Þriðjudagur 1. apríl 2025
Síða 2116

Halla Signý í ársleyfi

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Halla Signý Kristjánsdóttir, fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og nýkjörin þingmaður Framsóknarflokksins, hefur fengið ársleyfi frá störfum. Ósk um ársleyfi var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Bolungarvíkur í gær. Ásamt því að samþykkja beiðnina þakkar bæjarráð Höllu Signýju fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og óskar henni jafnframt til hamingju með kjör á Alþingi Íslendinga og velfarnaðar á þessum mikilvæga vettvangi.

Bæjarstjóra hefur verið falið að undirbúa drög að auglýsingu um starf fjármála- og skrifstofustjóra.

smari@bb.is

Vestfirðir fegurstir

Ketildalir í Arnarfirði. Mynd: Mats Wibe Lund.

Vísir fékk vel valinn hóp álitsgjafa til að velja fallegasta stað landsins. Margir álitsgjafanna áttu í erfiðleikum með að gera upp hug sinn á meðan aðrir þurftu varla að hugsa sig um. Vestfirðir heilluðu flesta álitsgjafanna, en Ásbyrgi, ein helsta perla Norðurlands, fylgir fast á hæla fjarðanna og í þriðja sæti kom hinn stórbrotni foss Dynjandi í Arnarfirði.

Þetta höfðu álitsgjafarnir að segja um Vestfirði:

„Náttúran, tenging við sjóinn, fjölbreytileikinn, mannlífið, tiltölulega ósnortið.“

„Ótrúlega fallegt að fljúga þar yfir og sjá fjöllin.“

„Að keyra eitthvað af þessum vegum og uppá heiði og sjá yfir alla firðina. Það er engu líkt.“

„Vestfirðir eru fallegasta svæði Íslands. Fjöllin umvefjandi fögur, hlý en einnig ógnvekjandi með sínu grjóthruni og snjóflóðum. Þar að auki hafið allt um kring. Þessi blanda er engu lík.“

„Það er erfitt að velja einhvern einn stað eða bæjarfélag á Vestfjörðum þegar kemur að fegurðarsamkeppni en landshlutinn er ein stór náttúruperla með sínu tignarlegu fjöllum og fjörðum. Suðureyri stal reyndar hjarta mínu í sumar svo ég nefni þann stað framar öðrum. Mögnuð orka þar!“

„Ég var orðin fullorðin þegar ég kom fyrst á Vestfirði og það var ást við fyrstu sýn. Náttúrufegurðin hvert sem litið er, fangar mann gjörsamlega. Rauðasandur, Látrabjarg, Skor, Þingeyri, Flateyri, Ísafjörður, hver staðurinn öðrum fallegri, umvefjandi náttúran og krafturinn.“

Um Dynjanda sögðu þeir:

„Dynjandi er alveg ótrúlegur foss, hann er hár, vatnsmikill, tignarlegur, ógurlegur, margbreytilegur og guðdómlega fallegur. Ég hef aldrei komið að Dynjanda án þess að fyllast auðmýkt gagnvart náttúrunni. Þess vegna skil ég ekki að hann sé ekki umsetinn af ferðamönnum, innlendum sem erlendum. En það er eins og lega hans, á útnára Íslands, Vestfjarðakjálkanum, geri það að verkum að fáir gefa sér tíma til að skoða hann náið. Það eru mikil mistök því þessi foss hefur vinningin margfalt yfir Gullfoss, Dettifoss og hvað þeir heita nú allir.“

„Þegar þú kemur að Dynjanda kemur þú að honum neðan frá, þú horfir sem sagt upp fossinn en ekki niður hann. En það sem Dynjandi býður upp á sem fæstir aðrir fossar gera er margbreytilega aðkomu því frá botninum getur þú unnið þig upp. Það eru um það bil 5 stallar sem auðvelt er að færa sig upp á fótgangandi og frá hverjum þeirra sérðu fossinn í algjörlega nýju ljósi. Það er eins og þú sért að skoða nýjan foss í hvert sinn. Stundum er hann ógurlegur, stundum mildur, stundum bjartur og stundum dimmur. Ég þreytist ekki á að skoða þennan foss. Algjört draumagull.“

„Flottasti foss á Íslandi. Hér fattar maður hve lítill maður í raun er. Magnaður staður.“

„Þvílík orka, þvílík fegurð, þvílík stærð!“

smari@bb.is

Verulegir annmarkar á kosningu kjörnefndar

Patreksfjarðarkirkja.

Biskup Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið á kosningu kjörnefndar Patreksfjarðarprestakalls sem hafði til meðferðar umsóknir um stöðu sóknarprests. Í ljós hefur komið að fjórir fulltrúar af ellefu hafi ekki verið kosnir á almennum safnaðarfundum eins og starfsreglur kveða á um heldur hafi þeir verið tilnefndir á sóknarnefndarfundum. Biskup álítur að þessi annmarki í meðferð málsins kunni geta ógilt skipun sóknarprests. Þess vegna hefur biskup ákveðið að auglýsa embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli að nýju.

