Síða 2114

Margrét Björk nýr kennslustjóri Háskólasetursins

Sautján umsóknir bárust um starf kennslustjóra við Háskólasetur Vestfjarða og valnefnd hefur ákvaðið að ráða Margréti Björk Arnardóttur í starfið. Margrét Björk er náms- og starfsráðgjafi í Árskóla á Sauðárkróki en hefur auk þess starfað sem náms- og starfsráðgjafi við Háskólann á Hólum og Farskólann – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Hún hefur sinnt ýmsu fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi og er verkefnastjóri starfakynningar á Norðurlandi vestra. Við Árskóla heldur hún utan um Olweusaráætlun skólans og situr í áfallaráði og jafnréttisráði skólans. Hún hefur kennslureynslu og víðtæka reynslu af fjarnámi. Margrét Björk er með meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands auk félagsráðgjafamenntunar frá Danmörku. Hún hefur tengsl til Ísafjarðar og gekk m.a. annar í Menntaskólann á Ísafirði. Gert er ráð fyrir að Margrét Björk hefji störf eftir áramót.

Kristín Ósk Jónasdóttir sem gengt hefur starfi kennslustjóra undanfarin sex ár lætur af störfum um áramót. Kristín hefur verið ráðin sem sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem umsjónarmaður Hornstrandafriðlandsins.

Vestfirsk orka í víðum skilningi

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Orkubú Vestfjarða efnir nú til ljósmyndasamkeppni með glæsilegum vinningum. Þemað er „vestfirsk orka í víðum skilningi,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Orkubúsins og er skilafrestur til 14. nóvember. Allar myndir sem berast í keppnina verða birtar á Facebooksíðunni þann 16. Nóvember og sú sem fær flest læk hreppir vinning sem er veglegur, eða út að borða á Hótel Ísafirði fyrir tvo og tveir miðar á tónleikana Hátíðartóna með þeim Jógvan Hansen, Heru Björk og Halldóri Smárasyni. Myndasmiðirnir sem hreppa annað og þriðja sætið hreppa einnig tónleikamiða í vinning.

 

Enn fjölgar gistinóttum

Nærri 380 þúsund gistinætur voru skráðar á hótelum í síðasta mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það er þriggja prósenta aukning frá því í september í fyrra. Flestar gistinætur voru á höfuðborgarsvæðinu, eða ríflega helmingur allra gistinátta. Á Vestfjörðum og Vesturlandi, en landshlutarnir eru taldir saman í gögnum Hagstofunnar, voru 21.724 gistinætur og fjölgaði um 7 prósent milli ára. Mest fjölgaði gistinóttum á Suðurnesjum eða um tíu af hundraði. Erlendir ferðamenn eru langstærstur hlutinn en níu af hverjum tíu gistinóttum eru skráðar á erlenda ferðamenn.

Gistinætur á hótelum frá október 2016 til loka síðasta mánaðar eru 18 prósent fleiri en sömu mánuði árið á undan.

Norðvesturkjördæmi á barmi þess að missa þingmann

Misvægi atkvæða er að aukast og er mest milli Norðvesturs- og Suðvesturkjördæmis. Við endurskoðun á kosningalögum árið 2000 var kjördæmum fækkað úr átta í sex og jafnframt var misvægi atkvæða sett mörk í stjórnarskrá þannig að vægi atkvæða í einu kjördæmi megi ekki vera tvöfalt meira en í öðru kjördæmi. Í fréttaskýringu RÚV kemur fram að frá því 2000 hafa tveir þingmenn færst úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi, fyrst í kosningunum 2003 og svo árið 2009.

Í kosningunum á laugardag voru 2.690 kjósendur að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi, samanborið við 5.346 í Suðvesturkjördæmi. Hlutfallið er 199% og á barmi þess að fara yfir stjórnarskrárbundin mörk, sem eru 200%.

Helstu rökin fyrir meira vægi atkvæða í dreifðair byggðum er að vega upp á móti valdi þéttbýlis og valdamiðstöðva og þetta er fyrirkomulag sem þekkist í nágrannalöndunum en Ísland hefur þó gengið lengra í þessa átt en önnur lönd.

Jöfnunarmenn eiga að tryggja að þingstyrkur flokkanna sé í samræmi við atkvæðafjölda en þeir eru ekki nógu margir, eða níu. Í kosningunum á laugardag stingur í augun að Framsóknarflokkurinn fékk einum fleiri þingmann en Samfylkingin þrátt fyrir að Framóknarflokkurinn hafi fengið 10,7 prósent á landsvísu en Samfylkingin 12,1 prósent. Fleir jöfnunarmenn hefðu fært einn þingmann frá Framsókn til Samfylkingar. Að öðru leyti er þingstyrkur flokkanna í samræmi við fylgi.

Between Mountains á Iceland Airwaves

Vestfirsku tónlistarkonurnar Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Guðmundsdóttir sem komu, sáu og sigruðu Músíktilraunir í byrjun árs láta nú ljós sitt skína á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves, dagskáin er þétt og hefst í dag:

31.10.17- Hitt húsið- 18:30
1.11.17- Grund dvalar- og hjúkrunarheimilið- 10:15
1.11.17- KEX Hostel- 13:00
1.11.17- Sólon Bistro- 19:00
2.11.17- Víking Brewery Reykjavík- 14:00
3.11.17- Bíó Paradís- 13:00
3.11.17- Hitt Húsið- 19:30
3.11.17- Fríkirkjan (on venue) 21:00
4.11.17- Landsbankinn (Reykjavík)- 15:00
5.11.17- Gaukurinn (on venue) 22:30

Fylgjast má með tónlistarviðburðum Between Mountains á Facebooksíðu hljómsveitarinnar.

Tíðindalítið veður í dag

Það stefnir í frekar tíðindalítið veður í dag, suðvestlæga átt og dálitla vætu S- og V-lands, en úrkomulítið NA-til. Síðdegis fara skil yfir landið frá vestri til austurs og eykst þá úrkoman V-lands um tíma en skilin munu líklega ekki færa neina úrkomu að ráði á NA- og A-land. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðins.

Í kvöld snýst í norðlæga átt og kólnar nokkuð hratt með henni, fyrst um landið V-vert. Það má búast við slydduéljum á Vestfjörðum fram eftir nóttu, en éljum NA- og A-til á morgun. Norðanáttin verður einna hvössust á SA- og A-landi í fyrramálið þar sem hviður við fjöll geta auðveldlega farið yfir 30 m/s, einkum suður af Vatnajökli og á sunnanverðum Austfjörðum. Á sama tíma léttir til fyrir sunnan og vestan og eru ágætis líkur á björtu veðri þar á morgun. Það lægir síðan og styttir upp á landinu um og eftir hádegi.

Tíðin er heldur rysjótt þessa dagana en annað kvöld er útlit fyrir vaxandi suðlæga átt og rigningu V-lands eftir nokkuð fallegan og svalan dag á þeim slóðum.

Tvöfaldur Evrópumeistari eftir fyrsta keppnisdag

Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið einstaklega sigursæl síðustu ár.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir bætti tveimur Evrópumeistaratitlum í safnið sitt á fyrsta degi Evrópumeistaramóti DSISO sem er haldið í París. Á fyrsta keppnisdegi í gær tók hún þátt í tveimur greinum, 50 metra flugsundi og 100 metra baksundi. Flugsundið var æsispennandi sem Kristín sigraði mjög naumlega og ekki nema 6 sekúndubrotum á undan næsta keppanda.

Seinnipartinn í gær var komið að 100 metra baksundi en það er grein sem Kristín óttaðist eilítið fyrirfram eftir að hafa gert ógilt í sömu grein á móti í Malmö í vor. Kristín Þorsteinsdóttir er íþróttakona sem lætur ekkert stoppa sig og hélt ótrauð til sunds og landaði að sjálfsögðu öðrum Evrópumeistaratitli.

HS Orka fær nýja eig­end­ur

HS Orka rekur tvær jarðvarmavirkjanir en með Hvalárvirkjun bætist við vatnsaflsvirkjun,.

Kom­ist hef­ur á sam­komu­lag um kaup Inner­gex Renewable Energy á Alterra Power Corp. sem er stærsti hlut­haf­inn í HS Orku. Frá þessu er greint á mbl.is. Bæði Innergex Renewable Energy og Alterra Power Group eru kanadísk orkufyrirtæki og það síðarnefnda ræður yfir 66,6% hlut í HS Orku. Vesturverk ehf. á Ísafirði sem áformar að Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er í meirihlutaeigu HS Orku.

Kaup­verðið nemur 1,1 millj­arði Banda­ríkja­dala, eða tæp­um 116 millj­örðum ís­lenskra króna og fela í sér 25% reiðufé og 75% hluta­fé í Inner­gex. Þau eru háð samþykki hlut­hafa Alterra.

Léttir fyrir hreppsbúa

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Verslunin á Norðurfirði í Árneshreppi opnar á ný á morgun en engin verslun hefur verið í hreppnum frá því að útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar var lokað í september. Nýir verslunarstjórar eru hjónin Ólafur Valsson og Sif Konráðsdóttir og komu þau með búslóð sína í hreppinn í gær. Á morgun kemur flutningabíll frá Strandafrakt með fyrstu vörur í nýja verslun. Á vef Litla hjalla segir ritstjórinn Jón Guðbjörn Guðjónsson opnunar verslunarinnar sé mikill léttir fyrir íbúa hreppsins.

Í fjarveru Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita Árneshrepps, var það fyrrnefndur Jón Guðbjörn sem tók á móti kaupmannshjónunum og bauð þau velkomin í hreppinn og afhenti lykla að verslunarhúsinu og að íbúð sem Ólafur og Sif fá til afnota, en íbúðin er í sömu byggingu og verslunin er í, á efstu hæð kaupfélagsbygginganna.

Leituðu smala

Björgunarsveitir frá Vesturlandi, Ströndum, Vestfjörðum og við Húnaflóa voru kallaðar út í kvöld til að leita að týndum smölum í Selárdal á Ströndum. Uggur vaknaði með fólki þar sem smalarnir höfðu ekki skilað sér til byggða á tilætluðum tíma. Þeir fundust þó fljótlega eftir að björgunarsveitir fóru til leitar. Fyrstu hóparnir fóru úr húsi klukkan níu í kvöld og hálftíma síðar var búið að finna smalana heila á húfi.

Fimmtán manna hópur frá Björgunarfélagi Ísafjarðar var í þann mund að leggja af stað á Strandir þegar smalarnir fundust.

Nýjustu fréttir