Sunnudagur 4. maí 2025
Heim Blogg Síða 2113

Vilja sameina leik- og grunnskólann á Flateyri

Grunnskóli Önundarfjarðar.

Starfshópur um leik- og grunnskólastarf á Flateyri hefur óskað eftir því við fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar að Grunnskólinn Önundarfjarðar og leikskólinn Grænigarður á Flateyri verði sameinaðir í eina stofnun. Í framhaldi verði farið í að móta sameiginlega stefnu fyrir skólana með aðkomu skólasamfélagsins alls. Fræðslunefnd tekur undir með og telur fagleg rök og hagsmuni nemenda, kennara, annars starfsfólks sem og íbúa Flateyrar mæla með því að umræddir skólar verði sameinaðir í eina stofnun. Samkvæmt fyrirætlunum samráðshópsins mun álit hans á húsnæðismálum sameinaðs skóla liggja fyrir í lok vorannar 2018.

Auglýsing

Meðalaldur flotans 29 ár

Júlíus Geirmundsson ÍS er undir meðalaldri flotans en í nóvember voru 28 ár frá því hann kom til heimahafnar á Ísafirði.

Meðalaldur fiskiskipaflotans var um 29 ár í fyrra og hafði þá hækkað um eitt ár frá árinu 2015. Á árunum 1999 til 2016 hækkaði meðalaldur flotans um rúm tíu ár og telst hann vera orðinn býsna hár núna í sögulegu samhengi. Þetta kemur fram í riti Íslandsbankans, Íslenski sjávarútvegurinn 2017, sem kom út í síðasta mánuði. Meðalaldurinn ætti að lækka eitthvað á næstu árum enda fádæma mikil endurnýjun í flotanum. Sex nýir togarar hafa komið til landsins á þessu ári, von er á einum til viðbótar fyrir árslok og samið hefur verið um smíði á átta togurum til viðbótar sem væntanlegir eru á næstu árum – einn af þeim er Páll Pálsson ÍS.

Í ritinu telst höfundum til að nú séu gerð út 1.647 fiskiskip á Íslandi og hefur skipum fækkað um tæpan fimmtung frá 2001 þegar þau voru 2.012.

Auglýsing

Glitský á himni

Það var fagurt um að lítast á Ísafirði við sólarupprás í morgun þegar glitský sáust á himni. Glitskýin eru það hátt í andrúmsloftinu að þau sjást í sömu hæð víðast hvar á landinu.  Glitský eru ákaflega fögur ský sem myndast í heiðhvolfinu, gjarnan í um 15 – 30 km hæð. Glitský sjást helst um miðjan vetur, um sólarlag eða sólaruppkomu. Litadýrð þeirra er mjög greinileg því þau eru böðuð sólskini, þótt rökkvað sé eða jafnvel aldimmt við jörð. Litadýrðin þykir minna á þá liti sem sjá má í hvítu lagi sem er innan á sumum skeljum (svonefnt ,,perlumóður“-lag í perluskeljum) og eru þau í ýmsum tungumálum því nefnd perlumóðurský.

Glitský myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu og eru úr ískristöllum. Kristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess. Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins. Litaröðin frá jaðri inn til miðju skýsins er stundum eins og vísuorðin: gulur, rauður, grænn og blár en oft er skýið einnig hvítt í miðju. Litirnir eru líka háðir stærðardreifingu agna í skýjunum, þannig að oft má sjá rauða, gula og græna flekki í bland.

Auglýsing

Líflegt á höfninni í haust

Löndun á Ísafirði.

Síðustu vikur og mánuði hafa verið mikil umsvif í Ísafjarðarhöfn. Aðkomutogarar hafa verið í fastri áskrift með reglulegar landanir. „Þetta er búið að vera mjög líflegt,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri. Ástæður fyrir tíðum löndunum aðkomutogara eru að sögn Guðmundar einfaldar, góð veiði á Vestfjarðamiðum og eftirspurn eftir ferskum fiski á mörkuðum í Evrópu. „Eftir því sem mér skilst eru ferskfiskmarkaðir í Evrópu mjög góðir og þegar menn eru að veiða á Vestfjarðamiðum munar um þann tíma sem það tekur fyrir skipin að sigla með aflann til heimahafnar og því kjósa menn að landa hér og keyra aflanum í suður,“ segir Guðmundur.

Togarar HB Granda hafa verið áberandi og einnig skip Nesfisks sem og Bergur VE, Frosti ÞH og Steinunn SF.

Guðmundur segir að landanirnar skipti miklu máli fyrir rekstur hafnarinnar. „Ég er vongóður um að við náum að halda tekjuáætlun ársins þrátt fyrir rólegt upphaf sökum sjómannaverkfalls.“

Í nóvember var landað 3.244 tonnum samanborið við 2.033 tonn í sama mánuði í fyrra.

