Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2118

Áhrif ferðamennsku á umhverfi og samfélög

Dr. Brack Hale.

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á föstudaginn kemur mun Brack Hale, dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss, fjalla um rannsóknarverkefni sem hann vann við Háskólasetrið síðastliðið vor. Í verkefninu bar hann saman möguleg áhrif ferðamennsku og sérstaklega námsferða á umhverfi og samfélag á Vestfjörðum.

Í rannsókn sinni notaði Brack landmælingar til að kortleggja vinsælustu áfangastaði ferðamanna annarsvegar og áfangastaði námsferðalanga hinsvegar. Í námsferðum er gjarnan farið á viðkvæma og leynda staði sem ekki eru búnir undir fjöldaferðamennsku og því kunna áhrif slíkra ferða að vera talsverð. Niðurstöðurnar benda til þess að námsferðir geti haft meiri áhrif á samfélag og náttúru en almenn ferðamennska. Slík vitneskja getur nýst háskólum víða um heim við að undirbúa nemendur betur undir það að verða sjálfbærir ferðamenn.

Brack er dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss þar sem hann er einnig forstöðumaður Sjálfbærnimiðstöðvarinnar við skólann. Hann kemur reglulega með nemendahópa frá Franklin til Íslands og Vestfjarða og er einmitt staddur á Ísafirði með einum slíkum þessar vikurnar. Hann lauk M.E.M. frá Nicholas School of Environment við Duke University og er með doktorspróf frá Nelson Institute for Environmental Studies við University of Wisconsin-Madison.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og er að vanda öllum opið. Erindi vikunnar fer fram á ensku.

smari@bb.is

„Ekki nógu gott fyrir mitt fólk“

Guðmundur Kristján Jónsson

Sá er hér heldur á penna hefur notið þeirra forréttinda frá blautu barnsbeini að hafa aðgang að sumarhúsi og nokkuð fjölmennri fjölskyldu á Vestfjörðum. Slíkt er ómetanlegt fyrir borgarbörn sem að öðrum kosti eiga að hættu á að fá ansi fábreytta sýn á íslenskt samfélag. Það verður seint sagt að vetrardvalir í Hlíðunum í Reykjavík einkennist af harðri lífsbaráttu þó að auðvitað megi ekki vanmeta áhrifin sem það hefur á fólk þegar blaðið er ekki komið inn um lúguna fyrir kl. 06 á morgnana í svartasta skammdeginu.
Upp á síðkastið hefur hinsvegar einn maður öðru fremur staðið vaktina í að minna mig og samstarfskonu mína á hver veruleiki Vestfirðinga er og hvaða úrlausnarmál eru brýnust hverju sinni.

Eins og gefur að skilja þá eru æði mörg mál á borði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem snúa að Vestfjörðum í einni eða annarri mynd. Þegar undirritaður hóf störf sem aðstoðarmaður ráðherra stóð sjómannaverkfallið sem hæst, laxeldismálin fylgdu í kjölfarið og nú síðast hefur afkomubrestur sauðfjárbænda verið í hámæli. Svo eru það auðvitað öll hin málin sem rata óbeint á borð ráðherra og skipta líka gríðarlega miklu máli, byggðakvóti, Dýrarfjarðargöng og Dynjandisheiði, raforkuöryggi, hringavitleysan í kringum Teigskóg og óáreiðanlegt innanlandsflug svo fáein dæmi séu nefnd.

Allt eru þetta mál sem að Gylfi Ólafsson er óþreytandi (og allt að því óþolandi) að óska eftir fundum um og ræða við ráðherra. Satt best að segja hefur enginn óskað eftir fleiri fundum með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á núverandi kjörtímabili til að ræða málefni Vestfjarða en hinn óopinberi þingmaður fjórðungsins sem ætla mætti að hefði í nógu öðru að snúast sem einn ábyrgasti aðstoðarmaður fjármálaráðherra í manna minnum.

Það hafa verið sannkölluð forréttindi að kynnast Gylfa á síðustu mánuðum og einlægri ástríðu hans fyrir sínum heimahögum. Það skiptir nær engum toga hvaða málamiðlanir eru lagðar á borð fyrir Gylfa í erfiðum málum, svarið er ætíð: „Þetta er ekki nógu og gott fyrir mitt fólk“. Í kjölfarið fylgir síðan vandlega ígrunduð lausnatillaga.
Ég hvet ykkur, kæru Vestfirðingar, frændfólk og vinir að tryggja Gylfa Ólafssyni brautargengi í komandi kosningum því heilsteyptari, heiðarlegri og vinnusamari manneskja er vandfundin í ólgusjó stjórnmálanna. Vestfirðingar og þjóðin öll þarf þannig fólk á þing.

Guðmundur Kristján Jónsson

Höfundur er aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Kristín keppir í París

Kristín Þorsteinsdóttir.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir tekur þátt í Evrópumeistaramóti DSISO í París sem hefst á laugardaginn og stendur til 4. nóvember. Kristín keppir þar í sínum sterkustu greinum. Kristín er einstakur sundmaður á landsvísu og heimsvísu. Á Evrópumeistaramóti DSISO í sundi á Ítalíu í nóvember 2015 setti Kristín tvö heimsmet og tvö Evrópumet ásamt því að vera veitt viðurkenning fyrir bestu frammistöðu mótsins. Afrek sem gerir hana af einum allra fremsta sundmanni í sínum flokki. Á Malmö Open árið 2016 setti hún aftur heimsmet og Evrópumet.

Kristín er núverandi íþróttamaður Ísafjarðarbæjar og hefur hlotið nafnbótina fjögur undanfarin ár, en enginn íþróttamaður hefur hlotið titilinn eins oft. Auk þess að vera afreksíþróttamaður hefur Kristín verið mikil fyrirmynd fyrir aðra íþróttamenn og einstaklinga með Downs Syndrome. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar og hvatningu frá fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum fyrir störf sín.

Að taka þátt í mótum um Evrópu þvera og endilanga er fjárfrek útgerð og starfrækt er sérstakt stuðningsmannafélag sem er rekið undir hatti íþróttafélagsins Ívars. Stuðningsmannafélagið leitar nú til almennings, fólks og fyrirtækja, um að styðja við bakið á Kristínu í framtíðaráskorunum hennar. Upplýsingar um stuðningsmannafélagið veitir formaður félagsins, Jón Páll Hreinsson.

Hægt að er fylgjast með Kristínu á Facebooksíðunni Sundkonan Kristín.

smari@bb.is

Framtíðarmarkmiðið að auka vetrarframleiðsluna

Mjólkárvirkjun

Orkubú Vestfjarða stefnir á framkvæmdir á vatnasviði Mjólkárvirkjunar í Arnarfirði. Fyrsti áfangi gæti hafist næsta sumar ef öll leyfi fást. Sölvi Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs Orkubúsins, gerir ráð fyrir leyfin fáist í vetur. Hann segir að framkvæmdirnar næsta sumar skili ekki mikilli framleiðsluaukningu. „Í fyrsta áfanga erum við að horfa á að auka framleiðslu í ágúst, september og október með veitu,“ segir Sölvi. Kostnaður við fyrsta áfanga gæti numið um 30 milljónum kr.

Í fyrra voru teknar í gagnið nýjar vélar í Mjólkárvirkjun og Orkubúið stefnir á að ná hámarksframleiðslu úr þeim í fyllingu tímans. „Framtíðarmarkmiðið er auka vetrarframleiðsluna með miðlun og geyma vatn til vetrarins. Hvort og hvenær það gerist ræðst af orkuverði. Vandamálið með þessar litlu virkjanir eru orkuverðin, við fáum ekki nóg inn á þær,“ segir Sölvi.

Skipulagsferlið hefur verið langt og strangt og Sölvi bendir á að það er komið á þriðja frá því að Orkubúið hóf skipulagsvinnuna fyrir þessa framkvæmd sem er þó hvorki stórtæk né umdeild.

smari@bb.is

Ofbeldi er samfélagsmein

Arna Lára Jónsdóttir

Ofbeldi er stórt samfélagsmein á Íslandi og stærra er marga grunar. Við verðum að horfast í augum við meinið og takast á við það.

  • 22% kvenna hafa upplifað kynferðis og/eða heimilisofbeldi í nánu sambandi. Ein af hverjum fjórum til fimm!
  • Flestar konur og margir karlar hafa upplifað kynferðislega áreitni.
  • Á fyrstu 6 mánuðum Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, komu tæplega 200 manns og leituðu ásjár.
  • 130 konur og 79 börn dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra, en ekkert slíkt athvarf er til fyrir karla og börn þeirra.
  • Árlega leita um 120 einstaklingar á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. Meirihluti þeirra eru ungir þolendur sem eru 25 ára og yngri. Konur eru um 97% brotaþola. Alvarleiki brota mikill en um 70% þeirra er nauðgun og ekki er nema helmingur brotanna kærður.

Afleiðingar ofbeldis geta verið víðtækar og langvarandi. Neikvæð sjálfsmynd, erfiðleikar í félagslegum samskiptum, skert starfsgeta og líkamleg vandamál. Víðtækur geðrænn vandi getur þróast í kjölfar ofbeldisins. Áfallastreituröskun er þar fremst í flokki. Þunglyndi, kvíði, áfengis- og vímuefnavandi eru einnig algengar afleiðingar ofbeldis.

Við verðum að grípa til aðgerða.

Samfylkingin ætlar að fara í stórsókn gegn hvers kyns ofbeldi, kynferðisofbeldi, netofbeldi sem og heimilisofbeldi. Samfylkingin ætlar að setja einn milljarð króna árlega í málaflokkinn næstu fjögur árin.

Tillögur okkar til aðgerða er að efla löggæsluna með markvissari málsmeðferð ofbeldisbrota. Fjölga lögregluþjónum en þeim hefur fækkað þrátt fyrir fjölgun íbúa og umtalsverða fjölgun ferðamanna. Árið 2007 voru þeir 712 en eru 660 í dag. Þá þarf að hækka hlutfall faglærða lögregluþjóna.  Það verður að hækka laun lögregluþjóna til að koma í veg fyrir frekari fækkun í stéttinni. Reynslumiklir lögregluþjónar fara til annarra starfa og allt of margir í langtímaveikindi vegna mikils álags.  Með þessu sendum við skýr skilaboð til samfélagsins um að við líðum ekki ofbeldi.

Það þarf að efla fræðslu og forvarnir. Við verðum að byrja strax í grunnskólunum en efla einnig fræðslu í mennta- og háskólum. Fræðslan verður að vera viðvarandi en ekki sem átak til skamms tíma. Markmiðið með því er að auka fræðsla til brotaþola og gerenda í nútíma og framtíð sem mun án efa hafa áhrif og fækka ofbeldisbrotum. Gerendur þurfa að skilja afleiðingar ofbeldis.

Heilbrigðiskerfið spilar stóran þátt í tillögum Samfylkingarinnar.  Samræma þarf móttöku þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala hefur bætt þjónustuna verulega og þarf að samræma þetta alls staðar um landið. Það þarf að tryggja brotaþolum gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

Ísland verður að stíga inn í tækniöldina í viðbrögðum sínum gegn netofbeldi. Auka þarf þekkingu svo hægt sé að bregðast hratt við netofbeldi. Við erum  langt á eftir öðrum þjóðum í viðbrögðum við slíku. Netglæpir drepa líka og við sem samfélag verðum að geta tekið á þessu sívaxandi vandamáli.

Þetta eru þau baráttumál sem Samfylkingin setur á dagskrá nú í kosningunum – þau eru skýr, við ætlum að gera þetta.

Látum hjartað ráða för!

Arna Lára Jónsdóttir skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi

Ökumenn taki tillit til lítilla vegfarenda

Austurvegi hefur verið lokað vegna viðgerðar á skólplögnum

Í ljósi þess að Austurvegur og Norðurvegur á Ísafirði verða lokaðir fyrir umferð ökutækja í einhverja daga, munu strætisvagnar sem aka börnum til og frá skóla stöðva á stoppistöðinni við Pollgötu. Lögreglan á Ísafirði beinir því til ökumanna sem leið eiga um nærliggjandi götur að taka fullt tillit til þeirra litlu gangandi vegfarenda sem þurfa að fara yfir Hafnarstræti á leiði sinni í skólann.

Lögreglan fer þess á leit við foreldra sem aka börnum sínum til og frá skóla að velja hentuga og örugga staði til að hleypa þeim inn og út, án þess að óþarfa tafir eða hætta hljótist af.

smari@bb.is

Mikilvægt að kjósa rétt!

.

Það er ekki sama hvernig er kosið og þá er ekki átt við hvaða lista kjósandi velur eftir að hafa kynnt sér stefnumál flokkanna ítarlega. Nei, það er hægt að gera atkvæði sitt ógilt með ýmsum hætti og að auki gilda ákveðnar reglur um hvað má og hvað ekki má gera á kjörstað. Til dæmis má ekki vera með kosningaáróður á kjörstað og bannað að taka myndir á kjörstað; sumsé: engar sjálfur í kjörklefanum.

Kjósendur þurfa að hafa í huga að kjósa rétt og gera atkvæði sitt ekki ógilt. Atkvæði er ógilt:

  • Ef það er ekki augljóst hvaða lista er merkt við
  • Ef kjörseðill er auður
  • Ef krossað er við fleiri en einn bókstaf
  • Ef kjósandi endurraðar á fleiri en einum lista eða endurraðar frambjóðendum á lista sem hann kýs ekki

Dómsmálaráðuneytið hefur gefið út myndband með leiðbeiningum um atkvæðagreiðslu á kjörstað og má horfa á það hér.

smari@bb.is

Sennilega yngsti leikmaður 1. deildar

Vestri barðist hetjulega við BF frá Siglufirði á sunnudaginn í Bolungarvík en varð að lúta í lægra hald, þar með hefur liðið sem sigraði deildina í fyrra tapað fyrsta leik tímabilsins. Illa fjarri var Jón Kristinn Helgason og sömuleiðis er spilandi þjálfari liðsins, Tihomir Paunovski meiddur og munaði um þá tvo á vellinum.  Kári Eydal sem fæddur er 2004 stóð sig frábærlega sem frelsingi og svo sannarlega verður að gaman að fylgjast með þessum snara og efnilega blakara í framtíðinni. Vestri liðinu hefur borist góður liðstyrkur í Mateuz Klóska og var hann betri en enginn í leiknum.

bryndis@bb.is

Mennt er máttur!

Dagrún Ósk Jónsdóttir rannsakaði mannát í íslenskum þjóðsögum.

Menntun á að vera öllum aðgengileg óháð aldri, búsetu og efnahag. Allir eiga að geta lært það sem þá langar til, þar sem þá langar til. Til að það sé hægt þarf að standa vörð um rekstur framhaldsskólanna um land allt og bjóða upp á fjölbreytt nám. Nám á framhaldsskólastigi þarf í auknum mæli að vera einstaklingsmiðað og hagnýtt, auk þess sem auka þarf námsframboð tengt iðn- og tæknimenntun og skapandi greinum. Með því búum við okkur undir samfélags- og tæknibreytingar framtíðarinnar. Talið er að meirihluti þeirra sem eru börn í dag muni í framtíðinni gegna störfum sem enn eru ekki til.

Grunnskólarnir eiga að vera gjaldfrjálsir með öllu, það er sterkasta jöfnunartækið okkar. Mikilvægt er að hæfileikar barna fái að njóta sín og þau fái svigrúm og tækifæri til að rækta þá. Um leið þarf að gæta þess að álag í grunn- og framhaldsskóla sé ekki of mikið. Þessi ár er mikilvægt að ungt fólk taki út félagslegan þroska, stundi íþróttir, kynnist hvert öðru, skemmti sér og hafi gaman. Það hefur sýnt sig að ungt fólk er undir mikilli pressu og sálfræðiþjónusta þarf að vera aðgengileg og endurgjaldslaust í öllum framhaldsskólum.

Menntamálin eru ekki síður byggðamál. Mikilvægt er að efla fjarnám þannig að fólk geti stundað nám hvar sem það býr, bæði á framhaldsskólastigi og í háskólum. Erfitt getur verið að flytjast á milli landshluta til að fara í skóla, en þar spilar t.d. inn í erfiður leigumarkaður á höfuðborgarsvæðinu. Auka þarf stuðning við þá framhaldsnema sem stunda nám fjarri heimabyggð og nýta dreifbýlis- og jöfnunarstyrki.

Að sama skapi er mikilvægt að auka fjármagn til háskólanna. Lánasjóð íslenskra námsmanna þarf að taka rækilega í gegn og gera mannúðlegri, alltof margar sögur eru sagðar um erfið samskipti við LÍN. Kröfur um námsframvindu þurfa að vera sveigjanlegar og koma til móts við margvíslega erfiðleika og aðstæður sem fólk þarf að glíma við í lífinu. Það er ekki gott að námslánakerfið sé endalaus streituvaldur á meðan á námi stendur. Hluti námslána ætti að vera styrkur og það kerfi mætti að hluta nýta til að jafna stöðu fólks eftir því hvort það býr í foreldrahúsum eða er á leigumarkaði. Vextir á námslánum mega ekki hækka, enda burðast flest langskólagengið fólk með þau á bakinu stóran hluta ævi sinnar.

Það er mikil vinna fyrir höndum eftir kosningar við að styrkja grunnstoðir menntakerfisins. Enn er ónefnt lykilatriði í því ferli, hugarfarsbreytingu og þjóðarsátt um að bæta kjör kennara og annarra starfsmanna skólanna, allt frá leikskóla og upp úr. Þessi mikilvægu störf verður að meta að verðleikum.

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur,
í 4. sæti framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi

Mikið fjör á Boccia móti

Íþróttafélagið Ívar hélt 14. fyrirtækjamót sitt í boccia sl. sunnudag og í ár  voru 36 lið skráð til leiks en 25 lið tóku þátt í keppninni sjálfri. Að sögn mótshaldara var stemningin var góð og höfðu allir mjög gaman af. Heyrðist að sumir ætluðu að koma aftur á næsta ári, en það hefur alltaf verið góður andi og gaman á þessum fyrirtækjamótum.

Til úrslita kepptu eitt af liðum  Hraðfrystihússins Gunnvarar ehf. og Kampa ehf. og hafði lið Hraðfrystihússins betur og sigraði keppnina í ár. Ívar hefur boðist til að manna lið fyrir fyrirtæki ef þau vilja og í ár var sigurliðið mannað liðsmönnum Ívars þeim Emilíu Arnþórsdóttur og Magnúsi Guðmundssyni.

Veitt voru ýmis aukaverðlaun en Ívar hefur m.a. hvatt vinnustaði til að mæta í vinnufatnaði / einkennisfatnaði eða öðrum búningum til að lífga upp á mótið.

Verðlaun fyrir bestu búninga hlutu Hafnir Ísafjarðarbæjar.

Verðlaun fyrir bestu liðsheild hlaut Hamraborg.

Verðlaun fyrir mestu tilþrif hlaut TM.

Og verðlaun fyrir hæsta skor í leik hlaut Ísafjarðarbær 1 sem sigraði 11-0 í einum leikja sinna.

Fyrirtækjamótið er helsta fjáröflun Ívars og er því mjög mikilvægt fyrir félagið, mótið er líka öðruvísi að því leyti að fyrirtækjum gefst kostur á að vera með hópefli og taka þátt í leiknum.

Á næsta ári verður Íþróttafélagið Ívar 30 ára og þá verður fimmtánda fyrirtækjamót Ívars í Boccia haldið og til stendur að gera það með glæsibrag.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir