Síða 2118

Félagslegt jafnrétti í þjóðfélaginu okkar

Isabel Alejandra Díaz

Í æsku þráði ég ekkert heitar en að verða lögfræðingur þegar ég yxi úr grasi. Mig dreymdi um að geta hjálpað fjölskyldum og börnum í sömu eða sambærilegum aðstæðum og ég ólst upp við, það er að segja óttann við að verða vísað úr landi. Mínir kæru Ísfirðingar vita flest allir hvers vegna ég lifði í þessum ótta. Þetta virkaði eins og einhver formgalli, mér var ekki leyfilegt að vera hérna vegna þess að ég bjó hjá afa og ömmu en ekki blóðforeldrum mínum.

Í sumar fylgdist ég með málum innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda úr fjarlægð. Þau mál hafa verið mikið í kastljósinu og fór ég að fylgjast betur með þeim þegar mér var bent á mál tveggja stúlkna sem vísa átti úr landi ásamt fjölskyldum sínum. Þó að aðstæður mínar og stúlknanna voru ekki þær sömu gat ég undir eins fundið til með þeim þar sem ég hafði sjálf búið við óvissu. Ég átti ekki eitt aukatekið orð yfir þeirri staðreynd að þetta væri að enn að henda börn, 17 árum eftir að ég upplifði þessa ósanngirni.

Mér ofbauð er ég heyrði að það kæmi ekki til greina að endurskoða mál sem „tilviljanakennt“ skutust upp í umræðunni. Afstaða  stjórnvalda var skýr eins og svo oft áður og það hræddi úr mér líftóruna. Ef það var ekki hægt að taka á þessu á „réttum forsendum“, var þá í það minnsta ekki hægt að gera það af mannúð, samúð, góðvild og umhyggju? Það var löngu vitað að búið var að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að Dyflinnarreglugerðin heimilaði en neyddi ekki stjórnvöld til þess að vísa fólki burt. Ástandið var komið fyrir neðan allar hellur og eitthvað þurfti að gerast til þess að breyta því.

Þá rakst ég á Unga jafnaðarmenn, ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, sem mótmæltu á friðsælan hátt á þingpöllum Alþingis, með borða er á stóð „Virðið barnasáttmálann“. Þetta var nákvæmlega það sem þurfti að gerast. Þetta er það sem þarf að gerast í hvert skipti sem börn eru svipt framtíð sinni og fullorðnir lífi sínu. Okkur ber að taka þátt í samfélaginu sem við búum í og stuðla að samheldni og berjast gegn öllu mótlæti.

Kemur þá að því að Samfylkingin leggur fram frumvarp um að veita stúlkunum og fjölskyldum þeirra ríkisborgararétt og í kjölfarið eru 23 þingmenn Alþingis flutningsmenn frumvarpsins. Svo fer allt eins og oft áður þegar kemur að stjórnmálum hér á landi og við sitjum eftir í óvissu, eina ferðina enn. Þó var dauf vonarglæta í öllu sem gekk á því þessi mál voru ekki gleymd. Samfylkingin ætlaði að leggja kapp á að frumvarpið yrði samþykkt fyrir kosningar. Þarna sá ég að þetta var eini flokkurinn sem hafði frumkvæði og áræði til þess að leggja áherslu á þessi mál af alvöru og vildi tryggja börnum á flótta almennilega og sanngjarna meðferð.

Nú horfir svo við að það eru yfir 40 mál í Dyflinnarmeðferð og efnislegri meðferð. 27. september síðastliðinn voru breytingar á útlendingalögum samþykktar en ekki er vitað yfir hve mörg börn þau lög munu ná. Svo við þurfum að gera betur, þessari baráttu er hvergi nærri lokið.

Þegar ég flutti suður ákvað ég að kynna mér starf Ungra jafnaðarmanna og stefnumál Samfylkingarinnar. Æskudraumarnir mínir höfðu tekið á sig nýja mynd, ég stefndi annað en í lögfræðina en vissi að ég gæti samt lagt mitt af mörkum. Það starf sem fer fram hjá Ungum jafnaðarmönnum talaði til mín og varð ég sannfærð um að ég vildi vera hluti af þessari hreyfingu. Mín persónulega reynsla og upplifun sem einstaklingur af erlendu bergi brotinn hefur leitt mig til opinberrar umræðu um almenn mannréttindi og þau brot sem eiga sér stað, þá sérstaklega í garð barna sem eru ekki að leita að neinu öðru en öryggi. Ég komst að því að þetta væri rétti vettvangurinn fyrir mig og í raun allra sem eru hlynntir félagslegu jafnrétti í þjóðfélaginu og almennum mannréttindum.

Þetta var mín nálgun að flokk jafnaðarmanna; þeirra sem vilja jafnrétti fyrir alla óháð kyni, aldri, uppruna og efnahag. Flokkur sem ætlar í sókn af fullum krafti og einlægni, sem hefur nú þegar sýnt sig og sannast.

Isabel Alejandra Diaz

Háskólanemi, verkefnisstjóri Tungumálatöfra og ungur jafnaðarmaður.

 Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Hver verður áttundi þingmaður kjördæmisins?

Það stefnir í æsispennandi kosninganótt í Norðvesturkjördæmi samkvæmt nýrri þingsætaspá Kjarnans. Línurnar eru óskýrari en þær voru í þingsætaspánni fyrir tveimur dögum. Í spánni eru gefnar upp líkur á kjöri hvers þingmanns. Mestu líkurnar fá Haraldur Benediktsson (100%), Lilja Rafney Magnúsdóttir (100%), Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (98%), Bergþór Ólason (88%), Guðjón S. Brjánsson (74%), Bjarni Jónsson (74%) og Ásmundur Einar Daðason (61%). Þá eru upptaldir sjö af átta þingmönnum og ljóst að hörkubaráttu verður um síðasta þingsæti kjördæmisins enda eru þrír frambjóðendur metnir með svipaðar líkur, þau Eva Pandóra Baldursdóttir (54%), Teitur Björn Einarsson (48%) og Magnús Þór Hafsteinsson (44%).

Þingsætaspáin byggir á 100 þúsund „sýndarkosningum“ og er aðferðafræðin sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna að fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum.

Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.

Mynd: Kjarninn

smari@bb.is

Viðreisn styður skosku leiðina í innanlandsflugi

Gylfi Ólafsson

Þegar rætt er um opinberan stuðning við samgöngur, er jafnan mest talað um vegsamgöngur. Vestfirðingar vita hinsvegar að flug er ekki síður mikilvægt, en þar hamlar hár kostnaður oft för.

Skoska leiðin felst í því að flug íbúa sem búsettir eru á svæðinu fá flugfargjöld niðurgreidd til helminga. Áfram munu ferðir á vegum fyrirtækja og ferðir ferðamanna vera á fullu verði. Markmiðið er að sú þjónusta sem ríkið niðurgreiðir á höfuðborgarsvæðinu, eins og leikhús og heilbrigðisþjónusta, sé ekki jafn óaðgengileg landsbyggðarfólki og hún er í dag. Einnig verði ódýrara að rækta vina- og fjölskyldutengsl.

Vinir og fjölskylda geta ráðið byggð

Slík niðurgreiðsla myndi henta íbúum á nær öllum Vestfjörðum, með ódýrara aðgengi að höfuðborgarsvæðinu í gegnum flugvellina á Ísafirði, Bíldudal og Gjögri.

 Ef litið er tíu ár aftur í tímann sést að farþegum til Ísafjarðar hefur fækkað mikið. Væntanlega má tengja þetta að hluta bættum samgöngum á landi og fækkun íbúa. Hitt er þó ljóst að það er mikilvægt að farþegafjöldi haldist hár svo tíðni flugferða geti verið að minnsta kosti sú sem hún er í dag.

Búseta í fámennum bæjum getur haft í för með sér fjarvistir frá vinum og skyldfólki. Reynslan frá Skotlandi bendir til þess að skoska leiðin auki samverustundir með vinum og fjölskyldu. Búsetuskilyrðin batna. Staðsetning og tengsl við vini og fjölskyldu eru nefnilega mikilvægir þættir í ákvörðun um búsetu.

 Viðreisn styður skosku leiðina

Á blaðamannafundi á sunnudaginn var kynnti Viðreisn áherslur sínar fyrir kosningarnar. Við höfum staðið við gefin loforð síðan í fyrra og teljum að enn þurfi að bæta í. Skoska leiðin er meðal áhersluatriða okkar. Skotið hefur verið á að kostnaðurinn sé á bilinu 6-800 milljónir, en nánari undirbúningur bíður nýrrar stjórnar. Við höfum kynnt hvernig við viljum fjármagna útgjöldin án skattahækkana eða á kostnað ábyrgrar hagstjórnar.

Gylfi Ólafsson oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Enn og aftur kosningar ofan í Sviðaveisluna

Kiwanisklúbburinn Básar er heldur óhress með íslensk stjórnvöld sem endurtekið spilla þeirra árlegu sviðaveislu með kosningum og hvetur klúbburinn fólk til að velja rétt. Í tilkynningu frá klúbbnum segir:

„Annað árið í röð hafa íslensk stjórnvöld ruðst með miklu yfirgangi inn á okkar yndislega sviðaveisludag. Kiwanisklúbburinn Básar væntir þess að í framtíðinni muni stjórnvöld gæta sín betur og velja aðra dagasetningu fyrir sínar uppákomur en þennan allraheilaga dag. Við Básfélagar munum samt ekki láta svona yfirgang slá okkur út af laginu og höldum ótrauðir áfram. Veljum rétt! Veljum svið! Lifið heil.“

Klúbburinn mun því ekki bakka með sinn sviðaveisludag og kl. 19:00 á kjördag, 28. október, hefst veislan, refjalaust.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sviðaveislu kjördagsins 2016

bryndis@bb.is

Eitt samfélag fyrir alla

Arna Lára Jónsdóttir

Við stöndum frammi fyrir ýmsum brýnum verkefnum sem nauðsynlegt er að ráðast í svo við getum tekist á við framtíðina með öllum sínum tækifærum.

Við frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi höfum lagt áherslu á nokkur mál sem við teljum afar brýnt að komist í framkvæmda til að bæta lífsskilyrði fólks.

Jafnrétti til náms í öflugu menntakerfi. Efnahagur má aldrei ráða möguleikum til menntunar. Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar. Liður í árangursríku skólastarfi er að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Nú geta nemendur sem eru 25 ára eða eldri ekki verið öruggir um að fá inngöngu í framhaldsskóla og þeim vísað í dýrt einkarekið nám, ætli þeir að sækja sér aukna menntun og styrkja stöðu sína. Þessu ætlum við að breyta.

Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og bætum heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu. Eitt af grunnstefum jafnaðarmanna er að heilbrigðisþjónusta sé rekin af hálfu hins opinbera til að tryggja að allir, óháð efnahag, eigi völ á bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Samfylkingin ætlar að lækka kostnaðarþáttöku sjúklinga með það lokamarkmið að heilbrigðisþjónustan verði gjaldlaus. Að lenda í veikindum á ekki að setja fjárhag fjölskyldna og einstaklinga í uppnám.  Með aukinni sérhæfingu læknisþjónustu sem fer fram á Landsspítalanum er nauðsynlegt að standa vörð grunnheilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og efla heilsugæsluna.

Aukinn stuðningur við ungar fjölskyldur. Við verðum að fjárfesta í fólki. Yfir 6000 börn líða skort í samfélaginu. Það er ekki boðlegt í einu ríkasta landi heims. Helmingur einstaklinga er dottinn úr vaxtabótakerfinu og fjórða hver fjölskylda er dottinn úr barnabótakerfinu. Við breytum þessu með því að tvöfalda barnabætur og vaxtabætur.

Stórsókn gegn ofbeldi. Samfylkingin ætlar að fara í stórsókn gegn hvers kyns ofbeldi, kynferðisofbeldi, netofbeldi sem og heimilisofbeldi. Í þennan málaflokk ætlum við að setja einn milljarð króna árlega í næstu fjögur árin  Það þarf að efla löggæsluna og gera málsmeðferð ofbeldisbrota markvissari. Það gerum við með því að fjölga lögregluþjónum og hækka launin. Fræðsla og forvarnir gegna lykilhlutverki í baráttunni gegn ofbeldi.  Við þurfum að auka fræðslu til brotaþola og gerenda í nútíma og framtíð sem mun án efa hafa áhrif og fækka ofbeldisbrotum.  Samræma þarf móttöku þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis um allt land og efla faglega aðstoð. Þá þarf að tryggja brotaþolum gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

Stór verkefni framundan. Á Vestfjörðum og í kjördæminu öllu er gríðarleg stór innviðaverkefni framundan. Uppbygging Dynjandisheiði og frekari vegbætur í Arnarfirði, Vestfjarðarvegur 60, veglagning um Veiðileysuháls, Álftafjarðargöng, vegur um Vatnsnes, nýtt flugvallarstæði fyrir norðanverða Vestfirði, hafnarframkvæmdir, fjarskipta og ljósleiðaravæðing.  Þau framlög sem sitjandi ríkisstjórn gerir ráð fyrir til samganga og fjarskipta eru of lítil. Það hamlar eðlilegri þróun atvinnulífsins og rýrir búsetuskilyrði víðs vegar um landið. Ástand vegakerfisins er orðið bágborið, auka þarf nýframkvæmdir og viðhald ekki síst m.t.t. fjölgunar ferðamanna á vegum landsins. Til auka samkeppnishæfni fyrirtækja og svæða þurfa innviðirnir að vera í lagi. Það skiljum við jafnaðarmenn.

Tryggjum jafnaðarmönnum góða kosningu um allt land og látum hjartað ráða för

Arna Lára Jónsdóttir, skipar 2. Sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Íþróttahátíð í Bolungarvík

Nemendur og kennarar hita upp fyrir morgundaginn

Íþróttahátíð Grunnskóla Bolungarvíkur er árlegur viðburður þar sem öllum grunnskólum á Vestfjörðum er boðið að taka þátt.  Hátíðin í ár byrjar kl. 10:00 föstudaginn 27. október í íþróttamiðstöðinni  Árbæ. Keppt er fjölmörgum greinum og stendur keppnin fram undir kvöld. Nemendur þeirra skóla sem taka þátt mynda fjögur lið, þvert á skólana.

Lokapunktur hátíðarinnar er ballið þar sem  sigurvegarar hátíðarinnar verða  krýndir og snappararnir Miðjan munu halda upp stuðinu. Fjölmörg fyrirtæki á svæðinu styrkja íþróttahátíðina. Íþróttahátíðin er hluti af fjáröflun þeirra bekkja sem fara í skólaferðalag í vor og því eru það 9. og 10. bekkur  sem hefur undirbúið hátíðina í ár.

bryndis@bb.is

Nú gerum við betur

Kæri kjósandi

Nú er komið að því að byggja upp og styðja við. Um land allt sjáum við tækifærin til að gera betur, en um leið þurfum við stefnubreytingu og breytta forgangsröðun í þágu byggðanna. Innviðir og hryggjarstykki samfélaganna eru vanrækt – vegirnir, hafnirnar, skólarnir, sjúkrahúsin og heilsugæslurnar. Misskiptingunni verður að ljúka og tækifærið til þess er núna. Með því að færa fólki um allt land tækifæri til menntunar og atvinnuuppbyggingar jöfnum við stöðu fólks. Það er hægt að jafna lífskjörin í landinu með ábyrgum og skynsömun hætti án þess að skattleggja almennt launafólk.

Vid erum rík af auðlindum lands og sjávar. Fjölbreytt náttúra, saga og menning eru hin sterku einkenni landshlutans. Tækifærin okkar í Norðvesturkjördæmi blasa hvarvetna við og felast ekki síst í unga fólkinu sem þyrstir í menntun og störf í heimabyggð, því hér líður þeim vel. Hér viljum við gefa þeim tækifæri til að hlúa að foreldrum sínum og ala upp börnin sín á grundvelli jafnra tækifæra, með lengra fæðingarorlofi og húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Hlúum að nýliðum í landbúnaði og sjávarútvegi og gerum breytingar á sjávarútvegskerfinu sem byggðarlög á landsbyggðinni munar um. Styðjum við göfugt starf bænda, sem eru gæslumenn landsins, byggðarinnar og náttúrunnar og holla matvælaframleiðslu til sjávar og sveita. Umhverfismál eru efnahags- og atvinnumál. Náttúran er gjöful í kjördæminu okkar, en gleymum því ekki að við höfum hana aðeins að láni frá næstu kynslóð og því ber okkur að stíga varlega til jarðar.

Í kosningum nú sem endranær er valdið sett í hendur kjósenda. Það er einlæg von okkar sem sækjumst eftir þínu umboði að þú takir því valdi fagnandi, mætir á kjörstað og setjir X við þann kost sem þú telur bestan fyrir samfélagið okkar, náttúruna og framtíðina.

Lilja Rafney Magnúsdóttir
Bjarni Jónsson
Rúnar Gíslason
Dagrún Jónsdóttir

Höfundar skipa fjögur efstu sæti lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Voff á pöbbnum

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð um hollustuhætti um heimild til að koma með hunda og ketti á veitingastaði. Reglugerðin tekur gildi á laugardaginn. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða sé heimilt að leyfa gestum að koma með hunda og ketti inn á veitingastaði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Heimildin gildir hvorki um veitingastaði né mötuneyti þar sem mæting er ekki valfrjáls og á stöðum þar sem fólki er gert að sækja þjónustu. Þá gildir heimildin ekki sé aðstaða veitingastaðar að einhverju leyti sameiginleg með annarri starfsemi eða á stað þar sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á.

Gert er ráð fyrir að þeir rekstraraðilar veitingastaða sem nýti sér þessa heimild tilkynni það til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og auglýsi það jafnframt á áberandi hátt á húsnæðinu sjálfu utan dyra sem innan og á vef hlutaðeigandi fyrirtækis. Sú skylda mun einnig hvíla á rekstraraðilum að tryggja að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaða og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd.

smari@bb.is

Miðflokkurinn – við ætlum!

Bergþór Ólason

Miðflokkurinn býður nú fram í fyrsta sinn, undir tryggri forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem er sá stjórnmálaforingi nú um stundir sem hefur sýnt það best að hafa hæfileika og festu til að takast á við stór og flókin úrlausnarefni og ná árangri.

Vextirnir

Megináhersla Miðflokksins fyrir komandi kosningar er endurskipulagning fjármálakerfisins, markmiðið er að skipuleggja fjármálakerfi landsins þannig að það þjóni almenningi og fyrirtækjum sem best.  Megináherslan með þeirri heildstæðu áætlun sem flokkurinn hefur kynnt er að ná niður vaxtastigi í landinu.  Hagsmunirnir eru gríðarlegir.  Fyrir fjölskyldu sem skuldar 25 milljónir, samsvarar 2% vaxtalækkun því að vaxtakostnaður heimilisins lækki um 500 þúsund á ári – hálfa milljón! – og það er ráðstöfunarfé eftir skatt.

Ísland allt – byggðamálin

Ísland allt – byggðastefna Miðflokksins hefur það að markmiði að láta landið allt vinna sem eina heild.  Eins og íbúar landsbyggðarinnar þekkja þá hefur þjónusta sogast til höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum og kjörtímabilum.  Það þarf að tryggja sem jafnast aðgengi íbúa landsins að þeirri þjónustu sem hið opinbera bíður upp á.  Hluti af „Ísland allt“ áætluninni er uppbygging sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni og styrking heilsugæslunnar.  Lykilatriði í jöfnu aðgengi landsmanna að þjónustu er staðsetning innanlandsflugsins í Vatnsmýri.

Vegirnir

Kostnaður við að nota vegakerfið er of hár.  Í dag er skattlagning á umferð og ökutæki umtalsvert meiri en þeir fjármunir sem varið er til vegagerðar og viðhalds vegakerfisins.  Áður en vegtollar koma til skoðunar þarf að tryggja að þeir fjármunir sem þegar eru teknir af vegfarendum skili sér til uppbyggingar vegakerfisins.  Þar er af nógu að taka.  Þó að stórframkvæmdirnar séu mest áberandi, þá er nauðsynlegt að ráðast í átak á safn- og tengivegum til sveita.  Ein hugmynd, sem Miðflokkurinn vill láta skoða alvarlega er að leggja bundið slitlag á fáfarna vegi, í núverandi veglínu, með lækkuðum hámarkshraða.

Nám framtíðarinnar

Miðflokkurinn leggur áherslu á að stuðningur við iðn- og verknám á framhaldsskólastigi verði aukinn og að á háskólastiginu verði áherslan á tækni- og raungreinar aukin verulega.  Við verðum að aðlaga öll skólastigin að þeirri framtíð sem við okkur blasir.

Að endingu; Teigskógur, fiskeldi og Hvalárvirkjun: Já, já og já.

Miðflokkurinn ætlar að koma veglagningu um Teigskóg af stað án tafa, með lagasetningu ef þörf er á.  Miðflokkurinn er fylgjandi því að fiskeldi fái að byggjast upp við Ísafjarðardjúp, í sátt við náttúruna með þeim mótvægisaðgerðum sem færar eru í nútíma fiskeldi.   Miðflokkurinn er fylgjandi því að áform um Hvalárvirkjun nái fram að ganga, enda hefur virkjunarkosturinn verið í nýtingaráætlun. Til viðbótar virkjunaráformunum þarf að ganga til þess verks að tryggja raforkuöryggi á norðanverðum Vestfjörðum.

Bergþór Ólason

Oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Kjósum fjölbreytileika og Bjarta framtíð

Ég sóttist eftir að leiða lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi með það fyrir augum að tala máli ungs fólks, og þá sérstaklega ungra kvenna. Vegna þess að ungar konur ráða byggð, þar sem þær velja sér að búa lifnar yfir mannlífinu.

Þátttaka mín í kosningabaráttunni í fjórðungnum hingað til hefur bara styrkt mig í þeirri trú að rödd kvenna þurfi að heyrast betur í stefnumótun og umræðu. Til dæmis var ekki ein einasta spurning um skólamál, heilbrigðismál eða menningu í oddvitaumræðum á RÚV í liðinni viku, þar sem saman voru komnir 7 karlmenn og 2 konur sem fulltrúar framboðanna. Rætt var um vegi, virkjun og iðnað, sem er vissulega mjög nauðsynlegt, en ansi litað af veruleika karlmennskunnar.

Ef ekki er rætt um nærþjónstu – mæðraskoðun, fæðingarhjálp, kennslu barna, félagslíf í bæjum, þorpum og sveitum, opnunartíma sundlauga, aðgengi að interneti eða menningarstarfsemi – í aðdraganda kosninga, eru hverfandi líkur á því að þau mál verði sett á oddinn hjá kjörnum fulltrúum á þingi. Það er bara svo einfalt.

Björt framtíð tók meðvitaða ákvörðun um að tefla fram sterkum kvennalista í Norðvesturkjördæmi, af þeim ástæðum sem reifaðar eru hér að ofan. Einsleitni er engum til góðs, það er almenn regla.

Ég hef áralanga reynslu af jafnréttismálum, störfum að eflingu vinnumarkaðar fyrir fólk með háskólamenntun, auk umfangsmikillar innsýnar í félagsleg réttindakerfi landsins. Ég kem úr heilbrigðisgeiranum, hef starfað bæði sjálfstætt og hjá LSH sem sjúkraþjálfari með ýmsum sjúklingahópum. Það veganesti óska ég eftir að fá að leggja af mörkum til að efla samkeppnisfærni Norðvesturkjördæmis um ungt fólk, framtíðarlífið í fjórðungnum.

Við stöllurnar í efstu sætum listans hjá Bjartri framtíð vonum að kjósendur í Norðvesturkjördæmi séu reiðubúnir að hugsa út fyrir kassann og laða til sín nýtt fólk í þjónustustörfin á Alþingi.

Höfundur er Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í NV-kjördæmi.

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Nýjustu fréttir