Auglýsing

3,1 prósenta hagvöxtur

Lands­fram­leiðslan á 3. árs­fjórðungi 2017 jókst um 3,1 prósent frá sama árs­fjórðungi fyrra árs. Á sama tíma juk­ust þjóðarút­gjöld, sem eru sam­tala neyslu og fjár­fest­ing­ar, um 10,7 prósent. Einka­neysla jókst um 6,7 prósent, sam­neysla um 2,9 prósent og fjár­fest­ing um 19,4 prósent.  Út­flutn­ing­ur dróst sam­an um 0,1 prósent á sama tíma og inn­flutn­ing­ur jókst um 11,6 prósent. Helstu drif­kraft­ar hagvaxt­ar er fjár­muna­mynd­un og einka­neysla, seg­ir í frétt á vef Hag­stofu Íslands.

Árstíðaleiðrétt lands­fram­leiðsla jókst að raun­gildi um 2,2 prósent frá 2. árs­fjórðungi 2017.

Á fyrstu níu mánuðum árs­ins 2017 jókst lands­fram­leiðslan um 4,3 prósent að raun­gildi borið sam­an við fyrstu níu mánuði árs­ins 2016. Á sama tíma juk­ust þjóðarút­gjöld um 7,4 prósent. Einka­neysla jókst um 7,7 prósent, sam­neysla um 2,7 prósent og fjár­fest­ing um 11,8 prósent. Út­flutn­ing­ur jókst um 3,9 prósent og inn­flutn­ing­ur nokkru meira, eða um 10,7 prósent.

Auglýsing

Gert ráð fyrir 4,3 milljóna afgangi

Fjárhagsáætlun næsta árs var tekin til seinni umræðu í bæjarstjórn Vesturbyggðar í gær. Áætlunin var samþykkt samhljóða. Reksturinn fyrir fjármagnsliði er áætlaður jákvæður um 69,7 milljónir króna. Fjármagnsliðir eru 65,4 milljónir króan og rekstarniðurstaðan því jákvæð um 4,3 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað 126,5 milljónir króna. Fjárfestingar næsta árs nema 184 milljónum króna. Afborganir af langtímalánum verða 143 milljónir króna og nýjar lántökur 189 milljónir króna.

Auglýsing

Skapandi hús í Merkisteini

Notalegt um að lítast í húsi sköpunarinnar á Patreksfirði.

Hjónin Julie Gasiglia og Aron Ingi Guðmundsson opnuðu í sumar Húsið – House of Creativity í Merkisteini, Aðalstræti 72, á Patreksfirði. Með Húsinu vilja þau efla og virkja menningar og listastarfsemina á sunnanverðum Vestfjörðum. Fjölbreytt dagskrá er í boði og eru þar listasýningar, skapandi vinnustofur, klúbbar og ýmis þemakvöld til að mynda. Ljósmyndaklúbbur Hússins er mjög vinsæll sem og Bókaklúbbur Hússins og svo eru þar vín- og vínylkvöld þar sem gestir koma með vín aeða bjór til að leyfa öðrum að smakka og einnig er gestum velkomið að koma með vínylplötur með sér svo hægt sé að hlusta á ljúfa tóna plötuspilarans þessa skemmtilegu kvöldstund. Í sumar voru nokkur námskeið í boði sem voru vel sótt og munu fleiri námskeið og vinnustofur vera á dagskrá í vetur. Aron og Julie leggja áherslu á að Húsið sé ákveðinn samkomustaður þar sem heimamenn sem og aðrir geti komið saman, skapað, lært og skemmt sér með öðrum. Þau eru einnig opin fyrir allskonar samstarfi og hvetja fólk til að hafa samband ef það vill til dæmis vera með sýningu, fyrirlestur eða kennslu í Húsinu. Saumaðir voru taupokar í Húsinu einsu sinni í viku fyrr í vetur fyrir samvinnuverkefnið um plastpokalausa Vestfirði í samstarfi við Boomerang Bags og Vesturbyggð.

Julie og Aron.

Aron og Julie eru spennt fyrir komandi vetri og bjóða alla velkomna í Húsið. Viðburðir þar eru ókeypis og selja þau heita og kalda óáfenga drykki fyrir gesti og gangandi. Verð á vinnustofum og námskeiðum eru misjöfn eftir viðfangsefnum. Þau hjón eru með áform um að víkka út hugmyndina um Húsið og hefja starfsemi í gamalli verbúð við höfnina á Patreksfirði með sama markmiði, um að efla og virkja lista og menningarstarfsemi svæðisins. Þau vonast til að opna þar næsta vor. Þar munu m.a. vera vinnustofur fyrir listamenn og hönnuði, tónleikarými og æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir og handiðnaðarverslun. Starfsemin þar verður rekin samhliða dagskránni í Húsinu í Merkisteini.

Auglýsing

Kalt og bjart um helgina

Veðurstofan spáir hæg austlægri átt og léttskýjuðu á Vestfjörðum í dag, en suðvestan 3-8 m/s og skýjað annað kvöld. Frost 3 til 8 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að norðanáttir verði ríkjandi á landinu um helgina með fremur björtu og köldu veðri, en éljum eystra. Spáð er skammvinnri suðaustanátt með slyddu eða snjókomu á þriðjudag og hlýnar þá í bili, en annars áfram norðanáttir og talsvert frost. Í stuttu máli er því ekki að sjá nein almennileg hlýindi á næstunni.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum. Ófært er norður í Árneshrepp.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Hvöss norðanátt austast á landinu, en mun hægari vindur vestantil. Él norðan- og austanlands, en léttskýjað að mestu sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins, en mildast við austurströndina.

Á mánudag:

Minnkandi norðanátt og dregur úr éljum fyrir austan, en hægviðri og bjart vestantil. Kalt í veðri. Snýst í vaxandi suðaustanátt og þykknar upp suðvestantil um kvöldið og dregur úr frosti.

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt og snjókoma eða slydda og hiti kringum frostmark, en úrkomulítið norðan- og austanlands og frost 1 til 7 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt með éljum víða um land, en yfirleitt þurrt og bjart um landið suðvestanvert. Frost um allt land.

Auglýsing

Vill ekki færa innanlandsflugið til Keflavíkur

Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir umbætur í samgöngum brýnustu verkefnin í ráðuneytinu. Hann segir von á auknu fjármagni til þeirra verkefna, sem verði kynnt á næstunni. Þá segir hann ljóst að ekki sé hægt að færa flugvöllinn úr Vatnsmýri fyrr en fyrir liggur önnur leið fyrir innanlandsflugið.

Sigurður Ingi var gestur á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Hann segir að þó að byggðamálin séu mikilvægur og stór þáttur af verkefnum hans ráðuneytis, séu brýnustu verkefnin nú umbætur í samgöngum, ekki síst í vegakerfinu.

 

Sigurður Ingi var spurður hvort hann vilji festa innanlandsflugvöllinn í sessi í Vatnsmýri. Hann segir mikilvægt að ná fólki upp úr skotgröfunum í því máli. „Það er öllum ljóst að umræðan um þetta mál getur ekki verið í þeim skotgröfum að einn aðili segir að einn aðili segir að það eigi að loka flugvellinum eftir örfá ár á meðan að annar segir að það komi ekki til greina,“ segir Sigurður Ingi. „Auðvitað verðum við að finna út úr því, þú lokar ekki innanlandsflugi, sjúkraflugi, fyrr en einhver annar staður liggur fyrir.“

„Ég hef viljað skoða aðra kosti, við höfum viljað hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er þangað til að það liggur fyrir samkomulag um hvert við erum að fara og hvernig við ætlum að fjármagna það og byggja það upp og hvernig að það – ef við færum flugvöllinn – hvernig hann myndi tryggja með nákvæmlega sambærilegum hætti til að mynda sjúkraflug og aðgengi landsbyggðanna að stjórnsýslu landsins,“ segir Sigurður Ingi.

Honum hugnast ekki að færa innanlandsflugið til Keflavíkur. „Nei, mér hefur ekki þótt það vera ásættanlegt eins og er. Annars vegar er Keflavíkurflugvöllur ekki byggður upp sem sá millilandaflugvöllur sem hann er að þróast í og hvernig eigum við að koma innanlandsfluginu þá fyrir þar samhliða? Hvernig ætlum við að tryggja að þessar samgöngur, að þær séu nægilega fljótar?“ Hann bendir á að það sé kostur fyrir fólk af landsbyggðinni að ferðatíminn til höfuðborgarinnar sé sem stystur. „Og það sama gildir auðvitað um sjúkraflugið, þannig að það þarf að skoða alla þessa þætti heildstætt.“

Auglýsing

Vestfirðingur í stað Vestfjarða

Fyrsta forsíða Vestfirðings.

Í gær hóf göngu sína nýtt blað um vestfirsk málefni. Blaðið heitir Vestfirðingur og kemur í stað blaðsins Vestfirðir. Það verður í ritstjórn Kristins H. Gunnarssonar sem einnig ritstýrði Vestfjörðum en útgáfa þess var stöðvuð í kjölfar gjaldþrots Pressunnar ehf. Í fyrsta blaði Vestfirðings er haft eftir Ámunda Ámundasyni, sem stofnaði blaðið ásamt fleirum landhlutablöðum og seldi útgáfuréttinn til Pressunnar ehf. fyrir tveimur árum, stóðu blöðin alla tíð undir sér. Hann segir vanda Pressunnar því ekki tilkominn vegna útgáfu blaðanna. Ámundi hefur ákveðið að hefja útgáfu nýrra blaða með svipuðu sniði og verið hefur.

Vestfirðingur mun koma út aðra hverja viku og verður dreift í hvert hús á Vestfjörðum. Blaðið mun einbeita sér að vestfirskum fréttum og öðru því sem ætla má að eigi erindi til Vestfirðinga og annarra landsmanna.

Auglýsing

Nýjustu fréttir