Á vef Vestfjarðaprófastsdæmis segir að kjörnefnd Patreksfjarðarprestkalls hafi komið saman til fundar fimmtudaginn 26. október. Eftir að hafa farið yfir umsóknir og skýrslu matsnefndar og rætt við umsækjendurna tvo var kosið. Niðurstöður kjörsins og fundargerð voru send biskupi í tölvupósti.

Búist hafði verið við að biskup myndi afgreiða málið föstudaginn 27. október og þá yrði kunngjört hver yrði skipaður næsti sóknarprestur á Patreksfirði. Það gerðist ekki meðal annars vegna þess að upp kom vafi um hvort allir kjörnefndarfulltrúar væru réttilega kosnir. Þessi vafi er tilkominn vegna kærumála í Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Í starfsreglum, sem Kirkjuþing samþykkti, er kveðið á um að fulltrúar í kjörnefnd skuli kosnir á aðalsafnaðarfundi eða almennum safnaðarfundi. Svo virðist sem það sé ekki lögmætt að velja fulltrúa í kjörnefnd á fundi sóknarnefndar.

smari@bb.is

Litlar breytingar fram á sunnudag

Það verður norðaustanátt 8-13 m/s með éljum á Vestfjörðum í dag ,en minnkandi norðanátt í kvöld og styttir upp. Hæg breytileg átt og yfirleitt þurrt á morgun. Hiti um og undir frostmarki en frost 0 til 5 stig á morgun. Í hugleiðingum veðurfræðings er bent á að 983 mb lægð fer yfir landið í dag. Hún býður upp á breytilega átt og lítilsháttar ringingu á sunnanverðu landinu en snjókomu fyrir norðan. Í kvöld fer hún norðaustur af landinu og dýpkar heldur, þá snýst í norðanátt og hvessir austantil í 15-20 m/s. Áfram ofankoma og vægt frost norðanlands en léttir til fyrir sunnan með hita 1 til 6 stig.

Á morgun kólnar heldur og frystir víða sunnanlands. Ákveðin norðvestanátt austanlands og snjóar áfram með köflum þar, en léttskýjað og stöku skúr eða él á landinu sunnan- og vestanverðu.

Útlit er fyrir að veður af svipuðum toga haldist fram á sunnudag, en þá snýst í sunnanátt og fer að rigna á láglendi en snjóa til fjalla um landið sunnanvert en von á bjartviðri á Norðausturlandi.

smari@bb.is

 

Fengu fræðslu um femínisma og kynjafræði

Hanna Björg á sal skólans þar sem hún hélt fyrirlestur um jafnréttismálin fyrir nemendur. Mynd: Emil Emilsson

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í kynjafræði við Borgarholtsskóla, hélt skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur fyrir nemendur um feminisma og kynjafræði á sal Menntaskólans á Ísafirði í síðustu viku. Hún hélt síðan námskeið fyrir starfsfólk skólans um þessi sömu fræði síðar um daginn.

Fjallað var um jafnréttishugtakið út frá víðu sjónarhorni þ.á.m. valdamisvægi á milli hópa, hæfnina til að setja sig í spor annarra, mikilvægi góðra fyrirmynda og einnig þess að virðing verði borin fyrir öllum, staðalmyndir, kynverund, kynjaskekkjur, uppeldi og mótun, klám og klámvæðingu og síðast en ekki síst áhrif kynlífsvæðingarinnar á kynin. Sköpuðust miklar, gefandi og skemmtilegar umræður meðal nemenda og starfsfólks skólans.

 

Boðar til fundar um verndaráætlun Hornstrandafriðlandsins

Hornbjarg.

Umhverfisstofnun hvetur landeigendur, hagsmunaaðila og aðra sem hafa áhuga á Hornstrandafriðlandinu að kynna sér gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið. Stofnunin heldur fund um áætlunina á Ísafirði í næstu viku. Markmið fundarins er að upplýsa íbúa, hagsmunaaðila og landeigendur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið og kalla eftir skoðunum heimamanna um þau málefni sem fjallað verður um í áætluninni. Stjórnunar- og verndaráætlunin er samkvæmt lögum um náttúruvernd en í þeim segir meðal annars:

„Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjallað um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Ef ekki hafa verið settar sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á viðkomandi svæði í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að setja slíkar reglur í stjórnunar- og verndaráætlun svo og reglur um önnur atriði.“

Fundurinn verður í Háskólasetrinu á Ísafirði á miðvikudag eftir viku kl. 17-19.

Jafnframt verður fundur fyrir landeigendur haldinn í Reykjavík þann 23. nóvember.

smari@bb.is

Fagna opnun veiðisvæða

Mynd úr safni

Sam­tök drag­nóta­manna fagna opn­un veiðisvæða fyr­ir drag­nót á norðan­verðu land­inu. Ekki eru all­ir á eitt sátt­ir um þessa opn­un eft­ir að svæðin höfðu verið lokuð í nokk­ur ár og hafa orðið deil­ur síðustu daga milli hags­munaaðila.

Í til­kynn­ingu frá Sam­tök­um drag­nóta­manna seg­ir að hafa beri í huga að um­rædd­ar lok­an­ir hafi ekki byggst á mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum varðandi um­hverf­isáhrif veiðanna eða vernd líf­rík­is, sbr. fyrirliggj­andi skýrsl­ur og álit Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um efnið. Ekki held­ur hvað varði skipt­ingu veiðisvæða milli veiðarfæra enda henti það botn­lag sem drag­nót­in nýt­ir síður veiðum með krók­um.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa sagt að engin fiskifræðileg rök séu fyrir banninu.

smari@bb.is

Gámaþjónustan bauð lægst í sorphirðu

Tvö fyrirtæki buðu í sorphirðu og -förgun í Ísafjarðarbæ á árunum 2018-20121. Gámaþjónusta Vestfjarða ehf. og Kubbur ehf. skiluðu inn tveimur tilboðum hvort. Annars vegar hefðbundnu tilboði og hinsvegar frávikstilboði þar sem ekki er gert ráð fyrir söfnun lífræns úrgangs og moltugerð. Tilboð Gámaþjónustunnar voru talsvert lægri eða sem hér segir:

Gámaþjónusta Vestfjarða ehf.                             358.301.352 kr.

Gámaþjónusta Vestfjarða, frávikstilboð                322.496.552 kr.

Kubbur ehf.                                                       423.650.536 kr.

Kubbur ehf. frávikstilboð                                     375.990.536 kr.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 473.807.200 kr.

smari@bb.is

Togarar stranda í nóvember 1912

Crusader H 5. Mynd: Handels & Söfart museets.dk

Nóvemberveðrin hafa oft verið skæð og fengum við að kenna á einu slíku á sunnudaginn. Þann 6. nóvember 1912 gerði mikið ofsaveður á Vestfjörðum og olli talsverðum usla. Nokkrir togarar leituðu skjóls í Önundarfirði og lágu þar við akkeri meðan veðrið gekk yfir. Þrír breskir togarar slitnuðu upp og ráku á land í firðinum. Tveir komust á flot í næsta flóði en sá þriðji, Hulltogarinn Crusader H 5, sat fastur rétt innan við Flateyri. Togarinn var dreginn á flot af björgunarskipinu Geir, talsvert skemmdur en lappað var upp á hann til bráðabirgða á Flateyri og síðan dró Geir hann til Reykjavíkur.

Um þennan tíðindamikla sólarhring má lesa á bloggsíðu Þórhalls S. Gjöveraa, þar er líka birtur kafli úr bókinni Þrautgóðir á raunastund X bindi um þennan atburð. Þar segir svo:

Fyrstu daga nóvembermánaðar árið 1912 var ríkjandi norðan og norðaustan hvassviðri við Vestfirði. Leituðu þá margir erlendir togarar í var inn á firðina þar. 6 nóvember gerði ofsaveður á þessum slóðum, sem stóð aðeins í nokkrar klukkustundir. Slitnuðu þá sex erlendir togarar upp og rak þá í strand. Þrír þessara togara strönduðu við Önundarfjörð. Náði einn þeirra sér strax á flot aftur og sigldi þá til hafs. Annar komst á flot á næsta flóði, en nokkrar skemmdir höfðu orðið á honum svo hann var ósjálfbjarga. Þriðji togarinn sat fastur á strandstað sínum, en skipshöfnin komst í land á björgunarbátnum. Tveir breskir togarar strönduðu við Patreksfjörð.
Áhafnir þeirra komust hjálparlaust í land þegar óveðrinu tók að slota. Sjötti togarinn strandaði svo við Ísafjörð. Var sá þýskur. Dvaldi áhöfn hans um borð næsta sólarhring, en fór þá í land, þar sem útlit var á að veður versnaði aftur. Björgunarskipið Geir var sent frá Reykjavík til þess að aðstoða togaranna. Kom það vestur 9. nóvember. Dró Geir fyrst út togarana sem strandað höfðu við Patreksfjörð, síðan togarann sem enn var fastur í Önundarfirði og loks togarann sem strandaði við Ísafjörð.

Með færslu Þórhalls fylgja allgóðar myndir af Crusader á strandstað í Önundarfirði.

bryndis@bb.is

Segir niðurskurðinn aðför að störfum háskólamenntaðra

Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða.Í  fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í haust áður en Alþingi var slitið er lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna sem eru um þriðjungur af framlagi ríkisins til stofunnar.

Í bókun bæjarráðs segir að þessi fyrirhugaða skerðing er algjörlega á skjön við þá stefnu sem boðuð var í Vestfjarðaskýrslunni sem og með fyrirhugaðri stofnun Vestfjarðastofu að byggja upp rannsóknaraðstöðu og fjölga háskólamenntuðum starfsmönnum á landsbyggðinni.

„Þessi fyrirhugaði niðurskurður kemur sérstaklega hart niður á sunnanverðum Vestfjörðum og mun hafa áhrif á uppbyggingu stuðningsgreina við vaxandi fiskeldi í sjókvíum í landshlutanum. Bæjarráð Vesturbyggð skorar á þingmenn kjördæmisins að hrinda þessari aðför að störfum háskólamenntaðra starfsmanna á landsbyggðinni og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir