklu máli, byggðakvóti, Dýrarfjarðargöng og Dynjandisheiði, raforkuöryggi, hringavitleysan í kringum Teigskóg og óáreiðanlegt innanlandsflug svo fáein dæmi séu nefnd.

Allt eru þetta mál sem að Gylfi Ólafsson er óþreytandi (og allt að því óþolandi) að óska eftir fundum um og ræða við ráðherra. Satt best að segja hefur enginn óskað eftir fleiri fundum með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á núverandi kjörtímabili til að ræða málefni Vestfjarða en hinn óopinberi þingmaður fjórðungsins sem ætla mætti að hefði í nógu öðru að snúast sem einn ábyrgasti aðstoðarmaður fjármálaráðherra í manna minnum.

Það hafa verið sannkölluð forréttindi að kynnast Gylfa á síðustu mánuðum og einlægri ástríðu hans fyrir sínum heimahögum. Það skiptir nær engum toga hvaða málamiðlanir eru lagðar á borð fyrir Gylfa í erfiðum málum, svarið er ætíð: „Þetta er ekki nógu og gott fyrir mitt fólk“. Í kjölfarið fylgir síðan vandlega ígrunduð lausnatillaga.
Ég hvet ykkur, kæru Vestfirðingar, frændfólk og vinir að tryggja Gylfa Ólafssyni brautargengi í komandi kosningum því heilsteyptari, heiðarlegri og vinnusamari manneskja er vandfundin í ólgusjó stjórnmálanna. Vestfirðingar og þjóðin öll þarf þannig fólk á þing.

Guðmundur Kristján Jónsson

Höfundur er aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Kristín keppir í París

Kristín Þorsteinsdóttir.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir tekur þátt í Evrópumeistaramóti DSISO í París sem hefst á laugardaginn og stendur til 4. nóvember. Kristín keppir þar í sínum sterkustu greinum. Kristín er einstakur sundmaður á landsvísu og heimsvísu. Á Evrópumeistaramóti DSISO í sundi á Ítalíu í nóvember 2015 setti Kristín tvö heimsmet og tvö Evrópumet ásamt því að vera veitt viðurkenning fyrir bestu frammistöðu mótsins. Afrek sem gerir hana af einum allra fremsta sundmanni í sínum flokki. Á Malmö Open árið 2016 setti hún aftur heimsmet og Evrópumet.

Kristín er núverandi íþróttamaður Ísafjarðarbæjar og hefur hlotið nafnbótina fjögur undanfarin ár, en enginn íþróttamaður hefur hlotið titilinn eins oft. Auk þess að vera afreksíþróttamaður hefur Kristín verið mikil fyrirmynd fyrir aðra íþróttamenn og einstaklinga með Downs Syndrome. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar og hvatningu frá fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum fyrir störf sín.

Að taka þátt í mótum um Evrópu þvera og endilanga er fjárfrek útgerð og starfrækt er sérstakt stuðningsmannafélag sem er rekið undir hatti íþróttafélagsins Ívars. Stuðningsmannafélagið leitar nú til almennings, fólks og fyrirtækja, um að styðja við bakið á Kristínu í framtíðaráskorunum hennar. Upplýsingar um stuðningsmannafélagið veitir formaður félagsins, Jón Páll Hreinsson.

Hægt að er fylgjast með Kristínu á Facebooksíðunni Sundkonan Kristín.

smari@bb.is

Framtíðarmarkmiðið að auka vetrarframleiðsluna

Mjólkárvirkjun

Orkubú Vestfjarða stefnir á framkvæmdir á vatnasviði Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði. Fyrsti áfangi gæti hafist næsta sumar ef öll leyfi fást. Sölvi Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs Orkubúsins, gerir ráð fyrir leyfin fáist í vetur. Hann segir að framkvæmdirnar næsta sumar skili ekki mikilli framleiðsluaukningu. „Í fyrsta áfanga erum við að horfa á að auka framleiðslu í ágúst, september og október með veitu,“ segir Sölvi. Kostnaður við fyrsta áfanga gæti numið um 30 milljónum kr.

Í fyrra voru teknar í gagnið nýjar vélar í Mjólkárvirkjun og Orkubúið stefnir á að ná hámarksframleiðslu úr þeim í fyllingu tímans. „Framtíðarmarkmiðið er auka vetrarframleiðsluna með miðlun og geyma vatn til vetrarins. Hvort og hvenær það gerist ræðst af orkuverði. Vandamálið með þessar litlu virkjanir eru orkuverðin, við fáum ekki nóg inn á þær,“ segir Sölvi.

Skipulagsferlið hefur verið langt og strangt og Sölvi bendir á að það er komið á þriðja frá því að Orkubúið hóf skipulagsvinnuna fyrir þessa framkvæmd sem er þó hvorki stórtæk né umdeild.

smari@bb.is

Ofbeldi er samfélagsmein

Arna Lára Jónsdóttir

Ofbeldi er stórt samfélagsmein á Íslandi og stærra er marga grunar. Við verðum að horfast í augum við meinið og takast á við það.

  • 22% kvenna hafa upplifað kynferðis og/eða heimilisofbeldi í nánu sambandi. Ein af hverjum fjórum til fimm!
  • Flestar konur og margir karlar hafa upplifað kynferðislega áreitni.
  • Á fyrstu 6 mánuðum Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, komu tæplega 200 manns og leituðu ásjár.
  • 130 konur og 79 börn dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra, en ekkert slíkt athvarf er til fyrir karla og börn þeirra.
  • Árlega leita um 120 einstaklingar á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. Meirihluti þeirra eru ungir þolendur sem eru 25 ára og yngri. Konur eru um 97% brotaþola. Alvarleiki brota mikill en um 70% þeirra er nauðgun og ekki er nema helmingur brotanna kærður.

Afleiðingar ofbeldis geta verið víðtækar og langvarandi. Neikvæð sjálfsmynd, erfiðleikar í félagslegum samskiptum, skert starfsgeta og líkamleg vandamál. Víðtækur geðrænn vandi getur þróast í kjölfar ofbeldisins. Áfallastreituröskun er þar fremst í flokki. Þunglyndi, kvíði, áfengis- og vímuefnavandi eru einnig algengar afleiðingar ofbeldis.

Við verðum að grípa til aðgerða.

Samfylkingin ætlar að fara í stórsókn gegn hvers kyns ofbeldi, kynferðisofbeldi, netofbeldi sem og heimilisofbeldi. Samfylkingin ætlar að setja einn milljarð króna árlega í málaflokkinn næstu fjögur árin.

Tillögur okkar til aðgerða er að efla löggæsluna með markvissari málsmeðferð ofbeldisbrota. Fjölga lögregluþjónum en þeim hefur fækkað þrátt fyrir fjölgun íbúa og umtalsverða fjölgun ferðamanna. Árið 2007 voru þeir 712 en eru 660 í dag. Þá þarf að hækka hlutfall faglærða lögregluþjóna.  Það verður að hækka laun lögregluþjóna til að koma í veg fyrir frekari fækkun í stéttinni. Reynslumiklir lögregluþjónar fara til annarra starfa og allt of margir í langtímaveikindi vegna mikils álags.  Með þessu sendum við skýr skilaboð til samfélagsins um að við líðum ekki ofbeldi.

Það þarf að efla fræðslu og forvarnir. Við verðum að byrja strax í grunnskólunum en efla einnig fræðslu í mennta- og háskólum. Fræðslan verður að vera viðvarandi en ekki sem átak til skamms tíma. Markmiðið með því er að auka fræðsla til brotaþola og gerenda í nútíma og framtíð sem mun án efa hafa áhrif og fækka ofbeldisbrotum. Gerendur þurfa að skilja afleiðingar ofbeldis.

Heilbrigðiskerfið spilar stóran þátt í tillögum Samfylkingarinnar.  Samræma þarf móttöku þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala hefur bætt þjónustuna verulega og þarf að samræma þetta alls staðar um landið. Það þarf að tryggja brotaþolum gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

Ísland verður að stíga inn í tækniöldina í viðbrögðum sínum gegn netofbeldi. Auka þarf þekkingu svo hægt sé að bregðast hratt við netofbeldi. Við erum  langt á eftir öðrum þjóðum í viðbrögðum við slíku. Netglæpir drepa líka og við sem samfélag verðum að geta tekið á þessu sívaxandi vandamáli.

Þetta eru þau baráttumál sem Samfylkingin setur á dagskrá nú í kosningunum – þau eru skýr, við ætlum að gera þetta.

Látum hjartað ráða för!

Arna Lára Jónsdóttir skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi

Ökumenn taki tillit til lítilla vegfarenda

Austurvegi hefur verið lokað vegna viðgerðar á skólplögnum

Í ljósi þess að Austurvegur og Norðurvegur á Ísafirði verða lokaðir fyrir umferð ökutækja í einhverja daga, munu strætisvagnar sem aka börnum til og frá skóla stöðva á stoppistöðinni við Pollgötu. Lögreglan á Ísafirði beinir því til ökumanna sem leið eiga um nærliggjandi götur að taka fullt tillit til þeirra litlu gangandi vegfarenda sem þurfa að fara yfir Hafnarstræti á leiði sinni í skólann.

Lögreglan fer þess á leit við foreldra sem aka börnum sínum til og frá skóla að velja hentuga og örugga staði til að hleypa þeim inn og út, án þess að óþarfa tafir eða hætta hljótist af.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir