Síða 2117

Átta bækur á árinu hjá Vestfirska forlaginu

Þessa dagana eru að koma út fimm nýjar bækur hjá Vestfirska forlaginu. Fyrr á árinu komu út þrjár. Samtals átta! Bækurnar eru þessar.

100 Vestfirskar gamansögur

Hallgrímur Sveinsson tók saman

Í þessari bók eru hundrað sögur úr hinum mikla þjóðsagnabanka Vestfirska forlagsins af Vestfirðingum. Flestar hafa þær komið á prenti áður í bókunum að vestan og víðar. Sögurnar lýsa orðheppni Vestfirðinga og hæfileika þeirra til að fanga augnablikið. Græskulaus gamansemi, sem allir hafa gott af, er aðalsmerki hinna vestfirsku sagna. Þessa bók köllum við Rauða kverið.
Allt þetta fólk – Þormóðsslysið 18. febrúar 1943

Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson tók saman.

Þormóðsslysið 18. febrúar 1943 var hræðilegt áfall og hafði mikil áhrif á Bíldudal og nærsveitir. Fjöldi manna lifði í skugga þess alla sína tíð. Hér er í fyrsta sinn fjallað um þennan mikla harmleik í heild eftir öllum tiltækum heimildum. Séra Jakob hefur tekið bókina saman að hvatningu margra afkomenda þeirra sem fórust með Þormóði. Frásögn hans lætur fáa ósnortna.
Vestfirðingar til sjós og lands – Gaman og alvara fyrir vestan

Hallgrímur Sveinsson tók saman

Bók þessi hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Bæði í gamni og alvöru. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga. Þessa bók köllum við Hvíta kverið.
Fortunu slysið í Eyvindarfirði á Ströndum 1787

eftir Guðlaug Gíslason frá Steinstúni og Jón Torfason

Strandlengjan, frá Hornbjargi og langt suður eftir Ströndum, með öllum sínum flóum, fjörðum og annesjum, var löngum annáluð fyrir að vera hættuleg skipum, stórum og smáum. Enda hafa farist þar ótal skip í tímans rás. Hér er sagt frá atburðinum sem átti sér stað þegar kaupskipið Fortuna fórst í Eyvindarfirði á Ströndum 1787 og þeim eftirmálum sem urðu út af honum. Skjölin sem geyma þessa 230 ára gömlu sögu, og hér er stuðst við, eru öll varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.
Sólin er klukkan sjö á Hreiðarstaðafjallinu – Ævi mín í pörtum eftir Jóhannes Sigvaldson búnaðarráðunaut og tilraunastjóra á Akureyri.

Jóhannes Sigvaldason er Svarfdælingur. Ólst upp við sveitastörf stríðsáranna þegar gamli tíminn var að mæta hinum nýja. Klukka var ekki hjá fólki við heyskap en verklok þegar sól var á Hreiðarsstaðafjallinu. Vann fyrir bændur og landbúnað allan sinn starfsferil. Jóhannes fór í pólitík og komst að því síðar að hann botnaði ekkert í henni en var þá hættur. Stýrði nokkrum félögum og var hvorki verri eða betri en fyrirrennarar og viðtakendur. Átti góða konu og mjög lánsamur með afkomendur.

Eftirtaldar bækur voru áður komnar út á árinu hjá Vestfirska forlaginu:

Hjólabókin, 5. bók, Rangárvallasýsla eftir Ómar Smára Kristinsson.
Þorp verður til á Flateyri, 2. bók eftir Jóhönnu G. Kristjánsdóttur.
Vestfirskar sagnir, 4. hefti, Helgi Guðmundsson safnaði.
bryndis@bb.is

Einelti og kynferðislegt ofbeldi á vinnustað er ólíðandi og verður að uppræta

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands ályktaði í vikunni um einelti og kynferðislegt ofbeldi á vinnustað. Sambandið fagnar umræðu að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum.

Ennfremur kemur fram í ályktuninni að verkalýðshreyfingin hafni allri mismunun og órétti á vinnumarkaði. Á því byggi sjálf tilvist hennar. Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun og einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

Að lokum hvetur miðstjórnin aðildarsamtök Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfinguna alla til að styðja með öllum ráðum einstaklinga sem stíga fram og hafna hvers konar einelti og ofbeldi á vinnustað. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

bryndis@bb.is

Öryggismál í fiskvinnslu

Sjónvarpsstöðin N4 hefur gert sex myndbönd um öryggismál starfsfólks í fiskvinnslu en yfirskrift myndbandanna er „Öryggi er allra hagur.“ Þeim er ætlað að vera fræðandi og benda á mikilvægi þess að allir sem koma að vinnslunni séu meðvitaðir um að öryggis- og hreinlætismál séu í góðu lagi.

Rannsóknarsjóður síldarútvegsins styrkti gerð myndbandanna og sérfræðingar Vinnueftirlitsins veittu faglega ráðgjöf og þekkingu.

María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4 segir að framleiðsludeild N4 hafi á að skipa mjög hæfu fagfólki sem kunni vel til verka í gerð fræðslumyndbanda, og í þessu tilfelli hafi verið byggt á  ákveðinni sérþekkingu starfsfólks N4 úr sjávarútvegi og fiskvinnslu.

„Það er mikilvægt að fyrirtæki í fiskvinnslu bregðist við auknum fjölda vinnuslysa í fiskvinnslu á síðustu árum með aukinni fræðslu í vinnuvernd en komið hefur í ljós að slysin tengjast oftar en ekki vélbúnaði. Það er hagur allra.  ÚA veitti okkur aðgang að fiskiðjuveri sínu á Akureyri, þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar í öryggismálum og vinnuvernd.

bryndis@bb.is

Minningar úr Héraðsskólum

Þjóðminjasafn Íslands mun á næstunni senda út spurningaskrá um héraðsskóla og aðra heimavistarskóla til sveita á unglingastigi, en fyrirhugað er að safna upplýsingum um daglegt líf og athafnir í þessum skólum. Söfnunin byggir eingöngu á frásögnum fyrrverandi nemenda og er því fyrst og fremst verið leita eftir minningum fólks.

Spurningaskráin er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem staðið hefur óslitið síðan 1960. Spurt er um hefðir, félagslíf, ýmisleg samskipti við aðra nemendur og starfsfólk skólans, kennslu, nám, frístundir, tengsl við fjölskyldu og heimili o.fl.

Þjóðminjasafnið leitar eftir heimildarmönnum sem vilja svara þessari spurningaskrá, bæði úr héraðsskólum og síðast en ekki síst úr öðrum heimavistarskólum. Þeir sem taka vilja þátt eru vinsamlegast beðnir um að senda netfang sitt á agust@thjodminjasafn.is. Farið verður með netföngin sem trúnaðarmál.

Afrakstur söfnunarinnar verður gerður öllum aðgengilegur í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi eða sarpur.is.

Fyrsti skólinn þar sem nemendur dvöldu í heimavist var á Núpi í Dýrafirði árið 1907 og má ætla að margir geti deilt minningum sínum frá dvöl sinni í skólanum. Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri gaf út bókina Útlaginn og fjallar hún um veru hans á Núpi.

bryndis@bb.is

Langódýrasta húsnæðið á Vestfjörðum

Íslandsbanki hefur gefið út skýrslu um íslenskan íbúðamarkað og þar kemur fram að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er fjórfalt hærra en á Vestfjörðum og er sögulegur munur á milli ódýrasta landsvæðisins og dýrasta, verðmunur á þessum landssvæðum hefur aldrei verið meiri en nú.

Bankinn spáir 20% hækkun íbúðaverðs á þessu ári en 12% á næsta ári og 5% á árinu 2019 og að í lok árs 2019 verði komið jafnvægi í framboð og eftirspurn íbúðahúsnæðis.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi ekki verið lægra frá aldamótum. Veðsetningarhlutfall var 42% um síðustu áramót og hefur helmingast frá 2010, bæði hafa skuldir lækkað og hækkun íbúðaverð leiðir af sér lækkandi veðsetningarhlutfall.

Eigendaskipti íbúða eru tíðust á Suðurlandi og á Suðurnesjum þar sem ein af hverjum níu íbúðum á svæðinu var seld á árinu 2016 að meðaltali. Eigandi skipti íbúða eru fátíðust á Norðurlandi vestra, Austurlandi og á Vestfjörðum.

Nafnverð íbúða hefur hækkað hraðar en byggingarkostnaður á öllum landsvæðum, og er því hagkvæmara að byggja í öllum landshlutum en var árið 2010.

Hérlendis hefur íbúðaverð hækkað umfram laun að undanförnu og því má segja að erfiðara sé, miðað við laun, að kaupa íbúð á Íslandi um þessar mundir en að meðaltali í sögulegu samhengi. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað í 14 öðrum aðildarþjóðum efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og í tilfelli 12 þeirra er ójafnvægi í íbúðaverðs- og launaþróunar meira en hér.

Líkt og komið hefur fram er íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu mun hærra en á öðrum landsvæðum. Hins vegar er munur á launum á milli landsvæða óverulegur. Það gefur til kynna að íbúðareigendur sambærilegra eigna á landsbyggðinni ráðstafi að öðru óbreyttu minni hluta af launum sínum bæði til þess að kaupa og reka húsnæði.

bryndis@bb.is

Raforkuöryggi og orkuframleiðsla í Vísindaporti

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Vísindaport vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður helgað málefni, sem er ofarlega á baugi í samfélagsumræðu á Vestfjörðum um þessar mundir. Elías Jónatansson, orkubússtjóri, mun flytja erindi um raforkukerfið í fjórðungnum og hvernig samspil er á milli raforkuframleiðslu, flutnings, dreifingar, varaafls og orkuöryggis.

Framleiðsla, flutningur og dreifing eru þeir þrír þættir sem þurfa að vera til staðar til að uppfylla væntingar og eftirspurn neytanda eftir raforku þegar og þar sem hennar er þörf.  Hver og einn þessara þátta getur brugðist sem kemur þá fram í straumleysi hjá notendum.  Hægt er að hanna raforkukerfið með þeim hætti að engin ein eining þess geti valdið straumleysi hjá notendum og er þá talað um að kerfið uppfylli N-1 kröfu.  Ein leið til að uppfylla slíka kröfu er svokölluð hringtenging, en hún er ekki nægjanleg ein og sér ef aflið er ekki til staðar.

Elías Jónatansson er fæddur og uppalinn í Bolungarvík.  Hann er vélaverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og er með MSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum.  Elías hefur starfað hjá framleiðslufyrirtækjum, aðallega í tengslum við sjávarútveg, en starfaði einnig sem bæjarstjóri í Bolungarvík í átta ár.  Elías gegnir nú starfi orkubússtjóra hjá Orkubúi Vestfjarða.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða. Það er öllum opið en erindi vikunnar fer fram á íslensku.

bryndis@bb.is

Nálægð við fiskimið og gjöful fuglabjörg einkennandi

Lundar í Látrabjargi.

Matur er stór hluti af ímynd þjóða og speglar náttúruna, söguna og tíðarandann. Matarferðaþjónusta er hratt vaxandi angi innan ferðaþjónustunnar og ljóst að mikil tækifæri í matvælaframleiðslu eru samfara stórauknum fjölda erlendra ferðamanna. Á litlu og fámennu landi eins og Íslandi má finna svæðisbundin einkenni í matargerð og -hefðum, þó svo að í fylling tímas hafi þau að stóru leyti máðst út.

Verkefnið Matarauður Íslands heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er megin tilgangur þess að auka ásókn í íslenskar matvörur og efla jákvæða ímynd þeirra og  með því að styrkja verkefni sem stuðla að eflingu matarferðaþjónustu og annarra atvinnutækifæra í tengslum við matarauðinn okkar um land allt. Á vefsíðu Matarauðs má forvitnast um matarhefðir landshlutanna og þar segir í stuttu máli um mat og matargerð á Vestfjörðum að nálægð við gjöful fiskimið og lítið undirlendi til landbúnaðar hafi mótað hefðirnar. í sögulegu ljósi er fiskmeti einkennandi á Vestfjörðum og sem og nálægð við stærstu fuglabjörg landsins.

smari@bb.is

Bæjarins besta 25. tbl. 34 árgangur

25. tbl. 34. árgangur.
25. tbl. 34. árgangur.

Aðgerðalítið vetrarveður

Heldur hefur veðurguðinn róast frá helginni og spámaður Veðurstofunnar spáir hægri breytilegri átt á Vestfjörðum og yfirleitt þurru. Gengur í norðaustan 5-13 seint annað kvöld með éljum, einkum norðantil. Frost 0 til 5 stig.

Fyrir landið allt hljómar þetta svona: Norðvestan 10-18 m/s A-til, hvassast við ströndina, en breytileg átt 3-8 V-lands. Él fyrir norðan og norðaustan, annars bjart með köflum og líkur á stöku éljum S- og SV-til.
Gengur í norðvestan 18-25 A-ast á morgun og áframhaldandi él NA- og SV-lands, en snjókoma um landið N-vert annað kvöld, annars þurrt. Hiti um og undir frostmarki.

bryndis@bb.is

Segja veiðigjöld vera landsbyggðarskatt

Löndun á Ísafirði.

Veiðigjald yf­ir­stand­andi fisk­veiðiárs grund­vall­ast á rekstr­ar­ár­inu 2015, sem var hag­stætt ár í sjáv­ar­út­vegi. Nú, þegar greiða á gjaldið, horf­ir allt öðru­vísi við og rekstr­ar­skil­yrði eru verri en árið 2015. Þannig hef­ur gengi krón­unn­ar styrkst veru­lega frá þeim tíma og dágóð hækk­un hef­ur orðið á kostnaði, sem til fell­ur í ís­lensk­um krón­um, svo ein­stak­ir aug­ljós­ir áhrifaþætt­ir séu nefnd­ir, seg­ir meðal ann­ars á vefsíðu Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi. Samtökin segja veiðigjaldið vera landsbyggðarskatt.

Á meðfylgj­andi mynd sem er fenginn af vef SFS má sjá að 21% af álögðu veiðigjaldi árið 2015 lagðist á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki á höfuðborg­ar­svæðinu, en 79% hins álagða gjalds lögðust hins veg­ar á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki á lands­byggðinni.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir