Miðvikudagur 2. apríl 2025
Síða 2114

Sjávardýraorðabók

Треска á rússnesku

Gunnar Jónsson, fyrrum fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni tók saman sjávardýraorðabók á 10 tungumálum og nú hefur 11. tungumálið bæst við.

Helgi Haraldsson, fyrrum prófessor hjá Stofnun bókmennta og evrópskra tungumála við Hugvísindadeild Háskólans í Osló, bauð Hafrannsóknastofnuninni til afnota rússneskt orðasafn yfir sjávardýr sem hann tók saman. Þessu orðasafni hefur verið komið í orðabókina og má þar nú finna sjávardýraheiti á 11 tungumálum, íslensku, latínu, norsku, dönsku, þýsku, frönsku, ensku, færeysku, spænsku, portúgölsku og eins og áður sagði rússnesku.

Hér má nálgast orðabókina.

bryndis@bb.is

Nýr formaður SFÚ

Samtök fiskframleiðenda og útflytjanda (SFÚ) héldu aðalfund sinn á dögunum þar sem kjörinn var nýr formaður, Arnar Atlason en hann er framkvæmdastjóri Tor fiskvinnslu í Hafnarfirði. Fyrrverandi formaður til níu ára er Jón Steinn Elíasson sem tók sæti í stjórn.

Í ályktun fundarins kemur fram að SFÚ leggi áherslu á að ferskur fiskur sé ekki fluttur úr landi án þess að hafa fyrst verið boðinn til sölu á opnum uppboðsmarkaði hér á landi. Sömuleiðis að markaðsverð á opnum fiskmarkaði verði látið ráða í öllum viðskiptum með fisk og verðlagsstofa skiptaverðs verði lögð niður, enda stuðli slíkt að réttu uppgjöri til sjómanna, réttum hafnargjöldum, réttum gjöldum til hins opinbera og réttu verði til neytenda. SFÚ skorar á stjórnvöld að lögbinda fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu og að stuðla að því að aukið magn hráefnis skili sér inn á fiskmarkaðina.

bryndis@bb.is

19 farþega rúta valt í Krísuvík

Í vonskuveðri um kl. 21:00  í gærkvöldi voru björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna rútu sem hafði farið út af á Krísuvíkurvegi og oltið. Enginn slasaðist og rúmum klukkutíma síðar var búið að ferja alla farþega úr rútunni og yfir í aðra bíla.

Í kjölfar þess að allir farþegar úr rútunni höfðu verið fluttir í hús Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, var óskað eftir aðstoð björgunarsveita við að flytja fólk sem sat fast í bílum sínum í Vatnsskarði. Vatnsskarð er rúmum kílómetir norðan við vettvanginn og voru miklar hviður í skarðinu og hálka á veginum,  þar sátu tæplega tíu bílar fastir. Um miðnætti var allt fólkið komið um borð í bíla björgunarsveita.

Ekki hafa borist fregnir af útköllum björgunarsveita á Vestfjörðum

bryndis@bb.is

Ætlaði hvort eð er ekki að verða afrekskona í íþróttum

Vestfirðingur ársins 2016, Katrín Björk Guðjónsdóttir, sér sem fyrr gleðina í öllu og heldur einarðlega áfram því verkefni sínu að ná bata. Á bloggsíðu sinni gefur hún okkur hinum tækifæri á að fylgjast með sigrum sínum, stórum sem smáum,  sem til að mynda voru í október að geta sleikt efri vörina, geta rækst sig og hóstað. Það er upplýsandi að lesa færslur þessarar miklu baráttukonu sem mun án vafa komast þangað sem hún ætlar, hún lýsir æfingum sínum og kosningareynslu og hún rifjar upp tilfinningar sínar og minningar frá snjóflóðinu 1995.

Í nóvember pistli sínum minnist hún styrktartónleika sem haldnir voru fyrir hana og fjölskyldu hennar og má glöggt sjá hve þakklát hún er þeim stuðningi sem hún fékk. Með pistlinum eru nokkrar myndir af henni og vinkonu hennar Arnheiði Steinþórsdóttur en þær hafa margt brallað í gegnum tíðina.

Með pistlinum, og þessari frétt, er líka myndband sem gert var í tilefni þátttöku þeirra stallna, ásamt fleirum, í Samfés árið 2009. Um myndbandið segir á youtube: Lagið sem Katrín Björk söng á Samfés í Laugardalshöllinni febrúar 2009, tekið upp í studioinu hjá Önundi Pálssyni í Önundarfirði . Katrín Björk (söngur), Arnheiður (Píanó og bakrödd), Daníel Freyr (Gítar), Gauti Geirsson (Bassi) Páll Sólmundur (Gítar), Einar Óli (Trommur)

Nú líður að kjöri Vestfirðings ársins 2017 og tímabært að íhuga hver eigi skilað þennan titil.

bryndis@bb.is

Frábær frammistaða Vestrakrakka á Sambíómótinu

Yngstu stelpurnar með Ingimar Aroni Baldurssyni þjálfara. Mynd: Vestri.is

Á Vestri.is segir frá Sambíómótinu þar sem þátt tóku yfir 20 körfuboltakrakkar úr Vestra á aldrinum 6-9 ára. Mótið, sem haldið er af Fjölni í Grafarvogi, er eitt af stærstu körfuboltamótum sem haldin eru hér á landi en um 600 krakkar tóku þátt í mótinu í ár.

Dagskrá helgarinnar var þéttskipuð en auk þess að bjóða upp á körfuboltaleiki er ýmislegt annað í boði s.s. bíóferð, sund og kvöldvaka. Lið Vestra sem tóku þátt á mótinu voru fimm talsins, tvö stelpulið og þrjú strákalið. Öll liðin kepptu fimm leiki, sýndu mikinn baráttuanda og stóðu sig með miklum sóma. Mátti sjá miklar framfarir hjá liðunum á mótinu en sumir þátttakendanna voru að stíga sín fyrstu skref á körfuboltamóti. Umfram allt var það þó leikgleðin sem réði ríkjum hjá Vestraliðunum því hún skein úr hverju andliti á meðan á mótinu stóð.

Krakkarnir skörtuðu í fyrsta sinn nýjum keppnisbúningi Vestra og vakti hann athygli annarra mótsgesta. Var haft á orði hversu vel heppnaður og fallegur hann væri.

Þjálfarar Vestrakrakkanna í 6-9 ára hópunum í vetur eru þeir Ingimar Aron Baldursson, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Yngvi Páll Gunnlaugsson. Samtals spiluðu krakkarnir 25 leiki um helgina og engin leið fyrir þá félaga að stýra öllum þeim leikjum því margir sköruðust. Aðstoðarþjálfarar hlupu því í skarðið ásamt foreldrum og gekk allt ljómandi vel upp. Myndarlegur hópur foreldra fylgdi krökkunum eftir allt mótið og skemmtu allir sér hið besta.

Næsta stórmót þessa aldurshóps er hið margrómaða Nettómót í Reykjanesbæ sem fram fer fyrstu helgina í mars 2018.

Elstu stelpurnar með Gunnlaugi Gunnlaugssyni þjálfara. Mynd: Vestri.is
Elstu strákarnir með Yngva Páli Gunnlaugssyni þjálfara. Mynd: Vestri.is
Yngstu strákarnir og Ingimar Baldursson þjálfari. Mynd: Vestri.is
Næstelstu strákarnir og Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari. Mynd: Vestri.is

bryndis@bb.is

Landsliðið mætir Svartfjallalandi

Landslið kvenna í körfubolta mætir Svartfjallalandi á morgun í undankeppni EM og er leikurinn sýndur beint á RUV. Útsending hefst kl. 15:40 en leikurinn kl. 16:00.

Leikjaplanið í undankeppni EM

  1. nóv. 2017   Ísland-Svartfjallaland í Laugardalshöllinni kl. 16:00 Sýndur beint á RÚV
    15. nóv. 2017   Slóvakía-Ísland í Ruzomberok, Slóvakíu. Sýndur beint á RÚV2
    10. feb. 2018    Bosnía-Ísland. Sýndur beint á RÚV
    14. feb. 2018    Svartfjallaland-Ísland. Sýndur beint RÚV2
    17. nóv. 2018   Ísland-Slóvakía í Laugardalshöllinni kl. 16:00. Sýndur beint á RÚV
    21. nóv. 2018   Ísland-Bosnía í Laugardalshöllinni kl. 19:30. Sýndur beint á RÚV2

Karlmennska Sæbjargar á veggi Háskólans

Eyþór Jóvinsson í bókabúðinni sem er einskonar tímahylki í sjálfri sér. Mynd: Sæbjörg F. Gísladóttir

Þann 8. nóvember var opnuð í Háskóla Íslands ljósmyndasýningin Alvöru karlmenn. Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur á Flateyri vann sýninguna sem er blanda af gömlum og nýjum myndum sem endurspegla hugmyndir um karlmennsku. Sæbjörg kynnti hugmyndafræði og vinnuna við sýninguna og stýrði leiðsögn um hana á opnunardegi, en hún hangir áfram uppi á göngum Háskólatorgs (niðri) og er fólk hvatt til að skoða hana. Sýningin í HÍ er haldin í samvinnu Sæbjargar og Námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands og Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Eftirfarandi er kynning á sýningunni:

Alvöru karlmenn

Vaskir sjómenn, vígreifir bankamenn, krúttleg lopatröll, léttfættir séntilmenn, þrekmiklir bændasynir: Það er misjafnt hvað þykir karlmannlegt, breytilegt eftir stað, stund og stétt. En hvernig hefur karlmennskan þróast í tímans rás og hvernig bera menn sig karlmannlega í dag? Þjóðfræðingurinn Sæbjörg Freyja Gísladóttir hefur rannsakað hvernig karlmennska birtist í ljósmyndum frá árunum 1914 til 2014, hvaða líkamsstaða þykir karlmannleg á hverjum tíma og hvernig líkamar karlmanna endurspegla samfélagsbreytingar.

Sæbjörg safnaði og greindi um eitt þúsund ljósmyndir frá Skjalasafni Austfirðinga og Skjalasafninu á Ísafirði frá fyrstu áratugum 20. aldar. Hún ljósmyndaði einnig þrjátíu karlmenn sem eru búsettir á Egilsstöðum, Reykjavík og Önundarfirði. Afrakstur þessa er ljósmyndasýningin Alvöru karlmenn sem þegar hefur verið sýnd víða um land og ratar nú á veggi Háskóla Íslands.

bryndis@bb.is

Blakarar á ferð og flugi

2. flokkur stúlkna.

Á laugardag mætir kvennalið Vestra í 2. flokki stúlkna í blaki Aftureldingu á heimavelli Aftureldingar í Mosfellsbæ. Þetta er fyrsti leikur Aftureldingar í mótinu en sjötti leikur Vestra. Vestri hefur sigrað HK og Völsung en tapað fyrir Þrótti R og báðum leikjum við Þrótti Neskaupstað.

Íslandsmót 5. – 6. flokks fer einnig fram um helgina og þar á Vestri hrausta fulltrúa.

Í 6. flokki, 6-8 ára er Vestri með tvö lið, Vestri X og Vestri Y og í 5. flokki, sem eru krakkar 9-11 ára, á Vestri sömuleiðis 2 lið. Það eru þau Tihomir Paunovski þjálfari Vestra og Harpa Grímsdóttir sem fylgja keppendum suður og stýra leikjum þeirra.

Tihomir þarf þó að bregða sér frá á laugardeginum því fyrir utan að stýra 2. flokki stúlkna í sínum leik er líka leikur meistaraflokks karla í Mosfellsbæ við Aftureldingu þann daginn en hann er spilandi þjálfari í karlaliðinu. Þetta er annar leikur Vestra í 1. deildinni en liðið tapaði fyrir BF í október. Þess má geta að karlalið Vestra sigraði 1. deildina í fyrra með yfirburðum, tapaði aðeins þremur leikjum.

Meistaraflokkur Vestra

bryndis@bb.is

Formleg opnun Norðfjarðarganga

Á laugardaginn verða Norðfjarðargöng formlega opnuð og mun Jón Gunnarsson starfandi samgönguráðherra, með aðstoð Hreins Halldórssonar vegamálastjóra, klippa á borða.

Athöfnin fer fram við gangamunnan Eskifjarðarmegin. Kaffisamsæti verður að athöfn lokinni í Dalahöllinni, í Fannardal, Norðfirði. Fjarðabyggð verður með ýmsar uppákomur samhliða þessu svo sem sjá má á heimasíðu sveitarfélagsins: www.fjardabyggd.is

Gangahlaup Þróttar og Austra

Íþróttafélögin Þróttur og Austri taka forskot á sæluna og standa í dag fyrir Gangahlaupi Þróttar og Austra, og munu í dag ganga, hlaupa, hlaupahjóla, línuskauta og hjóla gegnum göngin, frá Norðfirði til Eskifjarðar. Reiknað er með það taki tvo klukkutíma að ganga alla leið en göngin eru 8 km löng. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í búningum sinna félaga

Göngin

Norðfjarðargöng leysa af hólmi Oddskarðsgöng og erfiðan fjallveg að þeim göngum beggja vegna. Oddskarðsgöng voru byggð á árunum 1972-77 og eru einbreið, 640 m löng og liggja í um 610 metra hæð yfir sjó.

Lengd nýju Norðfjarðarganganna í bergi er 7.566 m, vegskáli er 120 m Eskifjarðarmeginn og 222 m Norðfjarðarmegin eða samtals 342 m.  Heildarlengd ganga með vegskálum er því 7.908 m. Þversnið ganganna er 8,0 m breitt í veghæð. Í göngunum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 við hlið vegskála utan ganga. Neyðarrými fyrir um 150 manns verða við hvert tæknirými inni göngunum.  Vegur í gegnum göngin er 6,5 m breiður milli steyptra upphækkaðra axla.

Gangamunni Eskifjarðarmegin er í 15 m hæð yfir sjó rétt innan við gamla Eskifjarðarbæinn. Munninn Norðfjarðarmegin er í 126 m hæð yfir sjó í landi. Gólf í göngum fer mest í 170 m hæð yfir sjó.

Nýir vegir að göngunum Eskifjarðarmegin eru um 2 km og Norðfjarðarmegin um 5,3 km, samtals um 7,3 km. Vegurinn er 8 m breiður með 7 m akbraut. Í tengslum við vegagerð að göngum voru byggðar nýjar brýr annars vegar 44 m löng á Norðfjarðará og 58 m löng á Eskifjarðará.

bryndis@bb.is

Fjárgirðing og jafnvel göngustígur og reiðvegur

Mynd: Ævar Einarsson Hvas

Í hlíðinni fyrir ofan Suðureyri er verið að setja upp nýja fjárgirðingu en lausaganga búfjár hefur verið talsvert vandamál á Suðureyri, sem og í öðrum þéttbýliskjörnum í ár og að sögn Brynjars Þórs Jónssonar sviðsstjóra umhverfis og eignasviðs verður vandað til verka.

Brynjar segir að uppdráttur af mögulegum göngustíg/þjónustustíg við fjárgirðinguna hafi farið fyrir fund umhverfisnefndar 7. nóvember og var þaðan vísað til umsagnar hverfisráðs Súgandafjarðar. Samþykki hverfisráð Súgandafjarðar að meðfram fjárgirðingunni verði gerður göngustígur, verður gengið þannig frá umhverfi fjárgirðingar að úr verði góður göngu/þjónustustígur sem nýtist íbúum til útiveru og þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar til viðhalds á fjárgirðingu.

Í tilfelli þessa mögulega stígs er um að ræða hliðrun ofar í hlíðina miðað við legu stígs sem sýndur er á Aðalskipulagsuppdrætti.  Í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar kemur fram að lega gönguleiða sé ónákvæm á skipulagsuppdrætti og nákvæm lega skuli ákvörðuð í deiliskipulagi eða á framkvæmdastigi.  Mögulega er þörf á óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar þar sem nákvæm lega stígsins er færð inn á uppdrátt og segir Brynjar að það verði metið ef hverfisráði Súgandafjarðar hugnist lega stígsins.

„Hugnist hverfisráði Súgandafjarðar ekki lega stígs á umræddu svæði verður gengið frá eftir girðingarvinnuna þannig að ekki verði varanleg ummerki“.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir