Thursday 10. April 2025
Heim Blogg Síða 2116

Toppslagur í fyrstu deildinni

Meistaraflokkur Vestra sem hóf keppnistímabilið.

Vestramenn eiga erfiðan útileik fyrir höndum í kvöld þegar þeir mæta Skallagrími í Borgarnesi. Skallagrímur er í öðru sæti deildarinnar með 12 stig og Vestri í þriðja sæti með 10 stig. Hafa ber í huga að Vestri hefur leikið einum leik færra. Bæði lið hafa tapað einum leik. Breiðablik er í efsta sæti deildarinnar með 12 stig líkt og Skallagrímur en Breiðablik hafði betur í leik við Skallagrím og það skilar þeim efsta sæti. Að sama skapi mun sigur í kvöld fleyta Vestra í annað sætið með jafn mörg stig og Skallagrímur en eini tapleikur Vestra til þessa var á móti Breiðabliki og því dugar sigur ekki til að ná toppsætinu.

Í gær var greint frá að Ásgeir Angantýsson er genginn til liðs við Vestra og verður spennandi að sjá hvort hann spilar í kvöld.

Leikurinn hefst kl. 19.15.

smari@bb.is

Auglýsing

Ágúst genginn í Vestra

Ágúst í leik með KFÍ.

Fram­herj­inn Ágúst Ang­an­týs­son er geng­inn í raðir Vestra á ný og mun leika með liðinu í 1. deild­inni í körfuknatt­leik í vet­ur. Ágúst er frá Þing­eyri og lék með KFÍ, forvera Vestra, tíma­bilið 2013-2014. Hann var um tíma hjá KR og varð bikar­meist­ari með Stjörn­unni árið 2015. Ágúst lék 25 leiki með Stjörn­unni á síðasta tíma­bili og skoraði tæp sex stig að meðaltali og tók að jafnaði tæp fjög­ur frá­köst í leik.

smari@bb.is

Auglýsing

Taupokavæða sunnanverða Vestfirði

Í gær hófu verslanir  á sunnanverðum Vestfjörðum að bjóða upp á margnota poka til láns í sínum verslunum. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni sem hefur verið nefnt Boomerang og gengur út á að minnka plastpokanotkun  í heiminum. Nú geta viðskiptavinir fengið poka að láni í stað þess að kaupa plastpoka. Margir eiga sína eigin poka og koma með þá að heiman  og er það best. Ef taupokinn gleymist heima er hægt að fá lánaðan taupoka  í stað þess að kaupa plastpoka.

Boomerang er alþjóðlegt verkefni þannig að það má skila pokunum aftur hér á landi  á merktri Boomerang pokastöð og  erlendis.

Þær verslanir sem eru með í þessu verkefni eru:

  • Fjölval
  • Albína
  • Gillagrill
  • Hjá Jóhönnu
  • Vegamót
  • Logi
  • Vöruafgreiðslan
  • Lyfja
  • Pósthúsið
  • Bókasafnið

Lauslega er áætlað að þessar verslanir selji um 70.000 plastpoka á ári. Miðað við 500 heimili þá eru það 140 pokar á hvert heimili.

Það er styrkur hópur sem stendur að þessu verkefni og hefur útbúið pokana úr efni sem er var fáanlegt á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Búið er að útbúa rúmlega 500 poka fyrir svæðið og það verður síðan að koma í ljós hversu marga þarf í viðbót. Þessir hópar hittast áfram til þess að sauma poka ef vantar. Hóparnir hafa hist í Húsinu á Patreksfirði, Vindheimum í Tálknafirði og Læk á Bíldudal.

smari@bb.is

Auglýsing

Engar rækjuveiðar í vetur

Hafrannsóknastofnun leggur til við sjávarútvegsráðherra að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirði í vetur. Samkvæmt stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar í haust mældust rækjustofnarnir undir skilgreindum varúðarmörkum. Vísitala veiðistofns rækju í Arnarfirði var í sögulegu lágmarki og vísitala veiðistofns rækju í Ísafjarðardjúpi hefur farið lækkandi frá árinu 2012. Lítið var af þorski í fjörðunum en magn ýsu var svipað og haustið 2016.

Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda til að stofnarnir verði í lágmarki næstu árin. Veiðibann var í gildi í Ísafjarðardjúpi árin 2003-2010 og í Arnarfirði árin 2005 og 2006.

smari@bb.is

Auglýsing

Ljósleiðaraþjónusta hafin í Dýrafirði og Önundarfirði

Menn frá Snerpu að plægja niður ljósleiðara á Hvilftarströnd í Önundarfirði.

Í gær opnaði Snerpa ehf. formlega ljósleiðaraþjónustu í Dýrafirði og Önundarfirði. Þjónustan nær einungis til fárra notenda til að byrja með en verður byggð frekar upp á næstu árum. Í fyrsta áfanga eru grunnskólinn og leikskólinn á Þingeyri tengdir netinu auk samfélagsmiðstöðvarinnar Blábankans. Þá stendur þjónustan einnig til boða í dreifbýlinu innan við Þingeyri, í Hvammi og á Ketilseyri. Í Önundarfirði markast þjónustusvæðið frá Ytri-Veðrará út á Kaldeyri að meðtöldum Breiðadal. Þar með gefst jafnframt kostur á tengingu fyrir tvær nýjar virkjanir sem er verið að byggja á svæðinu. Nettenging virkjananna er ein af forsendum þess að mæla og stjórna rafmagnsframleiðslu í þeim enda eru þær fjarstýrðar.

Samstarfsaðilar Snerpu í þessum verkefnum eru tveir. Ísafjarðarbær fjármagnaði hluta framkvæmdanna með styrkfé gegn eignarhlut í kerfinu og forsendum um frekari uppbyggingu á næstu árum. Einnig gerði Snerpa sérstakan samning við Öryggisfjarskipti ohf. sem rekur m.a. dreifikerfi fyrir Tetra fjarskiptakerfið. Samningurinn við Öryggisfjarskipti felur í sér gagnkvæma samnýtingu á strengjum í Dýrafirði sem gerir Snerpu kleift að bjóða aðgang á sveitabæjum þar á sama verði og er í þéttbýli sem er jafnframt ein af forsendum samstarfssamnings við Ísafjarðarbæ. Þá mun Snerpa geta boðið verktökum og eftirlitsaðilum með byggingu Dýrafjarðarganga tengingu Dýrafjarðarmegin í vor en Snerpa selur þessum aðilum nú þegar þjónustu sína Arnarfjarðarmegin.

smari@bb.is

Auglýsing

Vestlægar áttir og éljagangur

Það verður vestlæg átt á Vestfjörðum í dag, 3-8 m/s, en snýst í norðvestan 8-13 m/s í kvöld. Éljagangur verður einkum við ströndina og hiti nálæt frostmarki.

Áfram vestan- og norðvestanátt á landinu á morgun 5-13 m/s en nokkuð hvassara austanlands. Él eða snjókoma norðan til á morgun en mun hægari vindur suðvestanlands og áfram éljagangur. Hiti við frostmark við sjávarsíðuna en frost inn til landsins.

Hálka og snjóþekja er á Vestfjörðum. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum og á Hálfdán. Dynjandisheiði er ófær.

smari@bb.is

Auglýsing

Sex af tíu fóru til útlanda

Mynd af vef Gallup

Ríf­lega sex Íslend­ing­ar af hverj­um tíu ferðuðust til út­landa í sum­ar. Þetta kem­ur fram í þjóðar­púlsi Gallup. Hlut­fallið er 61% og hef­ur hækkað jöfn­um skref­um frá ár­inu 2010, en það sum­ar ferðaðist þriðji hver Íslend­ing­ur til út­landa. Hlutfallslega fleiri konur en karlar ferðuðust til útlanda í sumar, og fleiri meðal fólks yngra en 30 ára en þeirra sem eru eldri. Íbúar höfuðborgarsvæðisins ferðuðust frekar til útlanda í sumar en íbúar landsbyggðarinnar, og fólk með háskólapróf frekar en þeir sem hafa minni menntun að baki. Loks er fólk líklegra til að hafa ferðast til útlanda í sumar eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur.

Einnig var spurt um ferðalög innanlands. Hlut­falls­lega flest­ir þeirra sem ferðuðust inn­an­lands myndu kjósa Fram­sókn­ar­flokk­inn, ef kosið yrði nú, eða 83%, en fæst­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn, eða 61%.

smari@bb.is

Auglýsing

Íslenskan í öndvegi í dag

Á þessum degi fyrir 210 árum fæddist Jónas Hallgrímsson að Hrauni í Öxnadal. Jónas er eitt höfuðskálda íslenskrar tungu og því er einkar vel við hæfi að halda upp á dag íslenskrar tungu á fæðingardegi stórskáldsins. Dagur íslenskrar tungur var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Í ár eru nemendur og kennarar hvattir til að vinna saman að gerð örmyndbanda þar sem leitað verði svara við tveimur spurningum: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? og Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna? Myndböndin mega ekki vera lengri en ein mínúta og hugmyndin er að skólarnir birti þau í kjölfarið á vefsíðum sínum og á samfélagsmiðlum. Valin myndbönd verða kynnt á Facebook síðu dags íslenskrar tungu. Merkja skal myndböndin með myllumerkinu #daguríslenskrartungu en þeim má einnig deila á vegg dags íslenskrar tungu á Facebook. Myndbandaherferðin er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vigdísarstofnunar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Stofnun Árna Magnússonar íslenskum fræðum að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2017.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi öllum skólum og undirstofnunum ráðuneytisins bréf með hvatningu um að nota 16. nóvember, eða dagana þar í kring, til að hafa íslenskuna alveg sérstaklega í öndvegi, meðal annars með því að taka þátt í gerð örmyndbanda.

smari@bb.is

Auglýsing

Baráttan gegn unglingdrykkju

BBC hefur birt myndband um árangur og verklag Íslendinga til að ná tökum á unglingadrykkju og góðum árangri er lýst. Í myndbandinu er herðing og eftirlit með útivistarreglum, samstarf við foreldra og aukin áhersla á afþreyingu fyrir börn talin meginástæða góðs árangurs.

Vísað er í tölur frá árinu 1998 þar sem fram kemur á hátt í helmingur unglinga hafi drukkið sig ofurölvi, nú er fjöldinn kominn í 5% fyrir sama aldurshóp, 15 – 16 ára. Ástandið fór úr því að vera eitt versta ríki í Evrópu hvað varðar óreglu unglinga en er komið í það besta.

Með fréttinni fylgir myndband BBC en það nýtur gríðarlegra vinsælda

bryndís@bb.is

 

Auglýsing

Styrkir Stígamót og Kvennaathvarfið um 10 þúsund krónur

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt beiðni frá Stígamótum og Samtökum um kvennaathvarf um rekstarstyrk. Stígamót og Kvennaathvarfið fá 10 þúsund króna rekstarstyrk hvert fyrir sig. Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi.

Hlutverk Kvennaathvarfsins er að reka athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis, fyrir konur sem hefur verið nauðgað og fyrir kvenkyns þolendur mansals. Jafnframt sinnir athvarfið viðtalsþjónustu við konur sem búa eða hafa búið við ofbeldi, rekur símaþjónustu sem er opin allan sólarhringinn og býður upp á sjálfshjálparhópa.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir