Þriðjudagur 1. apríl 2025
Síða 2114

Börn á Ísafirði hjálpa börnum í Sómalíu

Þær Þórunn Hafdís Stefánsdóttir, Friðmey Hekla Gunnlaugsdóttir og Sophia Kristín Halldórsdóttir dönsuðu á Silfurtorginu og gengu síðan í hús og söfnuðu peningum sem þær færðu Rauða krossinum.  Allt fé sem börn á Íslandi safna á þennan hátt fer til Sómalíu þar sem Rauði krossinn á Íslandi er að byggja fjölskylduhús fyrir munaðarlaus börn.  

 

 

 

 

 

 

 

 

bryndis@bb.is

Skólalúðrasveit T.Í. tekur þátt í maraþontónleikum í Hörpu

Skólalúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar undirbýr sig nú af kappi fyrir þátttöku í tónleikum í Norðurljósasal Hörpu sem fara fram sunnudaginn 12. nóvember. Tónleikarnir  bera yfirskriftina Óskalög í Hörpu, en íslenskar skólalúðrasveitir munu fjölmenna í Norðurljós með sannkallaða maraþontónleika. Þema tónleikanna er ,,óskalög” og hefur hver hljómsveit valið sér sín eigin óskalög til að flytja. Það má því búast við fjölbreyttri og skemmtilegri efnisskrá á tónleikunum sem standa frá klukkan 11 til 18. Skipt er um hljómsveit á hálftíma fresti yfir daginn og reiknað er með að um 800 ungir hljóðfæraleikarar muni stíga á svið þennan dag.

Þetta er annað árið í röð sem Skólalúðrasveit T.Í. stígur á stokk í Hörpu en sveitin leikur sem fyrr undir stjórn Madisar Mäekalle.  Hópurinn telur 25 hljóðfæraleikara ásamt fríðu föruneyti.

Samtök íslenskra skólalúðrasveita standa fyrir þessum viðburði með það að markmiði að vekja athygli á starfi íslenskra skólalúðraveita og að veita þeim sem eru í skólahljómsveit  tækifæri til að sjá og heyra í öðrum hljómsveitum.

bryndis@bb.is

Þriggja ára samningur um Act alone

Elvar Logi gengur í öll störf á hátíðinni

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í byrjun mánaðarins að gera þriggja ára samning um Act alone hátíðina á Suðureyri. Ísafjarðarbær skuldbindur sig til þess að umhverfi Suðureyrar verði snyrt og tún slegin áður en hátíðin hefst og tæmi ruslatunnur að lokinni hátíð. Bæjarfélagið leggi hátíðinni til fánastangir og útisvið og upplýsingafulltrúi bæjarins komi upplýsingum á framfæri á þeim miðlum sem tengjast sveitarfélaginu. Sömuleiðis styrkir Ísafjarðarbær hátíðina um 700.000 kr á ári.

Act alone skal halda hátíðina og hreinsa rusl sem til fellur meðan hún stendur yfir, sömuleiðis standa að auknum almenningssamgöngum frá fimmtudegi til laugardags.

bryndis@bb.is

Matsáætlun vegna laxeldis í Dýrafirði

Dýrafjörður

Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um fyrirhugaða aukningu Arctic Sea farm á framleiðslu á laxi í Dýrafirði, úr 4.200 tonnum í 5.800 tonn. Niðurstaða Skipulags- og mannvirkjanefndar er að taka jákvætt í þessi áform og er umsögn nefndarinnar svohljóðandi:

Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur jákvætt í áform Arctic Sea Farm, um aukna framleiðslu á laxfiski í Dýrafirði úr 4200 tonnum í 10.000 tonn á ári.
Samkvæmt mati Hafrannsóknarstofnunar er Dýrafjörður talinn þola eldi á allt að 10 þúsund tonnum og er súrefnisbúskapur fjarðarins jafnvel talinn þola allt að 40% meira eldi en það. Áhrif uppsöfnunar næringarefna frá eldinu eru talin hafa mjög takmörkuð áhrif á botndýralíf á svæðinu, en með umhverfisvöktun er ætlun framkvæmdaraðila að fylgjast með mögulegum áhrifum á það og verða kvíaþyrpingar færðar til ef talið verður tilefni til. Í Dýrafirði og í nágrenni hans eru engar laxveiðiár og er því samkvæmt áhættumati Hafró engin áhætta fyrir villta laxfiskstofna af hugsanlegum strokufiski frá eldinu.

Er það því mat skipulags- og mannvirkjanefndar að stækkunaráform fyrirtækisins séu rökrétt í framhaldi af ágætum árangri síðustu ára og áform um viðbrögð þess eðlis að neikvæð umhverfisáhrif verða í algeru lágmarki.

Aðkoma skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar og álit þetta er byggt á þeirri staðreynd að bæjarfélagið og íbúar þess hafa hagsmuni af því að nýting lands og nærliggjandi sjávar, sé í sátt við umhverfi og íbúa. Jafnframt er mjög mikilvægt að nærliggjandi auðlindir séu nýttar með einhverjum hætti, til hagsbóta fyrir samfélagið.
Í fjölda ára hafa skipulagsnefnd og bæjarstjórn ítrekað það álit að brýn þörf sé á að strandsvæði séu skipulögð og að skipulagsvaldið verði í höndum sveitarfélaganna. Það álit er hér ítrekað, en í því tilfelli sem um ræðir skal þó á það bent að önnur nýting strandsvæðis á þeim reitum sem ætlaðir eru til eldis, er í dag lítil sem engin. Líklegt má því telja að skipulagning á nýtingu fjarðarins verði vel framkvæmanleg í samvinnu við umsækjanda og aðra mögulega hagsmunaaðila.

bryndis@bb.is

Átta bækur á árinu hjá Vestfirska forlaginu

Þessa dagana eru að koma út fimm nýjar bækur hjá Vestfirska forlaginu. Fyrr á árinu komu út þrjár. Samtals átta! Bækurnar eru þessar.

100 Vestfirskar gamansögur

Hallgrímur Sveinsson tók saman

Í þessari bók eru hundrað sögur úr hinum mikla þjóðsagnabanka Vestfirska forlagsins af Vestfirðingum. Flestar hafa þær komið á prenti áður í bókunum að vestan og víðar. Sögurnar lýsa orðheppni Vestfirðinga og hæfileika þeirra til að fanga augnablikið. Græskulaus gamansemi, sem allir hafa gott af, er aðalsmerki hinna vestfirsku sagna. Þessa bók köllum við Rauða kverið.
Allt þetta fólk – Þormóðsslysið 18. febrúar 1943

Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson tók saman.

Þormóðsslysið 18. febrúar 1943 var hræðilegt áfall og hafði mikil áhrif á Bíldudal og nærsveitir. Fjöldi manna lifði í skugga þess alla sína tíð. Hér er í fyrsta sinn fjallað um þennan mikla harmleik í heild eftir öllum tiltækum heimildum. Séra Jakob hefur tekið bókina saman að hvatningu margra afkomenda þeirra sem fórust með Þormóði. Frásögn hans lætur fáa ósnortna.
Vestfirðingar til sjós og lands – Gaman og alvara fyrir vestan

Hallgrímur Sveinsson tók saman

Bók þessi hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Bæði í gamni og alvöru. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga. Þessa bók köllum við Hvíta kverið.
Fortunu slysið í Eyvindarfirði á Ströndum 1787

eftir Guðlaug Gíslason frá Steinstúni og Jón Torfason

Strandlengjan, frá Hornbjargi og langt suður eftir Ströndum, með öllum sínum flóum, fjörðum og annesjum, var löngum annáluð fyrir að vera hættuleg skipum, stórum og smáum. Enda hafa farist þar ótal skip í tímans rás. Hér er sagt frá atburðinum sem átti sér stað þegar kaupskipið Fortuna fórst í Eyvindarfirði á Ströndum 1787 og þeim eftirmálum sem urðu út af honum. Skjölin sem geyma þessa 230 ára gömlu sögu, og hér er stuðst við, eru öll varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.
Sólin er klukkan sjö á Hreiðarstaðafjallinu – Ævi mín í pörtum eftir Jóhannes Sigvaldson búnaðarráðunaut og tilraunastjóra á Akureyri.

Jóhannes Sigvaldason er Svarfdælingur. Ólst upp við sveitastörf stríðsáranna þegar gamli tíminn var að mæta hinum nýja. Klukka var ekki hjá fólki við heyskap en verklok þegar sól var á Hreiðarsstaðafjallinu. Vann fyrir bændur og landbúnað allan sinn starfsferil. Jóhannes fór í pólitík og komst að því síðar að hann botnaði ekkert í henni en var þá hættur. Stýrði nokkrum félögum og var hvorki verri eða betri en fyrirrennarar og viðtakendur. Átti góða konu og mjög lánsamur með afkomendur.

Eftirtaldar bækur voru áður komnar út á árinu hjá Vestfirska forlaginu:

Hjólabókin, 5. bók, Rangárvallasýsla eftir Ómar Smára Kristinsson.
Þorp verður til á Flateyri, 2. bók eftir Jóhönnu G. Kristjánsdóttur.
Vestfirskar sagnir, 4. hefti, Helgi Guðmundsson safnaði.
bryndis@bb.is

Einelti og kynferðislegt ofbeldi á vinnustað er ólíðandi og verður að uppræta

Miðstjórn Alþýðusamband Íslands ályktaði í vikunni um einelti og kynferðislegt ofbeldi á vinnustað. Sambandið fagnar umræðu að undanförnu þar sem mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu áreiti og ofbeldi í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er svartur blettur á samfélaginu og enn eitt dæmið um kynbundna mismunun sem uppræta ber með öllum tiltækum ráðum.

Ennfremur kemur fram í ályktuninni að verkalýðshreyfingin hafni allri mismunun og órétti á vinnumarkaði. Á því byggi sjálf tilvist hennar. Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun og einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

Að lokum hvetur miðstjórnin aðildarsamtök Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfinguna alla til að styðja með öllum ráðum einstaklinga sem stíga fram og hafna hvers konar einelti og ofbeldi á vinnustað. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

bryndis@bb.is

Öryggismál í fiskvinnslu

Sjónvarpsstöðin N4 hefur gert sex myndbönd um öryggismál starfsfólks í fiskvinnslu en yfirskrift myndbandanna er „Öryggi er allra hagur.“ Þeim er ætlað að vera fræðandi og benda á mikilvægi þess að allir sem koma að vinnslunni séu meðvitaðir um að öryggis- og hreinlætismál séu í góðu lagi.

Rannsóknarsjóður síldarútvegsins styrkti gerð myndbandanna og sérfræðingar Vinnueftirlitsins veittu faglega ráðgjöf og þekkingu.

María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri N4 segir að framleiðsludeild N4 hafi á að skipa mjög hæfu fagfólki sem kunni vel til verka í gerð fræðslumyndbanda, og í þessu tilfelli hafi verið byggt á  ákveðinni sérþekkingu starfsfólks N4 úr sjávarútvegi og fiskvinnslu.

„Það er mikilvægt að fyrirtæki í fiskvinnslu bregðist við auknum fjölda vinnuslysa í fiskvinnslu á síðustu árum með aukinni fræðslu í vinnuvernd en komið hefur í ljós að slysin tengjast oftar en ekki vélbúnaði. Það er hagur allra.  ÚA veitti okkur aðgang að fiskiðjuveri sínu á Akureyri, þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar í öryggismálum og vinnuvernd.

bryndis@bb.is

Minningar úr Héraðsskólum

Þjóðminjasafn Íslands mun á næstunni senda út spurningaskrá um héraðsskóla og aðra heimavistarskóla til sveita á unglingastigi, en fyrirhugað er að safna upplýsingum um daglegt líf og athafnir í þessum skólum. Söfnunin byggir eingöngu á frásögnum fyrrverandi nemenda og er því fyrst og fremst verið leita eftir minningum fólks.

Spurningaskráin er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem staðið hefur óslitið síðan 1960. Spurt er um hefðir, félagslíf, ýmisleg samskipti við aðra nemendur og starfsfólk skólans, kennslu, nám, frístundir, tengsl við fjölskyldu og heimili o.fl.

Þjóðminjasafnið leitar eftir heimildarmönnum sem vilja svara þessari spurningaskrá, bæði úr héraðsskólum og síðast en ekki síst úr öðrum heimavistarskólum. Þeir sem taka vilja þátt eru vinsamlegast beðnir um að senda netfang sitt á agust@thjodminjasafn.is. Farið verður með netföngin sem trúnaðarmál.

Afrakstur söfnunarinnar verður gerður öllum aðgengilegur í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi eða sarpur.is.

Fyrsti skólinn þar sem nemendur dvöldu í heimavist var á Núpi í Dýrafirði árið 1907 og má ætla að margir geti deilt minningum sínum frá dvöl sinni í skólanum. Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri gaf út bókina Útlaginn og fjallar hún um veru hans á Núpi.

bryndis@bb.is

Langódýrasta húsnæðið á Vestfjörðum

Íslandsbanki hefur gefið út skýrslu um íslenskan íbúðamarkað og þar kemur fram að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er fjórfalt hærra en á Vestfjörðum og er sögulegur munur á milli ódýrasta landsvæðisins og dýrasta, verðmunur á þessum landssvæðum hefur aldrei verið meiri en nú.

Bankinn spáir 20% hækkun íbúðaverðs á þessu ári en 12% á næsta ári og 5% á árinu 2019 og að í lok árs 2019 verði komið jafnvægi í framboð og eftirspurn íbúðahúsnæðis.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi ekki verið lægra frá aldamótum. Veðsetningarhlutfall var 42% um síðustu áramót og hefur helmingast frá 2010, bæði hafa skuldir lækkað og hækkun íbúðaverð leiðir af sér lækkandi veðsetningarhlutfall.

Eigendaskipti íbúða eru tíðust á Suðurlandi og á Suðurnesjum þar sem ein af hverjum níu íbúðum á svæðinu var seld á árinu 2016 að meðaltali. Eigandi skipti íbúða eru fátíðust á Norðurlandi vestra, Austurlandi og á Vestfjörðum.

Nafnverð íbúða hefur hækkað hraðar en byggingarkostnaður á öllum landsvæðum, og er því hagkvæmara að byggja í öllum landshlutum en var árið 2010.

Hérlendis hefur íbúðaverð hækkað umfram laun að undanförnu og því má segja að erfiðara sé, miðað við laun, að kaupa íbúð á Íslandi um þessar mundir en að meðaltali í sögulegu samhengi. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað í 14 öðrum aðildarþjóðum efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og í tilfelli 12 þeirra er ójafnvægi í íbúðaverðs- og launaþróunar meira en hér.

Líkt og komið hefur fram er íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu mun hærra en á öðrum landsvæðum. Hins vegar er munur á launum á milli landsvæða óverulegur. Það gefur til kynna að íbúðareigendur sambærilegra eigna á landsbyggðinni ráðstafi að öðru óbreyttu minni hluta af launum sínum bæði til þess að kaupa og reka húsnæði.

bryndis@bb.is

Raforkuöryggi og orkuframleiðsla í Vísindaporti

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Vísindaport vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður helgað málefni, sem er ofarlega á baugi í samfélagsumræðu á Vestfjörðum um þessar mundir. Elías Jónatansson, orkubússtjóri, mun flytja erindi um raforkukerfið í fjórðungnum og hvernig samspil er á milli raforkuframleiðslu, flutnings, dreifingar, varaafls og orkuöryggis.

Framleiðsla, flutningur og dreifing eru þeir þrír þættir sem þurfa að vera til staðar til að uppfylla væntingar og eftirspurn neytanda eftir raforku þegar og þar sem hennar er þörf.  Hver og einn þessara þátta getur brugðist sem kemur þá fram í straumleysi hjá notendum.  Hægt er að hanna raforkukerfið með þeim hætti að engin ein eining þess geti valdið straumleysi hjá notendum og er þá talað um að kerfið uppfylli N-1 kröfu.  Ein leið til að uppfylla slíka kröfu er svokölluð hringtenging, en hún er ekki nægjanleg ein og sér ef aflið er ekki til staðar.

Elías Jónatansson er fæddur og uppalinn í Bolungarvík.  Hann er vélaverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og er með MSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum.  Elías hefur starfað hjá framleiðslufyrirtækjum, aðallega í tengslum við sjávarútveg, en starfaði einnig sem bæjarstjóri í Bolungarvík í átta ár.  Elías gegnir nú starfi orkubússtjóra hjá Orkubúi Vestfjarða.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða. Það er öllum opið en erindi vikunnar fer fram á íslensku.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir