Síða 2115

Á Farmal á kjörstað

Á kjördegi gerir fólk sér glaðan dag með ýmsum hætti enda er mikilvægt að fólk fagni og takist á við lýðræðið með bros á vör. Í Reykhólahreppi mætti fólk á kjörstað á farartækjum sem ekki sjást á götunum á hverjum degi. Reykhólavefurinn greinir frá að kaupmannshjónin Ása Fossdal og Reynir Róbertsson komu á kjörstað á virðulegum 55 ára gömlum Land Rover. Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir og Ingimar Ingimarsson mættu að sjálfsögðu hvort á sínum Farmall ásamt mökum, Guðmundi Ólafssyni og Silvíu Kristjánsdóttur.

Kjörsókn í hreppnum var léleg, eða 69,2 prósent sem er talsvert undir kjörsókn í Norðvesturkjördæmi sem var 83 prósent.

Lions styrkir bókasafnið

Formaður Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Leiknir Thoroddsen, afhenti Bókasafninu á Patreksfirði glæsilega gjöf á föstudag. Gjöfin er styrkur fyrir bókasafnið til kaupa á húsgögnum fyrir yngsta kúnnahóp bókasafnsins.

Krakkarnir úr lengdu viðverunni í grunnskólanum heimsækja bókasafnið alltaf á fimmtudögum og tóku við gjöfinni fyrir hönd allra krakka á Patreksfirði. Með þessu hefur aðstaðan fyrir börnin batnað mikið og á Lionsklúbburinn þakkir skildar fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

Mikilvægt skref í eldi á geldfiski

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Nofima – rannsóknastofnun norska matvælaiðnaðarins – hefur kynnt mikilvægt skref í áttina til þess að mögulegt sé að ala geldan lax. Um 2000 tilraunafiskar hafa nú þegar náð 300 grömmum og vaxa og dafna eins og aðrir laxar, að því undanskildu að þeir mynda ekki kynfæri. Frá þessu er greint á vef Fiskifrétta. Núna er verið að fylgjast með fiskinum og vinna að því að þróa skilvirka aðferð sem hægt er að nota á iðnaðarskala. Ef hvortveggja er í lagi eru 3-5 ár þangað til að hægt sé að framleiða geldfisk í miklu magni.

Beri það árangur að rækta geldfisk á iðnaðarskala reynast það stórfréttir í laxeldinu og allar áhyggjur af erfðablöndun verða fyrir bí. Sem kunnugt er hefur verið lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi vegna hættu á erfðablöndun í laxveiðiám í Djúpinu.

Meiri kjörsókn

Kjörsókn í Norðvesturkjördæmi var 83,06 prósent sem er tæplega tveimur prósentustigum meira en kjörsókn á landsvísu. Kjörsóknin í kjördæminu jókst um tæp tvo prósentustig frá kosningnum í fyrra. Aukinn kjörsókn bendir til aukins stjórnmálaáhuga, þvert á það sem menn hafa óttast þegar eins ört er kosið eins og undanfarin ár. Áður hefur verið greint frá úrslitum í kjördæminu þar sem Miðflokkurinn vann stórsigur og hagur Samfylkingarinnar vænkaðist verulega á meðan Píratar og Sjálfstæðisflokkur fengu skell.

Halla Signý Kristjánsdóttir úr Framsóknaflokki er sjöundi og síðasti kjördæmkjörni þingmaður í Norðvesturkjördæmi en ekki munaði mjög miklu að Bjarni Jónsson, annar maður á lista Vinstri grænna, kæmist inn í hennar stað, eða 111 atkvæðum. Nokkuð langt var í að næstu menn gætu ógnað Höllu Signýju en á eftir Bjarna kemur Eva Pandora Baldursdóttir en hana vantaði 420 atkvæði til að vera kjördæmakjörin og sjálfstæðismanninn Teit Björn Einarsson vantaði 533 atkvæði.

Sigurður Páll Jónsson úr Miðflokki vantaði heil 722 atkvæði til að ná inn sem kjördæmakjörinn þingmaður en hann komst inn sem jöfnunarmaður kjördæmisins. Það má því segja að hann sé þingmaðurinn sem kjósendur í kjördæminu voru ekki endilega að biðja um.

Andrew verður spilandi aðstoðarþjálfari

Samúel Samúelsson formaður meistaraflokksráðs og Andrew handsala samninginn.

Knattspyrnudeild Vestra hefur samið við Andrew James Pew um að vera spilandi aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Hann mun starfa við hlið Bjarna Jóhannssonar yfirþjálfara Vestra. Andrew kemur til Vestra frá Selfossi þar sem hann hefur spilað síðastliðin ár við góðan orðstír í Inkasso deildinni. Hann kom fyrst til landsins árið 2006 og á að baki 179 leiki á Íslandi og í þeim náð að skora 10 mörk.

Andrew er hávaxinn miðvörður og mun koma til með að styrkja varnarleikinn enda varnarmaður með mikla reynslu úr íslenska boltanum.

Stjórn meistaraflokksráðs Vestra lýsir yfir mikilli ánægju með þjálfarateymið sem félagið hefur krækt í og er ætlast til mikils af þessum reynslumiklu mönnum og er stefnan sett á toppbaráttu næsta sumar.

 

Kristín hefur keppni í dag

Kristín Þorsteinsdóttir.

Kristín Þorsteinsdóttir sundkona er nú stödd í Bobigny Frakklandi og keppir á Evrópumeistaramóti DSISO. Fyrsti keppnisdagur er í dag og keppir Kristín í tveimur greinum 50 metra flugsundi og 100 metra baksundi. DSISO er alþjóðasundsamband fólks með Downs heilkenni.

Eins og flestum er kunnugt um er Kristín ákaflega sigursæl íþróttakona og var kjörin Vestfirðingur ársins 2015 af lesendum bb.is og í þrígang hefur hún verið útnefnd íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.

Sætustu sigrar Kristín voru fyrir tveimur árum á Evrópumeistaramóti DSISO þegar Kristín setti heimsmet í 25 metra flugsundi og 100 metra skriðsundi, sem og tíu Evrópumet. Hún kom heim af mótinu með fimm gullverðlaun, auk silfurverðlauna og bronsverðlauna.

Formenn flokkanna funda með forseta

Þétt dagskrá á Bessastöðum í dag.

Guðni Th. Jóhannesson. forseti Íslands,  ætlar að ræða við forystumenn allra flokkanna í dag í þingstyrksröð áður en hann ákveður hverjum hann felur stjórnarmyndunarumboð. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mætir fyrstur á Bessastaði kl. 10. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna á Bessastaði klukkan 11, Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins klukkan tólf og svo koll af kolli þar til Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar mætir klukkan 17 í dag.

Áframhaldandi sigurganga á heimavelli

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Vestri er enn taplaus á heimavelli eftir 93-74 sigur á Fjölni á föstudag. Með sigrinum situr Vestri í þriðja sæti 1. deildarinnar körfubolta með 8 stig líkt og Skallagrímur, sem vermir efsta sætið, og Breiðablik sem er í öðru sæti deildarinnar.

Leikurinn var jafn framan af en Vestramenn náðu smátt og smátt tökum á leiknum. Nýr leikmaður liðsins, Bandaríkjamaðurinn Andre Cornelius, lék sinn fyrsta leik fyrir Vestra. Hann áttir frábæra innkomu og hraði og snerpa hans splundraði vörn Fjölnismanna hvað eftir annað.

Þetta var sannkallaður liðssigur sem sést á því hve vel stigaskorið dreifðist, en fimm leikmenn Vestra voru með yfir 10 stig. Líkt og áður í vetur var Nemanja Knezevic besti maður vallarinns.

Leita að aukaleikurum í tónlistarmyndband

Þær stöllur Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir í hljómsveitinni Between Mountains halda ótrauðar áfram á tónlistarbrautinni og nú er verið að framleiða tónlistarmyndband við lagið „Into the Dark“. Það er Haukur Björgvinsson hjá Sagafilm sem leikstýrir myndabandinu en framleiðandi er Chanel Björk og segir hún að mikill metnaður sé lagður í myndbandið.

Upptökur fara fram á Vestfjörðum helgina 9.-12. nóvember og nú leita þær Katla Vigdís og Ásrós Helga að aukaleikurum á aldrinum 6 til 80 ára og vilja þær sjá sem flesta vestfirsk andlit í myndbandinu. „Fólk þarf ekki að vera laust alla helgina og mögulegt að bóka sig í senur á föstudag, laugardag eða sunnudag“ segir Chanel Björk og biðlar til vestfiskra vina að hafa samband í netfangið chanelbjork@gmail.com, sérstaklega vantar fullorðna leikara.

bryndis@bb.is

Miklar breytingar á þingmannasveitinni

.

Þingmannasveit Norðesturkjördæmis tók miklum breytingum í kosningunum á laugardag. Tveir þingmenn misstu sæti sitt, Píratinn Eva Pandora Baldursdóttir og Teitur Björn Einarsson úr Sjálfstæðisflokki. Bæði þingsætin fóru til Miðflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Teitur Björn var inni í fyrstu tölum og þeim næstu en þegar líða tók á nóttina var ljóst að hann átti við ramman reip að draga. Eva Pandora var ekki inni þegar tölur tóku að berast úr kjördæminu en undir morgun sýndu útreikningar að hún yrði jöfnunarþingmaður kjördæmisins. Þegar síðustu tölur komu úr Borgarnesinu datt hún út og jöfnunarþingmaður Pírata færðist til Reykjavíkurkjördæmis suður. Í stað Evu Pandoru var jöfnunarþingmaður Norðvesturkjördæmis Sigurður Páll Jónsson, annar maður á lista Miðflokksins.

Nýir þingmenn kjördæmisins eru Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson úr Miðflokki og Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki. Ásmundur Einar er að koma aftur inn sem þingmaður í kjördæminu en hann sat á þingi frá 2009 til 2013 fyrir Vinstri græn og síðar Framsóknarflokk.

Kosningakerfið með sínum kostum og kynjum gerir það að verkum að Miðflokkurinn sem hlaut 14,2 prósent atkvæð fékk tvo menn kjörna en Vinstri græn sem fengu 17,8 prósent fengu einn þingmann kjörinn. Þetta atvikast vegna þess að annar maður Miðflokksins kemur inn sem landskjörinn jöfnunarmaður.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 5 prósentustigum frá því í kosningunum í fyrra. Fékk 29,5 prósent 2016 en 24,5 nú. Píratar töpuðu einnig talsverðu fylgi, fóru úr 10,9 prósentum í 6,8 prósent. Fylgi VG hélst í stað, var 18,1 prósent fyrir ári en 17,8 prósent í kosningunum á laugardaginn. Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi en flokkurinn fékk 20,8 prósent í kosningunum í fyrra en 18,4 prósent nú. Samfylkingin bætti duglega við sig, fóru úr 6,3 prósentum í 9,8 prósent.

Viðreisn tapaði fylgi í Norðvesturkjördæmi og fór fylgið úr 6,2 prósent í 2,5 prósent og Björt framtíð fékk einnig minna fylgi en flokkurinn fékk 3,5 prósent fyrir ári en 0,8 prósent nú. Flokkur fólksins fékk 5,3 prósent og hækkaði um 2,8 prósentustig milli kosninga.

Þrír síðastnefndu flokkarnir náðu ekki manni inn á þing.

 

Þingmenn Norðvesturkjördæmis:

Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki
Berþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, Miðflokki
Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG
Guðjón S. Brjánsson, Samfylkingu

Nýjustu fréttir