Miðvikudagur 16. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2117

Snjóflóð féll á veginn um Hvilftarströnd

Búið er að loka Flateyrarvegi eftir að snjóflóð féll á veginn um Hvilftarströnd laust eftir hádegi. Sökum lélegs skyggnis er ekki hægt að meta aðstæður í fjallshlíðum og verður veginum haldið lokuðum á meðan svo er. Þá er orðið þungfært til Suðureyrar og Guðmundur R. Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að dregið hafi verið úr mokstri á Súgandafjarðarvegi vegna mikillar ofankomu og skafrennings.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Súðavíkurhlíðin í biðstöðu

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu en vitað er að eitt snjófljóð féll á veginn í gær. Lítið sem ekkert skyggni hefur gert starfsmönnum Vegagerðarinnar ókleift að meta aðstæður. Guðmundur R. Björginsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að veginum um Súðavíkurhlíð verði haldið lokaðum á meðan ekki er hægt að meta aðstæður.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Á vef Veðurstofunnar segir að snjórinn sem hefur fallið síðasta sólarhringinn sé óstöðugur eins og er og áfram er spáð éljagangi og hvössum vindi. Einkum er hætta á óstöðugum snjó í lægðum og giljum ofarlega í fjöllum og hlémegin við  norðanáttina.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Skúraröðin verður seld

Ástand skúranna er slæmt.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að auglýsa skúraröðina við Fjarðastræti á Ísafirði til sölu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að skúrarnir verði rifnir og byggður nýr klasi á 2-5 hæðum þar sem íbúðarturnar rísa upp úr lægri byggingum sem hýsa verslun/þjónustu og bílageymslur að norðanverðu.

Í minnisblaði Brynjars Þórs Jónassonar, sviðsstjórna umhverfis- og eignasviðs, til bæjarráðs er lagt til að skúrarnir verði seldir með kvöðum um niðurrif og upphaf framkvæmda innan ákveðins frests.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bolvíkingar þurfa að taka sér tak

Bolungarvík kom illa út úr könnun Samgöngustofu og Landsbjargar á öryggi barna í bílum. Ísfirðingar voru aftur á móti til fyrirmyndar. Könnunin var gerð við 56 leikskóla í 29 þéttbýliskjörnum víða um land og var búnaður hjá 2.060 börnum kannaður. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 32 ár. Í Bolungarvík voru 83% barna í réttum öryggisbúnaði, fjögur prósent barna voru einungis í bílbelti og 13 prósent í engum öryggisbúnaði. Á Ísafirði voru 100 prósent barna í réttum búnaði.

Samgöngustofa og Landsbjörg benda á að þegar valinn er öryggisbúnaður er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum. Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum. Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt. Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið í slysi ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vetrarríki á Vestfjörðum

Þrír bílar fóru útaf á Hvilftarströndinni í morgun

Það hefur snjóað mikið á Vestfjörðum. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og yfir Þröskulda. Vegurinn um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum.

Á Hvilftarströnd fóru þrír bílar útaf veginum í morgun og þurftu aðstoð björgunarsveita. Hér má sjá myndband af björgunasveitarmönnum að störfum.

Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanátt í dag, 18-23 m/s og snjókomu. Í athugasemd veðurfræðings segir að útlit er fyrir hvassa norðanátt næstu daga með snjókomu eða éljum norðan- og austanlands, en varasömum vindstrengjum á sunnanverðu landinu. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað. Útlit er fyrir að veðrið gangi niður svo um munar á laugardag, fyrst um landið vestanvert.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hóls- og Eyrarhreppur verður lokahnykkurinn

Bolungarvík. Mynd: SJS.

Frá því um aldamót hefur útgáfufélag Búnaðarsambands Vestfjarða staðið fyrir merkri bókaútgáfu þar sem fjallað er um sveitir og byggðir í hverri sýslu á sambandssvæðinu. Ábúendatöl á jörðum ná aftur til 1900 og myndir af húsakosti jarðanna og ábúendum á ýmsum tímum. Útgáfan hefur mælst vel fyrir og sala gengið vel enda hefur verið vandað til verka. Með stuðningi sveitarfélaga hefur Búnaðarsambandið komist skuldlaust frá útgáfunni. Eina svæðið sem er eftir í ritröðinni eru hinir fornu hreppar, Hólshreppur í Bolungarvík og Eyrarhreppur í Skutulsfirði. Stefnt er að útgáfu þeirrar bókar seint á næsta ári. Ritstjóri verður Björgvin Bjarnason.

Búnaðarsambandið hefur farið þess á leit við bæjarráð Ísafjarðarbæjar er útgáfan veðri styrkt um 750 þúsund krónur en gert er ráð fyrir að upplag bókarinnar veðri 700 eintök og útsöluverð 8.900 krónur. Í afgreiðslu bæjarráðs er lagt til að sambandið sæki formlega um styrk til menningarmála.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Útflutningsverðmæti eykst á næstu árum

Gangi spá fyrir árið 2017 eftir munu útflutningsverðmæti sjávarafurða nema 210-220 milljörðum króna, en það samsvarar ríflega 7 prósent samdrætti milli ára. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg. Þrátt fyrir minna verðmæti sjávaraafurða árin hafa aflabrögð verið betri. Heildarafli fyrstu 9 mánuði ársins 2017 nemur 915 þús. tonnum og er um 64 þús. tonnum meiri en fyrstu 9 mánuðir ársins 2016. Þessi aukning á árinu skýrist einna helst af auknum loðnuveiðum. Skýrsluhöfundar spá ríflega 4% aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða ári fyrir tilstilli veikari krónu, hærra heimsmarkaðsverðs og aukins kvóta. Aukningin verður öllu hóflegri árið 2019, eða tæplega 1%, gangi spáin eftir.

Smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sigur í báðum leikjum

Meistaraflokkur karla í blaki

Meistaraflokkar Vestra í blaki fengu Hamar frá Hveragerði í heimsókn á helginni  og seint verður hægt að segja að gestrisnin hafi verið í hávegum höfð. Kvennaliðin áttust við kl. 11:00 á laugardag og marði Vestri sigur í 5 hrinu leik, Vestri tapaði fyrstu og þriðju hrinu og landaði svo sigrinum í oddahrinu. Kvennaliðið hefur nú unnið fjóra leiki en tapað þremur.

Meistaraflokkur kvenna í blaki

Karlaliðið lagði Hamar svo sannfærandi að gestirnir sáu aldrei til sólar og þar með náði Vestri sínum fyrsta sigri og vonandi sama sigurtaktinum og liðið náði í fyrra. Nýr leikmaður Vestra Mateuz Klóska var sannarlega betri en enginn og þeir bræður Eydal, Birkir og Kári eru ansi liprir í móttökunni. Þjálfari liðsins Tihomir Paunovski er meiddur og í hans stað spilaði Hafsteinn Már Sigurðsson upp af stakri snilld.

Þess má geta að í karlaliðinu voru feðgar, Sigurður Hreinsson og Hafsteinn sonur hans, og tvenn pör bræðra, þeir Sigurður og Kjartan Kristinssynir og Birkir og Kári Eydal. Og í kvennaliði Vestra voru mæðgurnar Petra Dröfn og Sóldís Björt frá Suðureyri.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

4,5 prósent hækkun á 12 mánuðum

Vísitala byggingarkostnaðar reiknuð um miðjan nóvember 2017 er 136,1 stig.(desember 2009=100) og hækkar um 0,3% frá fyrri mánuði. Innlent efni hækkaði um 0,3% (áhrif á vísitölu 0,1%) og innflutt efni hækkaði um 0,8% (0,2%). Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 4,5%. Vísitalan var sett í 100 stig í desember 2009 og hefur því hækkað um 36,1 prósent á átta árum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Íbúakönnun í desember eða janúar

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að ganga til samninga við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um gerð íbúakönnunar vegna málefna Sundhallar Ísafjarðar. Á síðasta ári var blásið til hugmyndasamkeppni vegna endurbóta og stækkunar Sundhallarinnar og var tillaga Kanon arkitekta ehf. hlutskörpust. Ljóst að er að kostnaður við framkvæmdir hleypur á hundruðum milljónum króna. Samkvæmt upplýsingum frá Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra gæti könnunin farið fram um miðjan desember ef undirbúningur gengur, annars yrði hún fljótlega eftir áramót.

Allir kosningabærir íbúar sveitarfélagsins eiga kost á að taka þátt í könnuninni sem verður gerð á netinu. Ísafjarðarbær gerir ráð fyrir að kostnaður við könnunina nemi um tveimur milljónum króna.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir