Síða 2116

Þrír nýir í Norðvesturkjördæmi

Kjörstaðir verða opnaðir eftir tæpan sólarhring.

Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur 24,5 prósent fylgi í landsvísu í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið og birtist í blaðinu í dag. Vinstri græn eru næst stærst með 20,2 prósent og Samfylkingin kemur þar á eftir með 15,3 prósent fylgi. Þar fyrir neðan er þéttur pakki flokka sem eru undir 10 prósentum. Miðflokkurinn er þeirra stærstur með 9,3 prósent fylgi, þá Píratar með 8,8 prósent. Viðreisn fær 8,3 prósent í könnuninni og Framsóknarflokkur 7,9 prósent. Flokkur fólksins nær ekki manni á þing með sín 4,2 prósent og Björt framtíð rekur lestina með 1,3 prósent.

Horft á Norðvesturkjördæmi þá mun Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, falla af þingi og Framsóknarflokkurinn tapar einu þingsæti í kjördæminu. Bjarni Jónsson nær kjöri sem annar þingmaður Vinstri grænna og sömuleiðis nær Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason inn á þing. Þá verður Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknarflokksins en hann er gjörkunnugur kjördæminu eftir setu á fyrri þingum bæði fyrir Framsóknarflokk og Vinstri græna. Að öðru leyti verður þingmannahópurinn eins skipaður.

smari@bb.is

Þokkalegasta kosningaveður

Það ætti ekki vera vandamál að safna saman atkvæðum á morgun.

Það er leiðindaslagveður í kortunum í dag en á morgun lygnir, að minnsta kosti hér vestan til og þurrt en það er farið að kólna þó ekki sé þetta dæmigert októberveður.

Veðurspámaður á vedur.is segir að það verði suðvestan 15-25 m/s, hvassast norðan til og á Suðausturlandi. Rigning framan af degi, en dregur síðan úr vindi og úrkomu, fyrst norðvestanlands. Vestlæg átt, 5-10 m/s síðdegis og úrkomulítið, en léttir til austanlands í kvöld. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast austan til.

Norðan 8-15 á morgun, hvassast á annesjum. Skýjað með köflum N- og A-lands og él á stöku stað, en annars yfirleitt léttskýjað. Kólnar í veðri og frost víða 0 til 5 stig um kvöldið.

bryndis@bb.is

Vestri og Fjölnir á Jakanum

Vestramenn eru staðráðnir í að halda sigurgöngunni á heimavelli áfram.

Í kvöld mæta Fjölnismenn á Jakann (íþróttahúsið á Torfnesi) í fimmtu umferð Íslandsmótsins í 1. deild. Vestri er enn ósigraður á heimavelli og Vestramenn ætla ekki að gefa það eftir á morgun. Heimamenn eru í þriðja sæti deildarinnar og Fjölnir vermir fimmta sætið. Fjölnismenn eru með ungt og sprækt lið sem er til alls líklegt auk þess sem þeir eru með mjög góðan Bandaríkjamann innan sinna raða. Þá má ekki gleyma að þjálfarinn Falur Harðarson er enginn aukvisi og má því reikna með spennandi leik á morgun.

Leikurinn hefst að vanda kl. 19.15 og grilluðu hamborgararnir verða á sínum stað fyrir leik.

smari@bb.is

Syngjandi flakkari í Gallerí Úthverfu

Á laugardaginn opnar Bjargey Ólafsdóttir sýninguna Syngjandi flakkarinn (tilgangsverkefnið) í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. ,,Fyrir nokkrum árum hitti ég miðil í Buenos Aires. Hún féll í trans og sagði mér að í einu af mínum fyrri lífum hefði ég verið einmana hirðingi sem reikaði um sléttur Síberíu,“ segir Bjargey um sýninguna og bætir við að miðillinn hafi ennfremur sagt að tilgangur núverandi jarðvistar hennar væri að syngja og teikna. „Ef ég myndi einbeita mér að því að syngja og teikna þá myndi ég verða hamingjusöm mannvera og gera aðra hamingjusama. Verkin teiknaði ég syngjandi í gestavinnustofu Nordic Art Association-Malongen í Stokkhólmi sumarið 2017 og sýndi þau fyrst í verkefnarými NKF,“ segir hún.

Bjargey Ólafsdóttir býr og starfar að list sinni í Reykjavík. Hún nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands sem og Myndlistarakademíuna í Helsinki. Hún nam ljósmyndun við Aalto University í Helsinki og kvikmyndagerð við Binger Filmlab í Amsterdam.  Listsköpun Bjargeyjar Ólafsdóttur er ekki bundin við einn listmiðil heldur velur hún sér þann miðil sem henni finnst henta hugmyndinni best hverju sinni. Bjargey fæst við kvikmyndagerð, hljóðverk, gjörninga, teiknar, málar og ljósmyndar.

smari@bb.is

Nýtum kosningarétt okkar

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Tveir dagar í kosningar. Kosningar sem komu nokkuð óvænt til okkar og rifu okkur upp að værum blundi. Mörgum finnst þeir ekki hafa verið teknir alvarlega þegar þeir settu krossinn með sannfæringu á kjörseðilinn fyrir ári.  Hvað er þá til ráða?

Hér í NV kjördæmi höfum við úr að velja níu framboðum sem bjóða fram krafta yfir hundruð einstaklinga, öll til góðra verka skulum við halda. Það er úr vöndu að ráða. Það sem fólk kallar eftir er stöðuleiki í stjórnmálum, fólk setjist niður og hefji samtal um hvernig hægt sé að ná góðum árangri og að þjóðarskútan fari nú að sigla lygnan sjó.
Það er augljóst að núna í þessum kosningum er horft til Framsóknarflokksins sem sterkt afl til að koma inn í ríkisstjórn sem hefur það að leiðarljósi að horfa fram og vera þátttakandi í pólitísku samtali inn á Alþingi. Það hefur sýnt sig í umræðunni undanfarna daga að fólk ber mikið traust til  Sigurðar Inga og Lilju Alfreðsdóttur til góðra verka, því er mikilvægt að þau fái öflugt fylgi inn á þing .

Byggðamál

Það er mjög mikilvægt að kjördæmin eigi sterkar raddir sem skila þeim baráttumálum sem að okkur snúa inn í umræðuna. Hvert landssvæði hefur ákveðna sérþarfir og það er ljóst að við þurfum kröftuga raddir til að standa fyrir þeim. Við erum óhrædd við að benda á að það sérstakar aðgerðir í byggðarmálum að norskri fyrirmynd. Lægri skattar þeirra sem búa á ákveðnum skilgreindum stöðum á landsbyggðinni og líka við viljum fella niður afborgun námslána fyrstu fimm árin fyrir þá sem eru búsettir  á landsbyggðinni.  Þetta eru alvöru hugmyndir sem við viljum tala fyrir.

Hverjar eru kröfur kjósenda til okkar?

  • Við eigum að hlusta.
  • Við eigum að þora.
  • Við eigum að vera áræðin.
  • Við eigum að vera með.

Ég býð mig fram til þátttöku og treysti á að atkvæði þitt kæri kjósandi skili mér inn á Alþingi. Þar sem ég legg mig fram við að taka þátt í samtali og skila rödd okkar inn á Alþingi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Þriggja prósenta atvinnuleysi

Alls voru 3% vinnu­færa ein­stak­linga á Íslandi án at­vinnu í sept­em­ber. Þetta er niðurstaða vinnu­markaðsrann­sókn­ar Hag­stofu Íslands. Sam­kvæmt Vinnu­mála­stofn­un er skráð at­vinnu­leysi í sept­em­ber var 1,8% og minnkaði um 0,1 pró­sentu­stig frá ág­úst. Að meðaltali fækkaði um 158 manns á at­vinnu­leys­is­skrá frá ág­úst.

„Sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stofu Íslands voru að jafnaði 193.500 manns á aldr­in­um 16–74 ára á vinnu­markaði í sept­em­ber 2017, sem jafn­gild­ir 79,6% at­vinnuþátt­töku. Af þeim voru 187.700 starf­andi og 5.900 án vinnu og í at­vinnu­leit. Hlut­fall starf­andi af mann­fjölda var 77,2% og hlut­fall at­vinnu­lausra af vinnu­afli var 3%.

Sam­an­b­urður mæl­inga fyr­ir sept­em­ber 2016 og 2017 sýna að at­vinnuþátt­taka dróst sam­an um 2,7 pró­sentu­stig úr 82,3% í sept­em­ber 2016. Fjöldi starf­andi minnkaði um 1.600 manns og hlut­fall starf­andi af mann­fjölda lækkaði um 2,7 pró­sentu­stig. Fjöldi og hlut­fall at­vinnu­lausra stend­ur hins veg­ar í stað. Alls voru 49.700 utan vinnu­markaður og fjölgaði þeim um 7.800 manns frá því í sept­em­ber 2016 en þá voru þeir 41.900.

smari@bb.is

Félagslegt jafnrétti í þjóðfélaginu okkar

Isabel Alejandra Díaz

Í æsku þráði ég ekkert heitar en að verða lögfræðingur þegar ég yxi úr grasi. Mig dreymdi um að geta hjálpað fjölskyldum og börnum í sömu eða sambærilegum aðstæðum og ég ólst upp við, það er að segja óttann við að verða vísað úr landi. Mínir kæru Ísfirðingar vita flest allir hvers vegna ég lifði í þessum ótta. Þetta virkaði eins og einhver formgalli, mér var ekki leyfilegt að vera hérna vegna þess að ég bjó hjá afa og ömmu en ekki blóðforeldrum mínum.

Í sumar fylgdist ég með málum innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda úr fjarlægð. Þau mál hafa verið mikið í kastljósinu og fór ég að fylgjast betur með þeim þegar mér var bent á mál tveggja stúlkna sem vísa átti úr landi ásamt fjölskyldum sínum. Þó að aðstæður mínar og stúlknanna voru ekki þær sömu gat ég undir eins fundið til með þeim þar sem ég hafði sjálf búið við óvissu. Ég átti ekki eitt aukatekið orð yfir þeirri staðreynd að þetta væri að enn að henda börn, 17 árum eftir að ég upplifði þessa ósanngirni.

Mér ofbauð er ég heyrði að það kæmi ekki til greina að endurskoða mál sem „tilviljanakennt“ skutust upp í umræðunni. Afstaða  stjórnvalda var skýr eins og svo oft áður og það hræddi úr mér líftóruna. Ef það var ekki hægt að taka á þessu á „réttum forsendum“, var þá í það minnsta ekki hægt að gera það af mannúð, samúð, góðvild og umhyggju? Það var löngu vitað að búið var að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að Dyflinnarreglugerðin heimilaði en neyddi ekki stjórnvöld til þess að vísa fólki burt. Ástandið var komið fyrir neðan allar hellur og eitthvað þurfti að gerast til þess að breyta því.

Þá rakst ég á Unga jafnaðarmenn, ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, sem mótmæltu á friðsælan hátt á þingpöllum Alþingis, með borða er á stóð „Virðið barnasáttmálann“. Þetta var nákvæmlega það sem þurfti að gerast. Þetta er það sem þarf að gerast í hvert skipti sem börn eru svipt framtíð sinni og fullorðnir lífi sínu. Okkur ber að taka þátt í samfélaginu sem við búum í og stuðla að samheldni og berjast gegn öllu mótlæti.

Kemur þá að því að Samfylkingin leggur fram frumvarp um að veita stúlkunum og fjölskyldum þeirra ríkisborgararétt og í kjölfarið eru 23 þingmenn Alþingis flutningsmenn frumvarpsins. Svo fer allt eins og oft áður þegar kemur að stjórnmálum hér á landi og við sitjum eftir í óvissu, eina ferðina enn. Þó var dauf vonarglæta í öllu sem gekk á því þessi mál voru ekki gleymd. Samfylkingin ætlaði að leggja kapp á að frumvarpið yrði samþykkt fyrir kosningar. Þarna sá ég að þetta var eini flokkurinn sem hafði frumkvæði og áræði til þess að leggja áherslu á þessi mál af alvöru og vildi tryggja börnum á flótta almennilega og sanngjarna meðferð.

Nú horfir svo við að það eru yfir 40 mál í Dyflinnarmeðferð og efnislegri meðferð. 27. september síðastliðinn voru breytingar á útlendingalögum samþykktar en ekki er vitað yfir hve mörg börn þau lög munu ná. Svo við þurfum að gera betur, þessari baráttu er hvergi nærri lokið.

Þegar ég flutti suður ákvað ég að kynna mér starf Ungra jafnaðarmanna og stefnumál Samfylkingarinnar. Æskudraumarnir mínir höfðu tekið á sig nýja mynd, ég stefndi annað en í lögfræðina en vissi að ég gæti samt lagt mitt af mörkum. Það starf sem fer fram hjá Ungum jafnaðarmönnum talaði til mín og varð ég sannfærð um að ég vildi vera hluti af þessari hreyfingu. Mín persónulega reynsla og upplifun sem einstaklingur af erlendu bergi brotinn hefur leitt mig til opinberrar umræðu um almenn mannréttindi og þau brot sem eiga sér stað, þá sérstaklega í garð barna sem eru ekki að leita að neinu öðru en öryggi. Ég komst að því að þetta væri rétti vettvangurinn fyrir mig og í raun allra sem eru hlynntir félagslegu jafnrétti í þjóðfélaginu og almennum mannréttindum.

Þetta var mín nálgun að flokk jafnaðarmanna; þeirra sem vilja jafnrétti fyrir alla óháð kyni, aldri, uppruna og efnahag. Flokkur sem ætlar í sókn af fullum krafti og einlægni, sem hefur nú þegar sýnt sig og sannast.

Isabel Alejandra Diaz

Háskólanemi, verkefnisstjóri Tungumálatöfra og ungur jafnaðarmaður.

 Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Hver verður áttundi þingmaður kjördæmisins?

Það stefnir í æsispennandi kosninganótt í Norðvesturkjördæmi samkvæmt nýrri þingsætaspá Kjarnans. Línurnar eru óskýrari en þær voru í þingsætaspánni fyrir tveimur dögum. Í spánni eru gefnar upp líkur á kjöri hvers þingmanns. Mestu líkurnar fá Haraldur Benediktsson (100%), Lilja Rafney Magnúsdóttir (100%), Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (98%), Bergþór Ólason (88%), Guðjón S. Brjánsson (74%), Bjarni Jónsson (74%) og Ásmundur Einar Daðason (61%). Þá eru upptaldir sjö af átta þingmönnum og ljóst að hörkubaráttu verður um síðasta þingsæti kjördæmisins enda eru þrír frambjóðendur metnir með svipaðar líkur, þau Eva Pandóra Baldursdóttir (54%), Teitur Björn Einarsson (48%) og Magnús Þór Hafsteinsson (44%).

Þingsætaspáin byggir á 100 þúsund „sýndarkosningum“ og er aðferðafræðin sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna að fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum.

Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.

Mynd: Kjarninn

smari@bb.is

Viðreisn styður skosku leiðina í innanlandsflugi

Gylfi Ólafsson

Þegar rætt er um opinberan stuðning við samgöngur, er jafnan mest talað um vegsamgöngur. Vestfirðingar vita hinsvegar að flug er ekki síður mikilvægt, en þar hamlar hár kostnaður oft för.

Skoska leiðin felst í því að flug íbúa sem búsettir eru á svæðinu fá flugfargjöld niðurgreidd til helminga. Áfram munu ferðir á vegum fyrirtækja og ferðir ferðamanna vera á fullu verði. Markmiðið er að sú þjónusta sem ríkið niðurgreiðir á höfuðborgarsvæðinu, eins og leikhús og heilbrigðisþjónusta, sé ekki jafn óaðgengileg landsbyggðarfólki og hún er í dag. Einnig verði ódýrara að rækta vina- og fjölskyldutengsl.

Vinir og fjölskylda geta ráðið byggð

Slík niðurgreiðsla myndi henta íbúum á nær öllum Vestfjörðum, með ódýrara aðgengi að höfuðborgarsvæðinu í gegnum flugvellina á Ísafirði, Bíldudal og Gjögri.

 Ef litið er tíu ár aftur í tímann sést að farþegum til Ísafjarðar hefur fækkað mikið. Væntanlega má tengja þetta að hluta bættum samgöngum á landi og fækkun íbúa. Hitt er þó ljóst að það er mikilvægt að farþegafjöldi haldist hár svo tíðni flugferða geti verið að minnsta kosti sú sem hún er í dag.

Búseta í fámennum bæjum getur haft í för með sér fjarvistir frá vinum og skyldfólki. Reynslan frá Skotlandi bendir til þess að skoska leiðin auki samverustundir með vinum og fjölskyldu. Búsetuskilyrðin batna. Staðsetning og tengsl við vini og fjölskyldu eru nefnilega mikilvægir þættir í ákvörðun um búsetu.

 Viðreisn styður skosku leiðina

Á blaðamannafundi á sunnudaginn var kynnti Viðreisn áherslur sínar fyrir kosningarnar. Við höfum staðið við gefin loforð síðan í fyrra og teljum að enn þurfi að bæta í. Skoska leiðin er meðal áhersluatriða okkar. Skotið hefur verið á að kostnaðurinn sé á bilinu 6-800 milljónir, en nánari undirbúningur bíður nýrrar stjórnar. Við höfum kynnt hvernig við viljum fjármagna útgjöldin án skattahækkana eða á kostnað ábyrgrar hagstjórnar.

Gylfi Ólafsson oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

Enn og aftur kosningar ofan í Sviðaveisluna

Kiwanisklúbburinn Básar er heldur óhress með íslensk stjórnvöld sem endurtekið spilla þeirra árlegu sviðaveislu með kosningum og hvetur klúbburinn fólk til að velja rétt. Í tilkynningu frá klúbbnum segir:

„Annað árið í röð hafa íslensk stjórnvöld ruðst með miklu yfirgangi inn á okkar yndislega sviðaveisludag. Kiwanisklúbburinn Básar væntir þess að í framtíðinni muni stjórnvöld gæta sín betur og velja aðra dagasetningu fyrir sínar uppákomur en þennan allraheilaga dag. Við Básfélagar munum samt ekki láta svona yfirgang slá okkur út af laginu og höldum ótrauðir áfram. Veljum rétt! Veljum svið! Lifið heil.“

Klúbburinn mun því ekki bakka með sinn sviðaveisludag og kl. 19:00 á kjördag, 28. október, hefst veislan, refjalaust.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá sviðaveislu kjördagsins 2016

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir