Síða 2115

Landsliðið mætir Svartfjallalandi

Landslið kvenna í körfubolta mætir Svartfjallalandi á morgun í undankeppni EM og er leikurinn sýndur beint á RUV. Útsending hefst kl. 15:40 en leikurinn kl. 16:00.

Leikjaplanið í undankeppni EM

  1. nóv. 2017   Ísland-Svartfjallaland í Laugardalshöllinni kl. 16:00 Sýndur beint á RÚV
    15. nóv. 2017   Slóvakía-Ísland í Ruzomberok, Slóvakíu. Sýndur beint á RÚV2
    10. feb. 2018    Bosnía-Ísland. Sýndur beint á RÚV
    14. feb. 2018    Svartfjallaland-Ísland. Sýndur beint RÚV2
    17. nóv. 2018   Ísland-Slóvakía í Laugardalshöllinni kl. 16:00. Sýndur beint á RÚV
    21. nóv. 2018   Ísland-Bosnía í Laugardalshöllinni kl. 19:30. Sýndur beint á RÚV2

Karlmennska Sæbjargar á veggi Háskólans

Eyþór Jóvinsson í bókabúðinni sem er einskonar tímahylki í sjálfri sér. Mynd: Sæbjörg F. Gísladóttir

Þann 8. nóvember var opnuð í Háskóla Íslands ljósmyndasýningin Alvöru karlmenn. Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur á Flateyri vann sýninguna sem er blanda af gömlum og nýjum myndum sem endurspegla hugmyndir um karlmennsku. Sæbjörg kynnti hugmyndafræði og vinnuna við sýninguna og stýrði leiðsögn um hana á opnunardegi, en hún hangir áfram uppi á göngum Háskólatorgs (niðri) og er fólk hvatt til að skoða hana. Sýningin í HÍ er haldin í samvinnu Sæbjargar og Námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands og Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Eftirfarandi er kynning á sýningunni:

Alvöru karlmenn

Vaskir sjómenn, vígreifir bankamenn, krúttleg lopatröll, léttfættir séntilmenn, þrekmiklir bændasynir: Það er misjafnt hvað þykir karlmannlegt, breytilegt eftir stað, stund og stétt. En hvernig hefur karlmennskan þróast í tímans rás og hvernig bera menn sig karlmannlega í dag? Þjóðfræðingurinn Sæbjörg Freyja Gísladóttir hefur rannsakað hvernig karlmennska birtist í ljósmyndum frá árunum 1914 til 2014, hvaða líkamsstaða þykir karlmannleg á hverjum tíma og hvernig líkamar karlmanna endurspegla samfélagsbreytingar.

Sæbjörg safnaði og greindi um eitt þúsund ljósmyndir frá Skjalasafni Austfirðinga og Skjalasafninu á Ísafirði frá fyrstu áratugum 20. aldar. Hún ljósmyndaði einnig þrjátíu karlmenn sem eru búsettir á Egilsstöðum, Reykjavík og Önundarfirði. Afrakstur þessa er ljósmyndasýningin Alvöru karlmenn sem þegar hefur verið sýnd víða um land og ratar nú á veggi Háskóla Íslands.

bryndis@bb.is

Blakarar á ferð og flugi

2. flokkur stúlkna.

Á laugardag mætir kvennalið Vestra í 2. flokki stúlkna í blaki Aftureldingu á heimavelli Aftureldingar í Mosfellsbæ. Þetta er fyrsti leikur Aftureldingar í mótinu en sjötti leikur Vestra. Vestri hefur sigrað HK og Völsung en tapað fyrir Þrótti R og báðum leikjum við Þrótti Neskaupstað.

Íslandsmót 5. – 6. flokks fer einnig fram um helgina og þar á Vestri hrausta fulltrúa.

Í 6. flokki, 6-8 ára er Vestri með tvö lið, Vestri X og Vestri Y og í 5. flokki, sem eru krakkar 9-11 ára, á Vestri sömuleiðis 2 lið. Það eru þau Tihomir Paunovski þjálfari Vestra og Harpa Grímsdóttir sem fylgja keppendum suður og stýra leikjum þeirra.

Tihomir þarf þó að bregða sér frá á laugardeginum því fyrir utan að stýra 2. flokki stúlkna í sínum leik er líka leikur meistaraflokks karla í Mosfellsbæ við Aftureldingu þann daginn en hann er spilandi þjálfari í karlaliðinu. Þetta er annar leikur Vestra í 1. deildinni en liðið tapaði fyrir BF í október. Þess má geta að karlalið Vestra sigraði 1. deildina í fyrra með yfirburðum, tapaði aðeins þremur leikjum.

Meistaraflokkur Vestra

bryndis@bb.is

Formleg opnun Norðfjarðarganga

Á laugardaginn verða Norðfjarðargöng formlega opnuð og mun Jón Gunnarsson starfandi samgönguráðherra, með aðstoð Hreins Halldórssonar vegamálastjóra, klippa á borða.

Athöfnin fer fram við gangamunnan Eskifjarðarmegin. Kaffisamsæti verður að athöfn lokinni í Dalahöllinni, í Fannardal, Norðfirði. Fjarðabyggð verður með ýmsar uppákomur samhliða þessu svo sem sjá má á heimasíðu sveitarfélagsins: www.fjardabyggd.is

Gangahlaup Þróttar og Austra

Íþróttafélögin Þróttur og Austri taka forskot á sæluna og standa í dag fyrir Gangahlaupi Þróttar og Austra, og munu í dag ganga, hlaupa, hlaupahjóla, línuskauta og hjóla gegnum göngin, frá Norðfirði til Eskifjarðar. Reiknað er með það taki tvo klukkutíma að ganga alla leið en göngin eru 8 km löng. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í búningum sinna félaga

Göngin

Norðfjarðargöng leysa af hólmi Oddskarðsgöng og erfiðan fjallveg að þeim göngum beggja vegna. Oddskarðsgöng voru byggð á árunum 1972-77 og eru einbreið, 640 m löng og liggja í um 610 metra hæð yfir sjó.

Lengd nýju Norðfjarðarganganna í bergi er 7.566 m, vegskáli er 120 m Eskifjarðarmeginn og 222 m Norðfjarðarmegin eða samtals 342 m.  Heildarlengd ganga með vegskálum er því 7.908 m. Þversnið ganganna er 8,0 m breitt í veghæð. Í göngunum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 við hlið vegskála utan ganga. Neyðarrými fyrir um 150 manns verða við hvert tæknirými inni göngunum.  Vegur í gegnum göngin er 6,5 m breiður milli steyptra upphækkaðra axla.

Gangamunni Eskifjarðarmegin er í 15 m hæð yfir sjó rétt innan við gamla Eskifjarðarbæinn. Munninn Norðfjarðarmegin er í 126 m hæð yfir sjó í landi. Gólf í göngum fer mest í 170 m hæð yfir sjó.

Nýir vegir að göngunum Eskifjarðarmegin eru um 2 km og Norðfjarðarmegin um 5,3 km, samtals um 7,3 km. Vegurinn er 8 m breiður með 7 m akbraut. Í tengslum við vegagerð að göngum voru byggðar nýjar brýr annars vegar 44 m löng á Norðfjarðará og 58 m löng á Eskifjarðará.

bryndis@bb.is

Fjárgirðing og jafnvel göngustígur og reiðvegur

Mynd: Ævar Einarsson Hvas

Í hlíðinni fyrir ofan Suðureyri er verið að setja upp nýja fjárgirðingu en lausaganga búfjár hefur verið talsvert vandamál á Suðureyri, sem og í öðrum þéttbýliskjörnum í ár og að sögn Brynjars Þórs Jónssonar sviðsstjóra umhverfis og eignasviðs verður vandað til verka.

Brynjar segir að uppdráttur af mögulegum göngustíg/þjónustustíg við fjárgirðinguna hafi farið fyrir fund umhverfisnefndar 7. nóvember og var þaðan vísað til umsagnar hverfisráðs Súgandafjarðar. Samþykki hverfisráð Súgandafjarðar að meðfram fjárgirðingunni verði gerður göngustígur, verður gengið þannig frá umhverfi fjárgirðingar að úr verði góður göngu/þjónustustígur sem nýtist íbúum til útiveru og þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar til viðhalds á fjárgirðingu.

Í tilfelli þessa mögulega stígs er um að ræða hliðrun ofar í hlíðina miðað við legu stígs sem sýndur er á Aðalskipulagsuppdrætti.  Í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar kemur fram að lega gönguleiða sé ónákvæm á skipulagsuppdrætti og nákvæm lega skuli ákvörðuð í deiliskipulagi eða á framkvæmdastigi.  Mögulega er þörf á óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar þar sem nákvæm lega stígsins er færð inn á uppdrátt og segir Brynjar að það verði metið ef hverfisráði Súgandafjarðar hugnist lega stígsins.

„Hugnist hverfisráði Súgandafjarðar ekki lega stígs á umræddu svæði verður gengið frá eftir girðingarvinnuna þannig að ekki verði varanleg ummerki“.

bryndis@bb.is

Körfuboltaveisla á Torfnesi

Mynd: Vestri.is

Á vestri.is kemur fram að boðið verði upp á sannkallaða körfuboltaveislu á Torfnesi um helgina en þá fer fram 2. umferð Íslandsmótsins í A-riðli 10. flokks drengja. Vestramenn taka á móti KR, Fjölni, Stjörnunni og Keflavík og er um firnasterkan riðil að ræða en strákarnir okkar eru í þriðja sæti eftir fyrstu umferð. Mót af þessum styrkleika hefur ekki verið haldið á Ísafirði í ríflega áratug.

Vestri og Skallagrímur í Borgarnesi hófu samstarf í haust undir nafninu Vestramenn og tefla fram tíu manna liði, sjö frá Vestra og þremur frá Skallagrími. Vestramenn tryggðu sér sæti í 8. liða úrslitum Maltbikarkeppni KKÍ um síðustu helgi með yfirburðasigri á Breiðablik, en leikurinn fór fram í Borgarnesi. Þeir eru eins og áður segir í þriðja sæti A-riðilsins fyrir mót helgarinnar eftir sigur á Val og Fjölni og frekar naumt tap gegn Stjörnunni og KR í 1. umferð í Ásgarði í Garðabæ í síðasta mánuði.

Drengir fæddir 2002 eru óvenju fjölmennur og sterkur árgangur innan KKÍ og eru 23 lið skráð í Íslandsmót í vetur í fimm riðlum. Það er því eftirtektarverður árangur okkar manna að vera meðal efstu liða í þessum flokki en Kkd. Vestra vann sig upp í A-riðil á lokamótinu í 9. flokki á síðasta leiktímabili og varð jafnframt bikarmeistari. Þess má geta að jafn sterkt mót í þessum aldursflokki hefur ekki verið haldið á Ísafirði síðan árið 2005 en þá átti KFÍ lið í efsta riðli og voru tveir U15 leikmenn í þeim hópi, þeir Sigurður Þorsteinsson og Þórir Guðmundsson.

Þrír af Vestramönnunum sem keppa um helgina tóku þátt U15 landsliðsverkefnum í sumar, bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir úr Vestra og Marinó Þór Pálmason úr Skallagrími. Í ágúst s.l. voru þeir, ásamt Agli Fjölnissyni úr Vestra, boðaðir í 35 manna æfingahóp fyrir U16 landsliðið á næsta ári. Öll liðin sem keppa á Ísafirði um helgina eru með U15 landsliðsmenn innan sinna raða.

Þjálfarar Vestramanna eru þeir Nebojsa Knezevic, liðsmaður meistaraflokks Kkd. Vestra, og Pálmi Þór Sævarsson, yfirþjálfari yngri flokka Skallagríms.

Við hvetjum allt áhugafólk um körfubolta og stuðningsmenn Kkd. Vestra til að fjölmenna á mótið um helgina, fylgjast með úrvalskörfubolta og hvetja okkar menn til dáða. Jakinn TV stefnir að því að senda beint út frá mótinu en ekki er enn hægt að slá því föstu hvaða leikir það verða.

Leikir Vestra eru sem hér segir:

Laugardag kl. 15.30 gegn Keflavík

Laugardag kl. 18.00 gegn KR

Sunnudag kl. 10.15 gegn Stjörnunni

Sunnudag kl. 12.45 gegn Fjölni

bryndis@bb.is

Lýðheilsudagur í Menntaskólanum

Menntaskólinn á Ísafirði.

Nemendur Menntaskólans á Ísafirði skipuleggja nú lýðheilsudag fyrir nemendur skólans og nemendur í efsta bekk grunnskólanna svæðinu. Til stendur að bjóða upp á fjölbreyttar íþróttir og spurningakeppni og að sögn Hrannars Þórs Egilssonar verður hægt að taka þátt í fótbolta, körfubolta, bandí, ringó, glímu, speedball, dodgeball, boðhlaupi, sjómanni og bekkpressu.

Það var íþróttakennari skólans Kolbrún Fjóla Arnardóttir sem kom þessa hugmynd og vonast er eftir að framvegis verði þetta árlegur viðburður.

Lýðheilsudagur MÍ verður haldinn 23. nóvember og er almenningi boðið að heimsækja skólann og fylgjast með.

bryndis@bb.is

Til betri vegar !

Reynir Bergsveinsson

Vestfjarðavegur um Gufudalssveit.  

Skipulagsstofnun samþykkti á sínum tíma að vegur yrði lagður yfir Þorskafjörð  milli Kinnarstaða og Þórisstaða. En nokkur næstu ár snerust um ýmsar aðrar leiðir.

Nú árið 2017 er enn tekist á um framtíðarfyrirkomulag á Vestfjarðavegi,  hvort valin verði leið ÞH um Hallsteinsnes o.fl. eða jarðgöng undir Hjallaháls samkvæmt leið D2.  Þverun Þorskafjarðar milli Kinnarstaða og Þórisstaða virðist vera í uppnámi

Óhjákvæmilegt er að meta þverun Þorskafjarðar þannig að hún verði ódýrari ef unnt yrði að nota  til vegagerðarinnar efni sem losnar við jarðgangagerðina.

Jarðgöngin myndu einnig á sama hátt verða hagkvæmari ef unnt yrði að nýta efni sem þar losnar til vegarins yfir Þorskafjörð.  Lengd þverunarinnar er um 1 km, lengd Jarðgangna um 3,9 km.  Jafnframt yrði unnt að nota efni úr jarðgöngum til þess að stytta leiðin fyrir Djúpafjarðarbotn um 1-2 km.

Ef veglínan ÞH verður valin þá liggur hún um tún og ræktarlönd á Skálanesi, og  spillir þeirri jörð og landslagi mjög.  Brúaður  Gufufjörður,  um Grónes, brúaður Djúpifjörður.  Vegurinn og brúin teppa alveg siglingaleiðina inn á Djúpafjörð og útilokar  sjávarnytjar sem þar hafa verið og kynnu að aukast.

Yst á Hallsteinsnesinu tengist nýr vegur að Djúpadal  8 km langur við Vestfjarðaveg.  Þar fæst staðfesting á því að þessi ágæti bær sem alltaf hefur verið í þjóðbraut, verður, ef valin yrði leið ÞH,  mjög afskekktur.  Póstkassinn á staur við Vestfjarðaveg í 8 km fjarlægð.  Gufudalsbæirnir,  4 hús, fá póstkassa í 5 km fjarlægð.

Vestfjarðavegur liggur um mishæðótt land frá Hallsteinsnesi að Gröf.

Efnisnám til vegarins er kynnt að fáist úr vegstæðinu og mun þá einkum vera klappir og kurl.  Um 1 miljón rúmmetra.

Myndin er úr Matsskýrslu febrúar 2017. Myndin er úr sunnanverðu Hallsteinsnesi og gefur allvel til kynna að landslagið hentar illa til vegagerðar. Teigsskógur er svæðið á hægri hluta myndarinnar.

Þegar vegurinn frá Skálanesi að Þórisstöðum hefur  náð endum saman þá er  loksins hægt að fara að nota veginn.  Það er vissulega mikill áfangi sem hugsanlega væri lokið árið 2025.  Þegar  vegurinn er fullunninn við Þórisstaði, þá mun koma upp ný áhersla.  “Nú hefur Vestfjarðavegur verið tengdur við malbikaðan veg .  “Þorskafjörð verður ekki  unnt að brúa að svo stöddu.”  Stopp.

Þetta sjónarmið hefur nú þegar skotið upp kollinum. Það kom fram á íbúafundi á Ísafirði fyrir skömmu.

Ekki er boðlegt að ætla Sveitarstjórn Reykhólahrepps að taka afstöðu til legu vegarins um Gufudalssveit án rannsókna til undirbúnings jarðganga undir Hjallaháls. Vegagerðin hefur afvegaleitt hönnun leiða og  endurbætur vegakerfisins í Gufudalssveit.  Leið D2 hefur farið nokkuð halloka við hönnun Vegagerðarinnar.   Skipulagsstofnun hefur bent á nokkrar fastar forsendur fyrir því að velja ekki leið ÞH.  Vegagerðin þráast við og virðist álíta lög og reglur aukaatriði.

Samfélag íbúa Reykhólahrepps er ekki Vesturbyggð og ekki Ísafjarðarbær.  Þar er ekki okkar samfélag. Þungur áróður Vestfirðinga í þá átt að setja sérlög til þess að knýja fram framkvæmdaleyfi Reykhólahrepps á veglínu ÞH er grimmdarleg íhlutun um val á veglínu sem hentar illa fyrir daglegt líf íbúa Gufudalssveitar og er ekki á nokkurn hátt betri eða auðveldari leið fyrir aðra Vestfirðinga en leið D2. Auk þess sem spjöll á  ósnortinni náttúru yrðu yfirþyrmandi á leið ÞH. Veglínan D2 er ekki verri lausn fyrir Vestfjarðaveg en leið ÞH.  Leið D2 lægi um brú yfir Þorskafjörð milli Kinnarstaða og Þórisstaða um Jarðgöng 3,9 km undir Hjallaháls. Um brú á Djúpafjörð utar en Hólmarif og Vesturlína.

Vegagerðinni ber að endurbæta hönnun  vegarins yfir  Ódrjúgsháls  og leggja veginn yfir hálsinn þar sem hann er lægstur spöl sunnar en  vegurinn nú er. Þar mun unt að leggja veginn í 100 m hæð yfir hálsinn með um 5- 6% halla.

Veginn um Ódrjúgsháls má leggja í um 100 metra hæð með halla sm væri 5-6% ef farið er yfir hálsinn 1 km sunnar en nú er. Ljósmynd úr matsskýrslu Jónas Guðm.

Skipulag okkar í dag er fyrst og fremst ekki í okkar þágu .  Líftími þess skipulags sem við gerum nú verður að vera meira en 100 ár. Skipulagið verður að vera svo gott að ekki verði þörf á að endurbæta legu Vestfjarðavegar næstu 200 ár.

Hver verður Sjávarstaðan þá.  Og hversu oft þurfti að endurbyggja brýrnar og hækka veginn.?  Hjallaháls er tæpast fjall á Vestfirska vísu, þar er þó oft hvassast á landinu.

Jarðgöng í Hjallaháls myndu tryggja Þverun Þorskafjarðar og styttingu Vestfjarðavegar um 10 km.  Það má vera krafa allra hlutaðeigandi að Vegagerðin hefji nú þegar rannsóknir á berglögum í Hjallahálsi til undirbúnings jarðgangnagerð.

Reynir Bergsveinsson

 

Börn á Ísafirði hjálpa börnum í Sómalíu

Þær Þórunn Hafdís Stefánsdóttir, Friðmey Hekla Gunnlaugsdóttir og Sophia Kristín Halldórsdóttir dönsuðu á Silfurtorginu og gengu síðan í hús og söfnuðu peningum sem þær færðu Rauða krossinum.  Allt fé sem börn á Íslandi safna á þennan hátt fer til Sómalíu þar sem Rauði krossinn á Íslandi er að byggja fjölskylduhús fyrir munaðarlaus börn.  

 

 

 

 

 

 

 

 

bryndis@bb.is

Skólalúðrasveit T.Í. tekur þátt í maraþontónleikum í Hörpu

Skólalúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar undirbýr sig nú af kappi fyrir þátttöku í tónleikum í Norðurljósasal Hörpu sem fara fram sunnudaginn 12. nóvember. Tónleikarnir  bera yfirskriftina Óskalög í Hörpu, en íslenskar skólalúðrasveitir munu fjölmenna í Norðurljós með sannkallaða maraþontónleika. Þema tónleikanna er ,,óskalög” og hefur hver hljómsveit valið sér sín eigin óskalög til að flytja. Það má því búast við fjölbreyttri og skemmtilegri efnisskrá á tónleikunum sem standa frá klukkan 11 til 18. Skipt er um hljómsveit á hálftíma fresti yfir daginn og reiknað er með að um 800 ungir hljóðfæraleikarar muni stíga á svið þennan dag.

Þetta er annað árið í röð sem Skólalúðrasveit T.Í. stígur á stokk í Hörpu en sveitin leikur sem fyrr undir stjórn Madisar Mäekalle.  Hópurinn telur 25 hljóðfæraleikara ásamt fríðu föruneyti.

Samtök íslenskra skólalúðrasveita standa fyrir þessum viðburði með það að markmiði að vekja athygli á starfi íslenskra skólalúðraveita og að veita þeim sem eru í skólahljómsveit  tækifæri til að sjá og heyra í öðrum hljómsveitum.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir