Guðni Th. Jóhannesson. forseti Íslands, ætlar að ræða við forystumenn allra flokkanna í dag í þingstyrksröð áður en hann ákveður hverjum hann felur stjórnarmyndunarumboð. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mætir fyrstur á Bessastaði kl. 10. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á Bessastaði klukkan 11, Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins klukkan tólf og svo koll af kolli þar til Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar mætir klukkan 17 í dag.
Áframhaldandi sigurganga á heimavelli
Vestri er enn taplaus á heimavelli eftir 93-74 sigur á Fjölni á föstudag. Með sigrinum situr Vestri í þriðja sæti 1. deildarinnar körfubolta með 8 stig líkt og Skallagrímur, sem vermir efsta sætið, og Breiðablik sem er í öðru sæti deildarinnar.
Leikurinn var jafn framan af en Vestramenn náðu smátt og smátt tökum á leiknum. Nýr leikmaður liðsins, Bandaríkjamaðurinn Andre Cornelius, lék sinn fyrsta leik fyrir Vestra. Hann áttir frábæra innkomu og hraði og snerpa hans splundraði vörn Fjölnismanna hvað eftir annað.
Þetta var sannkallaður liðssigur sem sést á því hve vel stigaskorið dreifðist, en fimm leikmenn Vestra voru með yfir 10 stig. Líkt og áður í vetur var Nemanja Knezevic besti maður vallarinns.
Leita að aukaleikurum í tónlistarmyndband
Þær stöllur Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir í hljómsveitinni Between Mountains halda ótrauðar áfram á tónlistarbrautinni og nú er verið að framleiða tónlistarmyndband við lagið „Into the Dark“. Það er Haukur Björgvinsson hjá Sagafilm sem leikstýrir myndabandinu en framleiðandi er Chanel Björk og segir hún að mikill metnaður sé lagður í myndbandið.
Upptökur fara fram á Vestfjörðum helgina 9.-12. nóvember og nú leita þær Katla Vigdís og Ásrós Helga að aukaleikurum á aldrinum 6 til 80 ára og vilja þær sjá sem flesta vestfirsk andlit í myndbandinu. „Fólk þarf ekki að vera laust alla helgina og mögulegt að bóka sig í senur á föstudag, laugardag eða sunnudag“ segir Chanel Björk og biðlar til vestfiskra vina að hafa samband í netfangið chanelbjork@gmail.com, sérstaklega vantar fullorðna leikara.
bryndis@bb.is
Miklar breytingar á þingmannasveitinni
Þingmannasveit Norðesturkjördæmis tók miklum breytingum í kosningunum á laugardag. Tveir þingmenn misstu sæti sitt, Píratinn Eva Pandora Baldursdóttir og Teitur Björn Einarsson úr Sjálfstæðisflokki. Bæði þingsætin fóru til Miðflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Teitur Björn var inni í fyrstu tölum og þeim næstu en þegar líða tók á nóttina var ljóst að hann átti við ramman reip að draga. Eva Pandora var ekki inni þegar tölur tóku að berast úr kjördæminu en undir morgun sýndu útreikningar að hún yrði jöfnunarþingmaður kjördæmisins. Þegar síðustu tölur komu úr Borgarnesinu datt hún út og jöfnunarþingmaður Pírata færðist til Reykjavíkurkjördæmis suður. Í stað Evu Pandoru var jöfnunarþingmaður Norðvesturkjördæmis Sigurður Páll Jónsson, annar maður á lista Miðflokksins.
Nýir þingmenn kjördæmisins eru Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson úr Miðflokki og Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki. Ásmundur Einar er að koma aftur inn sem þingmaður í kjördæminu en hann sat á þingi frá 2009 til 2013 fyrir Vinstri græn og síðar Framsóknarflokk.
Kosningakerfið með sínum kostum og kynjum gerir það að verkum að Miðflokkurinn sem hlaut 14,2 prósent atkvæð fékk tvo menn kjörna en Vinstri græn sem fengu 17,8 prósent fengu einn þingmann kjörinn. Þetta atvikast vegna þess að annar maður Miðflokksins kemur inn sem landskjörinn jöfnunarmaður.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 5 prósentustigum frá því í kosningunum í fyrra. Fékk 29,5 prósent 2016 en 24,5 nú. Píratar töpuðu einnig talsverðu fylgi, fóru úr 10,9 prósentum í 6,8 prósent. Fylgi VG hélst í stað, var 18,1 prósent fyrir ári en 17,8 prósent í kosningunum á laugardaginn. Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi en flokkurinn fékk 20,8 prósent í kosningunum í fyrra en 18,4 prósent nú. Samfylkingin bætti duglega við sig, fóru úr 6,3 prósentum í 9,8 prósent.
Viðreisn tapaði fylgi í Norðvesturkjördæmi og fór fylgið úr 6,2 prósent í 2,5 prósent og Björt framtíð fékk einnig minna fylgi en flokkurinn fékk 3,5 prósent fyrir ári en 0,8 prósent nú. Flokkur fólksins fékk 5,3 prósent og hækkaði um 2,8 prósentustig milli kosninga.
Þrír síðastnefndu flokkarnir náðu ekki manni inn á þing.
Þingmenn Norðvesturkjördæmis:
Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki
Berþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, Miðflokki
Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG
Guðjón S. Brjánsson, Samfylkingu
Kosningakaffi og vökur
Það er hefð fyrir því að Stjórnmálaflokkar bjóði gestum og gangandi upp á kaffi og girnilegar kræsingar á kjördag og fylgist svo saman með úrslitum í kosningasjónvarpinu.
Framsóknarflokkurinn býður að venju upp á sitt kosningakaffi í Framsóknarhúsinu frá 14-18 og kosningavakan hefst kl. 21:30.
Vinstri græn og Samfylking eru með sín kosningakaffi í Edinborgarhúsi frá 14-17, VG í Rögnvaldarsal og Samfylking í Bryggjusal. Flokkarnir eru svo saman með kosningavöku um kvöldið í Edinborg Bistro
Sjálfstæðisflokkurinn er með sitt kosningakaffi að Aðalstræti 24, frá 12-18 og á sama stað verður kosningavakan sem hef um kl. 21
Viðreisn ætlar ekki að vera með kosningakaffi og hvetur til hófsemdar í neyslu sætmetis og áfengis.
Píratar verða með kosningavöku í Skúrinni við veitingastaðinn Húsið á Ísafirði og Skúrin verður opnuð kl. 19.
Upplýsingar fengust ekki frá fleirum en hér að neðan eru myndir teknar á kosningaskrifstofum flokkanna í fyrra.
Hér fyrir neðan eru myndir frá kosningagleðinni fyrir ári.
bryndis@bb.is
Lýðháskólinn mikilvægur fyrir allt svæðið
Teitur Einarsson alþingismaður segir í samtali við bb.is að ákvörðun menntamálaráðherra að styrkja stofnun Lýðháskóla á Flateyri mikilvæga fyrir Flateyri en ekki síður mikilvæg fyrir svæðið í heild. Skólinn verði í samvinnu við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og styrki hana, boðið er upp fjölbreytta menntun sem gagnist mörgum og hann tengist inn rannsóknarsetur Háskólans. Stofnun Lýðháskólans hafi því mikil samlegðaráhrif á svæðinu. „Þessi ákvörðun ráðherrans er í samræmi við samþykkta þingsályktun um lýðháskóla frá því í vor, fellur í raun eins og flís við rass, ef svo má að orði komast.“
Nú þarf að fylgja eftir þessi fjármagni og mikilvægt að frumkvæði og kraftur heimamanni stýri framgangi verkefnisins en undirbúningur hefur staðið í á annað ár.
bryndis@bb.is
Bandarískur leikstjórnandi til Vestra
Bandaríski bakvörðurinn Andre Cornelius er genginn til liðs við Vestra. Andre er fjölhæfur leikstjórnandi sem býr yfir miklum hraða og snerpu. Hann lék með George Mason háskólanum í Bandaríkjunum en hefur einnig leikið eitt tímabil í Frakklandi sem atvinnumaður. Andre lenti á Íslandi í gærmorgun og kom beint vestur. Hann náði því að taka þátt í æfingu kvöldsins og er tilbúinn í slaginn í kvöld þegar Vestri mætir Fjölni á Jakanum kl. 19.15.
smari@bb.is
Mikil blakhelgi hjá Vestra
Kjartan Óli Kristinsson er nú komin til Englands og hefur íslenska liðið þegar spilað einn leik, við Dani og tapað enda eru Danir með firnasterkt lið og unnu keppnina í fyrra. Okkar maður var í byrjunarliðinu og spilaði eftir því sem best verður séð allan leikinn. Núna klukka 13:30 hefst svo leikur við heimamenn.

Annar flokkur stúlkna heldur í dag norður í land, til Húsavíkur og mun þar etja kappi við Völsunga og Þrótt frá Neskaupstað. Samkomulag var gert milli Vestra og Þrótt Nes að mætast á miðri leið og ljúka sínum leikjum á Húsavík og spara sér ferðalög landshorna í milli.
bryndis@bb.is
Barmmerki og pennar til styrktar íþróttaiðkun fatlaðra
Íþróttafélagið Ívar á norðanverðum Vestfjörðum stendur fyrir barmmerkja og penna sölu við kjörstaði á Ísafirði og í Bolungarvík á laugardag. Barmmerkið / penninn kostar 1000 krónur og verður selt milli klukkan 13 og 18. Aðstandendur Ívars hafa staðið fyrir slíkri fjáröflun á kosningadag í árafjöld. Íþróttafélagið Ívar hvetur alla til að kjósa gott málefni, íþróttaiðkun fatlaðra Vestfirðinga, með því að kaupa barmmerki eða penna félagsins.
bryndis@bb.is
Virkjum mannauðinn – byggðastefna og atvinnulíf
Atvinnumál eru mikilvæg þegar fólk tekur ákvörðun um hvar það vill búa og lifa lífinu. Það vill nýta menntun sína og reynslu og vinna skemmtileg og áhugaverð störf. Þess vegna er sérstaklega áríðandi að fjölbreytni í atvinnulífi sé sem allra mest á landsbyggðinni. Það á að styðja kröftuglega við nýsköpun, þróun og rannsóknir. Fjölmargt fleira hefur líka áhrif á val á búsetu, skólastarf þarf að vera til fyrirmyndar og margvísleg þjónusta þarf að vera í boði. Þarna liggja mörg tækifæri til að efla byggð um land allt.
Tenging ljósleiðara í dreifbýli og þéttbýli á landsvísu er eitt mikilvægasta tæki okkar til að tryggja fjölbreytni í atvinnulífinu. Hraða þarf þeirri uppbyggingu. Með góða nettengingu getur fólk skapað sín eigin tækifæri óháð búsetu, það verður auðveldara að starfa frá eigin heimili eða skrifstofu. Þannig er hægt að fjölga störfum án staðsetningar á landsbyggðinni, einnig að staðsetja ákveðna verkefnavinnu á smærri stöðum og efla nýsköpun og fræðastarf á landinu öllu. Stjórnvöld þurfa að vinna í takt við sóknaráætlanir landshluta og efla þær. Á landsvísu þarf að huga að styttingu vinnuviku, sveigjanlegum vinnutíma, sveigjanlegum starfslokum og að bæta sérstaklega kjör kvennastétta.
Ég ólst upp á Ströndum og veit því vel að það þarf ekki endilega mikinn fjölda af fólki til að halda uppi öflugu menningarstarfi og góðu og skemmtilegu mannlífi. Það þarf að virkja mannauðinn á hverju svæði til góðra verka, skapa tækifæri og aðstöðu fyrir fólk til að vinna saman að skemmtilegum verkefnum. Hrósa þarf fyrir það sem vel er gert og styðja við fjölbreytt framtak. Verkefni á sviði skapandi greina, menningar og lista, geta auðveldlega og hafa oft orðið miklu meira en tómstundagaman fólks. Þau eru jafnvel lykilþáttur í uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á einstökum stöðum á landsbyggðinni með margvíslegum jákvæðum áhrifum á mannlíf og stemmningu, ímynd svæða og sjálfsmynd íbúa.
Það er mikilvægt að aðstoða ný fyrirtæki í upphafi, sérstaklega á svæðum sem eiga í vök að verjast. Róðurinn getur verið þungur í byrjun. Ferðaþjónustan skiptir feykimiklu máli og vinna þarf markvisst að því að finna leiðir til að dreifa straumum ferðafólks um Ísland betur, byggja upp segla og þjónustu á svæðum sem nú eru útundan. Það léttir á svæðum sem nú verða jafnvel fyrir of miklum ágangi og tryggir að ágóðinn af ferðaþjónustunni skili sér til allra landshluta. Þetta á reyndar ekki síður við málaflokka sem eru mikilvægir fyrir bæði íbúa og ferðafólk, umbætur í samgöngumálum og vegagerð, ekki síst viðhald og þjónustu á vegum.
Þegar rætt er um fjölbreytni atvinnulífs, þá má umræðan ekki einskorðast við nýjar greinar og ný verkefni. Það þarf líka að huga að atvinnugreinum sem fyrir eru og skipta miklu fyrir fólkið sem nú býr á landsbyggðinni, sjávarútveg, landbúnað, framleiðslu og þjónustu. Nú er mikilvægt að finna leiðir til að styðja við bændastéttina, sérstaklega þarf að skoða málefni sauðfjárbænda sem hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi á síðustu árum. Þetta skiptir meira máli fyrir byggðaþróun í Norðvesturkjördæmi en flestir átta sig á. Afleiddu störfin eru fjölmörg og byggð á einstökum svæðum er beinlínis í hættu. Bændur sem það vilja þurfa að geta haldið áfram búskap með reisn, en einnig þarf að aðstoða þá sem áhuga hafa á að skipta um starfsvettvang, en eiga áfram heimili í dreifbýlinu, við að gera það. Vöruþróun og aukið verðmæti afurða með fullvinnslu er ein leiðin.
Tími uppbyggingar á mengandi stóriðju á Íslandi er vonandi liðinn. Sjálfbærni og náttúruvernd þurfa að vera lykilhugtök framtíðarinnar. Það þarf að byggja atvinnulífið á Íslandi upp í sátt við umhverfið og án þess að gengið sé á hagsmuni komandi kynslóða. Við eigum að leggja áherslu á að nýta nýjustu tækni og skapa fjölbreytt tækifæri. Áhersla stjórnvalda á að vera á að virkja mannauðinn, sköpunarkraftinn og hugvitið um land allt!
Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur,
í 4. sæti framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi