Síða 2115

Mikil blakhelgi hjá Vestra

Kjartan Óli Kristinsson

Kjartan Óli Kristinsson er nú komin til Englands og hefur íslenska liðið þegar spilað einn leik, við Dani og tapað enda eru Danir með firnasterkt lið og unnu keppnina í fyrra. Okkar maður var í byrjunarliðinu og spilaði eftir því sem best verður séð allan leikinn. Núna klukka 13:30 hefst svo leikur við heimamenn.

2. flokkur stúlkna ásamt þjálfara sínum.

Annar flokkur stúlkna heldur í dag norður í land, til Húsavíkur og mun þar etja kappi við Völsunga og Þrótt frá Neskaupstað. Samkomulag var gert milli Vestra og Þrótt Nes að mætast á miðri leið og ljúka sínum leikjum á Húsavík og spara sér ferðalög landshorna í milli.

bryndis@bb.is

Barmmerki og pennar til styrktar íþróttaiðkun fatlaðra

Íþróttafélagið Ívar á norðanverðum Vestfjörðum stendur fyrir barmmerkja og penna sölu við kjörstaði á Ísafirði og í Bolungarvík á laugardag. Barmmerkið / penninn kostar 1000 krónur og verður selt milli klukkan 13 og 18. Aðstandendur Ívars hafa staðið fyrir slíkri fjáröflun á kosningadag í árafjöld. Íþróttafélagið Ívar hvetur alla til að kjósa gott málefni, íþróttaiðkun fatlaðra Vestfirðinga, með því að kaupa barmmerki eða penna félagsins.

bryndis@bb.is

Virkjum mannauðinn – byggðastefna og atvinnulíf

Dagrún Ósk Jónsdóttir rannsakaði mannát í íslenskum þjóðsögum.

Atvinnumál eru mikilvæg þegar fólk tekur ákvörðun um hvar það vill búa og lifa lífinu. Það vill nýta menntun sína og reynslu og vinna skemmtileg og áhugaverð störf. Þess vegna er sérstaklega áríðandi að fjölbreytni í atvinnulífi sé sem allra mest á landsbyggðinni. Það á að styðja kröftuglega við nýsköpun, þróun og rannsóknir. Fjölmargt fleira hefur líka áhrif á val á búsetu, skólastarf þarf að vera til fyrirmyndar og margvísleg þjónusta þarf að vera í boði. Þarna liggja mörg tækifæri til að efla byggð um land allt.

Tenging ljósleiðara í dreifbýli og þéttbýli á landsvísu er eitt mikilvægasta tæki okkar til að tryggja fjölbreytni í atvinnulífinu. Hraða þarf þeirri uppbyggingu. Með góða nettengingu getur fólk skapað sín eigin tækifæri óháð búsetu, það verður auðveldara að starfa frá eigin heimili eða skrifstofu. Þannig er hægt að fjölga störfum án staðsetningar á landsbyggðinni, einnig að staðsetja ákveðna verkefnavinnu á smærri stöðum og efla nýsköpun og fræðastarf á landinu öllu. Stjórnvöld þurfa að vinna í takt við sóknaráætlanir landshluta og efla þær. Á landsvísu þarf að huga að styttingu vinnuviku, sveigjanlegum vinnutíma, sveigjanlegum starfslokum og að bæta sérstaklega kjör kvennastétta.

Ég ólst upp á Ströndum og veit því vel að það þarf ekki endilega mikinn fjölda af fólki til að halda uppi öflugu menningarstarfi og góðu og skemmtilegu mannlífi. Það þarf að virkja mannauðinn á hverju svæði til góðra verka, skapa tækifæri og aðstöðu fyrir fólk til að vinna saman að skemmtilegum verkefnum. Hrósa þarf fyrir það sem vel er gert og styðja við fjölbreytt framtak. Verkefni á sviði skapandi greina, menningar og lista, geta auðveldlega og hafa oft orðið miklu meira en tómstundagaman fólks. Þau eru jafnvel lykilþáttur í uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á einstökum stöðum á landsbyggðinni með margvíslegum jákvæðum áhrifum á mannlíf og stemmningu, ímynd svæða og sjálfsmynd íbúa.

Það er mikilvægt að aðstoða ný fyrirtæki í upphafi, sérstaklega á svæðum sem eiga í vök að verjast. Róðurinn getur verið þungur í byrjun. Ferðaþjónustan skiptir feykimiklu máli og vinna þarf markvisst að því að finna leiðir til að dreifa straumum ferðafólks um Ísland betur, byggja upp segla og þjónustu á svæðum sem nú eru útundan. Það léttir á svæðum sem nú verða jafnvel fyrir of miklum ágangi og tryggir að ágóðinn af ferðaþjónustunni skili sér til allra landshluta. Þetta á reyndar ekki síður við málaflokka sem eru mikilvægir fyrir bæði íbúa og ferðafólk, umbætur í samgöngumálum og vegagerð, ekki síst viðhald og þjónustu á vegum.

Þegar rætt er um fjölbreytni atvinnulífs, þá má umræðan ekki einskorðast við nýjar greinar og ný verkefni. Það þarf líka að huga að atvinnugreinum sem fyrir eru og skipta miklu fyrir fólkið sem nú býr á landsbyggðinni, sjávarútveg, landbúnað, framleiðslu og þjónustu. Nú er mikilvægt að finna leiðir til að styðja við bændastéttina, sérstaklega þarf að skoða málefni sauðfjárbænda sem hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi á síðustu árum. Þetta skiptir meira máli fyrir byggðaþróun í Norðvesturkjördæmi en flestir átta sig á. Afleiddu störfin eru fjölmörg og byggð á einstökum svæðum er beinlínis í hættu. Bændur sem það vilja þurfa að geta haldið áfram búskap með reisn, en einnig þarf að aðstoða þá sem áhuga hafa á að skipta um starfsvettvang, en eiga áfram heimili í dreifbýlinu, við að gera það. Vöruþróun og aukið verðmæti afurða með fullvinnslu er ein leiðin.

Tími uppbyggingar á mengandi stóriðju á Íslandi er vonandi liðinn. Sjálfbærni og náttúruvernd þurfa að vera lykilhugtök framtíðarinnar. Það þarf að byggja atvinnulífið á Íslandi upp í sátt við umhverfið og án þess að gengið sé á hagsmuni komandi kynslóða. Við eigum að leggja áherslu á að nýta nýjustu tækni og skapa fjölbreytt tækifæri. Áhersla stjórnvalda á að vera á að virkja mannauðinn, sköpunarkraftinn og hugvitið um land allt!

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur,
í 4. sæti framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi

63,3 milljónir til Vestfjarða

Bíldudalsflugvöllur. Bíldudalsvegur er frá flugvellinum og inn Arnarfjörðinn og upp á Dynjandisheiði að Helluskarði.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert viðaukasamninga við sóknaráætlanir þriggja landshlutasamtaka sveitarfélaga, á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Markmiðið er að styrkja sóknaráætlanir framangreindra landshluta með sérstöku framlagi og treysta þannig byggð á tilteknum svæðum.

Í hlut Vestfjarða koma 63,3 milljónir króna og er viðaukasamningurinn byggður á aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði frá desember 2016 og áherslum sóknaráætlunar fyrir Vestfirði 2015-2019. Samningurinn lýtur að eftirfarandi verkefnum:

  • Aukinni tíðni flugs til Bíldudals.
  • Fjarþjónustu í heilbrigðismálum.
  • Sjávarbyggðafræði.
  • Uppbyggingu hitaveitu á Hólmavík.
  • Rannsókn á Álftafjarðargöngum.
  • Lagfæringu á Flateyjarbryggju.

smari@bb.is

Hjartað á réttum stað

Guðjón Brjánsson

Íslendingar ganga til kosninga um helgina eftir skammlífa ríkisstjórn sem starfaði í skugga  spilltrar stjórnmálamenningar. Upplýsingum er haldið frá almenningi, ójöfnuður fer hratt vaxandi. Hagsmunir hinna ríku ráða för en almannahagsmunir að engu hafðir.

Fátæktargildrur

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sínu um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afgerandi skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

Okkar ásetningur er að auka verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi. Við ætlum að stuðla að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.Við ætlum að færa skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.Við viljum tryggja að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum og við leggjum höfuðáherslu á að bæta  lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækka lífeyri og draga verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

Reisum flaggið

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

Við höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum alla áherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.  Við ætlum að draga verulega úr  heilbrigðiskostnaði fólks, ekki síst fjölskyldna á landsbyggðinni og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu. Við munum ráðast í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.

Lykill að framtíðinni

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum á þröskuldi tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að gjörbreytast. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

Við viljum gefa nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.  Við leggjum áherslu á að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, hvort sem er á leikskólastigi eða framhaldsskólastigi. Við leggjum áherslu á að fjármagna háskólana sómasamlega og við munum styðja betur við fjölbreytta framhaldsskóla, ekki síst verknámsbrautir og vinna gegn brottfalli nemenda með markvissum aðgerðum.

 Mannúð

Við höfum kynnt átak gegn ofbeldi, hvort sem það er af kynbundnum toga eða því beitt með öðrum hætti í samfélaginu.  Við viljum líka sýna flóttafólki mannúð og taka aukinn þátt í þessu fjölþjóðlega viðfangsefni og vanda móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.

Bætum lífsgæði – treystum byggðir

Við viljum stórauka fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar og hrinda í framkvæmd kröftugri byggðastefnu.  Við þurfum að taka markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.  Nauðsynlegt er að flýta orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Hverjum er treystandi?
Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Við óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.  Við ætlum að vinna af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs.

Hjartað á réttum stað

Við fáum að nota okkar dýrmæta lýðræðislega rétt eftir fáa daga í kosningum til Alþingis.  Baráttumál okkar jafnaðarmanna eru enn á sömu lund, vörn og sókn fyrir venjulegt fólk en ekki þrönga sérhagsmuni.   Er ekki tækifærið einmitt núna, að taka nýja ákvörðun, ferska og djarfa – já, og láta hjartað ráða för.

Guðjón Brjánsson

Lýðháskólinn fær styrk og auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Stjórn félags um lýðháskóla á Flateyri samþykkti í gær að auglýsa eftir framkvæmdastjóra til að undirbúa stofnun skólans. Félagið mun vinna með Fræðslumiðstöð Vestfjarða að málinu en Fræðslumiðstöðin fékk í gær 5 milljóna kr. framlag frá mennta-og menningarmálaráðuneytinu til að þróa lýðháskóla. Áður hafði félagið fengið styrk frá uppbyggingarsjóði Vestfjarða til verkefnisins.

Framkvæmdastjóri verður með starfsstöð á Flateyri og vinnur að þróun skólans og undirbúningi. Umsóknarfrestur verður til 1. desember og ráðið í stöðuna frá 15. febrúar.

Stjórn félags um stofnun lýðháskóla á Flateyri lýsti jafnframt á fundi sínum yfir sérstakri ánægju með fyrirhugað samstarf við Fræðslumiðstöðina um málið og þakkaði mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt verkefninu sem og öðrum þeim sem að þróun þess hafa komið.

smari@bb.is

Ég fagna!

Daníel Þórarinsson

Ég fagna því að allt ísland fari að virka saman sem ein heild.

Ég fagna því að geta notið fullkominnar læknisþjónustu nær heimabyggð, sem stórlækkar kostnað fólks.

Ég fagna bættri geðheilsugæslu um allt land.

Ég fagna því að vörður verði staðinn um sjávarútveg og landbúnað.

Ég fagna því að starfsöryggi sauðfjárbænda verði tryggt.

Ég fagna því að tryggingagjald, sem kemur verst niður á minni fyrirtækjum, verði lækkað.

Ég fagna því að landið verði allt ljósleiðaravætt.

Ég fagna áherslu á nýsköpun á öllum sviðum og um allt land.

Ég fagna því að skattar verði ekki hækkaðir.

Ég fagna lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á lánum ungs fólks.

Ég fagna aukinni áherslu á iðn- og tækninám á framhalds- og háskólastigi.

Ég fagna því að stuðningur við námsmenn verði lagaður að fyrirkomulagi á Norðurlöndunum.

Ég fagna því að lífeyrissjóðirnir hætti að halda uppi vaxtastigi í landinu og fari að vinna fyrir sér í útlöndum.

Ég fagna því að fjármálakerfi landsins fari að þjónusta almenning en ekki öfugt.

Ég fagna sveigjanleika í starfslokaaldri.

Ég fagna því að lágmarkslífeyrir verði látinn fylgja lágmarkslaunum og tryggi tekjur, sem hægt er að lifa á.

Ég fagna Miðflokknum.

Daníel Þórarinsson

Þrír nýir í Norðvesturkjördæmi

Kjörstaðir verða opnaðir eftir tæpan sólarhring.

Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur 24,5 prósent fylgi í landsvísu í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið og birtist í blaðinu í dag. Vinstri græn eru næst stærst með 20,2 prósent og Samfylkingin kemur þar á eftir með 15,3 prósent fylgi. Þar fyrir neðan er þéttur pakki flokka sem eru undir 10 prósentum. Miðflokkurinn er þeirra stærstur með 9,3 prósent fylgi, þá Píratar með 8,8 prósent. Viðreisn fær 8,3 prósent í könnuninni og Framsóknarflokkur 7,9 prósent. Flokkur fólksins nær ekki manni á þing með sín 4,2 prósent og Björt framtíð rekur lestina með 1,3 prósent.

Horft á Norðvesturkjördæmi þá mun Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, falla af þingi og Framsóknarflokkurinn tapar einu þingsæti í kjördæminu. Bjarni Jónsson nær kjöri sem annar þingmaður Vinstri grænna og sömuleiðis nær Miðflokksmaðurinn Bergþór Ólason inn á þing. Þá verður Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknarflokksins en hann er gjörkunnugur kjördæminu eftir setu á fyrri þingum bæði fyrir Framsóknarflokk og Vinstri græna. Að öðru leyti verður þingmannahópurinn eins skipaður.

smari@bb.is

Þokkalegasta kosningaveður

Það ætti ekki vera vandamál að safna saman atkvæðum á morgun.

Það er leiðindaslagveður í kortunum í dag en á morgun lygnir, að minnsta kosti hér vestan til og þurrt en það er farið að kólna þó ekki sé þetta dæmigert októberveður.

Veðurspámaður á vedur.is segir að það verði suðvestan 15-25 m/s, hvassast norðan til og á Suðausturlandi. Rigning framan af degi, en dregur síðan úr vindi og úrkomu, fyrst norðvestanlands. Vestlæg átt, 5-10 m/s síðdegis og úrkomulítið, en léttir til austanlands í kvöld. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast austan til.

Norðan 8-15 á morgun, hvassast á annesjum. Skýjað með köflum N- og A-lands og él á stöku stað, en annars yfirleitt léttskýjað. Kólnar í veðri og frost víða 0 til 5 stig um kvöldið.

bryndis@bb.is

Vestri og Fjölnir á Jakanum

Vestramenn eru staðráðnir í að halda sigurgöngunni á heimavelli áfram.

Í kvöld mæta Fjölnismenn á Jakann (íþróttahúsið á Torfnesi) í fimmtu umferð Íslandsmótsins í 1. deild. Vestri er enn ósigraður á heimavelli og Vestramenn ætla ekki að gefa það eftir á morgun. Heimamenn eru í þriðja sæti deildarinnar og Fjölnir vermir fimmta sætið. Fjölnismenn eru með ungt og sprækt lið sem er til alls líklegt auk þess sem þeir eru með mjög góðan Bandaríkjamann innan sinna raða. Þá má ekki gleyma að þjálfarinn Falur Harðarson er enginn aukvisi og má því reikna með spennandi leik á morgun.

Leikurinn hefst að vanda kl. 19.15 og grilluðu hamborgararnir verða á sínum stað fyrir leik.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir