Laugardagur 3. maí 2025
Heim Blogg Síða 2114

Leita að húsnæði fyrir flóttamenn

Gísli Halldór Halldórsson.

Ef lausn finnst á húsnæðismálum gætu 20-30 sýrlenskir flóttamenn flust vestur í Djúp innan ekki langs tíma. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að koma flóttamannanna verði á grunni samþykktar bæjarstjórnar frá árinu 2015. Á sama tíma gerðu bæjarstjórnir Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps sambærilegar samþykktir. Gísli Halldór segir að bæjarstjórar sveitarfélaganna hafi fundað í gær með Rauða krossinum og Fjölmenningarsetri um stöðuna. „Eina fyrirstaðan er húsnæðismál, það er þröngt um húsnæði hjá okkur öllum. Við ætlum að gefa okkur viku til að komast að því hvort við getum leyst úr því,“ segir Gísli Halldór. Sveitarfélögin við Djúp munu vinna þetta saman að sögn Gísla Halldórs og um miðjan mánuðinn ætti að liggja fyrir hvort flóttamennirnir komi.

„Við ætlum meðal annars að leita til eigenda frístundahúsa sem standa mikið auð og biðla til þerra um að gera við okkur leigusamning til tveggja ára. Það væri mjög fallegt framlag þeirra að gera við okkur leigusamning og liðka þannig til,“ segir Gísli Halldór.

Aðspurður hvenær flóttamennirnir komi, ef af verður, segir Gísli Halldór að stjórnvöld hafi talað um miðjan janúar. „Þannig að þetta verður nokkuð bratt og allt þarf að ganga upp.“

Styrjöldin í Sýrlandi er á sínu sjöunda ári, en hún hófst í mars 2011. Landið er í rúst og talið að 340 þúsund manns hafi látið lífið í átökunum, þar af 100 þúsund óbreyttir borgarar. Á sjöttu milljón manns eru flótta vegna stríðsins og neyðin er mikil.

Auglýsing

Vestfirðingar fagna aldarafmæli með metnaðarfullri dagskrá

Hrafnseyri í Arnarfirði.

Fyrir ári skipaði Alþingi nefnd til að undirbúa hátíðahöld í tilefni hundrað ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Afmælisnefnd leitaði til landsmanna eftir tillögum að verkefnum á dagskrá afmælisársins. Hundrað verkefni voru valin úr 169 innsendum tillögum. Þau voru tilkynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag. Fjögur vestfirsk verkefni hlutu styrk frá afmælisnefndinni.

Safnahúsið á Ísafirði fær 700 þúsund króna styrk vegna ráðstefnu og sýningar næsta sumar. Sýningin fjallar um heimsókn hóps fólks frá Angmagssalik á austurströnd Grænlands til Ísafjarðar árið 1925 og á hún að verða liður í að auka samskipti þjóðanna.

Hópurinn sem kom til Ísafjarðar 1925 dvaldi í fáeina daga í bænum, nokkrir gestanna sýndu listir sínar á kajökum á höfninni og heimamenn kynntu gestunum allt það helsta sem þótti markvert. Þessi heimsókn markar fyrstu tengsl Íslendinga og Grænlendinga á síðari tímum. Á ráðstefnunni er ætlunin að taka fyrir margvíslegar hliðar á tengslum Íslands og Grænlands, m.a. hvernig stjórnskipunarleg staða þeirra hefur verið svipuð og ólík í gegnum aldirnar og á hvaða hátt reynsla Íslendinga sem fullvalda þjóðar getur nýst Grænlendingum í leit þeirra að fullveldi.

Menningarsetrið á Hrafnseyri fær 600 þúsund króna styrk til að minnast aldarafmælis fullveldis og sjálfstæðis Íslands með tónverki eftir ísfirska tónskáldið Halldór Smárason. Tónverkið verður frumflutt verður á Hrafnseyri á þjóðhátíðardag Íslands þann 17. júní 2018. Verkefnið verður 10 mínútur að lengd og verður flutt af „Strokkvartettinum Sigga“ sem stofnaður var árið 2012.

Verkefnið Strandir 1918 fær 500 þúsund króna styrk til að setja upp sögusýningu í Sauðfjársetrinu á Ströndum. Áhersla verður lögð á að nýta persónulegar heimildir Strandamanna á sýningunni, sendibréf, dagbækur, sjálfsævisögur, minningarþætti og það litla sem til er af ljósmyndum af svæðinu frá fyrstu áratugum 20. aldar við hönnun og uppsetningu. Í tengslum við sýninguna og fullveldisafmælið verða einnig skipulagðir þrír viðburðir haustið 2018 með þátttöku sérfræðinga á sviði þjóðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og náttúruvísinda. Náttúrubarnaskólinn verður með innlegg á dagskránni og leitað verður samstarfs við Grunnskólann á Hólmavík.

Sunnukórinn á Ísafirði er elsti starfandi blandaði kór á Íslandi, hefur verið starfandi hartnær alla fullveldistíð Íslands og komið víða að viðburðum tengdum fullveldissögu Íslands. Nú hyggst Sunnukórinn setja upp dagskrá með tónlist tíðarandans sem lifði með þjóðinni þetta 100 ára tímabil og fær til þess 500 þúsund króna styrk. Við dagskrána verði fléttað söguskýringu með frásögnum og myndefni sem tengjast fullveldinu og dagskrárefninu. Hver áratugur verður teiknaður upp í tónum og tali. Auk Sunnukórsins verða nemendur og barnakórar Tónlistarskóla Ísafjarðar þátttakendur í dagskránni.

Auglýsing

Skipt um gólf í íþróttahúsinu

Mynd: Grétar Helgason.

Framkvæmdir við lagningu nýs gólfs í íþróttahúsinu á Torfnesi hófust um síðustu helgi. Gamla gólfið var rifið upp og sömuleiðis grindin sem parkettið sat á. Grindin var farin að gefa sig enda nærri aldarfjórðungur síðan húsið var tekið í notkun og gólfið er upprunalegt. Ofan á botnplötu hússins eru lagðir kubbar eftir kúnstarinnar reglum og á þá koma leiðarar með demperum og að endingu sjálft parkettið. Sjálfri gólflagningunni á að vera lokið á sólstöðum þann 21. desember og en þá á eftir að merkja gólfið og lakka. Íþróttahúsið verður tilbúið til notkunar síðasta lagi 10. janúar.

Auglýsing

Samkaup – Why English?

Jónas Guðmundsson.

Ég bið væntanlega lesendur þessa greinarkorns afsökunar á enskri fyrirsögn, sem á íslensku mundi útleggjast eitthvað á þessa leið: Samkaup – af hverju enska?  Stafar þetta af því að mér kom ekki önnur fyrirsögn í hug þegar ég hugsaði til merkinga sem komið var fyrir fyrr á árinu utan á húsnæði verslunarinnar Nettó, sem Samkaup hf. reka í miðbæ Ísafjarðar, en þar stendur stórum áberandi stöfum á tveimur hliðum hússins „Nettó“ og þar fyrir neðan „DISCOUNT SUPERMARKET”.

Lengi hélt ég að áletrunum á íslensku yrði bætt við, en enn bólar ekki á þeim. Væntanlega er þessi ágæta verslun þó ekki síst ætluð íbúum á Ísfirði og nágrenni. Flestir eiga þeir íslensku að móður-máli, nota íslensku í samskiptum sínum og einhver hluti þeirra sem skilur ekki vel aðrar tungur. Merkingar innanhúss í versluninni eru flestar á íslensku og einnig er verslun Samkaupa í Bolungarvík, sem ber hið ágæta íslenska nafni “Kjörbúðin,“ eingöngu með merkingar á íslensku að utan en enga ensku þar að sjá. Er undirrituðum ekki ljóst hverju þetta misræmi sætir í málnotkun milli staða og flokka verslana sem Samkaup reka og því ekki að neita að þessi notkun enskunnar á Ísafirði fer svolítið fyrir brjóstið á mér. Veit ég að það á við um fleiri, nú þegar háð er hörð barátta gegn þungri sókn alþjóðamálsins.

Með fjölgun erlendra gesta á Ísafirði er auðvitað lítið við því að segja að vakin sé athygli á þjónustu sem hér er í boði á máli sem meirihluti þeirra skilur. Hitt er miður þegar ekki er talin ástæða til að vekja athygli á henni á tungu íbúa hér.

Því leyfi ég mér að spyrja: Hvað veldur því að íslenskan fær svo lítið rými á útveggjum verslunarinnar á Ísafirði? Er verið að fylgja þróun, sem því miður virðist fara vaxandi hérlendis, að nefna allt og merkja á ensku, hvort sem um er að ræða þjónustufyrirtæki, verslanir eða flugfélög og talið óþarfi að hafa heiti þeirra á íslensku þar sem margir, ekki síst unga fólkið, skilur ensku vel? Er verið að fylgja fordæmi ameríska verslunarrisans Costco, sem lítt virðist skeyta um íslenskuna í utanhússmerkingum sínum? Er Nettó e.t.v. hluti af alþjóðlegri keðju sem mælir fyrir um að ytri merkingar og málnotkun skuli vera eins alls staðar þar sem verslun undir nafni hennar starfar – eða er því e.t.v. öfugt farið að Samkaup áforma stofnun alþjóðlegrar keðju með samræmdum merkingum á ensku og byrjar hér á Íslandi?

Líklega verður „Nettó“ að teljast íslenskt orð en sé reynt að þýða orðin „Discount Supermarket“ á íslensku virðast mér orðin lágvöruverðsverslun eða lággjaldaverslun ná því nokkuð vel og vel við hæfi að merkja verslanir sem starfa undir heitinu Nettó öðru hvoru þessara orða ásamt enskunni. Þykir það e.t.v. ekki henta?

Þær ágætu verslanir sem reknar eru undir nafninu Nettó eru víst merktar með svipuðum hætti og hér er lýst víðar um land og þessar spurningar því ekki bundnar við Ísafjörð einan. Ég vænti þess að skýringar á þeirri notkun á ensku sem hér er færð í tal verði birtar hér á þessum vettvangi áður en mjög langt um líður.  Jafnframt spyr ég hvort við í hópi þeirra heimamanna hér á Ísafirði  og nágrenni sem viljum veg íslenskunnar sem mestan getum með einhverjum hætti lagt lóð okkar á vogarskálarnar svo móðurmálið fái einnig notið sín á útveggjum verslunarinnar?

Ísafirði, í  desemberbyrjun 2017.

Jónas Guðmundsson, íbúi á Ísafirði.

Auglýsing

Skoða byggingu seiðaeldisstöðvar í Mjólká

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Arnarlax hf. er með til skoðunar að reisa seiðaeldisstöð í Borgarfirði, nánar tiltekið í næsta nágrenni við Mjólkárvirkjun. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að fyrirtækið sé með fleiri staðsetningar til skoðunar. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir erindi Arnarlax á síðasta fundi sínum, en færa þarf veglínur í og við Mjólká eigi áformin að verða að veruleika. Víkingur segir að Arnarlax hafi skoðað þetta með Orkubúi Vestfjarða sem á Mjólkárvirkjun og Vegagerðinni. Það er ljóst að á næstu árum þarf fyrirtækið að auka seiðaframleiðslu. „Við þurfum að gera það til að geta haldið áfram að byggja upp fyrirtækið, en hvort seiðaeldistöð verði þarna eða annars staðar verður að koma í ljós,“ segir Víkingur.

Í dag framleiðir Arnarlax seiði í Tálknafirði og á Þorlákshöfn.

Auglýsing

Vaktavinna algengari á Íslandi

Vaktavinna er fremur algeng á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd en árið 2016 unnu 26,1 prósent launþega á Íslandi vaktavinnu, sem var níunda hæsta hlutfallið í Evrópu og 7,6 prósentustigum yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. Hlutfall launþega í vaktavinnu hefur hækkað frá 2008 þegar það var 20,6 prósent. Ekki var munur á körlum og konum árið 2016.

Vaktavinna var langalgengust í yngsta aldurshópnum en árið 2016 voru 55,8 prósent launþega á aldrinum 16–24 ára í vaktavinnu. Því næst kom aldurshópurinn 25–34 ára með 25,6 prósent. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á hópum á aldursbilinu 35–64 ára. Innan þeirra hópa var hlutfallið sem vann vaktavinnu á bilinu 17,7 prósent til 18,5 prósent. Hlutfallið var lægst á meðal fólks 65 ára og eldra. Þá hefur hlutfall launþega í vaktavinnu aukist mest í tveimur yngstu aldursbilunum frá árinu 2008, úr 37,4 prósent á meðal fólks 16–24 ára og úr 18,7 prósent á aldursbilinu 25–34 ára.

Launþegar með háskólamenntun voru ólíklegri til að vinna vaktavinnu en launþegar með minni menntun. Árið 2016 voru um 11% launþega 25 ára og eldri með háskólamenntun í vaktavinnu. Hlutfallið var hæst á meðal þeirra sem höfðu lokið framhalds- eða starfsnámi, eða 27,5 prósent, og hafði hækkað umtalsvert frá 2008, úr 19,6 prósent. Þeir launþegar sem aðeins höfðu lokið grunnnámi og unnu á vöktum voru 21,8 prósent.

Auglýsing

Moka Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði

Mokstur á Hrafnseyrarheiði. Mynd úr safni.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum, sumstaðar skafrenningur. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði en unnið að mokstri. Eins er ófært norður í Árneshrepp. Ekki er útlit fyrir annað en að vetur konungur ráði ríkjum næstu daga, eða út spá Veðurstofunnar. Ekki eru þó nein stórviðri eða ofankoma að ráði í vestfirsku veðurkortunum en það verður kalt og fimbulkulda er td. spáð á morgun.

Auglýsing

Áhættumatið verður grunnur til að byggja á

Kristján Þór Júlíusson.

„Eðlilega eiga sér stað átök þegar uppbygging af þessum toga fer af stað, og við höfum vítin til að varast og læra af. Það er mjög jákvætt að fiskeldi á Íslandi er að verða öflugt og skapar bæði verðmæti og störf, en þróun næstu ára þarf að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og áhættumati.“ Þetta segir Kristján Þór Júlíusson, sem hefur setið á stól sjávarútvegsráðherra í tæpa viku. Kristján Þór er í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að nú liggi fyrir samkomulag á milli hagsmunaaðila sem var ekki þrautalaust að ná fram og ráðherrann telur það góðan grunn til að byggja á.

Samkomulagið sem Kristján Þór vísar í er starf nefndar um stefnumótun í fiskeldi. Stærstu tíðindin í því var samkomulag Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga um að skipulag sjókvíaeldis ráðist af áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Eins og flestum er kunnugt lagði Hafrannsóknastofnun til bann við sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi.

Auglýsing

Bæjarins besta 27. tbl. 34. árgangur

27. tbl. 34. árg.
27. tbl. 34. árg.
Auglýsing

Árekstur Breska heimsveldisins við íslenska gestrisni

Galtarviti um 1930.

Vitavörðurinn heitir ný bók eftir Valgeir Ómar Jónsson sagnfræðing. Það er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi sem gefur út. Þorbergi var gefið að sök, réttilega, af breska hernum að hafa hulið og hýst til sjö mánaða árið 1940 Þjóðverjann August Lehrmann. Þetta gerði Þorbergur fyrir orð vinar síns sem hann mat mikils. Greiðvikni þessi átti eftir að draga dilk á eftir sér, því þegar Bretar komust á snoðir um þetta – raunar eftir að Lehrmann var farinn – voru útsendarar heimsveldisins sendir vestur í vitann, hvar þeir tóku Þorberg höndum að næturlagi og í framhaldinu var hann fluttur í fangavist til Bretlands.

Valgeir Ómar Jónsson sagnfræðingur.

Fleiri voru handteknir vegna málsins og gefið að sök að hafa aðstoðað Lehrmann.  Tryggvi Jóakims­son kaupmaður, sem var vararæðismaður Breta á Ísaf­irði, og eig­in­kona hans, Marga­ret­he Häsler, voru hand­tek­in af breska setuliðinu sum­arið 1941 og kastað í fang­elsi ytra. Helgi Felixon, barnabarn Tryggva og Margarethe, gerði heimildarmynd fyrir skemmstu um sögu fjölskyldunnar og Lehrmannmálið.

Auglýsing

Nýjustu fréttir