Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2117

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur – VG gefur eftir

Sjálfstæðisflokkurinn yrði stærsti flokkurinn ef kosið væri nú. Hann fengi rúm 24 prósent atkvæða. Vinstri græn yrðu næststærsti flokkurinn með rúm 19 prósent atkvæða. Þetta kemur fram í í nýrri könnun Fréttablaðsins í dag. Samfylkingin fengi 14,3 prósent. Miðflokkurinn er með tæp 10 prósent og Píratar með rúm 9 prósent. Þá er Viðreisn með tæp 8 prósent og Framsóknarflokkurinn með rúm 6 prósent. Flokkur fólksins mælist svo með rúmlega 4 prósenta fylgi og Björt framtíð með tæplega 2 prósent.

Ef það á að gera tilraun til að útnefna „sigurvegara kosninganna“ verði útkoman á þennan veg er augljósast að benda á Samfylkingu og Miðflokkinn. Samfylkingin tæplega þrefaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson afgreiðir sínar fyrstu kosningar með miklum krafti. Og ef það þarf að benda á „tapara kosninganna“ blasir Björt framtíð við en flokkurinn þurrkast út og Framsóknarflokkurinn tapar 5,5 prósentustigum frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur en fylgi hans er sögulega lágt og flokkurinn tapar rúmum fjórum prósentustigum milli kosninga. Þrátt fyrir þriggja prósenta fylgisaukningu VG frá síðustu kosningum vonaðist fólk þar á bær eftir meira fylgi í ljósi skoðanakannana síðustu vikur. Viðreisn tapar um þremur prósentustigum en kemur mun betur út en skoðanakannanir hafa gefið til kynna til þessa.

smari@bb.is

Veiðimenn sýni hófsemi

Rjúpnaveiðar hefjast á morgun og ljóst að margir veiðimenn hafa fengið sig lausa úr vinnu til að halda á fjöll. Í ár er heimilt að veiða 12 daga líkt og í fyrra. Það eru umtalsvert færri dagar en rjúpnaveiðimenn áttu að venjast hér áður fyrr þegar veiðitímabilið stóð í 69 daga. Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til sýna hófsemi og veiða ekki fleiri rjúpur en þörf er á og minnir stofnunin á að sölubann er í gildi á rjúpum og rjúpnaafurðum.

Náttúrufræðistofnun Íslands metur að stofninn þoli veiðar á 57.000 rjúpum og er það aukning frá fyrra ári. Hófsemissjónarmið auka líkurnar á að hægt verði að stunda sjálfbærar rjúpnaveiðar um ókomna tíð. Það skiptir því máli að umgangast þessa náttúruauðlind af virðingu og standa um leið vörð um þau forréttindi sem felast í að geta stundað skotveiðar í íslenskri náttúru. Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengni um landið.

smari@bb.is

Mótmælir niðurskurði til Náttúrustofunnar

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða og telur eðlilegt að framlög hækki til eflingar starfseminni frekar en hitt. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar. Í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram áður en ríkisstjórnin féll er lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna.

Í bókun sveitarstjórnar segir að niðurskurður til þessa málaflokks kemur beint niður á menntatörfum á svæðinu og er þar af leiðandi bein atlaga að menntastörfum á landsbyggðinni. Þar segir enn fremur: „Náttúrustofa Vestfjarða er mikilvægur þáttur í uppbyggingu þess iðnaðar og starfa sem unnið er að á sunnanverðum Vestfjörðum og er þar af leiðandi algerlega ólíðandi að vegið sé að stofnuninni með þessum hætti.“

smari@bb.is

Framsóknargenin

Gauti Geirsson

Það er sagt að ég hafi fæðst sem Framsóknarmaður. Það sé í genunum. Þetta hefur að vísu ekki verið rannsakað mikið og þeir erfðafræðingar sem ég þekki til hafa ekki viljað staðfesta þetta. Annað vafamál í erfðafræðinni er möguleg erfðablöndun laxastofna við Djúp en það sem er ekki hægt að véfengja er að umhverfið mótar manninn.

Langamma sem fæddist á Sæbóli í Aðalvík og ólst þar upp var framsóknarkona. Það má líklega rekja Framsóknarmennskuna til hennar. Hún giftist reyndar bóndasyni frá stórbýlinu Hafrafelli sem var af miklum sjálfstæðisættum en hún var nú ekki eins og strá í vindi, tók ekki upp skoðanir bónda síns heldur sat við sinn keip. Útkoman varð svo sú að flestir hennar synir mótuðust uppí að verða miklir Framsóknar- og samvinnumenn.

Ég ólst upp undir sterkum áhrifum frá einum þeirra bræðra. Það var hugsjónin um samfélagið og samtakamáttinn sem heillaði mig mest í hans lífsviðhorfum. Honum fannst aldrei tiltakamál að fá neitt lánað eða lána til annarra. Naut þess ennfremur ef hann gat hjálpað öðrum. Hann stóð í atvinnurekstri, bæði sjálfstætt og í slagtogi með öðrum. Arðsemiskrafan var ekki há, ef hann og mennirnir höfðu í sig og á var markmiðinu náð. Þetta fannst mér og finnst mér enn einkar eftirsóknarverð lífssýn, sérstaklega á tímum stjarnfræðilegra bónusa fyrir lítið sem ekki neitt.

Samfélögin á Vestfjörðum hafa átt undir högg að sækja allt mitt lífsskeið. Ég upplifði aldrei hina miklu uppgangstíma þegar það voru skuttogarar í hverju þorpi og uppgangur, nýtt orgel í hverri kirkju. Ég ætla ekki að rekja orsakir og afleiðingar hér enda það verið reynt þúsund sinnum með álíka mörgum niðurstöðum. Staðan í dag sem við verðum að horfast í augu við er að Vestfirðir eru kalt svæði efnahagslega, við höfum misst mikið af okkar fyrra þreki og það hefur gerst yfir lengri tíma.

Í erfiðleikum getur verið freistandi að grípa til patent lausna svosem stóriðju en Vestfirðingar hafa staðist slík próf og hafnað slíkum hugmyndum.  Í heimi þar sem okkar stærsta ógn er loftslagsbreytingar, mengun og súrnun sjávar og neysluhyggja, eru gífurleg tækifæri fólgin í því að verða sjálfbært samfélag og um leið fyrirmyndir annarra. Það er hægt.
Tækifærin eru meira að segja beint fyrir framan okkur, sem dæmi um það er umhverfisvæn og samfélagslega sinnuð matvælaframleiðsla í fjörðunumm (Ísafjarðardjúpi þar á meðal), raforkuframleiðsla á völdum fallvötnum með því fororði að hringtengja Vestfirði og ekki síður í sjálfbærri ferðaþjónustu, sauðfjárrækt, nýsköpun og sjávarútvegi.

Til þess að hrinda þessari sýn um sjálfbæra, blómlega og jafnvel kolefnishlutlausa Vestfirði í framkvæmd þarf brennandi áhuga, festu og skýra sýn. Það er ekki nóg að vita af þessum möguleikum og nefna þá í greinarskrifum eða í ræðum á borgarafundum rétt fyrir kosningar. Það þarf að berjast hvern einasta dag innan kerfisins fyrir þeim því þeir komast ekki sjálfkrafa í verk.

Frambjóðendur og forysta Framsóknarflokksins hafa ennfremur talað öll í eina átt hvað varðar þessi stærstu hagsmunamál Vestfirðinga sem talin eru upp hér að framan, eitthvað sem flestir aðrir flokkar geta ekki státað sig af. Ennfremur er það beinlínis í grunnstefnu Framsóknar að tryggja jafnrétti á öllum sviðum, líka jafnrétti til búsetu, atriði sem aðrir jafnaðarflokkar hafa stundum misst augun af.

Umhverfið sem mótaði mig,  hugsjónin og fólkið sem hrífst að henni, eru ástæðurnar fyrir því að ég er Framsóknarmaður. Ég hvet þig kæri kjósandi til þess að leggja okkur lið í komandi baráttu, baráttu fyrir Vestfirði og tryggja Höllu Signý, kjarnakonu úr Bolungarvík inná þing. Árangur áfram gakk!

Gauti Geirsson, 12 sæti Framsóknar í NV kjördæmi og Framsóknarmaður í fjórða ættlið.

Kjóstu!

Daníel Þórarinsson

Ég hvet alla, sem lesa þessar línur, til að nota kosningaréttinn. Láttu engan halda því fram að þú hafir ekkert vit á þessum málum eða að atkvæði þitt skipti ekki máli. Taktu eftir því hverju þú veitir athygli, það hjálpar þér að sjá hvað má betur fara í samfélagi okkar og hverju þú myndir vilja breyta.

Okkur er tamt að tala um hin ýmsu kerfi, sem skipta okkur máli og lita umræðuna fyrir kosningar. Nægir að nefna heilbrigðiskerfið, menntakerfið, fjármálakerfið og húsnæðiskerfið. Margir hafa skoðanir á þessum kerfum og mynda sér skoðun eftir því hvaða flokkur er metinn líklegastur til að ná því fram sem við viljum.

Við skulum því skoða þessi kerfi aðeins nánar. Ég viðurkenni fúslega að þær niðurstöður, sem ég hef komist að, lita það sem ég skrifa. Ef þú ert mér ósammála er það bara í góðu lagi. Kíkjum fyrst á heilbrigðiskerfið. Við þurfum öll á þvì að halda og verulegur hluti ríkisútgjaldanna rennur í þetta kerfi og þeim mun meiri ástæða er til að vanda sig. Margir vilja byggja upp nýjan landspítala með því að gera upp þann gamla við Hringbraut en það vill minn flokkur ekki. Hann vill halda honum gangandi en fara strax að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Spítala þar sem stuðst er við nýjustu tækni og framþróun í læknisfræði. Spítala sem er í fallegu umhverfi með greiðar samgönguæðar til allra átta. Spítala sem býður upp á eins góðan aðbúnað fyrir sjúklinga og hægt er en er jafnframt fallegur og eftirsóknarverður vinnustaður. Og er auk þess ódýrari lausn þegar allt er talið. Flokkurinn minn er líka mótfallinn þeirri stefnu að minnka og minnka læknisþjónustu út um land og beina meiru og meiru á landspítalann, sem ræður ekki við álagið og kostnaður sjúklinga verður margfaldur á við það sem gæti verið ef þjónustan biðist nær heimabyggð.

Lítum nú aðeins á menntakerfið. Allir eiga að verða stúdentar og fara í háskóla. Þetta hentar sumum en langtífrá öllum og þetta hentar þjóðfélaginu alls ekki. Flokkurinn, sem ég styð vill því auka áhersluna á iðn- og tækninám bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi. Hann vill líka bæta fjárhagsstöðu námsmanna, svo að fólk sé ekki í skuldafjötrum að námi loknu. Flokkurinn vill þess í stað taka upp norræna kerfið, sem er blanda af styrk og láni.

Húsnæðiskerfið er oft fyrsta kerfið, sem mætir fólki þegar það líkur námi. Hvernig er unnt að gera ungu fólki auðveldara að kaupa fyrstu fasteign? Mikilvægasta skrefið er að lækka vexti og afnema verðtryggingu á lánum unga fólksins. Þar erum við í raun komin inn í síðasta kerfið, sem ég ætlaði að fjalla um, fjármálakerfið.

Sá flokkur, sem ég aðhyllist, telur að endurskipulagning fjármálakerfisins sé mikilvægasta forsendan fyrir því að okkur takist það sem við viljum í hinum kerfunum. Til að það takist þarf líka skíra sýn og styrka pólitíska stjórn. Verkið er stórt að vöxtum og innifelur m.a.

  • Minnka bankana með því að greiða út úr þeim umfram eigið féð í ríkissjóð.
  • Selja Íslandsbanka erlendum banka, sem tilbúinn er að koma inn á markaðinn hér og veita samkeppni í a.m.k 10 ár.
  • Nýta forkaupsréttinn að Arion banka og selja 1/3 í útboði, ríkið haldi 1/3 fyrstu árin en 1/3 verði deilt út til þjóðarinnar, hvers einasta einstaklings
  • Stofna dótturbanka Landsbankans, netbanka með lágmarks yfirbyggingu til að auka samkeppni og bjóða einstaklingum og smærri fyrirtækjum betri kjör á húsnæðislánum og fjármögnun.
  • Setja Seðlabankanum ný lög sem stuðli að aukinni samkeppni á bankamarkaði.
  • Lífeyrissjóðirnir hætti að halda uppi háu vaxtastigi á Íslandi og fari að vinna fyrir sér í útlöndum.

Markmiðin með öllum þessu viðamiklu breytingum eru m.a. :

Eðlilegt vaxtastig – Stöðugleiki – Kerfið þjóni almenningi – Betri húsnæðismarkaður – Fleiri og betri störf -Aukin nýsköpun og verðmætasköpun.

Auk þessara kerfa vill flokkurinn minn sinna þörfum eldri borgara með hækkun lágmarkslìfeyris svo hann tryggi tekjur, sem hægt er að lifa á og gera starfslokaaldur sveigjanlegan eftir óskum hvers og eins.

Rúsínan í pylsuendanum er þó enn ótalin. Flokkurinn minn vill að landið allt virki, ekki bara hlutar þess. Það er langt mál að fara í saumana á þeirri framtíðarsýn. Ég eftirlæt þér að kynna þér hana.

Allt þetta segist flokkurinn minn ætla að gera og hann mun standa við það. Ef þér líst vel á það, sem ég hef rakið hér að ofan ert þú velkomin/velkominn í hópinn hjá flokknum mínum, sem er Miðflokkurinn, en ef ekki skaltu kjósa einhvern annan. Þannig hefur þú áhrif á framtíð okkar, þú hefur það ekki ef þú situr heima.

Daníel Þórarinsson

Eitt stöðugildi í hættu

Starfsmenn Náttúrustofunnar við rannsóknir á Látrabjargi.

Eitt stöðugildi hjá Náttúrustofu Vestfjarða er í hættu verði boðaður niðurskurður fjárlagafrumvarpsins að veruleika. „Í frumvarpinu á að skera niður til okkar um 10,1 milljón króna milli ára,“ segir Nancy Bechtloff, forstöðumaður Náttúrustofunnar. „Þetta þýðir að eitt stöðugildi við stofuna er í hættu,“ segir hún. Frá árinu 2008 hefur Náttúrustofan fengið aukafjárveitingu á hverju ári sem var ákveðin með Vestfjarðanefndinni sem skilaði tillögum 2007. Nancy segir að aukafjárveitingin hafi verið notuð til að halda úti starfsstöð með einu stöðugildi á Bíldudal.

Nancy Bechtloff.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lagði fjárlagafrumvarpið fram stuttu áður en ríkisstjórnin sprakk og óvissa er um örlög frumvarpsins þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum að loknum kosningum á laugardaginn.

Framlög ríkissjóðs til Náttúrustofunnar voru 29,3 milljónir króna á síðasta reikningsári og er því um þriðjungs niðurskurð að ræða.

Að sögn Nancy komu tíðindin í fjárlagafrumvarpinu eins og köld vatnsgusa framan í starfsmenn Náttúrustofunnar og hún óttast að enn meiri niðurskurður sé í kortunum. „Í fylgiriti með fjárlögum lítur út fyrir að það eigi að skera niður til náttúrustofanna í landinu á næstu árum,“ segir Nancy.

smari@bb.is

Rautt, grænt eða blátt?

Tölvuteikning af raðhúsinu sem á að byggja á Bíldudal.

Eins og áður hefur verið greint frá ætlar Íslenska kalkþörungafélagið ehf. á Bíldudal að reisa raðhús með átta smáíbúðum í þorpinu. Fyrirtækið hefur fengið úthlutað lóð við leikskólans á Tjarnarbraut. Það er eistneska byggingafyrirtækið Akso-Haus sem framleiðir húsið og annast mun uppsetningu þess á staðnum. „Hafa Bílddælingar skoðun á því hvaða litur þeim finnist að færi best á húsinu þegar þar að kemur, rauður, grænn, blár …?“ segir á Facebooksíðu kalkþörungafélagsins.

smari@bb.is

Byggðamál

Byggðamál snúast fyrst og fremst um að byggja upp innviði í landsbyggðunum. Gott vegasamband tryggir  vöru og þjónustu að og frá landsbyggðunum og treystir atvinnuuppbyggingu. Samgöngur í lofti og á sjó tryggir enn betur öryggi íbúa landsbyggðanna. Öruggt raforkukerfi treystir viðgang atvinnulífsins. Gott fjarskiptakerfi stuðlar að jafnari stöðu allra íbúa til orðs og æðis. Traust heilbrigðis- og velferðarkerfi er öllum nauðsynlegt sem og aðgengi að góðu menntakerfi. Sauðfjár- og hrossabúskapur skapar festu í mörgum byggðum.

Það sem liggur fyrir ef við meinum eitthvað með að byggð verði sem víðast í landinu er að:

  • Treysta vegasamband umhverfis landið og milli byggða.
  • Koma á verðjöfnunarkerfi í flutningum
  • Efla flugsamgöngur með því að styrkja innanlandsflug til fleiri staða
  • Efla fjarskiptasjóð til að flýta fyrir öruggari tengingu í byggðunum
  • Stórefla heilsugæsluna þar sem rekstrarformið þarf ekki að vera bitbein
  • Viðurkenna að sauðfjárbúskapur er byggðamál og beina stuðningi við greinina í þá átt.
  • Veita meira fé til skógræktar, landgræðslu og landbóta

Við verðum að vera opin fyrir því að sumar nýframkvæmdir í vegagerð þarf að fjármagna með notendagjöldum. Við vitum að tekjur ríkissjóðs duga ekki til að fjármagna það allt saman. Fyrir utan það hvað það er mikilvægt að umferðaröryggis er gætt þá er tómt mál að tala um að viðhalda byggð sem víðast nema að vegasamband umhverfis landið og milli byggða er sem traustast.  Það hvað er t. d. dýrt að byggja í landsbyggðunum utan höfuðborgarsvæðisins kallar á verðjöfnun í flutningum. Það hefur sýnt sig nú þegar þýðing ljósleiðaratengingar víða um dreifbýlli hluta landsins og er alls ekki eins dýrt og ætla mátti. Það er því vel varið fjármagn sem í þetta hefur farið og mætti auka. Við verðum líka að hraða styrkingu dreifikerfis rafmagns með því að endurnýja það hraðar en t.d. Rarik stefnir að. Til þess þarf meira fjármagn en dreififyrirtækin geta sett í verkefnið. Ég hygg að allir skilji að við verðum að hafa eitt sjúkrahús sem þjónar öllu landinu við greiningu og meðhöndlun margra sjúkdóma. Það er því ekki bara nauðsynlegt að tryggja Landsspítalanum nægt rekstrafé heldur þarf að skoða allt heilbrigðiskerfið í heild sinni. Í því sambandi þarf að tryggja að allir íbúar geti notið kerfisins óháð búsetu. Þannig þarf að stórauka fjármagn til sjúkraflutninga og ferðastyrkja til íbúa sem þurfa að fara um langan veg til að sækja þjónustu. Stofnanir og fyrirtæki hins opinbera eiga að koma á móts við starfsfólk sitt sem þarf að sækja sér sérfræðiaðstoðar þannig að starfsfólkið verði ekki að taka þetta sem orlof. Gera verður samninga við fyrirtæki á almenna markaðinum sem tryggir að þeirra starfsfólk þurfi ekki að klípa af orlofi sínu vegna þessa. Heilsugæsluna þarf að stórefla um allt land líka á höfuðborgarsvæðinu og það er ekkert nauðsynlegt að hún sé öll rekin af ríkinu. Yfirleitt er landbúnaður tengdur við byggðamál, ekki síst sauðfjárræktin. Í núgildandi samningi er sett fjármagn til svæðisbundins stuðnings (8. gr.). Þá er samkvæmt samningnum heimilt að færa stuðningsgreiðslur milli liða. Ég sé ekki annað en að sauðfjárrækt og hrossarækt eru samofin við byggð í mörgum landsbyggðum en skipta minna máli í öðrum byggðum. Það er því óhjákvæmilegt að viðurkenna það að stuðningur við þessar búgreinar geta verið mismunandi eftir landsbyggðum. Skógrækt, landgræðsla og landbætur ýmiskonar eru líka byggðamál. Í ljósi þess að við erum aðilar að Parísarsamkomulaginu um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda tel ég að það er tiltölulega ódýr leið fyrir ríkið að stórauka fjármagn til þessara málaflokka.

Það er ljóst að það kostar að viðhalda byggð sem víðast, en eru kostirnir ekki mun meiri en gallarnir? Hvernig á að fjármagna allt þetta er efni í aðra grein og snýr að tekjum ríkissjóðs og hvernig þeirra er aflað.

Gunnar Rúnar Kristjánsson, bóndi

Skipar 5 sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi

Aukið eldi í Skutulsfirði háð umhverfismati

Frá kvíum Hábrúnar.

Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að fiskeldisfyrirtækið Hábrún ehf. á Ísafirði er háð umhverfismati vegna aukinnar framleiðslu fyrirtækisins á regnbogasilungi og þorski í Skutulsfirði. Hábrún ehf. áformar að auka framleiðslu sína í allt að 1.000 tonn, skipt á 900 tonn af regnbogasilungi og 100 tonn af þorski. Fyrirtækið og forveri þess hefur stundað eldi í firðinum síðan 2002.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguðframleiðsluaukning Hábrúnar ehf. í allt að 1.000 tonna eldi á þorski og regnbogasilungi í Skutulsfirði, geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því er framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

smari@bb.is

Hvað ætlar þú að kjósa

.

bb.is stendur nú fyrir könnun á síðunni og eru lesendur hvattir til að taka þátt í þessum vinsæla og skemmtilega samkvæmisleik. Könnunin verður opin til miðnættis á föstudag.

Nýjustu fréttir