Síða 2117

50 milljónir til úthlutunar

Aldrei fór ég suður tónlistarhátiðin er dæmi um menningarverkefni sem hefur notið góðs af uppbyggingarsjóðnum.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Úr sjóðnum eru veittir styrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna, menningarverkefna og stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana. Til úthlutunar árið 2018 eru um 50 milljónir króna og er gert ráð fyrir einni úthlutun. Tekið hefur verið í notkun nýtt rafrænt umsóknarkerfi sem nú er að mestu samræmt fyrir landið allt. Umsóknarfrestur er til miðnættis 21. nóvember.

Við ákvörðun um úthlutun verður sérstaklega litið til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:

  • Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu
  • Verkefni sem stuðla að vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum
  • Verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar
  • Verkefni sem efla samstarf, ýmist á milli svæða, listgreina, fyrirtækja eða rannsóknaraðila
  • Verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu
  • Verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur og ungt fólk á svæðinu
  • Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem eru gjaldeyrisskapandi
  • Atvinnuþróunarverkefni sem eru á sviði líftækni

Uppbyggingarsjóður er hluti af sóknaráætlun Vestfjarða og í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann veitir styrki til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015.

Minna atvinnuleysi á landsbyggðinni

Alls eru 4.500 án at­vinnu á Íslandi og mæld­ist at­vinnu­leysi 2,2% á þriðja árs­fjórðungi sam­kvæmt nýjum tölum Hag­stofu Íslands. Atvinnuleysi er minna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Á þriðja árs­fjórðungi 2017 voru að jafnaði 198.600 manns á aldr­in­um 16–74 ára á vinnu­markaði. Af þeim voru 194.300 starf­andi og 4.300 án vinnu og í at­vinnu­leit. At­vinnuþátt­taka var 82%, hlut­fall starf­andi 80,2% og at­vinnu­leysi 2,2%. Fjöldi starf­andi stóð í stað frá þriðja árs­fjórðungi 2016 og hlut­fall starf­andi af mann­fjölda lækkaði um 2,1 pró­sentu­stig, seg­ir í frétt Hag­stofu Íslands.

Á sama tíma fækkaði at­vinnu­laus­um um 900 manns og hlut­fall at­vinnu­lausra af vinnu­afli lækkaði um 0,5 pró­sentu­stig. At­vinnu­laus­ar kon­ur voru 2.300 og var at­vinnu­leysi á meðal kvenna 2,5%. At­vinnu­laus­ir karl­ar voru 2.000 eða 1,9%. At­vinnu­leysi var 2,5% á höfuðborg­ar­svæðinu og 1,5% utan þess.

Samgöngufélagið gefur skilti

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð og Jónas Guðmundsson með skiltið góða.

Bílafloti landsmanna rafvæðist hraðar en nokkurn óraði fyrir þó að rafmagnsbílar séu enn í miklum minnihluta. Rafmagnsbílarnir verða langdrægari með hverju árinu og hægt en bítandi byggist upp net hleðslustöðva á landinu. Fyrr á árinu fékk Vesturbyggð hleðslustöð að gjöf frá Orkusölunni og er stöðin staðsett fyrir utan íþróttamiðstöðina Bröttuhlíð á Patreksfirði. Í vikunni kom Jónas Guðmundsson sýslumaður færandi hendi með skilti til að merkja stöðina, en skiltið er gjöf frá Samgöngufélaginu sem Jónas er í forsvari fyrir.

Hamarsmenn koma í heimsókn

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Vestri mætir Hamri í 1. deild karla á heimavelli á morgun föstudaginn. Hamarsmenn eru með öflugt lið og voru nálægt því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild á síðasta tímabili. Vestramenn eru enn taplausir á heimavelli og eru staðráðnir í verja þann árangur með kjafti og klóm gegn Hamri. Þetta verður síðasti heimaleikurinn í bili og næsti leikur verður ekki fyrr en 1. desember og upplagt fyrir stuðningsmenn Vestra að fjölmenna og styðja við bakið á strákunum sem eiga það svo sannarlega skilið eftir góða byrjun í deildinni.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og að vanda verður fírað upp í grillinu fyrir leik og boðið upp á hina annáluðu hamborgara.

Gul viðvörun á Ströndum

Viðvörunarkerfið á vef Veðurstofunnar.

Gul viðvör­un er í gildi á Ströndum og Norðvesturlandi fram undir kvöld, en þar er hvöss sunnanátt með vind­hviðum yfir 30 m/​s við fjöll. Líkt og greint var frá í gær hef­ur Veður­stof­an tekið upp lita­kort með veðurviðvörunum og eru viðvaranirnar í gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika veðurs. Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða.

Annars staða á Vestfjörðum verður hægari suðvestanátt í dag, 8-15 m/s með skúrum og hægir í kvöld. Hiti 1 til 8 stig.

Neyðarkall björgunarsveitanna

Í dag hefst árlegt fjáröflunarátak Landsbjargar og stendur fram á laugardag. Björgunarsveitarmenn um allt land munu að vanda selja neyðarkallinn sem í ár er vélsleðakall. Hagnaður af sölunni rennur til björgunarsveita, slysavarnadeilda og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er hann notaður til að efla og styrkja starfið.

Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu.

Veruleg skerðing á óbyggðum víðernum

Fossinn Drynjandi í Hvalá.

At­huga­semd­ir bár­ust frá sex­tán aðilum og um­sagn­ir frá ell­efu stofn­un­um og sveit­ar­fé­lög­um vegna breytinga á skipulagi Árneshrepps. Skipulagsbreytingarnar snúa fyrst og fremst að gerð vinnu­vega um hið fyr­ir­hugaða virkj­un­ar­svæði á Hvalárvirkjunar á Óeigs­fjarðar­heiði, efn­is­nám­um og upp­setn­ingu vinnu­búða. Veg­irn­ir eru hugsaðir til frek­ari rann­sókna á svæðinu.

Landvernd er meðal þeirra sem gerir athugasemdir við aðalskipulagsbreytingar í Árneshreppi og segir að þær uppfylli ekki skilyrði náttúruverndarlaga þar sem engir almannahagsmunir krefjast röskurnar á náttúruverðmætum.

Fyr­ir­hugað virkj­un­ar­svæði er 265,5 fer­kíló­metr­ar, auk helg­un­ar­svæðis raflínu og Ófeigs­fjarðar­veg­ar. Vinnu­veg­irn­ir yrðu sam­tals 25 kíló­metr­ar að lengd. Þeir yrðu lagðir frá Ófeigs­fjarðar­vegi sunn­an Hvalár að Neðra Hvalár­vatni og þaðan að Neðra-Ey­vind­ar­fjarðar­vatni ann­ars veg­ar og ánni Rjúk­anda hins veg­ar. Þá er gert ráð fyr­ir nýj­um efnis­töku­svæðum í tengsl­um við veg­ina. Tvö yrðu á lág­lendi við Hvalárósa og eitt vest­an meg­in við Neðra-Hvalár­vatn, þ.e. uppi á Ófeigs­fjarðar­heiðinni. Sam­kvæmt skipu­lagstil­lög­un­um nú er einnig gert ráð fyr­ir tíma­bundn­um starfs­manna­búðum fyr­ir þrjá­tíu manns.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er einnig vísað í náttúrverndarlög og stofnunin bendir á að óbyggð víðerni inn­an Árnes­hrepps á Strönd­um myndu skerðast veru­lega eða um allt að 180 fer­kíló­metra við gerð vinnu­vega og efn­is­náma um fyr­ir­hugað virkj­ana­svæði Hvalár­virkj­un­ar. Skerðing víðerna myndi aukast um 40-60 km² kæmi til upp­bygg­ing­ar virkj­un­ar­inn­ar. Samkvæmt náttúrverndarlögum á að standa vörð um óbyggð víðerni en þeim fer fækkandi og Umhverfisstofnun segir að þar með ætti verðmæti þeirra svæða sem eft­ir eru að aukast í sam­ræmi við það og rík­ari áhersla að vera á lögð á vernd þeirra.

Lestrarfélagið fyrr og nú

Bókasafnið í gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík.

Í Vísindaporti föstudagsins í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um lestrarfélög í Sléttuhreppi fyrr og nú. Andrea Harðardóttir sagnfræðingur og Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, flytja erindið saman en þær eru báðar ættaðar frá Horni í Sléttuhreppi og hafa dvalist þar mikið í gegnum tíðina.

Undir lok 19. aldar var lestrarfélag stofnað í Sléttuhreppi. Starfsemin virðist hafa lognast út af fljótlega en upp úr aldamótunum 1900 var það endureist og starfaði á meðan að hreppurinn var í byggð. Sumarið 2016 var sett upp bókasafn í Gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík. Tilgangurinn með því var m.a. sá að endurvekja starfssemi gamla lestrarfélagsins að einhverju leyti. Í erindinu verður sagt frá því því hvernig sú hugmynd kom upp að endurreisa lestrarfélagið og hvert markmiðið með því sé.

Jóna Benediktsdóttir er aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði en starfar í vetur sem skólastjóri. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi en eiginmaður hennar, Henrý Bæringsson frá Sæbóli í Aðalvík.  Á sumrin dvelja þau iðulega á Sæbóli eða á Horni í sumarhúsum fjölskyldna sinna.

Andrea S. Harðardóttir er sagnfræðingur og sögukennari við Menntaskólann á Ísafirði. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi og dvelur þar reglulega á sumrin í sumarhúsi fjölskyldunnar.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir.

Oftast strikað yfir nafn Ásmundar Einars

Ásmundur Einar Daðason

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi, var oft­ast strikaður út í þing­kosn­ing­un­um á laug­ar­dag­inn miðað við þrjá efstu fram­bjóðend­ur eða sam­tals 105 sinn­um. Þetta kem­ur fram í upp­lýs­ing­um frá yfir­kjör­stjórn kjör­dæm­is­ins. Næst­ur kem­ur Guðjón S. Brjáns­son, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, með 48 út­strik­an­ir.

Bjarni Jóns­son, annar maður á lista Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, kem­ur þar næst með 40 út­strik­an­ir og síðan Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, odd­viti VG, með 39 út­strik­an­ir. Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðislflokksins, var strikaður út 35 sinnum.

Stefán Vagn Stef­áns­son, þriðji maður á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins var strikaður 19 sinn­um út, Rún­ar Gísla­son, þriðji maður á lista VG, 17 sinn­um og sama á við um Teit Björn Ein­ars­son, þriðja mann á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins.

 

Fimmtán strikuðu yfir nafn Höllu Sig­nýj­ar Kristjáns­dótt­ur, sem var önn­ur á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins, og sama á við um Bergþór Ólason, odd­vita Miðflokks­ins. Nafn Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reykjfjörð Gylfa­dótt­ur, sem var önn­ur á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins, var strikað út 14 sinn­um.

Fjór­ir strikuðu út nafn Sig­urðar Páls Jóns­son­ar, ann­ars manns á lista Miðflokks­ins, og jafn­marg­ir nafn Örnu Láru Jóns­dótt­ur, sem var önn­ur á lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Þá strikuðu þrír út nafn Jón­ínu Bjarg­ar Magnús­dótt­ur, sem var þriðja á lista sama flokks.

Andri Rúnar í sænska boltann

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er að öllum líkindum á leið til sænska B-deildarliðsins Helsingborgar frá Grindavík. Andri Rúnar átti hreint stórkostlegt tímabil í sumar og markakóngur Pepsí-deildarinnar og var valinn besti maður deildarinnar. Hann segir í samtali við Vísi að viðræður séu á lokastigi en samningur hans við Grindvíkinga er að renna út. „Það er mjög líklegt. Viðræður við þá eru á lokastigi. Hvað varðar fótboltafræðin finnst mér þetta mest spennandi kosturinn sem er í boði,“ segir Andri Rúnar við Vísi.

Helsinborg er í sjötta sæti sænsku B-deildarinnar þegar að ein umferð er eftir.

Nýjustu fréttir