Síða 2117

Málhöfðun gegn laxeldinu vísað frá dómi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað málshöfðun Náttúrverndar 1 frá dómi. Náttuvernd 1 er málsóknarfélag sem stefndi Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun vegna laxeldis Arnarlax í Arnarfirði. Stofnfélagar málsóknarfélagsins eru eigendur Haffjarðarár á Snæfellsnesi, veiðifélag Laxár á Ásum í Húnavatnsssýslu og þrír landeigendur í Arnarfirði.

Málinu var vísað frá dómi með þeim rökum að málshöfðunin uppfylli ekki skilyrði laga um málsóknarfélög. Í þeim lögum er m.a. kveðið á um að lögvarðir hagsmunir hvers og eins félaga þurfi að vera með einsleitum hætti, en því er ekki að heilsa í tilfelli Náttúruverndar 1 og í úrskurði dómara er t.d. bent á að Haffjarðará er í 200 km fjarlægð frá eldissvæðum Arnarlax í Arnarfirði.

Takk fyrir stuðninginn!

Á Laugardaginn gengu Íslendingar til Alþingiskosninga. Hér í Norðvesturkjördæmi bauð Framsóknarflokkurinn fram framboðslista með kraftmiklu fólki víðsvegar úr kjördæminu. Eins og öllum er ljóst þá hefur flokkurinn gengið í gegnum talsverða erfiðleika. En á undanförnum vikum hefur komið fram mikill kraftur og tekist hefur að virkja grasrót flokksins víðsvegar um landið. Á ferðum okkar um kjördæmið fundum við fyrir mikilli jákvæðni og hún endurspeglaðist í úrslitum kosninganna. Þegar búið var að telja öll atkvæði þá fékk Framsóknarflokkurinn 18,42% atkvæða og er næststærsti flokkurinn í kjördæminu.

Undirrituð voru kjörin á Alþingi fyrir okkar kjördæmi og við viljum með þessari stuttu grein þakka ykkur fyrir þann stuðning sem þið sýnduð bæði okkur og Framsóknarflokknum. Þessu fylgir mikil ábyrgð og við munum leggja okkur fram að standa undir henni. Norðvesturkjördæmi er stórt og víðfemt. Það að ná tveimur þingmönnum auðveldar okkur að ná utan um kjördæmið.

Við viljum að lokum hvetja íbúa kjördæmisins til að vera í sambandi við okkur um mál sem brenna á fólki. Við erum hér fyrir ykkar tilstilli og mikilvægt að samstarf okkar verði gott á kjörtímabilinu.

Með góðri kveðju og þökk fyrir stuðninginn.

Ásmundur Einar Daðason

Halla Signý Kristjánsdóttir

Merkingum á hættulegum efnum ábótavant

Umhverfisstofnun stóð nýlega fyrir eftirlitsverkefni með merkingum á vörum sem innihalda hættuleg efni og náði umfang þess til algengra neysluvara fyrir almenning eins og uppþvottavélaefna, uppþvottalaga, stíflueyða, uppkveikilaga og salernis-, uppþvottvéla-, bletta, ofna- og grillhreinsa. Farið var í 12 matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Akureyri og skoðað úrtak með 60 vörum í ofangreindum vöruflokkum, sem þar voru í sölu, til að athuga hvort merkingar þeirra væru í samræmi við reglur.

Einungis 15% varanna sem lentu í úrtaki reyndust standast allar kröfur um merkingar. Á kökuritinu sem fylgir fréttinni má sjá hvernig frávikin skiptust en algengasta frávikið var að vörurnar vantaði algerlega íslenskar merkingar, eða í 38% tilfella. Um 42% varanna voru merkt á íslensku samkvæmt núgildandi reglugerð en með einhver misalvarleg frávik. Þá reyndust þrjár vörur (5%) vera merktar samkvæmt eldri reglum.

Öllum birgjum sem ábyrgir voru fyrir vörum sem báru ófullnægjandi merkingar var sent bréf þar sem krafist var viðeigandi úrbóta. Langflestir brugðust við á fullnægjandi hátt innan frestsins sem gefinn var, en í nokkrum tilfellum kom þó til eftirfylgni. Voru þeim birgjum send áform um áminningu, en þar sem þeir brugðust við kröfum stofnunarinnar innan tilsettra tímamarka kom ekki til frekari eftirfylgni.

Niðurstöður eftirlitsins gefa til kynna að merkingum á efnavörum hér á landi sé verulega ábótavant og að þörf sé á átaki til lagfæringa hjá birgjum sem bera ábyrgð á því að þessar vörur séu rétt merktar. Umhverfisstofnun mun áfram fylgjast náið með merkingum hættulegra efnavara á markaði og standa fyrir eftirliti til að fylgja því eftir að farið sé að reglum hvað þetta varðar.

Merkingar á hættulegum efnavörum koma til skila upplýsingum um eðli hættunnar og hvernig eigi að bregðast við eða komast hjá henni og skulu þær vera á íslensku. Þeir sem setja á markað vörur sem innihalda hættuleg efni eru ábyrgir fyrir því að umbúðir varanna séu rétt merktar. Seljendum er óheimilt að hafa í sölu hættulegar vanmerktar vörur.

Þetta er megininntakið í reglum um merkingar hættulegra efna sem gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins og öðluðust fullt gildi þann 1. júní 2017 eftir langt aðlögunartímabil. Það þýðir að merkingar samkvæmt eldri reglum skulu nú alfarið heyra sögunni til.

Veturinn genginn í garð

Hitatölur á hádegi í dag.

Norðlæg átt verður á landinu í dag, 5-13 m/s og víða él. Hiti verður 1 til 6 stig syðst á landinu en annars staðar verður hitastig við frostmark. Þetta segir í veðurspá Veðurstofunnar. Á Vestfjörðum er spáð norðaustan 8-13 m/s og frost verður 0-4 stig.

Samkvæmt veðurspánni fer kólnandi næstu daga. Á morgun er von á norðanátt og éli. Frost yfirleitt 0 til 5 stig.
Á sunnudag snýst hann í suðaustanátt og hvessir, 20-25 m/s og rigning eða slydda um kvöldið. Hægari vindur og þurrt norðaustan- og austanlands.

Hálka og snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum.

Bakslag í jafnréttismálum á heimsvísu

Hvergi í heiminum mælist meiri jöfnuður milli kynjanna en á Íslandi samkvæmt mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2017 og trónir Ísland í efsta sæti 9. árið í röð. Í kynningu á niðurstöðunum er sérstaklega fjallað  um hvað ræður góðri frammistöðu Íslendinga á þessu sviði.

Alþjóðaefnahagsráðið, (e. World Economic Forum -WEF) hefur birt skýrslur um stöðu kynjajafnréttis í heiminum (e. Global Gender Gap Report ) frá árinu 2006. Samkvæmt niðurstöðum fyrir árið 2017 eru Ísland, Noregur og Finnland í þremur efstu sætunum en lestina reka Sýrland, Pakistan og Jemen sem er í botnsæti þeirra 144 þjóða sem mælingin tekur til.

Kvarðinn sem WEF byggir mat sitt á (e. Global Gender Gap Index) felur í sér mælingar á fjórum sviðum sem taka til stöðu kynjajafnréttis á sviði heilbrigðis, menntunar, efnahagslífs og stjórnmála. Á efnahagssviðinu er m.a. horft til launamunar kynjanna, atvinnuþátttöku og kynjahlutfalla í hópi stjórnenda. Menntunarþátturinn er metinn út frá menntunarstigi karla og kvenna, heilbrigðisþátturinn tekur m.a. mið af lífslíkum og jafnfrétti á sviði stjórnmála er metið út frá stjórnmálaþátttöku kynjanna en staða Íslands árið 2017 miðar við hlutfall kvenna á Alþingi fyrir kosningarnar 28. október sl.

Ein af meginniðurstöðum skýrslu þessa árs er að eftir tíu ára hægfara framfarir á heimsvísu þar sem kynjabilið hefur minnkað, sýna niðurstöður ársins 2017 bakslag. Dregið hefur sundur með körlum og konum á öllum sviðum, hvort sem horft er til heilbrigðis, menntunar, stjórnmála eða efnahagslífs. Bakslagið mælist þó einkum þegar horft er til stöðunnar á vinnumarkaði og í stjórnmálum.

Klaus Schwab, stofnandi og stjórnarformaður WEF,  segir kynjamisréttið fela í sér gríðarlega sóun á mannauði og njóti þar með minni verðmætasköpunar. Það sé því jafnt siðferðilega og efnahagslega bráðnauðsynlegt að sigrast á þeim þáttum sem standa jafnrétti kvenna og karla fyrir þrifum.

Hvað ræður góðum árangri Íslands?

Samkvæmt mælingum WEF hefur  87% kynjabilsins á Íslandi verið brúað og frá  því að WEF hóf mælingar árið 2006 hefur kynjabilið minnkað um 10% sem skipar Íslandi í sæti þeirra ríkja þar sem jafnrétti kynjanna eykst hvað hraðast.  Árangur Íslands sem skorar hæst á jafnréttiskvarða WEF níunda árið í röð vekur athygli  og óskaði WEF eftir umfjöllun frá jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins um það hvaða þættir kunni helst að ráða góðum árangri landsins á sviði jafnréttismála. Grein þessa efnis var birt á vef WEF samhliða skýrslunni Global Gender Gap Report.

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra segir ánægjulegt að mælingin endurspegli þann árangur sem markvissar aðgerðir á sviði kynjajafnréttismála hafa skilað undanfarin áratug. „Það er mikill heiður fyrir Ísland að vera enn og aftur í toppsæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins og þeim heiðri fylgir sú ábyrgð að halda áfram að vera til fyrirmyndar og tryggja að fullu jöfn tækifæri og jafna stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins.“

Kynningarmyndband um jafnrétti á Íslandi

Myndbandið sem fylgir fréttinni  hefur WEF birt um stöðu jafnréttismála á Íslandi með áherslu á aðgerðir til þess að draga úr launamun kynjanna, m.a. með lögleiðingu jafnlaunavottunar.

bryndis@bb.is

 

Spáir kröftugum hagvexti í ár

Hagstofan spáir miklum íbúðafjárfestingum.

Útlit er fyr­ir kröft­ug­an hag­vöxt í ár en að það hægi á gangi hag­kerf­is­ins þegar líður til árs­ins 2023. Þetta kem­ur fram í þjóðhags­spá Hag­stofa Íslands sem gef­in var út í dag. Spá­in nær yfir árin 2017 til 2023.

Gert er ráð fyr­ir að á ár­inu 2017 auk­ist lands­fram­leiðslan um 4,9%, einka­neysla um 7,8% og fjár­fest­ing um 8,8%. Árið 2018 er reiknað með að hag­vöxt­ur verði 3,1%, einka­neysla auk­ist um 5,3% og fjár­fest­ing um 3,1%. Talið er að sam­neysla auk­ist um 2,2% árið 2017 og 1,3% árið 2018. Árin 2019–2023 er gert ráð fyr­ir að vöxt­ur lands­fram­leiðslu verði í kring­um 2,6%, einka­neyslu­vöxt­ur minnki úr 3,6% árið 2019 í 2,5% árið 2023, fjár­fest­ing auk­ist um 2,1–3,9% og sam­neysla ná­lægt 1,8% á ári.

Fjár­fest­ing eykst hæg­ar á næst­unni en und­an­far­in ár. Spáð er mikl­um vexti íbúða­fjár­fest­ing­ar og op­in­berr­ar fjár­fest­ing­ar en sam­drátt­ur verður meðal ann­ars í stóriðju­tengdri fjár­fest­ingu árið 2018 og síðar. Viðskipta­jöfnuður verður áfram já­kvæður en versn­ar held­ur þegar líður á spá­tím­ann. Gengi krón­unn­ar styrkt­ist fram­an af ári en gaf eft­ir þegar á leið. Tólf mánaða verðbólga er enn lág en bú­ist er við að hún auk­ist nokkuð þegar áhrifa geng­is­styrk­ing­ar hætt­ir að gæta. Íbúðaverð hef­ur hækkað skarpt frá miðju ári 2016 en bú­ist er við að aukið fram­boð fast­eigna á næstu árum dragi úr spennu á íbúðamarkaði.

Grjóthrun á Ketildalavegi

Mikið grjót­hrun varð á Ketildala­vegi vest­an Bíldu­dals á sunnu­dag­inn. Í frétt á vef Vega­gerðar­inn­ar seg­ir að „mynd­ar­leg­ir stein­ar“ hafi fallið á veg­inn og þá hafi þurft að fjar­lægja með stór­virk­um vinnu­vél­um. Sem bet­ur fer var eng­inn á ferð þarna þegar grjót­hrunið átti sér stað, seg­ir í frétt­inni.

Ketildala­veg­ur ligg­ur út í Selár­dal og á leiðinni eru tveir bæir þar sem er bú­seta; Hvesta og Græna­hlíð. Grjót­hrunið varð við Svart­hamra, ekki langt frá Bíldu­dal, áður en komið er í Hvestu­dal. Sjá á kort­inu hér fyr­ir neðan. Grjót­hrun er al­gengt á þessu svæði en sjald­gæft að svo stór­ir stein­ar hafni á veg­in­um.

Búið er að hreinsa allt af veg­in­um.

Veiðigjaldið 9 prósent af aflaverðmæti

Á vef Landssambands smábátaeigenda (LS) er bent á að eftir hækkun veiðigjalda um síðustu kvótaáramót eru veiðigöld félagsmanna um 9 prósent af aflaverðmæti. Fyrsti gjalddagi eftir hækkunina var nú þann 1. nóvember og er sá reikningur fyrir afla sem veiddist í september. Veiðgjöld í ýsu og þorski, sem er uppistaðan í afla smábáta, hækkuðu um 107 til 127 prósent milli ára.

Í frétt á vef LS segir að sambandið hafi talað fyrir daufum eyrum þegar vakin er athygli á rúmlega tvöföldun veiðigjalda.

„Alþingismenn virtust og virðast þó hafa á hreinu að eitthvað þarf að gera til að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir.  LS hefur bent á leið sem hægt er að fara og væntir þess að nýkjörnir alþingismenn láti málið til sín taka strax og þingstörf hefjast,“ segir á vef LS.

Í fréttinni er haft eftir ónafngreindum smábátasjómönnum að hækkunin sé „brjálæði“ og einhverjar útgerðir eru við það að gefast upp. Einn sjómaðurinn grípur til líkinga þegar hann tjáir sig um hækkunina: „Við erum 2 um borð, nú hefur fjölgað um einn og hálfan háseta sem ekki láta sjá sig, en þiggja fulla greiðslu.“

Vill skoðanakönnun frekar en vefkosningu

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Eins og áður hefur verið greint frá ætlar Ísafjarðarbær að standa fyrir íbúakönnun þar sem kanna á hug íbúanna til framtíðarsýnar fyrir Sundhöll Ísafjarðar. Síðasta vetur var hugmyndasamkeppni um breytingar á Sundhöllinni og sitt sýnist hverjum um tillögurnar eins og gengur og einnig eru skiptar skoðanir um þá ráðstöfun að fjárfesta fyrir fleiri hundruð milljónir í 16 metra langri sundlaug.

Bærinn hefur samþykkt tilboð Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í gerð könnuninnar. Á fundi bæjarstjórnar í gær lagði Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, áherslu á að farið verði í skoðanakönnun í stað vefkosningu á vef Ísafjarðarbæjar. Daníel segir að markmið með íbúakönnun hljóti að vera að komast að vilja hins almenn íbúa og skoðanakönnun þar sem úrtakið er 500-1000 manns fái þann vilja betur fram en vefkosning þar sem þátttakendur þurfa að hafa Íslykil sem hann telur að verði hindrun fyrir eldri borgara. Að auki telur hann líkur á að fylkingar fari í „kosningagír“ og reyni að vinna kosningarnar sem hann segir að muni leiða til sundrungar í samfélaginu.

Á fundi bæjarstjórnar var málinu vísað til bæjarráðs sem fékk heimild til að afgreiða það.

Greina stöðu uppbyggingar í Vesturbyggð

Undanfarið ár hefur Vesturbyggð unnið að undirbúningi fyrir verkefni sem ætlað er að kortleggja stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu og hvernig hægt er til framtíðar að skapa aðstöðu fyrir þau fyrirtæki sem hafa vaxið hratt og hafa hug á að efla sig enn frekar innan sveitarfélagsins. Með auknu fiskeldi, ferðaþjónustu og aukningu í öðrum atvinnugreinum hefur orðið viðsnúningur í atvinnumálum í Vesturbyggð. Þetta hefur einnig gert það að verkum að nokkurskonar vaxtaverkir hafa orðið m.t.t innviða eins og á hafnarsvæðum, á fasteignamarkaði svo dæmi séu nefnd.

Nú er þessi vinna hafin og nefnist verkefnið „Greining á uppbyggingu innviða, aðstöðusköpunar og uppbyggingar þjónustu í Vesturbyggð“. Verkefnið er unnið af verkfræðistofunni EFLU í samstarfi við Vesturbyggð.

Verkefnið var stuttlega kynnt á íbúafundi á Bíldudal þann 19. september. Nú er fyrsta skref verkefnisins að hefjast og mun verða opinn fundur með fyrirtækjum sem þjónusta t.d fiskeldi, ferðaþjónustu og aðrar stærri atvinnugreinar innan Vesturbyggðar.

Fundur fyrir fyrirtæki í fiskeldi og skyldum atvinnugreinum verður haldinn  miðvikudaginn 8. nóvember klukkan 15-16:30 í félagsheimilinu á Patreksfirði.

Fundur fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skyldum atvinnugreinum verður haldinn fimmtudaginn 9. nóvember klukkan 17-18:30 í félagsheimilinu á Patreksfirði.

Á fundinum verða nokkra spurningar lagðar fram og verður fundarmönnum skipt í hópa 4-8 manns. Einn hópstjóri verður í hverjum hóp, fulltrúi frá verkfræðistofunni EFLU eða Vesturbyggð, og mun hann leiða umræðuna og rita fundargerð.

Nýjustu fréttir