Síða 2115

Tekur jákvætt í aukið eldi í Dýrafirði

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Ísafjarðarbær tekur jákvætt í áform Arctic Sea Farm um aukið fiskeldi í Dýrafirði. Fyrirtækið áætlar að auka framleiðsluna úr 4.200 tonnum í 10.000 tonn á ári. Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar er Dýrafjörður talinn þola eldi á allt að 10 þúsund tonnum. Í umsögn Ísafjarðarbæjar kemur fram að stækkunaráform fyrirtækisins séu rökrétt í framhaldi af ágætum árangri síðustu ára og áform um viðbrögð þess eðlis að neikvæð umhverfisáhrif verða í algeru lágmarki.

Þá kemur einnig fram að bæjaryfirvöld líti svo á að mikilvægt sé að nærliggjandi auðlindir séu nýttar með einhverjum hætti, til hagsbóta fyrir samfélagið og ítrekuð sú skoðun bæjarstjórnar – sem hefur verið komið á framfæri í fjölda ára – að brýn þörf er á að strandsvæði verði skipulögð og að skipulagsvaldið verði hjá sveitarfélögunum.

smari@bb.is

Engir bílar með Baldri vegna bilunar

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegna bilunar í ekjubrú í Stykkishólmshöfn verður ekki hægt að taka bíla um borð í ferjuna, einungis farþega. Unnið hefur verið að viðgerð frá því í gær og stendur viðgerð enn yfir.

Vonast er til þess að hægt verði að sigla með bíla skv. áætlun á morgun miðvikudag, nánar um það síðar.

Fótgangandi  farþegar eru vinsamlegast beðnir um að hringja og bóka fyrir kl. 14:00 í dag 14. Nóvember í 433 2254 að öðrum kosti mun skipið ekki sigla í dag.

Hægt er að fylgjast með framvindu mála á vefsíðu Sæferða www.saeferdir.is og á facebook „Seatours Iceland“

bryndis@bb.is

Vestri efstur eftir aðra umferð Íslandsmótsins

Mynd: Vestri.is

Sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms í 10. flokki drengja tryggði sér efsta sætið í A-riðli í annarri umferð Íslandsmóts KKÍ sem fram fór á Torfnesi um helgina. Gestirnir voru KR, Stjarnan, Fjölnir og Keflavík en þeir síðastnefndu féllu aftur niður í B-riðil eftir tap í öllum sínum leikjum. Þrjú efstu liðin, Vestramenn, KR og Stjarnan, eru svipuð að styrkleika og unnu öll þrjá leiki hvert. Innbyrðis viðureign Vestra og Stjörnunnar réði því að Vestramenn hömpuðu að endingu fyrsta sætinu.

Leikur Vestramanna og Stjörnunnar var sérstakur að því leyti að skorið var afar lágt enda léku bæði liðin firnasterka vörn sem reyndi verulega á alla leikmenn. Leikurinn var í járnum lengi framan af en í fjórða leikhluta fóru Vestramenn að ná betur fráköstum og sigldu þannig fram úr sterkum Stjörnumönnum, lokatölur 33-23.

Í leiknum gegn Fjölni var eins og okkar menn teldu að um auðvelda viðureign yrði að ræða í byrjun. Svo reyndist þó ekki vera enda var staðan nokkuð jöfn eftir fyrsta leikhluta og urðu Vestramenn því að girða sig í brók og bæta verulega í. Það tókst og sigurinn var þeirra, 56-47.

Viðureignin við Keflvíkinga var minni þrekraun og höfðu Vestramenn sigur, 78-41. Keflavík hafði komið upp úr B-riðli eftir fyrstu umferð og leikur því þar á ný í þriðju umferð.

Leikurinn við KR fór hægt af stað hjá okkar mönnum og höfðu KR-ingar 10 stiga forystu í hálfleik. Vestramenn náðu þó að saxa verulega á þegar leið á leikinn og voru þremur stigum undir eftir þriðja leikhluta. Segja má að baráttan um fráköstin hafi gert út um leikinn fyrir Vestramönnum en KR hafði mikla yfirburði í leiknum í þeirri deild. Það var þó á endanum aðeins eitt stig sem skildi á milli liðanna, KR 57- Vestramenn 56.

Fjölliðamót helgarinnar er það sterkasta sem haldið hefur verið í körfuknattleik á Ísafirði í heil 12 ár. Alls eru 23 lið skráð til keppni í 10. flokki drengja og keppa þau í fimm riðlum. Afrek Vestramanna er því verulegt og verður spennandi að fylgjast með framgangi þeirra í vetur.

Alls eru spilaðar fjórar umferðir og fara fjögur efstu liðin í síðustu umferðinni í úrslitakeppni sem fram fer um miðjan maí. Þriðja umferð Íslandsmótsins verður leikin 27.-28. janúar og þá takast Vestramenn aftur á við KR, Stjörnuna og Fjölni auk þess sem Valur bætist í hópinn, en liðið féll niður í B-riðil í fyrstu umferð en vann sig svo aftur upp um helgina.

 

þetta kemur fram á vef Vestra

bryndis@bb.is

Gangurinn þokkalegur

Þokkalegur gangur var í greftri Dýrafjarðarganga í síðustu viku (viku 45). Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni voru grafnir 53,8 metrar og að auki unnið við gröft á útskoti sem verður notað sem sandgeymsla. Í lok vikunnar voru göngin orðin 453,9 metrar að lengd.

Unnið við uppsetningu á gámaverkstæði sem Suðurverk mun nota og einnig haldið áfram við að innrétta skrifstofur við munna og tengja vatn og frárennsli. Vírar strengdir frá sementssílóum og í steypt ankeri til að stífa sílóin af.

Vatnslaust var hluta dags þar sem óhreinindi komust í vatn sem notað er í göngum og í steypustöð.

smari@bb.is

Náttfatasögustund með finnsku ívafi

Safnahúsið á Ísafirði.

Norræna bókasafnavikan er nú haldin í 21. sinn dagana 13.-19. nóvember. Um er að ræða verkefni á vegum Sambands Norrænu félaganna og hefur Norræna Bókasafnavikan sem markmið að efla áhuga á lestur og um leið að vekja athygli á norrænum bókmenntum og frásagnarlist.  Gert er ráð fyrir að yfir 2.000 bókasöfn taki þátt og mun Bókasafnið Ísafirði ekki skorast undan.

Finnland fagnar í ár 100 afmæli sjálfstæðis og í tilefni af því var ákveðið að Finnland skyldi vera þemað okkar að þessu sinni. Áhersla verður lögð á finnskar bókmenntir og er þeim gert hærra undir höfði þessa viku með útstillingu og kynningu á finnskum rithöfundum. Einnig verður getraun um Finnland sem við hvetjum gesti okkar til að taka þátt í. Vinningar eru að sjálfsögðu í stíl við þemað. Við ætlum ekki að gleyma börnunum, en fyrir þau verður náttfatasögustund fimmtudaginn 16. nóvember kl. 18. Hvetjum alla til að mæta á náttfötunum, líka mömmu og pabba – og bangsa!

bryndis@bb.is

Átta blaklið frá Vestra á ferðinni

Átta blaklið frá Vestra voru á ferð og flugi og spiluðu fjölmarga leiki á höfuðborgarsvæðinu síðustu helgi.

Meistaraflokkur kvenna vann Fylki 3-1 en tapaði 1-3 fyrir Aftureldingu.

Stelpurnar í 2. flokki unnu svo Aftureldingu 3-1

Meistaraflokkur karla tapaði 3-0 gegn Aftureldingu

  1. flokkur drengja tapaði naumlega 2-3 í spennandi leik gegn HK, en vann Aftureldingu 3-1.

Íslandsmót að hausti var haldið í Fagralundi í Kópavogi í 5. og 6. flokki og átti Vestri tvö lið í hvorum flokki. Mikið var um góð tilþrif á mótinu og stóðu Vestra krakkarnir sig vel jafnt innan vallar sem utan. Liðin spiluðu mismunandi stig af krakkablaki sem eru blaklíkir leikir þróaðir til að þjálfa unga krakka í blaki. Allir lærðu mikið á mótinu og fór stöðugt fram á meðan á því stóð. Nefna má að 5. flokkur Vestra náði 3. sæti í deild A-liða.

Þetta kemur fram á vef Vestra.

Konfektgerð og sálrænn stuðningur

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður að venju upp á fjölbreytta dagskrá í nóvember. Í samstarfi við Rauðakrossdeildir á norðanverðum Vestfjörðum er námskeið um sálrænan stuðning og skyndihjálp. Það er hægt að læra um innsæi stjórnandans og um vinnutengda streitu og kulnun, í boði er sömuleiðs grunnnámskeið í WordPress og í ensku fyrir pólskumælandi fólk. Fræðast má um innleiðingu persónuverndarlaga og um ávana- og fíknilyf. Og í tilefni jólanna er í boði námskeið um hvernig skal hjúpa, fylla og meðhöndla súkkulaði við konfektgerð.

bryndis@bb.is

Ráðríki á suðurfjörðum Vestfjarða

Í síðustu viku stóðu bæjarstjórnir Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps fyrir opnu námskeiði fyrir íbúa um þátttöku í sveitarstjórnum en það var Ráðrík ehf sem stóð fyrir skipulaginu. Námskráin var fjölbreytt og miðaði að því að leiðbeina og styrkja íbúa til að taka þátt í störfum sinna sveitarfélaga. Að sögn Gerðar Bjarkar Sveinsdóttur, verkefnastjóra samfélagsuppbyggingar heppnaðist námskeiðið mjög vel og þátttak framar björtustu vonum. „Inntakið var „Þátttaka í sveitarstjórnum“ en það nýtist vel, hvort sem áhugi er á beinni þátttöku eða einfaldlega til að öðlast betri skilning á því í hverju þátttaka felst.  Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur stóðu saman að námskeiðinu sem tók um fjóra tíma. Boðið var uppá léttan kvöldverð og var námskeiðinu skipt upp í fyrirlestra, stutt verkefnum og hópefli.„

bryndis@bb.is

Formlegar viðræður um stjórnarmyndun

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Þingflokkar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa allir samþykkt að ganga til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna eftir nokkurra daga óformlegar viðræður. Ekkert hefur verið gefið upp um hvernig væntanlegur stjórnarsáttmáli muni líta út eða hvernig ráðherraskipan mun verða en þó virðist liggja fyrir að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra og verður það í annað sinn í sögu lýðveldisins að kona gegni þeirri stöðu. Ekki var eining um þessar viðræður hjá þingflokki Vinstri grænna og greiddu tveir þingmenn atkvæði á móti áframhaldandi viðræðum, það voru þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

bryndis@bb.is

Færri keisaraskurðir, minni barnadauði og færri unglingar sem reykja

Árleg skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu heilbrigðismála í aðildarríkjum stofnunarinnar, Health at a Glance 2017 er komin út. Í skýrslunni koma fram margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í aðildarríkjum stofnunarinnar sem eru 35 talsins, auk fleiri landa. Skýrslan skiptistí ellefu kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, aðgengi, gæði, heilbrigðisútgjöld, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, lyfjamál og öldrun og langtíma umönnun. Sérstakur kafli er um ástæður ávinnings síðustu áratuga í auknum lífslíkum. Í ritinu er einnig svonefnt mælaborð þar sem löndin eru borin saman við meðaltal OECD út frá nokkrum þáttum.

Íslenskir unglingar reykja miklu minna en unglingar í OECD ríkjunum, 3% 15 ára íslenskra unglinga reyktu að minnsta kosti einu sinni í viku en 12% unglinga í OECD. Almennt hefur dregið úr reykingum og áfengisneyslu meðal 15 ára unglinga. Ísland er þó meðal 13 ríkja þar sem almenn áfengisneysla jókst á tímabilinu 2009 – 2015.

Unglingarnir okkar neyta hlutfallslega meira af ávöxtum og grænmeti en að meðaltali í OECD ríkjum 2013-2014.

Árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann á árunum 2009 til 2016 var 1,4% að meðaltali í ríkjum OECD, en 1% á Íslandi. Á árunum 2003-2009 var árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann að meðaltali 3,6% í ríkjum OECD en 0,4% á Íslandi.

Árið 2015 var fjöldi starfandi lækna á þúsund íbúa 3,8 hér á landi en 3,4 að meðaltali fyrir OECD-ríkin. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið lægst í Finnlandi (3,2) og hæst í Noregi (4,4). Hlutfall kvenna af starfandi læknum hefur hækkað en er mjög breytilegt eftir löndum eða frá 20% í Japan til 74% í Lettlandi. Hér á landi er hlutfall kvenna af starfandi læknum rúm 37%.

Fjöldi sjúkrahúsarýma á Íslandi var 3,1 á þúsund íbúa árið 2015 en 4,7 að meðaltali fyrir OECD lönd. Fjöldi útskrifta af sjúkrahúsi (legur) var 114 á þúsund íbúa hérlendis árið 2015 en 156 að meðaltali í ríkjum OECD. Meðallegutími á sjúkrahúsum var 6,3 dagar á Íslandi eða svipaður og í Noregi (6,7) og Svíþjóð (5,9) en 7,8 dagar að meðaltali í OECD.

Árið 2015 voru 16 keisaraskurðir framkvæmdir hér á landi á hundrað lifandi fædda og aðeins í Hollandi (15,9) og Finnlandi (15,5) var hlutfallið lægra. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi (53) en meðaltal OECD-ríkja var 28.

Hér á landi fjármagnaði hið opinbera 38% af lyfjaútgjöldum í smásölu en heimilin 58% (aðrir 4%) árið 2015. Aðeins í Lettlandi og Póllandi var hlutur heimilanna hærri. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 42-51%.

Skýrsluna má nálgast hér.

Nýjustu fréttir