Síða 2114

Gangurinn þokkalegur

Þokkalegur gangur var í greftri Dýrafjarðarganga í síðustu viku (viku 45). Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni voru grafnir 53,8 metrar og að auki unnið við gröft á útskoti sem verður notað sem sandgeymsla. Í lok vikunnar voru göngin orðin 453,9 metrar að lengd.

Unnið við uppsetningu á gámaverkstæði sem Suðurverk mun nota og einnig haldið áfram við að innrétta skrifstofur við munna og tengja vatn og frárennsli. Vírar strengdir frá sementssílóum og í steypt ankeri til að stífa sílóin af.

Vatnslaust var hluta dags þar sem óhreinindi komust í vatn sem notað er í göngum og í steypustöð.

smari@bb.is

Náttfatasögustund með finnsku ívafi

Safnahúsið á Ísafirði.

Norræna bókasafnavikan er nú haldin í 21. sinn dagana 13.-19. nóvember. Um er að ræða verkefni á vegum Sambands Norrænu félaganna og hefur Norræna Bókasafnavikan sem markmið að efla áhuga á lestur og um leið að vekja athygli á norrænum bókmenntum og frásagnarlist.  Gert er ráð fyrir að yfir 2.000 bókasöfn taki þátt og mun Bókasafnið Ísafirði ekki skorast undan.

Finnland fagnar í ár 100 afmæli sjálfstæðis og í tilefni af því var ákveðið að Finnland skyldi vera þemað okkar að þessu sinni. Áhersla verður lögð á finnskar bókmenntir og er þeim gert hærra undir höfði þessa viku með útstillingu og kynningu á finnskum rithöfundum. Einnig verður getraun um Finnland sem við hvetjum gesti okkar til að taka þátt í. Vinningar eru að sjálfsögðu í stíl við þemað. Við ætlum ekki að gleyma börnunum, en fyrir þau verður náttfatasögustund fimmtudaginn 16. nóvember kl. 18. Hvetjum alla til að mæta á náttfötunum, líka mömmu og pabba – og bangsa!

bryndis@bb.is

Átta blaklið frá Vestra á ferðinni

Átta blaklið frá Vestra voru á ferð og flugi og spiluðu fjölmarga leiki á höfuðborgarsvæðinu síðustu helgi.

Meistaraflokkur kvenna vann Fylki 3-1 en tapaði 1-3 fyrir Aftureldingu.

Stelpurnar í 2. flokki unnu svo Aftureldingu 3-1

Meistaraflokkur karla tapaði 3-0 gegn Aftureldingu

  1. flokkur drengja tapaði naumlega 2-3 í spennandi leik gegn HK, en vann Aftureldingu 3-1.

Íslandsmót að hausti var haldið í Fagralundi í Kópavogi í 5. og 6. flokki og átti Vestri tvö lið í hvorum flokki. Mikið var um góð tilþrif á mótinu og stóðu Vestra krakkarnir sig vel jafnt innan vallar sem utan. Liðin spiluðu mismunandi stig af krakkablaki sem eru blaklíkir leikir þróaðir til að þjálfa unga krakka í blaki. Allir lærðu mikið á mótinu og fór stöðugt fram á meðan á því stóð. Nefna má að 5. flokkur Vestra náði 3. sæti í deild A-liða.

Þetta kemur fram á vef Vestra.

Konfektgerð og sálrænn stuðningur

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður að venju upp á fjölbreytta dagskrá í nóvember. Í samstarfi við Rauðakrossdeildir á norðanverðum Vestfjörðum er námskeið um sálrænan stuðning og skyndihjálp. Það er hægt að læra um innsæi stjórnandans og um vinnutengda streitu og kulnun, í boði er sömuleiðs grunnnámskeið í WordPress og í ensku fyrir pólskumælandi fólk. Fræðast má um innleiðingu persónuverndarlaga og um ávana- og fíknilyf. Og í tilefni jólanna er í boði námskeið um hvernig skal hjúpa, fylla og meðhöndla súkkulaði við konfektgerð.

bryndis@bb.is

Ráðríki á suðurfjörðum Vestfjarða

Í síðustu viku stóðu bæjarstjórnir Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps fyrir opnu námskeiði fyrir íbúa um þátttöku í sveitarstjórnum en það var Ráðrík ehf sem stóð fyrir skipulaginu. Námskráin var fjölbreytt og miðaði að því að leiðbeina og styrkja íbúa til að taka þátt í störfum sinna sveitarfélaga. Að sögn Gerðar Bjarkar Sveinsdóttur, verkefnastjóra samfélagsuppbyggingar heppnaðist námskeiðið mjög vel og þátttak framar björtustu vonum. „Inntakið var „Þátttaka í sveitarstjórnum“ en það nýtist vel, hvort sem áhugi er á beinni þátttöku eða einfaldlega til að öðlast betri skilning á því í hverju þátttaka felst.  Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur stóðu saman að námskeiðinu sem tók um fjóra tíma. Boðið var uppá léttan kvöldverð og var námskeiðinu skipt upp í fyrirlestra, stutt verkefnum og hópefli.„

bryndis@bb.is

Formlegar viðræður um stjórnarmyndun

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Þingflokkar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa allir samþykkt að ganga til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna eftir nokkurra daga óformlegar viðræður. Ekkert hefur verið gefið upp um hvernig væntanlegur stjórnarsáttmáli muni líta út eða hvernig ráðherraskipan mun verða en þó virðist liggja fyrir að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra og verður það í annað sinn í sögu lýðveldisins að kona gegni þeirri stöðu. Ekki var eining um þessar viðræður hjá þingflokki Vinstri grænna og greiddu tveir þingmenn atkvæði á móti áframhaldandi viðræðum, það voru þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

bryndis@bb.is

Færri keisaraskurðir, minni barnadauði og færri unglingar sem reykja

Árleg skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu heilbrigðismála í aðildarríkjum stofnunarinnar, Health at a Glance 2017 er komin út. Í skýrslunni koma fram margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í aðildarríkjum stofnunarinnar sem eru 35 talsins, auk fleiri landa. Skýrslan skiptistí ellefu kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, aðgengi, gæði, heilbrigðisútgjöld, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, lyfjamál og öldrun og langtíma umönnun. Sérstakur kafli er um ástæður ávinnings síðustu áratuga í auknum lífslíkum. Í ritinu er einnig svonefnt mælaborð þar sem löndin eru borin saman við meðaltal OECD út frá nokkrum þáttum.

Íslenskir unglingar reykja miklu minna en unglingar í OECD ríkjunum, 3% 15 ára íslenskra unglinga reyktu að minnsta kosti einu sinni í viku en 12% unglinga í OECD. Almennt hefur dregið úr reykingum og áfengisneyslu meðal 15 ára unglinga. Ísland er þó meðal 13 ríkja þar sem almenn áfengisneysla jókst á tímabilinu 2009 – 2015.

Unglingarnir okkar neyta hlutfallslega meira af ávöxtum og grænmeti en að meðaltali í OECD ríkjum 2013-2014.

Árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann á árunum 2009 til 2016 var 1,4% að meðaltali í ríkjum OECD, en 1% á Íslandi. Á árunum 2003-2009 var árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann að meðaltali 3,6% í ríkjum OECD en 0,4% á Íslandi.

Árið 2015 var fjöldi starfandi lækna á þúsund íbúa 3,8 hér á landi en 3,4 að meðaltali fyrir OECD-ríkin. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið lægst í Finnlandi (3,2) og hæst í Noregi (4,4). Hlutfall kvenna af starfandi læknum hefur hækkað en er mjög breytilegt eftir löndum eða frá 20% í Japan til 74% í Lettlandi. Hér á landi er hlutfall kvenna af starfandi læknum rúm 37%.

Fjöldi sjúkrahúsarýma á Íslandi var 3,1 á þúsund íbúa árið 2015 en 4,7 að meðaltali fyrir OECD lönd. Fjöldi útskrifta af sjúkrahúsi (legur) var 114 á þúsund íbúa hérlendis árið 2015 en 156 að meðaltali í ríkjum OECD. Meðallegutími á sjúkrahúsum var 6,3 dagar á Íslandi eða svipaður og í Noregi (6,7) og Svíþjóð (5,9) en 7,8 dagar að meðaltali í OECD.

Árið 2015 voru 16 keisaraskurðir framkvæmdir hér á landi á hundrað lifandi fædda og aðeins í Hollandi (15,9) og Finnlandi (15,5) var hlutfallið lægra. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi (53) en meðaltal OECD-ríkja var 28.

Hér á landi fjármagnaði hið opinbera 38% af lyfjaútgjöldum í smásölu en heimilin 58% (aðrir 4%) árið 2015. Aðeins í Lettlandi og Póllandi var hlutur heimilanna hærri. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 42-51%.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fundur um Hornstrandafriðlandið

Hornbjarg.

Samstarfshópur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið á Hornströndum boðar til opins fundar um áætlunargerðina miðvikudaginn 15. nóvember klukkan 17:00-19:00 í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði.

Markmið fundarins er að upplýsa íbúa, hagsmunaaðila og landeigendur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið og kalla eftir skoðunum heimamanna um þau málefni sem fjallað verður um í áætluninni.

Stjórnunar- og verndaráætlunin er unnin skv. 81. gr. laga um náttúruvernd 60/2013 en þar segir m.a.

Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjallað um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Ef ekki hafa verið settar sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á viðkomandi svæði í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að setja slíkar reglur í stjórnunar- og verndaráætlun svo og reglur um önnur atriði er greinir í IV. kafla.
bryndis@bb.is

Það er pláss fyrir fleiri félaga í Tónlistarfélaginu

Tónlistarfélag Ísafjarðar hefur nú starfað í tæp 70 ár en á síðustu árum hefur af ýmsum orsökum félögum fækkað og nú skorar félagið á íbúa að ganga til liðs við félagið.

Hér að neðan er áskorun frá Tónlistarfélaginu:

Áskorun frá Tónlistarfélagi Ísafjarðar

Tónlistarfélag Ísafjarðar hefur nú starfað í tæp 70 ár af miklum krafti og metnaði. 

Meginverkefni félagsins alla þessa áratugi hefur verið starfsemi Tónlistarskóla Ísafjarðar, að hlúa að skólastarfinu og ekki síst tryggja skólanum gott húsnæði sem tókst loks með miklum ágætum fyrir tæpum 20 árum. 

En Tónlistarfélagið hefur líka haldið uppi gríðarlega metnaðarfullu tónleikahaldi gegnum tíðina og veitt Ísfirðingum og nágrönnum tækifæri til að hlýða á sumt það besta í íslensku tónlistarlífi auk þess að hingað hafa komið fjölmargir erlendir listamenn í heimsklassa og leikið á vegum félagsins. Og Ísafjörður hefur löngum haft einstaklega gott orð á sér meðal tónlistarmanna, sem sækjast eftir að leika í yndislega salnum okkar.

Á síðustu árum hefur félögum í Tónlistarfélaginu fækkað nokkuð vegna brottflutnings fólks o.fl,  en nú vill félagið styrkja samband sitt við þá fjölmörgu sem hafa áhuga á tónlist, vilja fjölbreytt og metnaðarfullt tónleikahald og vilja viðhalda þeim menningarbrag sem tónleikahaldið hefur sett á bæinn. Til þess þarf það stuðning ykkar, tónlistarunnendanna

Stjórn félagsins vill hvetja ykkur til að ganga í félagið nú þegar og fá um leið áskrift að fernum tónleikum félagsins.  Fyrstu áskriftartónleikarnir verða sunnudaginn 19.nóvember með hinum glæsilega tenórsöngvara Elmari Gilbertssyni og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara. (Miðaverð er 3.000 kr., með afsl. 2.000). Aðrir áskriftartónleikar verða á nýju ári og verða kynntir síðan en víst er að um áhugaverða listamenn verður að ræða.

Félagsgjaldið er 7.500 kr. (4 áskriftartónleikar innifaldir), en verð á staka tónleika er oftast á bilinu 2.500-3.000 kr.  

Ef þið viljið ganga í félagið er hægt að leggja inn á reikning félagsins 0156-26-002626, kt. 6502690209. Líka verður hægt að skrá sig á fyrstu tónleikunum eða hringja í undirrituð og þá er hægt að senda reikning.

Rétt er að benda á að áskrift gildir ekki á alla tónleika sem félagið kemur að. Stundum eru tónleikarnir á vegum listafólksins sjálfs og félagið er stuðningsaðili, en hefur ekki ráð yfir aðgangseyri o.s.frv.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja Tónlistarfélaginu lið með þessu móti eru líka velkomnir að starfa með félaginu á ýmsan hátt og geta haft áhrif á stefnu þess og starf enda eru félagsmenn mikilvægt bakland og stuðningshópur.

Þeir sem ekki vilja fá sendan tölvupóst  um tónleika félagsins, ættu líka endilega að láta vita af því.

Með kveðju og von um góðar viðtökur,

f.h. stjórnar Tónlistarfélags Ísafjarðar

Steinþór Bjarni Kristjánsson form. duik@simnet.is

Sigríður Ragnarsdóttir, stjórnarm. smidjugata5@gmail.com

 

 

S. Helgason styrkir knattspyrnudeild Vestra

Samúel S. Samúelsson formaður meistaraflokks karla og Brjánn Guðjónsson framkvæmdastjóri S.Helgason handsala saminginn.

Á föstudaginn var skrifað undir áframhaldandi styrktarsamning á milli knattspyrnudeildar Vestra og S.Helgason.  S.Helgason, áður Sólsteinar, hafa verið einn af stærstu styrktaraðilum deildarinnar frá 2009 þegar þeir hófu að styrkja deildina.

Á föstudag var líka gert samkomulag við Sólon Breka Leifsson um að hann spili með Vestra á næsta tímabili en hann spilaði með Vestra sumarið 2016.

Með fréttinni má sjá viðtal við Bjarna Jóhannsson þjálfara meistaraflokks karla.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir